Dagur 1 í endurkomu 1: Sunnudagur 11 janúar 2009.

Jæja, þá er maður kominn aftur.  Af því að í dag er sunnudagur, þá bærist hjarta Stofnunarinnar inni á hjúkrunarvaktinni en ekki í aðalafgreiðslunni, þó þar sé ein manneskja, líklega til skrauts og til að svara símhringingum.  Að minnst kosti sendi hún mig inn á vakt til að skrá mig inn.

Ferðin austur gekk áfallalaust fyrir sig, en mikill svaka munur var að koma út úr bílnum hérna fyrir utan og finna heimskautavindinn skella á sér eftir lognið heima á mölinni. Hér er líka alhvít jörð, og eins og veðurspáin er skemmtileg þá verð ég að dúða mig vel fyrir labbitúrinn á morgun. 

Það var tekið á móti mér með möppu fullri af könnunum sem ég þarf að fylla út. Þetta er endurmat á áætlun sem ég var látin gera þegar ég var útskrifuð í október, ásamt kunnuglegum pappírum: könnun á heilsutengdum lífsgæðum, spurningalisti um mataræði, og verkjamat. Þetta er bara í fimmta skipti sem ég fylli svona út...

Hér er alltaf jafn rólegt, enda alltaf hálf-dautt hérna um helgar, bara lágmarks-starfslið og flestir dvalargestir í helgarfríi. Reikna með að eitthvað lifni yfir um kvöldmatarleitið. Ég er á sama gangi og síðast, bara í herberginu á móti gamla herberginu mínu. Nýja herbergið vísar inn í garð sem er umlukinn ranghölum hússins á þrjá vegu og trjám á þann fjórða. Ef mér förlast ekki áttaskynið þá er ég með suðurglugga, sem er auðvitað frábært á þessum árstíma.

Það var gulrótarterta með kaffinu, eða öllu heldur teinu, því það er ekki boðið upp á kaffi, þakin í svörtu súkkulaðikremi og rjómi með. Ekki gott fyrir megrun, en ég stalst samt til að fá mér smásneið, enda kökurnar hérna yfirleitt mjög góðar. Eftir kaffið kíkti ég inn á bókasafnið og nældi mér í bók sem mikið hefur verið mælt með við mig: The Jane Austen Book Club eftir Karen Joy Fowler.

Ég er búin að berjast við syfju í allan dag en hef ekki viljað leggja mig, því ef ég geri það verð ég andvaka seinni part nætur. Vandamálið er að í svona litlu herbergi er loftið fljótt að verða þungt og syfjað, og þar sem heimskautanæðingurinn ýlfrar hér um rjáfur, þá er ekki spennandi að opna glugga. Þess vegna settist ég inn í sjónvarpskrók og lét fara vel um mig í Lazyboy-hægindi, með teppi og alles. Vonir mínar um að geta lækkað niður í imbanum urðu að engu þegar ég fann ekki fjarstýringuna. Líklega hefur einhver verið að einoka hana til að aðrir gætu ekki hækkað eða lækkað, stungið henni í vasann og gleymt að skila henni þegar hann stóð upp, eða þá að starfsfólkið hefur fjarlægt hana til að koma í veg fyrir að karlarnir reyni að flakka á milli rása – sem er bannað af því að er sér krókur fyrir hverja sjónvarpsrás.

 Lesturinn gekk ágætlega á meðan Rachael Ray malaði við gesti og áhorfendur, en það tók heldur að þyngjast róðurinn þegar Frazier byrjaði, því það eru alltaf svo mikil læti og hávaði í öllum í þeim þáttum. Ég hypjaði mig því inn í blaðakrókinn sem er rétt hjá herberginu mínu . Þar var fyrir eldri maður sem las sinn Sunnudagsmogga í rólegheitunum, og ég hreiðraði um mig í hinum sófanum og hélt áfram að lesa. Eftir tvær blaðsíður kom annar eldri maður og hlammaði sér í hægindastólinn við hliðina á Moggamanninum og byrjaði strax að blaðra. „Ert þú ekki úr Grímsnesinu?“ spyr hann (eða eitthvað því líkt), og síðan stendur bunan út úr honum: „Ég heiti Jón Jónsson, hvað heitir þú?“ og svo framvegis. Það var greinilegt á stuttaralegum svörunum að Moggamaðurinn vildi bara fá frið til að lesa sinn Mogga, en hinn var sko ekki á þeim buxunum að leyfa honum það – var þarna búinn að króa af viðmælanda og ætlaði sér sko að fá samtal, hvort sem hinum líkaði betur eða ver.

Ég, sem var augljóslega að lesa líka  – sem ætti að hafa verið tvöföld vísbending um að hér væri fólk sem ekki vildi láta trufla sig – hefði eins getað verið eitt af blómunum. Tillitsleysið var algert. Þó ég virði það að fólk geti verið einmana, þá hefði hann örugglega getað fundið sér meira áhugasaman viðmælanda og sleppt því að trufla fólk sem vildi bara fá að lesa sinn Mogga og sína bók í ró og friði. Nema auðvitað að þetta hafi verið einn af þessum sem alls staðar finnast, sem engin vill tala við aftur og fólk fer frekar krókaleiðir til að forðast... líkt og konan sem amma laumaðist fram hjá á tánum og í skjóli við mig niðri í Kolaporti í morgun af ótta við að vera króuð af og kjöftuð í kaf.

Jæja, nú hætti ég í bili – það er orðið þungt loft hérna inni á herbergi. Fer kannski með bókina inn í setustofuna við endann á ganginum – það virðist hvort sem er aldrei vera neinn þar inni. Vona bara að það sé ekki of kalt... sem minnir mig á: það var bara hlýtt inni á klósetti þegar ég fór þangað áðan. Kannski hafa þeir neglt aftur gluggann svo að fólk sé ekki alltaf að opna hann og hleypa hlýjunni út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er nú fegin að heyra að þér gekk vel að komast á áfangastað :) Vona að þú hafir fundið þér góðan og friðsælan stað til þess að geta lokið við bókina í ró og næði...

Gangi þér vel næstu vikuna, hlakka til að heyra frá þér á netinu og fylgjast með ævintýrum þínum í Hveragerði :)

Kveðja,

Svava

Svava 11.1.2009 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 32465

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband