Dagur 25

Jæja, þá er farin að styttast dvölin hérna. Einn dagur eftir af skipulagðri dagskrá, en ég hugsa að ég verði hérna fram á laugardag eða jafnvel sunnudag til að nýta mér æfingaaðstöðuna aðeins lengur.

Við fórum í þolgönguna í morgun í nístandi norðvestangjólu og gengum framhjá hálf-frosnum pollum og hrímuðu grasi, en á móti kom að það var sól og mjög fallegt (glugga)veður.

Eitthvað er maginn í mér farinn að kvarta undan matnum - ég verð vör við að mér verður hálf-óglatt þegar ég nálgast matsalinn, en svo lagast það þegar ég fer að borða. Það er ekki að mér þyki maturinn vondur, hann er bara frekar góður, en fjölbreytnin er ekki upp á það besta. Það er alltaf boðið upp á sama áleggið á morgnana og í kaffinu, og undanfarna viku hafa alltaf verið baunaréttir á boðstólum í hádeginu og samtíningur á kvöldin, nema þessa 2 daga sem það er fiskur í matinn. Þegar þarf að þóknast svona mörgum bragðlaukum, og þá sérstaklega öldruðu fólki sem er ekki vant sterkum mat, þá hættir matnum til að verða svolítið bragðdaufur hvað varðar krydd, sérstaklega ef maður er nú vanur að borða rótsterka karrýrétti og chilli. En það er vel hægt að sætta sig við þetta til styttri tíma.

Ég er að lesa áhugaverða bók sem er ætlað að hjálpa manni að koma lagi á átvenjur og losa sig við ósiði sem tengjast mat, svo sem svelti, ofáti, lotugræðgi og nart á milli mála. Hún virkar mjög skynsamleg, og ég held að kerfið sem hún boðar gæti hjálpað mér. Það er víst verið að þýða hana á íslensku, og verður áhugavert að sjá hvort þetta verður næsta tískan í baráttu þjóðarinnar við offitu.


Dagur 24

Er búin í vigtun - hafði lést um 600 grömm frá því síðast. Vantar bara 200 g. í að vera slétt 99 kíló. Það þýðir að frá því í byrjun júní hef ég lést um 6 kíló.

Dagur 23

Mér tókst að missa af þolgöngunni í dag af því að ég var í tíma hjá sálfræðingnum þegar hún byrjaði. Svo var ég núna að fá boðun í útskriftartíma hjá lækninum á föstudaginn, sem byrjar 10 mínútum á eftir kveðjufundinum. Það er nú orðin staðfest staðreynd að þetta fólk kann ekki að skipuleggja stundaskrár. (Ég tók góðan hring í tækjasalnum í staðinn fyrir gönguna).


Það virðist vera hætt að rigna í bili, en í staðinn næða um naprir heimskautavindar og snöggfrysta alla líkamshluta sem maður hefur óhulda í útiveru, þannig að það er kannski ágætt að ég missti af göngunni. Ef svona viðrar áfram á morgun þá hlakka ég ekki til sundtímans sem er á dagskránni, því hann fer fram í útilauginni og eyrun á mér eru viðkvæm fyrir kuli. Ég gæti neyðst til að vera með húfu ofan í lauginni. Það er líka farið að kólna á göngunum, sem er kannski allt í lagi fyrir svona vel einangruð eintök eins og mig, en verra fyrir kulvís gamalmennin sem eru meirihluti dvalargesta hérna.

Í dag var farið í hópferð í Bónus, þar sem við fengum kennslustund í að lesa út úr innihaldslýsingum á matvælaumbúðum, og Borghildur næringarfræðingur benti okkur á helstu gildrur í því sambandi. Matvælaframleiðendur eru mjög snjallir í að láta matinn virðast vera megrunarvænan, án þess að hann sé það. Sem dæmi má taka fínar sultur sem eru auglýstar að séu án viðbætts sykurs, en þegar maður fer að lesa á umbúðirnar kemur í ljós að það er af því að það er notaður ávaxtasykur í líki vínberjasafa til að sæta þær. Vissuð þið annars að gramm fyrir gramm eru jafn margar hitaeiningar í öllum sykri? (Sama á við um fitu og prótein, sama hvers eðlis sem það er). Það eina sem er gott við sultuna umræddu er að hún hentar sykursjúkum vel af því að ávaxtasykurinn fer ekki eins illa í þá og unninn sykur, en hvað megrunina varðar kemur í sama stað niður hvort valin er sykruð sulta eða án viðbætts sykurs. Maður á bara að borða minna af henni, og þá kemur þetta smám saman!


Dagur 22

Í dag er upphafið á síðustu vikunni, lokaspretturinn í þessari umferð. Svo tekur við sjálfstýrð dagskrá, og þá byrjar átakið fyrir alvöru. Það er auðvelt að halda sig við fasta dagskrá í svona hálfvegis lokuðu umhverfi eins og HNLFÍ, en þegar maður kemur aftur út í daglegt líf, með vinnu og öðrum skuldbindingum, þá fer róðurinn að þyngjast. Ég verð að segja að ég hef ekki fundið hjá mér mikla þörf fyrir a nasla á milli mála á meðan á þessu hefur staðið, en það er líka búið að fjarlægja flest áreitin sem valda þessum millimálaátköstum hjá mér, t.d. vinnuna. Það er eftir að sjá hvernig ég stend mig þegar heim kemur. Ég veit að ég mun líklega ekki léttast jafn hratt og ég hef gert hérna, en ég er ákveðin í að halda áfram að léttast, þó ekki sé nema um 1 kg. á mánuði út næsta ár.


Um helgina skrapp ég í JSB og líka í World Class í Laugardalnum og fékk að skoða aðstöðuna. Hvílíkur munur á tveimur stöðum! JSB er lítil stöð sem virkar mjög róleg og afslöppuð, á meðan World Class er hrikalega stór, glymur og hávaði, allt fullt af verslunum innandyra með dýrum sportvarningi (það er líka veitingasalur þarna), risastór tækjasalur, og ég sá ekki betur en að allir væru í spandexi og designer-skóm. Samt eru báðir staðirnir með sömu tækin og stundaskrárnar sýna svo fram á að tímar með þjálfurum eru bara svipað margir á báðum stöðum. Þar sem JSB er nær og virkar ekki nærri því eins stressuð og World Class, þá ætla ég að byrja á að fá mér mánaðarkort þar, til að prófa. Ef mér líkar vel, þá kaupi ég árskort, annars fer ég í World Class og prófa mánuð þar. Svo ef það hentar mér ekki, þá getur ég alltaf prófað Baðhúsið, eða jafnvel bara keypt mér kort í tækjasalinn hjá Gáska (þar sem ég er í sjúkraþjálfun) og árskort í sundlaugarnar.


Annað í fréttum er að það virðist vera hætt að rigna í bili, og ég geri mér vonir um að komast þurr í gönguna á morgun.


Dagar 18 og 19

Kærar þakkir fyrir hamingjuóskir og hvatningu.

Fimmtudagurinn og föstudagurinn voru svona eins og flestir dagar hafa verið hjá mér á HNLFÍ. Óopinberlega er ég nú ca. 500 g. léttari en ég var á miðvikudaginn, og er þar með búin að minnka niður um eina fatastærð, en maður verður bara að sjá til hvað gerist í næstu opinberu vigtun. Veðrið var ógeðslegt í morgun, en viti menn: það stytti upp og við fengum bara frískandi vind og smá úða á meðan við vorum í göngunni, og svo skall óveðrið á aftur eftir hádegið.

Ég er komin heim til helgardvalar og hef ekki hugsað mér að skrifa meira fyrr en á mánudaginn.


Dagur 17

Búinn að vera langur dagur: fyrst leikfimi, síðan fræðslufundur með Steinunni hjúkrunarfræðingi, síðan þolganga; og eftir hádegi kröftugt sund með vatnsleikfimi, síðan einkaviðtal hjá Steinunni, og loks nudd. Þetta fólk kann sko ekki að skipuleggja stundarskrár - í gær var til dæmis ekkert að gera hjá mér eftir hádegi. Ég er hálfdauð úr þreytu.

Annars er það helst í fréttum að ég er nú léttari en ég hef verið í a.m.k. 4 ár.  

Ég byrjaði sem sagt daginn á vigtun og útkoman var sú að það hafa farið 1,5 kg. á vikunni frá síðustu vigtun, þrátt fyrir að ég hafi farið heim um helgina. Ég er komin niður fyrir 100 kílóin, sem er mikið og gott tilefni til fagnaðar.


Dagur 16

Í dag var ég bara með vatnsleikfimi og göngu á stundaskránni, og bætti svo við einni umferð í tækjasalnum. Er mun hressari eftir nuddið og ætti gjörsamlega að vera full orku á fimmtudaginn, því ég verð aftur í nuddi á morgun. Ég ákvað að setja mér takmörk og fór í göngu 3, sem var eins gott, því ganga 4 koma til baka á sama tíma og við, og þar sem við vorum á réttum tíma, þá hljóta þau að hafa skokkað góðan part leiðarinnar, sem er ekki gott í þungum fjallgönguskóm. Fann ekki fyrir verknum, en ætla samt bara í göngu 3 á morgun. Nú hlýtur samningurinn við veðurguðina að vera útrunninn, því það rigndi allan tímann á meðan við vorum í göngunni, og úlpan mín var þung af vatni þegar ég kom til baka, en hélt mér samt þurri, sem er annað en ég get sagt um þartilgerða flík sem ég tók líka með mér. Við gengum fram á slatta af hálf-föllnum trjám - þegar jarðvegurinn er svona gegnsósa þarf ekki mjög mikið hvassviðri til að blása um koll stórum trjám. Kanínurnar í Ölfusborgum voru heldur ekki mjög hressar, húktu blautar í skjóli trjánna og hafa sjálfsagt látið sig dreyma um þurrar holur og birgðir af gulrótum.

Eftir hádegi var stundaskráin tóm hjá mér og ég skrapp því í bíltúr. Fór niður á Stokkseyri og Eyrarbakka og ætlaði að skoða Draugasetrið fræga, en það er þá komið á vetraropnunartíma og er bara opið á föstudagskvöldum og um helgar. Renndi í staðinná Selfoss og fór í búðir, þar á meðal litla og skemmtilega verslum sem heitir Alvörubúðin og selur í bland íslenskt og indverskt dót.

Hér hefur annars rignt linnulaust síðan í gær, og það er stífluð þakrenna fyrir utan gluggann hjá mér þannig að ég get ekki haft gluggann opinn. Eins og regnhljóðið er nú róandi og gott fyrir svefninn, þá er drrrrp! sluuuurpp! slabb! -hljóðið þegar fer að renna út úr stíflunni ekki skemmtilegt. Annað sem ekki er gott fyrir svefninn hérna er að þurfa að fara fram til að komast á klósettið. Ég er ein þeirra sem endilega þurfa að pissa á nóttunni, og það er frekar auðvelt að glaðvakna við það að þurfa að klæða sig fyrst í eitthvað svo maður mæti nú ekki nágrannanum á nærbuxunum frammi á gangi, fara síðan fram á ganginn sem er uppljómaður til að enginn geti nú villst í myrkrinu, og inn á klósettið sem er lýst með enn bjartari ljósum og svo illa upphitað að manni finnst maður vera með frostskemmdir á rassinum eftir leiðangur þangað. Mig hlakkar ekki til að koma hérna aftur í janúar upp á þetta, þannig að það getur verið að ég fái mér herbergi með klósetti þá.


Dagar 13-15

Kl. 15:30.


Eins og ég sagði í síðasta pistli þá skrapp ég heim um helgina, enda ákvað ég að það væri mun skárra að hanga heima hjá sér í leiðindaveðri en hérna þar sem minna er hægt að finna sér að gera. Það er nefnilega ekki nein dagskrá hérna um helgar og þó að sundlaug og tækjasalur séu við höndina, þá er takmarkað hvað maður getur eytt löngum tíma þar og eins hvað maður nennir að liggja lengi uppi í rúmi og lesa. Heima getur maður þó lagað til, horft á uppáhalds DVD-myndirnar sínar, farið í heimsóknir, kíkt í Kolaportið eða á bókasafnið (nú eða í bíó – haldiði að ég hafi ekki misst af Mamma Mia! singalong-sýningu eina ferðina enn!) eða þá tekið labbitúrinn inni í Kringlunni til að blotna ekki. Ef það hefði verið almennileg veðurspá hefði ég kannski verið hér kyrr og reynt að komast á hestbak, eða etv. skroppið í bíltúr upp að Geysi eða niður á Stokkseyri og Eyrarbakka, eða farið í langa gönguferð og tekið svolítið af myndum. Kannski um næstu helgi.


Mér tókst að halda æfingum áfram þrátt fyrir heimaveru og fór í langan kraftgöngutúr í hvassviðrinu á laugardaginn – labbaði heiman að frá mér niður á Sæbraut og niður hana og endaði í Kolaportinu. Líklega 3-4 kílómetrar sem er svipað og ganga nr. 3. Tók svo strætó heim, enda leist mér ekki á rokið sem aldrei þessu vant stóð beint niður Laugaveginn í staðinn fyrir að leynast á bak við húsin og blása fólki um koll með óvæntum hliðarvindum eins og vanalegra er.


Á sunnudaginn þegar ég var komin austur aftur tók ég svo hring í tækjunum og held að mér hafi tekist að meiða mig á teygjunum, því ég var slæm í hægri fótleggnum í leikfiminni í morgun, og gafst svo upp á þolgöngunni vegna sársauka í leggnum. Ætla að fara varlega og hlífa fætinum í dag (sem sagt, engin tæki) og reyna svo við göngu 3 á morgun til að sjá hvernig það gengur.


En nú er ég að fara í nudd. Það var mjög stressandi upplifun síðast, enda náði hún að nudda á mér allan skrokkinn á korteri.


Kl. 16:30
Jæja, þá er ég búin í nuddinu, og þrælslöpp á eftir. Það er eins og stungið hafi verið á blöðru. Er að hugsa um að leggja mig í smástund og slappa vel af. Maður fær alveg ofsalega góða slökun út úr þessu nuddi, en það er nokkuð sem gerist eftir á.

 

Kl. 19:00.

Ég þarf að fara með fartölvuna fram í miðrýmið við bókasafnið til að ná netsambandi, sem er nánast eins langt í burt frá herberginu mína eins og hægt er að komast í húsinu. Hér er boðið upp á ýmsa dægradvol, ss. billard, skák, dagblöð, og púsluspil. Nú er eitt vinsælt og þrælerfitt í umferð - teiknað og fullt af smáatriðum og maður getur varla slitið sig frá því ef maður einu sinni sest niður við það. En nú eru að byrja fréttir í sjónvarpinu - bless í bili.


Dagur 12

Kl. 19:30

Jæja, þá er maður kominn heim í helgarfrí, með fulla tösku af þvotti. Ég fór í þolgöngu nr. 4 í morgun, og þoldi hana vel, þó að reyndar væri brekkan í byrjun göngunnar ansi löng og ég lafmóð þegar upp var komið. Ég er reyndar vön að ganga vegalengdina sem er boðið upp á í göngu 4, en bara á sléttlendinu í kringum Skagaströnd. Aftur hef ég hef aldrei verið mikið fyrir brekkur, en þetta var samt ágætt, því ég fékk að sjá nýtt landslag. Við gengum upp á hverasvæði fyrir ofan bæinn, í ausandi rigningu og allnokkru roki, og niður með Varmá, sem er enn vatnsmikil en ekki jafn ógnvekjandi og í gær, enda aftur búin að taka á sig sinn venjulega lit. Við staðnæmdumst við fossinn í smá stund, og einhverjir úr hópnum sáu silung stökkva.

Þyngdartapið mitt litla er, samkvæmt næringarráðgjafanum, líklega af því tilkomið að ég hef ekki verið með neinn bjúg sem ég þurfti að vinna af mér fyrstu vikuna. Ekki veit ég hvort það er rétt, en aftur veit ég að ég var 100,3 kg. í morgun, samkvæmt óopinberri vigt, sem sagt: 1 kílói léttari en á miðvikudaginn. Verð örugglega ekki léttari í fyrramálið, enda var ég að enda við að gæða mér á samloku með dalmatíuskinku og króatískum sauðaosti (sem rann ljúflega niður), en bæði eru rækilega söltuð og líkleg til að valda bjúgsöfnun. Verð að vera dugleg að drekka vatn í kvöld.

Við Borghildur (næringarráðgjafinn) urðum sammála um að mitt vandamál væri ekki svo mikið magnið sem ég borða á venjulegum matmálstímum, heldur allt nartið og aukabitarnir á milli mála, og ofát þegar ég kemst í veislumat. Það er því þetta sem ég verð að gæta mín á og reyna að draga smám saman úr eftir að meðferðinni lýkur.


Dagur 11

Kl. 18:30.

Í dag var þvílíkt rok í gönguferðinni að ég hélt að ég mundi fjúka á haf út, en það rigndi að minnsta kosti ekki, og það var sólskin með köflum í mestallan dag. Varmáin er bólgin og vatnsmikil, og fossinn sem ég man ekki hvað heitir er tilkomumikill að sjá þar sem kolmórautt vatnið gusast niður hann. Ég hef orðið að loka glugganum hjá mér undanfarnar nætur til að fá svefnfrið fyrir veðrinu, og geri ráð fyrir að skortur á hreinu lofti hafi gert það að verkum hvað mig hefur dreymt undarlega í nótt og síðustu nótt.

Er búin að vera að drepast í bakinu í allan dag, og fór loks út í apótek og keypti Íbúfen. Þarf að tala við lækninn og fá hjá honum Naproxen eða Voltaren, það virkar betur á mig en Íbúfenið.

Brá mér í labbitúr um bæinn eftir hádegið, og varð hissa á því að sjá hvað það eru rosalega margir matsölustaðir hérna, bæði kaffihús, skyndibitastaðir og veitingahús, og flest við sömu götuna. Skal telja þau og birta niðurstöður síðar. Líklega er ferðamannaiðnaðurinn orsökin.

Ég finn að þó ég sé með bakverk, þá er ég að styrkjast og úthaldið að aukast, og harðsperrurnar eru að minnka. Ég er að hugsa um að fara í þolgöngu nr. 4 á morgun. Hún er ca. 10 mínútum lengri en nr. 3 sem ég hef verið að fara í, og heldur hraðari. Ég hef þá helgina til að jafna mig ef ég ofkeyri mig. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband