Færsluflokkur: HNLFÍ
Miðvikudagur, 14. janúar 2009
Dagur 4
Dagskráin gengur vel, þó reyndar hafi orðið ruglingur varðandi heilsubaðið mitt í dag og ég ekki komist ofan í fyrr en korteri of seint, en betra er seint en aldrei, eins og máltækið segir, og ég er ennþá vel afslöppuð og mjúk eftir baðið.
Í morgun fór ég og lærði stafagöngu, sem er íþrótt upprunnin í Finnlandi, fundin upp, að því er mér skilst, af þjálfurum finnska gönguskíðalandsliðsins til að halda liðsmönnum í formi yfir sumarið. Þetta er mikil list: maður þarf að vera með stafi af réttri lengd, og svo þarf maður að ná réttum takti og passa sig á að sveifla ekki stöfunum of mikið. Svona getur maður þjálfað efri hluta líkamans með þeim efri með göngum, og jafnfram eykur þetta brennslu til muna. Ætla að prófa að taka með mér stafi í gönguna í fyrramálið. Líðanin í ökklanum er orðin það mikið skárri eftir nudd og lasermeðferð að ég ætla að prófa göngu 3 á morgun.
Hér er mikið af fólki - reyndar skilst mér að það sé skipað í hvert herbergi, og ein úr hópnum mínum sem ætlaði að vera í skáp á ódýra ganginum eins og ég lenti inni á Demantsströnd, með einkaklósett og síma og líklega er hún líka með sjónvarp, fyrir sama verð og dvöl á Sprengisandi.
Stofnunin notfærir sér fjölda gesta og heldur bingó í kvöld, og eiga peningarnir að renna til kaupa á reiðhjólum til afnota fyrir gestina. Ætli maður verði ekki að taka þátt, svona rétt af skyldurækni...
Annað er það helst í fréttum að ég er búin festa mér bílinn og fer á morgun til að ganga frá samningum og skiptum á bílum. Set mynd af kerrunni á netið þegar ég er búin að fá hann afhentan.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Dagur 3
Það er að verða komið á mann skipulag: leikfimi eða vatnsleikfimi kl. 8:10, ganga kl. 11:00, og svo fræðslufundir og viðtöl hjá hinum og þessum fræðingum. Er búin að fá tíma í nuddi á fimmtudaginn.
Í gær fór ég á Selfoss og hitti þar bíl - Toyota Avensis, árg. 2002, sem mér leist andsk. vel á, ekki síst verðið: 890 þús. Í dag fór ég svo og skoðaði hann betur og fékk að reynsluaka, og er búin að gera tilboð, og fá móttilboð. Það hljóðar upp á bílinn minn, sem ætti að geta selst á um 300 þús., og 540 þús. í peningum, sem þýðir að mín fjárútlát yrðu nærri 580 þús. með sölulaunum, plús það þarf að kaupa undir hann ný dekk.
Reynsluaksturinn var ógnvekjandi í meira lagi, enda hríð og skaðræðishálka og bíllinn á frekar slitnum heilsársdekkjum. Verð að bíða til morguns eftir því að fá að vita hvort salan gengur í gegn, af því að sá sem ég var að prútta við er ekki eigandinn - hann þarf að fá samþykki pabba síns fyrir dílnum. Bíllinn fer í skoðun í fyrramálið, og þá fæ ég kannski eitthvað sem gefur mér séns á að prútta hann niður. Wish me luck!
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. janúar 2009
Dagur 2
Jæja,þá er maður búinn að fara í vigtunina ógurlegu, og niðurstaðan var bara nokkuð ánægjuleg: ég er lítilsháttar léttari en ég var þegar ég fór héðan í haust. Ég var reyndar búin að léttast um ca. 1,5 kíló í millitíðinni, en svo komu jólin...
Við erum bara 3 sem erum mætt - ein er veik, af tveimur hefur ekkert heyrst, og tvennt er hætt.
Ég er komin með greiningu á ökklaverk sem hefur hrjáð mig frá því ég kom heim eftir jólin: beinhimnubólga. Verð því að fá sérhannaða æfingadagskrá, enda get ég hvorki synt né gengið þolgöngu sársaukalaust. Fór því í göngu nr. 2 í morgun í staðinn fyrir göngu nr. 3. Ganga 2 fer rólega og bara á jafnsléttu, og hentaði mér ágætlega, en ég fann að ég hefði ekki getað farið í brekkurnar í göngu nr. 3. Fer til sjúkraþjálfarans á morgun til að finna út úr því.
Ég er ánægð með að þessi endurkoma skuli vera svona nálægt jólunum, því það er gott að geta trappað sig niður eftir allt súkkulaðið, smákökurnar, og veislumatinn.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 11. janúar 2009
Dagur 1 í endurkomu 1: Sunnudagur 11 janúar 2009.
Jæja, þá er maður kominn aftur. Af því að í dag er sunnudagur, þá bærist hjarta Stofnunarinnar inni á hjúkrunarvaktinni en ekki í aðalafgreiðslunni, þó þar sé ein manneskja, líklega til skrauts og til að svara símhringingum. Að minnst kosti sendi hún mig inn á vakt til að skrá mig inn.
Ferðin austur gekk áfallalaust fyrir sig, en mikill svaka munur var að koma út úr bílnum hérna fyrir utan og finna heimskautavindinn skella á sér eftir lognið heima á mölinni. Hér er líka alhvít jörð, og eins og veðurspáin er skemmtileg þá verð ég að dúða mig vel fyrir labbitúrinn á morgun.
Það var tekið á móti mér með möppu fullri af könnunum sem ég þarf að fylla út. Þetta er endurmat á áætlun sem ég var látin gera þegar ég var útskrifuð í október, ásamt kunnuglegum pappírum: könnun á heilsutengdum lífsgæðum, spurningalisti um mataræði, og verkjamat. Þetta er bara í fimmta skipti sem ég fylli svona út...
Hér er alltaf jafn rólegt, enda alltaf hálf-dautt hérna um helgar, bara lágmarks-starfslið og flestir dvalargestir í helgarfríi. Reikna með að eitthvað lifni yfir um kvöldmatarleitið. Ég er á sama gangi og síðast, bara í herberginu á móti gamla herberginu mínu. Nýja herbergið vísar inn í garð sem er umlukinn ranghölum hússins á þrjá vegu og trjám á þann fjórða. Ef mér förlast ekki áttaskynið þá er ég með suðurglugga, sem er auðvitað frábært á þessum árstíma.
Það var gulrótarterta með kaffinu, eða öllu heldur teinu, því það er ekki boðið upp á kaffi, þakin í svörtu súkkulaðikremi og rjómi með. Ekki gott fyrir megrun, en ég stalst samt til að fá mér smásneið, enda kökurnar hérna yfirleitt mjög góðar. Eftir kaffið kíkti ég inn á bókasafnið og nældi mér í bók sem mikið hefur verið mælt með við mig: The Jane Austen Book Club eftir Karen Joy Fowler.
Ég er búin að berjast við syfju í allan dag en hef ekki viljað leggja mig, því ef ég geri það verð ég andvaka seinni part nætur. Vandamálið er að í svona litlu herbergi er loftið fljótt að verða þungt og syfjað, og þar sem heimskautanæðingurinn ýlfrar hér um rjáfur, þá er ekki spennandi að opna glugga. Þess vegna settist ég inn í sjónvarpskrók og lét fara vel um mig í Lazyboy-hægindi, með teppi og alles. Vonir mínar um að geta lækkað niður í imbanum urðu að engu þegar ég fann ekki fjarstýringuna. Líklega hefur einhver verið að einoka hana til að aðrir gætu ekki hækkað eða lækkað, stungið henni í vasann og gleymt að skila henni þegar hann stóð upp, eða þá að starfsfólkið hefur fjarlægt hana til að koma í veg fyrir að karlarnir reyni að flakka á milli rása sem er bannað af því að er sér krókur fyrir hverja sjónvarpsrás.
Lesturinn gekk ágætlega á meðan Rachael Ray malaði við gesti og áhorfendur, en það tók heldur að þyngjast róðurinn þegar Frazier byrjaði, því það eru alltaf svo mikil læti og hávaði í öllum í þeim þáttum. Ég hypjaði mig því inn í blaðakrókinn sem er rétt hjá herberginu mínu . Þar var fyrir eldri maður sem las sinn Sunnudagsmogga í rólegheitunum, og ég hreiðraði um mig í hinum sófanum og hélt áfram að lesa. Eftir tvær blaðsíður kom annar eldri maður og hlammaði sér í hægindastólinn við hliðina á Moggamanninum og byrjaði strax að blaðra. Ert þú ekki úr Grímsnesinu? spyr hann (eða eitthvað því líkt), og síðan stendur bunan út úr honum: Ég heiti Jón Jónsson, hvað heitir þú? og svo framvegis. Það var greinilegt á stuttaralegum svörunum að Moggamaðurinn vildi bara fá frið til að lesa sinn Mogga, en hinn var sko ekki á þeim buxunum að leyfa honum það var þarna búinn að króa af viðmælanda og ætlaði sér sko að fá samtal, hvort sem hinum líkaði betur eða ver.
Ég, sem var augljóslega að lesa líka sem ætti að hafa verið tvöföld vísbending um að hér væri fólk sem ekki vildi láta trufla sig hefði eins getað verið eitt af blómunum. Tillitsleysið var algert. Þó ég virði það að fólk geti verið einmana, þá hefði hann örugglega getað fundið sér meira áhugasaman viðmælanda og sleppt því að trufla fólk sem vildi bara fá að lesa sinn Mogga og sína bók í ró og friði. Nema auðvitað að þetta hafi verið einn af þessum sem alls staðar finnast, sem engin vill tala við aftur og fólk fer frekar krókaleiðir til að forðast... líkt og konan sem amma laumaðist fram hjá á tánum og í skjóli við mig niðri í Kolaporti í morgun af ótta við að vera króuð af og kjöftuð í kaf.
Jæja, nú hætti ég í bili það er orðið þungt loft hérna inni á herbergi. Fer kannski með bókina inn í setustofuna við endann á ganginum það virðist hvort sem er aldrei vera neinn þar inni. Vona bara að það sé ekki of kalt... sem minnir mig á: það var bara hlýtt inni á klósetti þegar ég fór þangað áðan. Kannski hafa þeir neglt aftur gluggann svo að fólk sé ekki alltaf að opna hann og hleypa hlýjunni út.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 4. október 2008
Dagur 26 - síðasta færslan í bili
Jæja, þá er áfanga nr. 1 lokið og ég komin heim, og auðvitað beint í fjölskylduboð. Held ég hafi bara staðið mig vel í því að borða ekki of mikið - að minnsta kosti var ég ekki pakksödd þegar ég hætti, heldur bara hæfilega mett.
Útkoman úr þessum fjórum vikum var ca. 4,5 kílóa þyngdartap (ofan á þessi 2 kíló sem ég missti í sumar), 6 cm. minna mjaðmaummál og 10 cm. minna mitti. Ég er farin að þurfa belti eða axlabönd við megnið af buxunum mínum, en efripartarnir passa ennþá, eru bara lausari yfir magann.
Ég á eftir að fara aftur í 2 vikulangar innlagnir, eina í janúar og aðra í lok ágúst, 2 vinnudaga, og viðtöl. Ég læt vita með tölvupósti þegar ég byrja aftur að blogga hérna.
Ég vil svo þakka öllum sem heimsóttu bloggið og skrifuðu í gestabókina og athugasemdirnar fyrir heimsóknirnar og velviljann og velfarnaðaróskirnar. Stuðningur ykkar er ómetanlegur.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 2. október 2008
Dagur 25
Jæja, þá er farin að styttast dvölin hérna. Einn dagur eftir af skipulagðri dagskrá, en ég hugsa að ég verði hérna fram á laugardag eða jafnvel sunnudag til að nýta mér æfingaaðstöðuna aðeins lengur.
Við fórum í þolgönguna í morgun í nístandi norðvestangjólu og gengum framhjá hálf-frosnum pollum og hrímuðu grasi, en á móti kom að það var sól og mjög fallegt (glugga)veður.
Eitthvað er maginn í mér farinn að kvarta undan matnum - ég verð vör við að mér verður hálf-óglatt þegar ég nálgast matsalinn, en svo lagast það þegar ég fer að borða. Það er ekki að mér þyki maturinn vondur, hann er bara frekar góður, en fjölbreytnin er ekki upp á það besta. Það er alltaf boðið upp á sama áleggið á morgnana og í kaffinu, og undanfarna viku hafa alltaf verið baunaréttir á boðstólum í hádeginu og samtíningur á kvöldin, nema þessa 2 daga sem það er fiskur í matinn. Þegar þarf að þóknast svona mörgum bragðlaukum, og þá sérstaklega öldruðu fólki sem er ekki vant sterkum mat, þá hættir matnum til að verða svolítið bragðdaufur hvað varðar krydd, sérstaklega ef maður er nú vanur að borða rótsterka karrýrétti og chilli. En það er vel hægt að sætta sig við þetta til styttri tíma.
Ég er að lesa áhugaverða bók sem er ætlað að hjálpa manni að koma lagi á átvenjur og losa sig við ósiði sem tengjast mat, svo sem svelti, ofáti, lotugræðgi og nart á milli mála. Hún virkar mjög skynsamleg, og ég held að kerfið sem hún boðar gæti hjálpað mér. Það er víst verið að þýða hana á íslensku, og verður áhugavert að sjá hvort þetta verður næsta tískan í baráttu þjóðarinnar við offitu.
HNLFÍ | Breytt 3.10.2008 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. október 2008
Dagur 24
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 30. september 2008
Dagur 23
Mér tókst að missa af þolgöngunni í dag af því að ég var í tíma hjá sálfræðingnum þegar hún byrjaði. Svo var ég núna að fá boðun í útskriftartíma hjá lækninum á föstudaginn, sem byrjar 10 mínútum á eftir kveðjufundinum. Það er nú orðin staðfest staðreynd að þetta fólk kann ekki að skipuleggja stundaskrár. (Ég tók góðan hring í tækjasalnum í staðinn fyrir gönguna).
Það virðist vera hætt að rigna í bili, en í staðinn næða um naprir heimskautavindar og snöggfrysta alla líkamshluta sem maður hefur óhulda í útiveru, þannig að það er kannski ágætt að ég missti af göngunni. Ef svona viðrar áfram á morgun þá hlakka ég ekki til sundtímans sem er á dagskránni, því hann fer fram í útilauginni og eyrun á mér eru viðkvæm fyrir kuli. Ég gæti neyðst til að vera með húfu ofan í lauginni. Það er líka farið að kólna á göngunum, sem er kannski allt í lagi fyrir svona vel einangruð eintök eins og mig, en verra fyrir kulvís gamalmennin sem eru meirihluti dvalargesta hérna.
Í dag var farið í hópferð í Bónus, þar sem við fengum kennslustund í að lesa út úr innihaldslýsingum á matvælaumbúðum, og Borghildur næringarfræðingur benti okkur á helstu gildrur í því sambandi. Matvælaframleiðendur eru mjög snjallir í að láta matinn virðast vera megrunarvænan, án þess að hann sé það. Sem dæmi má taka fínar sultur sem eru auglýstar að séu án viðbætts sykurs, en þegar maður fer að lesa á umbúðirnar kemur í ljós að það er af því að það er notaður ávaxtasykur í líki vínberjasafa til að sæta þær. Vissuð þið annars að gramm fyrir gramm eru jafn margar hitaeiningar í öllum sykri? (Sama á við um fitu og prótein, sama hvers eðlis sem það er). Það eina sem er gott við sultuna umræddu er að hún hentar sykursjúkum vel af því að ávaxtasykurinn fer ekki eins illa í þá og unninn sykur, en hvað megrunina varðar kemur í sama stað niður hvort valin er sykruð sulta eða án viðbætts sykurs. Maður á bara að borða minna af henni, og þá kemur þetta smám saman!
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 29. september 2008
Dagur 22
Í dag er upphafið á síðustu vikunni, lokaspretturinn í þessari umferð. Svo tekur við sjálfstýrð dagskrá, og þá byrjar átakið fyrir alvöru. Það er auðvelt að halda sig við fasta dagskrá í svona hálfvegis lokuðu umhverfi eins og HNLFÍ, en þegar maður kemur aftur út í daglegt líf, með vinnu og öðrum skuldbindingum, þá fer róðurinn að þyngjast. Ég verð að segja að ég hef ekki fundið hjá mér mikla þörf fyrir a nasla á milli mála á meðan á þessu hefur staðið, en það er líka búið að fjarlægja flest áreitin sem valda þessum millimálaátköstum hjá mér, t.d. vinnuna. Það er eftir að sjá hvernig ég stend mig þegar heim kemur. Ég veit að ég mun líklega ekki léttast jafn hratt og ég hef gert hérna, en ég er ákveðin í að halda áfram að léttast, þó ekki sé nema um 1 kg. á mánuði út næsta ár.
Um helgina skrapp ég í JSB og líka í World Class í Laugardalnum og fékk að skoða aðstöðuna. Hvílíkur munur á tveimur stöðum! JSB er lítil stöð sem virkar mjög róleg og afslöppuð, á meðan World Class er hrikalega stór, glymur og hávaði, allt fullt af verslunum innandyra með dýrum sportvarningi (það er líka veitingasalur þarna), risastór tækjasalur, og ég sá ekki betur en að allir væru í spandexi og designer-skóm. Samt eru báðir staðirnir með sömu tækin og stundaskrárnar sýna svo fram á að tímar með þjálfurum eru bara svipað margir á báðum stöðum. Þar sem JSB er nær og virkar ekki nærri því eins stressuð og World Class, þá ætla ég að byrja á að fá mér mánaðarkort þar, til að prófa. Ef mér líkar vel, þá kaupi ég árskort, annars fer ég í World Class og prófa mánuð þar. Svo ef það hentar mér ekki, þá getur ég alltaf prófað Baðhúsið, eða jafnvel bara keypt mér kort í tækjasalinn hjá Gáska (þar sem ég er í sjúkraþjálfun) og árskort í sundlaugarnar.
Annað í fréttum er að það virðist vera hætt að rigna í bili, og ég geri mér vonir um að komast þurr í gönguna á morgun.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 26. september 2008
Dagar 18 og 19
Kærar þakkir fyrir hamingjuóskir og hvatningu.
Fimmtudagurinn og föstudagurinn voru svona eins og flestir dagar hafa verið hjá mér á HNLFÍ. Óopinberlega er ég nú ca. 500 g. léttari en ég var á miðvikudaginn, og er þar með búin að minnka niður um eina fatastærð, en maður verður bara að sjá til hvað gerist í næstu opinberu vigtun. Veðrið var ógeðslegt í morgun, en viti menn: það stytti upp og við fengum bara frískandi vind og smá úða á meðan við vorum í göngunni, og svo skall óveðrið á aftur eftir hádegið.
Ég er komin heim til helgardvalar og hef ekki hugsað mér að skrifa meira fyrr en á mánudaginn.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar