Færsluflokkur: HNLFÍ
Þriðjudagur, 9. september 2008
Dagur 2, færsla 2
Kl. 20:00.
Hér er súld. Áðan þegar ég fór í sund var óvenjuleg rigning: hún var lóðrétt! Mjög notalegt að finna hana leika um líkamann á meðan maður gekk á milli lauganna, enda var hún ekki neitt sérstaklega köld. Ég afrekaði svo að synda heila 240 metra. Vona bara að ég vakni ekki upp með hálsríg í fyrramálið eins og hefur einstaka sinnum komið fyrir eftir sundferðir. Þyrfti að kaupa mér augndropa, því klórinn fer illa í augun á mér. Eða kannski að ég kaupi mér sundgleraugu, en bara ef ég finn einhver sem eru með ábyrgð gegn því að fyllast af vatni við eðlilega notkun.
Sundaðstaðan hérna er frábær. Það eru tvær sundlaugar, úti- og inni-, innilaugin er 15 metrar og ég giska á að útilaugin sé 25 metrar. Heitu pottarnir eru 3. Einn er bæði inni og úti og rúmar örugglega hátt í 30 manns. Annar hinna er með nuddi, ekki bara þessu venjulega, heldur er svæði þar sem maður getur lagst niður og látið hann nudda næstum allan skrokkinn á sér í einu. Svo eru það víxlböðin. Þar byrjar maður á að ganga eftir ca. hnédjúpu trogi í mjög heitu vatni, síðan eftir öðru trogi með 10-12°C heitu vatni, og endurtekur tvisvar. Kemur blóðrásinni vel af stað, en mann lagar helst að öskra þegar maður kemur með lappirnar ofan í kalda vatnið.Það er líka sána og gufubað (sem sagt, þurrt OG blautt), en ég er ekki búin að prófa það.
Ég er ekki búin að fá sérstundaskrána mína, en læknirinn ætlaði að setja mig í nudd og slökunarböð ofan á hópagskrána. Í fyrramálið byrja ég daginn með venjulegri leikfimi, og fer síðan í einhverja kynningartíma og viðtöl.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 9. september 2008
Dagur 2
Kl. 9:30.
Hér rignir. Ég vaknaði klukkan 3 við að einhver skellti hurð á klósettinu það er hrikalega hljóðbært hérna og sofnaði ekki aftur. Það hefur rignt frá a.m.k. klukkan 4, svona ekta ausandi íslensk haustrigning. Mjög fegin að gönguferðirnar byrja ekki fyrr en á morgun, og vona að þá verði stytt upp.
Byrjaði daginn með morgunverði. Hér er boðið upp á afskaplega hollan morgunmat: tómatar, gúrkur, 17% ostur og sojaostur í boði ofan á rúgbrauð, flatbrauð og 2 aðrar tegundir af rúgbrauði. Það er smjör á boðstólum og reyndar las ég í gær að öll fita, hvort sem hún er úr jurta- eða dýraríkinu, inniheldur nákvæmlega jafn margar hitaeiningar, þannig að Létt & Laggott er bara sniðugt fyrir hjartað en ekki mittismálið. Auglýsingarnar eru sem sagt villandi og ætti að kæra þær. Svo er L&L bara vont. En áfram með morgunmatinn: það er hægt að fá sér hafragraut eða AB-mjólk, og alls konar múslí og fræ og klíði saman við, og líka ávexti. Síðan eru ca. 20 tegundir af tei og jurtaseiði, og hunang út í. Ekki hvítur sykur í sjónmáli. Ef einhvern langar í kaffi getur hann bara keypt sér það út í búð og hunskast með það inn í þvottahús til að hella upp á. Í gamla daga var víst bara hægt að hella upp á í reykhúsinu (sem er nú niðurlagt), þannig að reyklausir þurftu að skreppa út í Eden ef þá langaði í sopa.
Síðan tók við sundleikfimi, hörkugóð hreyfing í ca. hálftíma, mikið sprikl, og hopp, en allt í hægagangi út af vatninu. Ég fór svo og hitti lækninn, sem sagði mér að ég væri með góða tegund af offitu, þ.e. ég er svokallað epli (með fitu á maga og rassi) og þar með ekki í áhættuhópi vegna hjarta- og æðasjúkdóma eins og perurnar (fitusöfnun á rass og læri). Hann sagði líka að það væri ólíklegt að ég yrði nokkurn tímann tágrönn aftur, og að ég mundi líklega ekki léttast mjög mikið. Ég sagði honum að það væri ekki tilgangurinn með minni veru á staðnum, ég vil bara léttast nógu mikið til að losna við bakflæðið, hvort sem það verður vegna megrunar eða að magalæknirinn samþykki loksins að taka mig í aðgerð (hann vill fá mig niður í 80 kíló).Hann minntist líka á að hér væri unnið eftir því að ná fólki niður í þyngd sem ekki hefði slæm áhrif á heilsuna, en hún getur verið vel yfir svokallaðri kjörþyngd.
Ég fór líka á vigtina í morgun, og vó þá 101,6 kg. í fötum, þannig að ég er ca. 101 kg.
Næst er svo kynningarfundur, þar sem væntanlega verður farið ofan í saumana á meðferðaráætluninni.
Kl. 10:30.
Kynningarfundurinn búin. Þar fjallaði leikfimikennarinn um meðferðina og æfingar og annað sem við þurftum að vita.
Var ég annars búin að minnast á rigninguna? Hún er blaut, það er mikið af henni, það er rok, og leikfimikennarinn var að enda við að leggja til að við færum út að labba.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 32977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar