Færsluflokkur: HNLFÍ

Dagur 17

Búinn að vera langur dagur: fyrst leikfimi, síðan fræðslufundur með Steinunni hjúkrunarfræðingi, síðan þolganga; og eftir hádegi kröftugt sund með vatnsleikfimi, síðan einkaviðtal hjá Steinunni, og loks nudd. Þetta fólk kann sko ekki að skipuleggja stundarskrár - í gær var til dæmis ekkert að gera hjá mér eftir hádegi. Ég er hálfdauð úr þreytu.

Annars er það helst í fréttum að ég er nú léttari en ég hef verið í a.m.k. 4 ár.  

Ég byrjaði sem sagt daginn á vigtun og útkoman var sú að það hafa farið 1,5 kg. á vikunni frá síðustu vigtun, þrátt fyrir að ég hafi farið heim um helgina. Ég er komin niður fyrir 100 kílóin, sem er mikið og gott tilefni til fagnaðar.


Dagar 13-15

Kl. 15:30.


Eins og ég sagði í síðasta pistli þá skrapp ég heim um helgina, enda ákvað ég að það væri mun skárra að hanga heima hjá sér í leiðindaveðri en hérna þar sem minna er hægt að finna sér að gera. Það er nefnilega ekki nein dagskrá hérna um helgar og þó að sundlaug og tækjasalur séu við höndina, þá er takmarkað hvað maður getur eytt löngum tíma þar og eins hvað maður nennir að liggja lengi uppi í rúmi og lesa. Heima getur maður þó lagað til, horft á uppáhalds DVD-myndirnar sínar, farið í heimsóknir, kíkt í Kolaportið eða á bókasafnið (nú eða í bíó – haldiði að ég hafi ekki misst af Mamma Mia! singalong-sýningu eina ferðina enn!) eða þá tekið labbitúrinn inni í Kringlunni til að blotna ekki. Ef það hefði verið almennileg veðurspá hefði ég kannski verið hér kyrr og reynt að komast á hestbak, eða etv. skroppið í bíltúr upp að Geysi eða niður á Stokkseyri og Eyrarbakka, eða farið í langa gönguferð og tekið svolítið af myndum. Kannski um næstu helgi.


Mér tókst að halda æfingum áfram þrátt fyrir heimaveru og fór í langan kraftgöngutúr í hvassviðrinu á laugardaginn – labbaði heiman að frá mér niður á Sæbraut og niður hana og endaði í Kolaportinu. Líklega 3-4 kílómetrar sem er svipað og ganga nr. 3. Tók svo strætó heim, enda leist mér ekki á rokið sem aldrei þessu vant stóð beint niður Laugaveginn í staðinn fyrir að leynast á bak við húsin og blása fólki um koll með óvæntum hliðarvindum eins og vanalegra er.


Á sunnudaginn þegar ég var komin austur aftur tók ég svo hring í tækjunum og held að mér hafi tekist að meiða mig á teygjunum, því ég var slæm í hægri fótleggnum í leikfiminni í morgun, og gafst svo upp á þolgöngunni vegna sársauka í leggnum. Ætla að fara varlega og hlífa fætinum í dag (sem sagt, engin tæki) og reyna svo við göngu 3 á morgun til að sjá hvernig það gengur.


En nú er ég að fara í nudd. Það var mjög stressandi upplifun síðast, enda náði hún að nudda á mér allan skrokkinn á korteri.


Kl. 16:30
Jæja, þá er ég búin í nuddinu, og þrælslöpp á eftir. Það er eins og stungið hafi verið á blöðru. Er að hugsa um að leggja mig í smástund og slappa vel af. Maður fær alveg ofsalega góða slökun út úr þessu nuddi, en það er nokkuð sem gerist eftir á.

 

Kl. 19:00.

Ég þarf að fara með fartölvuna fram í miðrýmið við bókasafnið til að ná netsambandi, sem er nánast eins langt í burt frá herberginu mína eins og hægt er að komast í húsinu. Hér er boðið upp á ýmsa dægradvol, ss. billard, skák, dagblöð, og púsluspil. Nú er eitt vinsælt og þrælerfitt í umferð - teiknað og fullt af smáatriðum og maður getur varla slitið sig frá því ef maður einu sinni sest niður við það. En nú eru að byrja fréttir í sjónvarpinu - bless í bili.


Dagur 12

Kl. 19:30

Jæja, þá er maður kominn heim í helgarfrí, með fulla tösku af þvotti. Ég fór í þolgöngu nr. 4 í morgun, og þoldi hana vel, þó að reyndar væri brekkan í byrjun göngunnar ansi löng og ég lafmóð þegar upp var komið. Ég er reyndar vön að ganga vegalengdina sem er boðið upp á í göngu 4, en bara á sléttlendinu í kringum Skagaströnd. Aftur hef ég hef aldrei verið mikið fyrir brekkur, en þetta var samt ágætt, því ég fékk að sjá nýtt landslag. Við gengum upp á hverasvæði fyrir ofan bæinn, í ausandi rigningu og allnokkru roki, og niður með Varmá, sem er enn vatnsmikil en ekki jafn ógnvekjandi og í gær, enda aftur búin að taka á sig sinn venjulega lit. Við staðnæmdumst við fossinn í smá stund, og einhverjir úr hópnum sáu silung stökkva.

Þyngdartapið mitt litla er, samkvæmt næringarráðgjafanum, líklega af því tilkomið að ég hef ekki verið með neinn bjúg sem ég þurfti að vinna af mér fyrstu vikuna. Ekki veit ég hvort það er rétt, en aftur veit ég að ég var 100,3 kg. í morgun, samkvæmt óopinberri vigt, sem sagt: 1 kílói léttari en á miðvikudaginn. Verð örugglega ekki léttari í fyrramálið, enda var ég að enda við að gæða mér á samloku með dalmatíuskinku og króatískum sauðaosti (sem rann ljúflega niður), en bæði eru rækilega söltuð og líkleg til að valda bjúgsöfnun. Verð að vera dugleg að drekka vatn í kvöld.

Við Borghildur (næringarráðgjafinn) urðum sammála um að mitt vandamál væri ekki svo mikið magnið sem ég borða á venjulegum matmálstímum, heldur allt nartið og aukabitarnir á milli mála, og ofát þegar ég kemst í veislumat. Það er því þetta sem ég verð að gæta mín á og reyna að draga smám saman úr eftir að meðferðinni lýkur.


Dagur 11

Kl. 18:30.

Í dag var þvílíkt rok í gönguferðinni að ég hélt að ég mundi fjúka á haf út, en það rigndi að minnsta kosti ekki, og það var sólskin með köflum í mestallan dag. Varmáin er bólgin og vatnsmikil, og fossinn sem ég man ekki hvað heitir er tilkomumikill að sjá þar sem kolmórautt vatnið gusast niður hann. Ég hef orðið að loka glugganum hjá mér undanfarnar nætur til að fá svefnfrið fyrir veðrinu, og geri ráð fyrir að skortur á hreinu lofti hafi gert það að verkum hvað mig hefur dreymt undarlega í nótt og síðustu nótt.

Er búin að vera að drepast í bakinu í allan dag, og fór loks út í apótek og keypti Íbúfen. Þarf að tala við lækninn og fá hjá honum Naproxen eða Voltaren, það virkar betur á mig en Íbúfenið.

Brá mér í labbitúr um bæinn eftir hádegið, og varð hissa á því að sjá hvað það eru rosalega margir matsölustaðir hérna, bæði kaffihús, skyndibitastaðir og veitingahús, og flest við sömu götuna. Skal telja þau og birta niðurstöður síðar. Líklega er ferðamannaiðnaðurinn orsökin.

Ég finn að þó ég sé með bakverk, þá er ég að styrkjast og úthaldið að aukast, og harðsperrurnar eru að minnka. Ég er að hugsa um að fara í þolgöngu nr. 4 á morgun. Hún er ca. 10 mínútum lengri en nr. 3 sem ég hef verið að fara í, og heldur hraðari. Ég hef þá helgina til að jafna mig ef ég ofkeyri mig. 


Dagur 10

Kl. 15:30.

Kærar þakkir fyrir hvatninguna. Mér líður mun betur í dag, enda hefur sést til sólar. Allir gluggar í húsinu eru þaktir í laufum sem lægðin hefur tætt af trjánum, og laufin fljóta í sundlauginni og pottunum og skreyta botninn. Talsvert hreinsunarstarf sem þarf að sinna þar. 

Mig er ekki hætt að dreyma um mat - ef einhver getur túlkað þennan draum, þá væri gaman að heyra (lesa) túlkunina: Mér fannst ég vera í stórborg, í fylgd Friðriks, sem var klæddur eins og mafíósi í Amerískri bíómynd. Ég kaupi mér samloku, baguette með skinku og osti, en rétt þegar ég ætla að bíta í hana hrækir kona á bak við mig og hrákinn lendir á samlokunni, og við lendum í rifrildi um það hvort hún eigi að kaupa handa mér nýja samloku. Þá kviknaði á útvarpsvekjaranum, enda eins gott, því að stefndi í slagsmál í draumnum. Var svo hálfsofandi fram undir hádegi og ætlaði varla að nenna í þolgönguna.

Ég fór í vigtunina í morgun og hafði lést um svo mikið sem... 300 grömm! Reyndar var ég í þyngri fötum en í fyrstu vigtuninni, þannig að þau gætu hafa verið 500. Veit ekki alveg hvers vegna þetta er svona lítið, en tel að hluti af því sé að ég hef verið að borða meira á kvöldin en ég er vön. Ætla að fara aftur í minn gamla átvana: að borða bara stóra máltíð á morgnana og í hádeginu, en léttri mat á kvöldin. Metið í hópnum var tæplega fjögur kíló, og það hjá manninum sem hreyfir sig minnst af okkur öllum, því hann er með hnémein og fer ekki í gönguferðirnar.

Fór svo í tíma í sundlauginni eftir hádegi í dag, þar sem er blandað saman leikfimiæfingum og sundi. Það var mjög gaman, og eitthvað sem ég gæti haldið áfram eftir að ég kem heim. Verð líklega með harðsperrur í mjöðmunum á morgun, því við vorum látin synda skriðsund með sundflipa á fótunum, sem er auðvitað meira átak en að synda án þeirra.

--

Sumt starfsfólkið hérna fer um húsið á hlaupahjólum. Ég er ekki hissa, því vegalengdirnar hérna er þannig að það er örugglega hægt að ganga sig niður að hnjám á einum vinnudegi ef maður á oft erindi út um allt hús.


Dagur 9

Kl. 17:20:

Veðrið er farið að leggjast í geðið á mér, sem er ekki gott því slíku fylgir aukin matarlyst. Ég hef átt erfitt með mig í dag og í gær að fá mér ekki aftur á diskinn á matmálstímum, og svo dreymir mig um súkkulaði á nóttunni.

Winston Churchill líkti þunglyndi við svartan hund sem elti hann um allt, en mér finnst það frekar vera eins og að maður sé með byrðar á bakinu sem sífellt þyngjast meir og meir. Suma hafa þær sligað en sem betur fer hafa mínar aldrei orðið svo þungar, en það er samt erfitt að bera þær. Það hjálpar mér ekki að báðar ömmur mínar hafa átt við vanheilsu að stríða undanfarið og ég hef áhyggjur af þeim.

Ég held reyndar að það séu einhverjir samningar við veðurguðina í gildi hérna, því það stytti upp að mestu og lægði talsvert í morgun rétt á meðan við vorum í þolgöngunni, og svo byrjaði aftur að blása og rigna þegar göngunni var lokið. Þolgangan í morgun var í hressilegri kantinum, og ég sé fram á að ég geti fært mig í göngu 4 eftir helgi, því úthaldið hjá mér batnar dag frá degi.

Harðsperrurnar eru enn til staðar, en á nýjum stöðum, því sjúkranuddarinn hamaðist á blettum á rassinum á mér og mjöðmunum sem eru svo hrikalega aumir eftir nuddið að það var kvöl að gera sumar æfingarnar í sundleikfiminni í morgun.

Ég er búin að fá æfingaáætlun fyrir tækjasalinn. Ég er ekki með ákveðna tíma þar, en get farið þangað hvenær sem mig lystir, sem er fínt til að fylla upp í tómu tímanna.

Í dag vorum við, auk vatnsleikfimi og þolgöngu,  á matreiðslunámskeiði. Annar kokkurinn tók okkur í sýnikennslu í að búa til graskerssúpu, húmmus og ofnbakaðar kartöflur, og kona frá NLFÍ spjallaði við okkur um heilsusamlegt mataræði.

Á morgun er svo vigtun. Hún fer fram klukkan hálf-átta um morguninn, til að tryggja að við séum fastandi.


Dagar 7 og 8

7:45
Af sunnudeginum er svo sem lítið að segja annað en það að veðrið var skelfilegt – en þið sem búið á Reykjavíkursvæðinu þurfið svo sem engar lýsingar á því. Það var ekki gaman að keyra austur í þessu.


Þó að ég hafi haft fyrirmæli um að hvíla mig í dag, þá fór ég nú samt á hlaupabrettið og gekk rösklega í 25 mínútur með tónlistina úr Mamma Mia! í eyrunum. Þetta er alveg verulega góð æfingatónlist sem veitir manni bæði örvun og aukinn styrk. Mæli með henni við alla.


Í gærkvöldi uppgötvaði ég síðan að það var komið nýtt púsluspil í almenninginn, en þar eru sett upp púsl sem allir geta tekið þátt í að raða saman. Þetta var eitt af þessum þar sem maður hefur ekki fyrirmyndina fyrir framan sig, heldu á maður að púsla saman myndinni af því sem fólkið í myndinni framan á kassanum sér. Á endanum vorum við sjö saman við að leysa púslið, og kláruðum það á einu kvöldi. Magni, sá sem var með spilabúðina og flutti þessi púsluspil inn á sínum tíma, er hérna og segir að gamla metið hafið verið fjórar manneskjur sem tóku jafn marga daga í að leysa púslið, en það hafa bara verið amatörar...


Í dag er svo fullt prógramm, fyrst leikfimi, síðan þolganga, svo fræðslufundur með sálfræðingi og loks sjúkranudd.

--

16:15
Er búin að vera hálf-þreklaus í allan dag, líklega vegna þess að ég átti erfitt með að sofna í gærkvöldi og fékk ekki fullan svefn. Tókst samt að komast í gegnum leikfimina og gönguna skammlaust, en geispaði svolítið mikið á fundinum með sála. Hann var að fjalla um árangursríkar leiðir til að talast á við ofát, og lagði m.a. annars fyrir okkur rúsínupróf. Það felst í því að skoða rúsínu eins og maður sé að sjá slíkt fyrirbæri í fyrsta skipti: snerta hana, virða hana fyrir sér, þefa af henni, smakka á henni og loks kyngja henni. Lét okkur síðan ræða hvaða lærdóm maður gæti dregið af þessari æfingu, sem er auðvitað sá að maður þurfi að hugsa meira um það sem maður lætur ofan í sig.


Er nú nýkomin úr sjúkranuddi. Fékk það hjá snaggaralegri konu sem heitir Beata og gæti verið þýsk eða pólsk, ég á ekki gott með að greina hreiminn hennar, en hún hefur verið hér í mörg ár og talar góða íslensku að öðru leiti. Fékk nudd út um allan skrokk á korteri, sem má teljast gott, en ekki mjög afslappandi. Er nú öllum lurkum lamin – sem er auðvitað ekkert nýtt, því á undanförnum dögum er ég búin að uppgötva á mér vöðva sem ég vissi hreinlega ekki að væru til, og mig verkjar í þá alla.

--

Ég vil að lokum þakka öllum sem hafa skrifað í gestabókina fyrir góðar kveðjur og óskir um velgengni. 


Dagur 6

Svo sem ekki mikið að segja í dag, en ég stalst á vigtina og hún sagði 101 kíló. Er að hugsa um að skreppa í sund í dag, svona til að halda þjálfuninni áfram. Kemst ekki í labbitúr því ég asnaðist til að skilja gönguskóna mína eftir fyrir austan. Á morgun verður svo afslöppun, að skipan læknisins sem sagði að við þyrftum að taka einn "rauðan dag" á viku til að slaka á.

Dagur 5

Er heldur betri í bakinu í dag, sérstaklega eftir svakalega fínt slökunarbað sem ég fór í klukkan þrjú. Kom upp úr ilmandi af blóðbergi og öðrum blómum, en út í baðvatnið fer olía unnin úr íslenskum jurtum hjá Purity Herbs. Verð í svona böðum næstu föstudaga. Jibbí! Ég er líka búin að fá tíma í sjúkranuddi og fer með íþróttakennaranum í tækjasalinn á mánudaginn og fæ æfingar.

Baðkarið er gamalt grænt tröll sem trónir uppi á háum palli sem maður þarf að klifra upp á. Það er með stærðarinnar stjórnborði með alls konar krönum og rofum, þar á meðal nuddrofa og rofa fyrir rafmagnsbað, en er í dag víst bara notað fyrir heilsuböðin.

Ég fór líka í þrekpróf í dag sem fólst í því að ganga fram og aftur eftir einum ganginum í 6 mínútur eins hratt og maður komst án þess að hlaupa og meta síðan hversu erfið manni þótti gangan. Íþróttakennarinn og sjúkarþjálfarinn töldu mig vel komna í gönguhópi nr. 3, sem ég hef verið að ganga með undanfarið. 

Svava, þú minntist á nafngiftir á stöðum þarna í síðasta kommenti - það er alveg rétt. Gangurinn sem ég er á heitir t.d. Sprengisandur og næsti gangur Langisandur. Bæði eru réttnefni, enda gangarnir langir mjög og erfiðir fyrir fólk sem er stirt eða á erfitt með gang, enda Sultartangi hafður sem matsalur til að spara þeim gönguna inn í stóra matsalinn. Svo heita nýjustu gangarnir Gullströnd, Perluströnd og Demantsströnd. Þeir eru næstir matsalnum, bókasafninu og sundlauginni, og eru með stærri herbergi með meiri þægindum, enda kostar meira að vera í þeim herbergjum.

Nú er ég komin heim í helgarfrí og fékk góðar móttökur frá tveimur einmana páfagaukum, enda hafa þeir bara séð Friðrik í smátíma á dag síðan ég fór austur, en eru vanir að fá að fljúga lausir í klukkutíma á dag þegar ég er heima.


Dagur 3

Kl. 18:00.
Þá er prógrammið byrjað. Í dag var það 50 mínútna leikfimi kl. 8 og ca. 40 mínútna þolganga klukkan 11. Ég fór í göngu nr. 3, sem er næsterfiðasta gangan, og svipuð og 5 km. gangan sem ég hef farið með mömmu á Skagaströnd (svona fyrir þá sem þekkja til), þó heldur meiri brekkur. Það var gengið upp með Varmá og upp í skógræktina, en hún endar bara hérna við lóðarmörkin. Það var hætt að rigna, en ennþá blautt yfir.

Ég er enn hvorki búin að fá tilsögn í tækjunum né tíma í nuddi eða heilsuböðum. Eftir hádegi var svo stuttur fundur með Steinunni hjúkrunarfræðingi (Kóngulóarkonunni).


--
Það eru hátalarar inni á herbergjunum hérna og tvisvar á dag, í hádeginu og klukkan rúmlega tíu á kvöldin, er útvarpað slökunardagskrá inn á öll herbergin. Í fyrrakvöld var ég farin í háttinn klukkan hálf-tíu. Ég var svo sem ekkert búin að pæla neitt í hátalaranum, en það átti eftir að breytast, því um kl. 22:20 hrekk ég upp af værum blundi við það að slökunardagskráin fer í gang. Ég rýk á fætur og reyni að slökkva, en auðvitað er það ekki hægt, og ekki heldur að taka úr sambandi, því snúran er tengd inni í vegginn. Ég lækka því niður í tækinu, en heyri samt vel orðaskil, sem þýðir að ég gat ekki reynt að sofna í þær 20-30 mínútur sem dagskráin stóð. Það er ekki séns að ég geti notfært mér þessa slökun, því þetta er fólk sem talar eins og prestar sem eru að ræða um líf og mannkosti heiðursgestsins í jarðarför, með slepjulega vöggustofutónlist á bak við sig. Þetta endurtók sig síðan í gærkvöldi, og þá fór ég fram og talaði við næturvaktina. Þær gátu sjálfar ekkert heyrt og héldu að kerfið væri bilað. Þær ákváðu síðan að vera ekkert að útvarpa dagskránni þarna um kvöldið, en vitiði hvað: ég fékk mér kríu eftir hádegismatinn í dag, og fimm mínútum eftir að ég skreið upp í og var á leið inni í draumalandið fór slökunardagskráin af stað. Garg! Það væri hægt að nota þetta helvíti í heilaþvott!


Ég tók mig til og kvartaði við Steinunni á fundinum. Vona að eitthvað verði gert í málinu svo ég geti fengið minn fegrunarblund í nótt. Það væri lágmark að setja rofa á snúruna svo maður geti kveikt og slökkt á þessu. Vona að kenning mín um heilaþvott sé ekki rétt...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 32464

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband