Föstudagur, 16. október 2009
Undirbúningur heldur áfram
Það eina sem var eftir til að ég kæmist örugglega af stað var að bóka farmiðana. Ég var búin að fara á netið daglega og skoða fargjöld og vissi því nokk hvað ég mundi koma til með að borga. Valið stóð í rauninni aðallega um hluti eins og tengiflug, biðtíma, brottfarar- og komutíma frekar en hvort ég borgaði 5 þúsund kallinum meira eða minna fyrir farið með hinu eða þessu flugfélaginu.
Það eru ótrúlegustu flugfélög sem fljúga þarna austur - fyrir utan flugfélög frá landinu er hægt að komast með British Airways (helv. dýrir), Emirates (besta þjónusta sem ég hef upplifað, en líka í dýrari kantinum), Gulf Air (dýrari en BA), Kuwait Air (nokkuð freistandi), tyrknesku flugfélagi sem ég man ekki nafnið á (viðunandi verð en stoppið í Istanbúl of langt til að maður nennti að hanga á flugvellinum og of stutt til að maður gæti með góðu móti farið inn í borgina). Endaði með að velja Air France, því þeir voru með bestu samsetninguna á verði, tengiflugi, biðtíma og brottfarartíma, þó að komutíminn til áfangalandsins sé reyndar áhyggjuefni: klukkan rúmlega ellefu að kvöldi, og svo má gera ráð fyrir amk. 2 tímum í bið eftir að komast í gegnum útlendingaeftirlitið, amk. miðað við sögur sem ég hef heyrt. Þá er klukkan hálf-sex að morgni heima á Fróni og má gera ráð fyrir að ég hafi verið á fótum hátt í sólarhring, og sé bæði úrill og ringluð. Flugið fer frá London til Parísar og þar skipti ég um vél og fæ beint flug á áfangastað.
Ætlaði fyrst að bóka á netinu, en netið hafði aðrar hugmyndir. Heimasíða flugfélagsins bauð ekki upp á að bóka í einu lagi flug á einn áfangastað og til baka frá öðrum. Fyrsta allsherjarbókunarsíðan bauð Íslendingum ekki upp á að bóka, en það kom ekki í ljós fyrr en kom að því að velja heimilisfang til að setja á pöntunina. Sú næsta var bara fyrir Breta. Sú þriðja hleypti manni í gegnum allt valferlið og gat síðan ekki sótt staðfestar bókunarupplýsingar á netið. Ég gafst því upp á að reyna að bóka á netinu og hringdi í Úrval-Útsýn, en þau redduðu mér einmitt síðast þegar ég gat ekki bókað netmiða. Þau tóku frá fyrir mig miða sem ég sótti svo og borgaði seinna um daginn þegar ég var búin að bóka flugið til London í gegnum heimasíðu Flugleiða. Það tókst svo vel að eina vandamálið var spurningin um hvar ég ætti að velja mér sæti í vélinni. Það er nefnilega svolítil list að gera það rétt, sérstaklega ef maður er kvenkyns og einn á ferð. Meira um það seinna.
Ég gat borgað fyrir Flugleiðaflugið með vildarpunktum - nema skatta og önnur svoleiðis gjöld, sem námu næstum 20 þúsund. Mikið hrikalega hafa flugvallarskattarnir hækkað!
Ég ákvað að fljúga til og frá London þó að aðalflugið færi frá París, því að það er svo dýrt að gista í París, og samdægurs-tengingin á milli Flugleiðaflugsins og Air France flugsins var óhentug.
Hvað um það, nú er bara eftir að kaupa gjaldeyri og ákveða hvað ég verð nauðsynlega að taka með mér, því ég ætla með eins lítinn farangur og ég mögulega kemst upp með. Meira um þær pælingar seinna...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. október 2009
Meiri undirbúningur
Á föstudeginum gerði ég meira: renndi inn í Kópavog og sótti um endurnýjun á vegabréfinu mínu. Það gamla var gatað og þannig gert ógilt, og svo var tekin af mér mynd og fingraför - hvað ætli þeir krefji mann um næst, lífssýni?
Fékk svo vegabréfið afhent niðri á Þjóðskrá á þriðjudaginn var, og renndi því næst beint niður í sendiráð og fyllti út ítarlega umsókn um áritun. Ég skil af hverju þeir vilja fá "reference" heima og úti - það er til að hægt sé að hafa samband ef eitthvað kemur fyrir - en af hverju þarf maður að fylla út nöfn og fæðingarstaði foreldra sinna? Ekki ætla þau með mér út.
Fékk vegabréfið í hendurnar á föstudaginn og þá var bara eitt eftir...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. október 2009
Undirbúningur
Það er ýmislegt sem maður þarf að huga að þegar halda á til fjarlægra landa, og eitt af því er bólusetningar. Ég var ekki búin að ákveða fyrir víst að ég færi þegar ég fór að huga að þeim, enda halda þær virkni sinni í 5-10 ár og ef ég hefði ákveðið að fara ekki, þá hefði ég bara haft gagn af þeim seinna.
Sem sagt. Á föstudeginum í vikunni vondu hringdi mín í heilsugæsluna og pantaði bólusetningar, og var svo mætt í bitið á mánudagsmorguninn. Ég fékk boostera fyrir:
stífkrampa
barnaveiki
og
lömunarveiki
og bólusetningar fyrir
taugaveiki
og
lifrarbólgu A
samtals 4 stungur. Ég var þar af leiðandi götótt þegar ég gekk þarna út á eftir og þakin í plástrum á upphandleggjum báðum megin.
Svo átti að athuga með meira, svo sem japanska heilabólgu B, hundaæði, flensu og kóleru.
Hjúkrunarfræðingurinn talaði við sérfæðing og hann mælti með því síðasta, og sagði að mér væri í sjálfsvald sett hvort ég tæki heilabólgusprautuna, en það kostar víst 50 þúsund og er ekki mikil hætta þar sem ég er að fara, þannig að ég sleppti því.
Fór á föstudaginn til að fá kólerubólusetninguna - það er reyndar inntökulyf sem ég fékk með mér heim, og er tekið í tveimur skömmtum með viku millibili. Er búin að taka inn skammt 1 og tek hinn á sunnudaginn kemur. Svo fékk ég lyfseðil fyrir Malaron, sem er malaríulyf.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. október 2009
Skyndiákvörðun, eða kannski ekki
Ég hef alltaf verið gefin fyrir að ferðast. Sumar af mínum elstu minningum eru úr ferðalögum um Ísland með mömmu og pabba, og mér hefur alltaf þótt það gaman, líka þegar rigndi eldi og brennisteini eða heilsan var ekki upp á það besta.
Árið 1995-6 fór ég í langt landferðalag sem hófst í Danmörku og endaði í Pakistan, með viðkomu í Þýskalandi, Tékklandi, Austurríki, Ítalíu, Grikklandi, Tyrklandi, Íran, Indlandi og Nepal. Leiðin sem var farin fylgdi að nokkru leiti gömlu hippaslóðinni, nema við sneiddum hjá Balkanskaganum þar sem enn var vandræðaástand, og einnig framhjá Afganistan, en þar var auðvitað ennþá verra vandræðaástand (sem hefur ekki farið batnandi síðan). Þarna fékk ég í fyrsta skipti að bragða á því hvernig það er að ferðast upp á eigin spýtur, því við nýttum hvert tækifæri sem gafst til að yfirgefa rútuna og ferðast á eigin vegum, ýmist saman eða ein. Ferðaneistinn sem alltaf hafði týrað á hjá mér varð þarna að báli, og þó stundum hafi logarnir legið í dvala, þá hefur það bál aldrei slökknað alveg.
Ég hef verið að hugsa um að fara í aðra langa ævintýraferð alveg síðan ég sneri heim úr þessari reisu, en að ýmsum ástæðum hefur það ekki gerst ennþá. Bara það að gerast íbúðareigandi gerði það að verkum að ég hef ekki haft mjög mikið fé á milli handanna. Þó hefur mér tekist að fara í nokkrar utanlandsferðir síðan, en þær hafa allar verið frekur stuttar og með öðrum, en samt nógu langar til að viðhalda eldinum.
Eitt af því sem ég hef gert til að viðhalda bálinu er að taka þátt í ferðaspjalli á netinu. Ég hef verið þáttakandi í einni stærstu ferðaspjallsíðunni á netinu í hátt í 15 ár, og var fyrstu árin eina manneskjan þar sem vildi viðurkenna að vera Íslendingur. Þótt okkur hafi nú fjölgað nokkuð, þá halda hinir sig aðallega í Íslandshorni síðunnar, en ég hef gerst meðlimur annarrar af tveimur stærstu klíkunum á síðunni og held mig aðallega á hennar borði. Þetta er notalegur staður og umræðuefnin fjölbreytt, ekki bara ferðalög heldur ýmislegt annað.Því var fullkomlega eðlilegt að ég segði öðrum klíkumeðlimum frá því hvað hefði skeð. Ég endaði skilaboðin með því að segja þeim að þótt þetta væri hrikalegt áfall og allt það, þá væri það eina sem kæmist að hjá mér þá stundina að slaufa þessu öllu, setja íbúðina í leigu og fara á heimshornaflakk næstu tvö árin eða svo.
Viðbrögðin voru frábær. Innan klukkutíma var ég búin að fá heimboð til 3 landa, og innan tveggja tíma voru löndin orðin 6, þar á meðal eitt í Afríku og eitt í Asíu. Þarna fékk ég þá hvatningu sem þurfti. Ég settist niður og reiknaði, og innan skamms var orðið ljóst að ég hefði vel efni á að halda til útlanda í einhvern tíma, tímalengdin færi eftir því hvert ég færi. Þar sem vitað er að þó ég fari að vinna strax upp úr áramótum þá mundi ég ekki eiga nema nokkra frídaga á næsta orlofsári, þá var tilvalið að fara núna í langt frí, og nota til þess orlofspeningana og óvænt "fríið" sem ég hafði fengið.
Það má því segja að þetta hafi verið skyndiákvörðun tekin eftir 13 ára umhugsun.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. október 2009
Önnur austurferð... talið niður
Það er hrikalegt kjaftshögg að missa vinnuna. Þegar höggið féll, á þriðjudaginn fyrir viku, þá var mér skapi næst að fara að hágráta, en lét það ekki eftir mér, því mér er meinilla við að gráta fyrir framan aðra en mína nánustu. Ég kláraði vikuna í vinnunni - gerði reyndar eins lítið og ég gat annað en að ganga frá lausum endum og taka til á skrifborðinu mínu, og mætti í kveðjuhóf sem hafði upphaflega verið skipulagt fyrir tvo starfsmenn sem voru að hætta við heldur ánægjulegri aðstæður, og fór í keilu með nokkrum úr vinnunni. Hélt nokkuð góðu pókerfési allan tímann.
Notaði helgina í að hugsa mig um og komst að þeirri niðurstöðu að ég væri í og með fegin, þó auðvitað sé verulega slæmt að missa vinnuna á þessum síðustu og verstu tímum. Málið er bara að vinnan sem ég var að vinna var einhæf og oft leiðinleg, og það besta við hana voru vinnufélagarnir og andrúmsloftið á vinnustaðnum. Vandinn verður að finna aðra vinnu sem nægir mér til að borga föstu reikningana, mat og annað sem ég þarf til að lifa af. Ef ég get haldið áfram að spara, þá er það bónus.
Sem betur fer er ég tiltölulega vel sett: fæ greidd full laun út uppsagnarfrestinn, sem er þrír mánuðir, auk þess að fá auðvitað greitt út það orlof sem ég átti ótekið frá þessu orlofsári, ásamt orlofi sem ég var búin að safna fyrir næsta ár, plús desemberuppbótin og orlofsuppbótin. Síðan hef ég rétt á atvinnuleysisbótum sem nema 70% af launum, í þrjá mánuði áður en ég fer á hungurbætur. Auðvitað ætla ég að vera komin með vinnu áður en það gerist.
En fyrst held ég að ég eigi skilið að fara í frí - því að í nýrri vinnu kem ég ekki til með að eiga mikinn orlofsrétt á næsta ári. Stefnan verður tekin í austur. Niðurtalningin er hérna til vinstri. Meira á morgun.
atvik úr daglega lífinu | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. janúar 2009
Dagur 4
Dagskráin gengur vel, þó reyndar hafi orðið ruglingur varðandi heilsubaðið mitt í dag og ég ekki komist ofan í fyrr en korteri of seint, en betra er seint en aldrei, eins og máltækið segir, og ég er ennþá vel afslöppuð og mjúk eftir baðið.
Í morgun fór ég og lærði stafagöngu, sem er íþrótt upprunnin í Finnlandi, fundin upp, að því er mér skilst, af þjálfurum finnska gönguskíðalandsliðsins til að halda liðsmönnum í formi yfir sumarið. Þetta er mikil list: maður þarf að vera með stafi af réttri lengd, og svo þarf maður að ná réttum takti og passa sig á að sveifla ekki stöfunum of mikið. Svona getur maður þjálfað efri hluta líkamans með þeim efri með göngum, og jafnfram eykur þetta brennslu til muna. Ætla að prófa að taka með mér stafi í gönguna í fyrramálið. Líðanin í ökklanum er orðin það mikið skárri eftir nudd og lasermeðferð að ég ætla að prófa göngu 3 á morgun.
Hér er mikið af fólki - reyndar skilst mér að það sé skipað í hvert herbergi, og ein úr hópnum mínum sem ætlaði að vera í skáp á ódýra ganginum eins og ég lenti inni á Demantsströnd, með einkaklósett og síma og líklega er hún líka með sjónvarp, fyrir sama verð og dvöl á Sprengisandi.
Stofnunin notfærir sér fjölda gesta og heldur bingó í kvöld, og eiga peningarnir að renna til kaupa á reiðhjólum til afnota fyrir gestina. Ætli maður verði ekki að taka þátt, svona rétt af skyldurækni...
Annað er það helst í fréttum að ég er búin festa mér bílinn og fer á morgun til að ganga frá samningum og skiptum á bílum. Set mynd af kerrunni á netið þegar ég er búin að fá hann afhentan.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Dagur 3
Það er að verða komið á mann skipulag: leikfimi eða vatnsleikfimi kl. 8:10, ganga kl. 11:00, og svo fræðslufundir og viðtöl hjá hinum og þessum fræðingum. Er búin að fá tíma í nuddi á fimmtudaginn.
Í gær fór ég á Selfoss og hitti þar bíl - Toyota Avensis, árg. 2002, sem mér leist andsk. vel á, ekki síst verðið: 890 þús. Í dag fór ég svo og skoðaði hann betur og fékk að reynsluaka, og er búin að gera tilboð, og fá móttilboð. Það hljóðar upp á bílinn minn, sem ætti að geta selst á um 300 þús., og 540 þús. í peningum, sem þýðir að mín fjárútlát yrðu nærri 580 þús. með sölulaunum, plús það þarf að kaupa undir hann ný dekk.
Reynsluaksturinn var ógnvekjandi í meira lagi, enda hríð og skaðræðishálka og bíllinn á frekar slitnum heilsársdekkjum. Verð að bíða til morguns eftir því að fá að vita hvort salan gengur í gegn, af því að sá sem ég var að prútta við er ekki eigandinn - hann þarf að fá samþykki pabba síns fyrir dílnum. Bíllinn fer í skoðun í fyrramálið, og þá fæ ég kannski eitthvað sem gefur mér séns á að prútta hann niður. Wish me luck!
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. janúar 2009
Dagur 2
Jæja,þá er maður búinn að fara í vigtunina ógurlegu, og niðurstaðan var bara nokkuð ánægjuleg: ég er lítilsháttar léttari en ég var þegar ég fór héðan í haust. Ég var reyndar búin að léttast um ca. 1,5 kíló í millitíðinni, en svo komu jólin...
Við erum bara 3 sem erum mætt - ein er veik, af tveimur hefur ekkert heyrst, og tvennt er hætt.
Ég er komin með greiningu á ökklaverk sem hefur hrjáð mig frá því ég kom heim eftir jólin: beinhimnubólga. Verð því að fá sérhannaða æfingadagskrá, enda get ég hvorki synt né gengið þolgöngu sársaukalaust. Fór því í göngu nr. 2 í morgun í staðinn fyrir göngu nr. 3. Ganga 2 fer rólega og bara á jafnsléttu, og hentaði mér ágætlega, en ég fann að ég hefði ekki getað farið í brekkurnar í göngu nr. 3. Fer til sjúkraþjálfarans á morgun til að finna út úr því.
Ég er ánægð með að þessi endurkoma skuli vera svona nálægt jólunum, því það er gott að geta trappað sig niður eftir allt súkkulaðið, smákökurnar, og veislumatinn.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 11. janúar 2009
Dagur 1 í endurkomu 1: Sunnudagur 11 janúar 2009.
Jæja, þá er maður kominn aftur. Af því að í dag er sunnudagur, þá bærist hjarta Stofnunarinnar inni á hjúkrunarvaktinni en ekki í aðalafgreiðslunni, þó þar sé ein manneskja, líklega til skrauts og til að svara símhringingum. Að minnst kosti sendi hún mig inn á vakt til að skrá mig inn.
Ferðin austur gekk áfallalaust fyrir sig, en mikill svaka munur var að koma út úr bílnum hérna fyrir utan og finna heimskautavindinn skella á sér eftir lognið heima á mölinni. Hér er líka alhvít jörð, og eins og veðurspáin er skemmtileg þá verð ég að dúða mig vel fyrir labbitúrinn á morgun.
Það var tekið á móti mér með möppu fullri af könnunum sem ég þarf að fylla út. Þetta er endurmat á áætlun sem ég var látin gera þegar ég var útskrifuð í október, ásamt kunnuglegum pappírum: könnun á heilsutengdum lífsgæðum, spurningalisti um mataræði, og verkjamat. Þetta er bara í fimmta skipti sem ég fylli svona út...
Hér er alltaf jafn rólegt, enda alltaf hálf-dautt hérna um helgar, bara lágmarks-starfslið og flestir dvalargestir í helgarfríi. Reikna með að eitthvað lifni yfir um kvöldmatarleitið. Ég er á sama gangi og síðast, bara í herberginu á móti gamla herberginu mínu. Nýja herbergið vísar inn í garð sem er umlukinn ranghölum hússins á þrjá vegu og trjám á þann fjórða. Ef mér förlast ekki áttaskynið þá er ég með suðurglugga, sem er auðvitað frábært á þessum árstíma.
Það var gulrótarterta með kaffinu, eða öllu heldur teinu, því það er ekki boðið upp á kaffi, þakin í svörtu súkkulaðikremi og rjómi með. Ekki gott fyrir megrun, en ég stalst samt til að fá mér smásneið, enda kökurnar hérna yfirleitt mjög góðar. Eftir kaffið kíkti ég inn á bókasafnið og nældi mér í bók sem mikið hefur verið mælt með við mig: The Jane Austen Book Club eftir Karen Joy Fowler.
Ég er búin að berjast við syfju í allan dag en hef ekki viljað leggja mig, því ef ég geri það verð ég andvaka seinni part nætur. Vandamálið er að í svona litlu herbergi er loftið fljótt að verða þungt og syfjað, og þar sem heimskautanæðingurinn ýlfrar hér um rjáfur, þá er ekki spennandi að opna glugga. Þess vegna settist ég inn í sjónvarpskrók og lét fara vel um mig í Lazyboy-hægindi, með teppi og alles. Vonir mínar um að geta lækkað niður í imbanum urðu að engu þegar ég fann ekki fjarstýringuna. Líklega hefur einhver verið að einoka hana til að aðrir gætu ekki hækkað eða lækkað, stungið henni í vasann og gleymt að skila henni þegar hann stóð upp, eða þá að starfsfólkið hefur fjarlægt hana til að koma í veg fyrir að karlarnir reyni að flakka á milli rása sem er bannað af því að er sér krókur fyrir hverja sjónvarpsrás.
Lesturinn gekk ágætlega á meðan Rachael Ray malaði við gesti og áhorfendur, en það tók heldur að þyngjast róðurinn þegar Frazier byrjaði, því það eru alltaf svo mikil læti og hávaði í öllum í þeim þáttum. Ég hypjaði mig því inn í blaðakrókinn sem er rétt hjá herberginu mínu . Þar var fyrir eldri maður sem las sinn Sunnudagsmogga í rólegheitunum, og ég hreiðraði um mig í hinum sófanum og hélt áfram að lesa. Eftir tvær blaðsíður kom annar eldri maður og hlammaði sér í hægindastólinn við hliðina á Moggamanninum og byrjaði strax að blaðra. Ert þú ekki úr Grímsnesinu? spyr hann (eða eitthvað því líkt), og síðan stendur bunan út úr honum: Ég heiti Jón Jónsson, hvað heitir þú? og svo framvegis. Það var greinilegt á stuttaralegum svörunum að Moggamaðurinn vildi bara fá frið til að lesa sinn Mogga, en hinn var sko ekki á þeim buxunum að leyfa honum það var þarna búinn að króa af viðmælanda og ætlaði sér sko að fá samtal, hvort sem hinum líkaði betur eða ver.
Ég, sem var augljóslega að lesa líka sem ætti að hafa verið tvöföld vísbending um að hér væri fólk sem ekki vildi láta trufla sig hefði eins getað verið eitt af blómunum. Tillitsleysið var algert. Þó ég virði það að fólk geti verið einmana, þá hefði hann örugglega getað fundið sér meira áhugasaman viðmælanda og sleppt því að trufla fólk sem vildi bara fá að lesa sinn Mogga og sína bók í ró og friði. Nema auðvitað að þetta hafi verið einn af þessum sem alls staðar finnast, sem engin vill tala við aftur og fólk fer frekar krókaleiðir til að forðast... líkt og konan sem amma laumaðist fram hjá á tánum og í skjóli við mig niðri í Kolaporti í morgun af ótta við að vera króuð af og kjöftuð í kaf.
Jæja, nú hætti ég í bili það er orðið þungt loft hérna inni á herbergi. Fer kannski með bókina inn í setustofuna við endann á ganginum það virðist hvort sem er aldrei vera neinn þar inni. Vona bara að það sé ekki of kalt... sem minnir mig á: það var bara hlýtt inni á klósetti þegar ég fór þangað áðan. Kannski hafa þeir neglt aftur gluggann svo að fólk sé ekki alltaf að opna hann og hleypa hlýjunni út.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 4. október 2008
Dagur 26 - síðasta færslan í bili
Jæja, þá er áfanga nr. 1 lokið og ég komin heim, og auðvitað beint í fjölskylduboð. Held ég hafi bara staðið mig vel í því að borða ekki of mikið - að minnsta kosti var ég ekki pakksödd þegar ég hætti, heldur bara hæfilega mett.
Útkoman úr þessum fjórum vikum var ca. 4,5 kílóa þyngdartap (ofan á þessi 2 kíló sem ég missti í sumar), 6 cm. minna mjaðmaummál og 10 cm. minna mitti. Ég er farin að þurfa belti eða axlabönd við megnið af buxunum mínum, en efripartarnir passa ennþá, eru bara lausari yfir magann.
Ég á eftir að fara aftur í 2 vikulangar innlagnir, eina í janúar og aðra í lok ágúst, 2 vinnudaga, og viðtöl. Ég læt vita með tölvupósti þegar ég byrja aftur að blogga hérna.
Ég vil svo þakka öllum sem heimsóttu bloggið og skrifuðu í gestabókina og athugasemdirnar fyrir heimsóknirnar og velviljann og velfarnaðaróskirnar. Stuðningur ykkar er ómetanlegur.
HNLFÍ | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar