Færsluflokkur: atvik úr daglega lífinu

En sú æla!

Það er eitt þegar skallinn á manni endar inni á fetish-bloggum þar sem einfaldlega er dáðst að fallegum höfuðleðrum án nokkurs dónaskapar.

Það er annað þegar hann er kominn inn á klámsíður.

Öllu er nú hægt að rúnka sér yfir.


Vandræðagangur

dsc00842.jpgEins og ég hef minnst á er ég búin að vera að læra á bílinn því ýmislegt er öðruvísi en í Toyotunni, og reyndar öðruvísi en í öðrum bílum sem ég hef átt. T.d. er rúðuþurrkuslánni í Toyotunni ýtt niður til að setja þurrkurnar af stað, en upp á Caddyinum, og ég hef enn ekki vanist því. Þar af leiðandi set ég alltaf þurrkurnar í hæsta gír þegar ég ætla að slökkva á þeim. Þetta er nefnilega eitt af því sem maður gerir án umhugsunar og notar snertiminnið til að gera, og mitt snertiminni hefur verið að ýta þurrkuslánni niður frá því 2001 (að minnsta kosti – ég man ekki hvernig þetta var í MMC Coltinum sem ég átti fyrir þann tíma). Aftur á móti er hægt að breyta stigstillingunni á þurrkunum í Caddyinum án þess að sleppa hendi af stýri, sem er erfitt í Toyotunni. Svo er engin afturþurrka á Toyotunni, en á Caddyinum er auðvelt að reka sig í og setja hana óvart af stað, því það er gert með því að ýta þurrkustönginni aftur. Þegar ég slysaðist til að setja hana af stað (í þurru veðri) tók það mig talsverðan tíma að finna út úr því hvernig hún virkaði, en mér tókst það þó án þess að fletta því upp í handbókinni. Sumt hefst alveg með smá fikti. Það er samt best að stöðva bílinn áður en maður byrjar að fikta.

Það sama gilti ekki um eldsneytislokið. Í Toyotunni er hlerinn yfir því opnaður með lítilli stöng niðri við gólf, vinstra megin við farþegasætið. Maður togar í hana og hlerinn opnast. Voða sniðugt og þægilegt.

Á Caddyinum ýtir maður á endann á hleranum til að opna hann og opnar þvínæst lásinn á lokinu með bíllyklinum (eðalráð til að tryggja að maður drepi á bílnum þegar tekið er eldsneyti). Síðan er lokinu snúið til að skrúfa það opið. Ekki flókið, en ég var með hugann við ferðalagið framundan þegar ég tók dísil á bílinn í fyrsta skipti og það gekk ekki vel. Eins gott að ég tók þó dísil en ekki bensín, því þótt að það sé erfitt að setja dísil á bensínbíla (af því að dísilstúturinn er stærri en sá fyrir bensínið), þá er mjög auðvelt að dæla bensíni á dísilbíla. Þetta ætti eiginlega að vera öfugt, því það er víst minni hætta á að skemma vélina í bensínbíl með dísil en í dísilbíl með bensíni.

Nú, þetta var snemma morguns og fáir á ferð (sem betur fer, segi ég). Ég var því ekkert að flýta mér þegar ég renndi inn á Atlantsolíustöðina í Fossvoginum.

Það byrjaði á því að ég fór öfugu megin að tönkunum. Af einhverjum ástæðum hafði ég bitið það í mig að það væri dælt á bílinn farþegamegin, sem reyndist rangt, og ég hafði lagt þannig að það var ekki hægt að toga slönguna aftur fyrir bílinn. Ég fór því inn aftur og færði bílinn þannig að hann stóð rétt.

Síðan sat ég og leitaði að stöng eða takka til að opna hlerann, en fann ekki. Fór þá í handbókina og las mér til um hvernig ætti að gera þetta, fór út, opnaði hlerann og stakk lyklinum í skrána. Sem snerist, og snerist og snerist, þangað til ég greip í hann og hélt í og tókst að aflæsa. Ekki tók betra við: lokið hélt áfram að snúast, og snúast, og snúast, og ekkert gerðist. Á endanum tókst mér, með talsverðu basli og skinnsprettum á tveimur hnúum, að ná helv. lokinu af. Það hjálpaði ekki að það er fest við bílinn með plastspotta sem flækist fyrir þegar maður snýr lokinu. Hins vegar er lítil hætta á að maður gleymi því á dælunni þegar maður ekur á brott (alltaf að líta á björtu hliðarnar eins og Pollýanna).

Því næst dældi ég dísilolíu á bílinn, tókst að loka og læsa tankinum án vandræða, prentaði kvittun og settist inn í bílinn. Allt tók þetta talsverðan tíma. Ég var að pára kílómetrafjöldann á mælinum á kvittunina (ég átti eftir að fá mér þjónustubók) þegar stór jeppi með mann innanborðs renndi upp að hliðinni á bílnum. Maðurinn var með eitthvað pat og vildi greinilega tala við mig.

Ég renndi niður rúðunni og spurði hvað hann vildi. Hann kynnti sig og sagðist vera starfsmaður Atlantsolíu og spurði hvort það væri eitthvað að. „Ha, nei,“ svaraði mín, með minni bestu Marilyn Monroe (í „dumb blonde“ ham) augnavíkkun,  augnhárablikki og „litlustelpu“rödd.

marilyn.jpg

Þetta eru oft mín fyrstu viðbrögð þegar ég held að fólk ætli að fara að hrella mig (og virkar andsk. vel á bæði löggur og dyraverði). Ég útskýrði síðan að bíllinn væri nýr og að ég væri enn að læra á ýmislegt í honum og hefði lent í basli með eldsneytislokið. Hann baðst þá afsökunar á ónæðinu og ók á brott. Þarna hefði ég roðnað gæti ég það enn.

Það er gott að vita að eftirlitið á þessum sjálfafgreiðslustöðvum er svona gott, svona ef maður skyldi lenda í alvöruvandræðum.

Síðan ók mín af stað og átti besta dag í leiðangri upp í sveit.


Þessu tannveseni ætlar ekki að linna

Ég fékk að vita hjá tannlækninum um daginn að á meðan ígerðin og bólgan meðfram fj.... tönninni versnaði ekki, þá væri í lagi að draga upphaf þessara dýru tannviðgerða sem ég minntist á í síðasta tannlæknapósti. Ég leyfi mér því að vona að ég geti frestað þessu fram á haustið og fengið það gert að mestu eða öllu leyti hjá tannlæknadeild HÍ.

En þetta er ekki búið, ónei. Nú er ég búin að brjóta út úr tönn. Það er svona þegar manni þykja góðar Bingókúlur.


Tannraunir

Ég minntist um daginn í framhjáhlaupi á að ég væri með tannsýkingu. Ég fór til tannlæknis, sem setti mig á fúkkalyf og sendi mig til sérfræðings. Sá úrskurðaði að ég væri með sprungu í tönn þar sem gróssa bakteríur sem valda sýkingunni, og að tönnin væri mér í rauninni ónýt, því það væri næsta ómögulegt að komast alveg fyrir sýkinguna. Þetta er tönnin á milli vinstri framtannarinnar og augntannarinnar, sem báðar eru heilar og því ekki ráðlegt að setja upp brú. Sem betur fer er sársaukinn minniháttar, sennilega af því að tönnin er rótfyllt og því er engin sýking í rótinni sjálfri, heldur "bara" í holdinu umhverfis hana.

Mér er sagt að það eina sem dugi sé að draga tannskrattann úr og setja upp gervitönn. Sú yrði skrúfuð upp í góminn með títaníumskrúfu. Til þess þarf að taka beinbút (sennilega úr neðri kjálkanum á mér) og græða hann upp í efri góminn og láta hann gróa fastan til að hægt sé að koma skrúfunni fyrir. (Þarna hefði komið sér vel að geta notað stofnfrumur).

Sérfræðingurinn sagði mér að þetta þyrfti af því að ég væri með "ídeal" góm, þ.e. beinið væri þunnt og nett. Það er lítil huggun að vera með "ídeal" góm þegar það gerir það að verkum að ég gæti þurft að ganga um annað hvort með áberandi skarð í brosinu eða bráðabirgðatönn á meðan ígrædda beinið er að gróa fast, og svo þarf að gera skurðaðgerð á mér til að ná í umrætt bein.

Gaman gaman (ekki).

Þetta verður

a) dýrt

b) tímafrekt

c) dýrt

d) sársaukafullt

e) dýrt.

 

Einn vinnufélagi minn er að fá svona og er búinn að borga um hálfa milljón fyrir. Þetta er sko ekki fyrir blanka. Hvar er Tryggingastofnun þegar maður þarf á henni að halda?

Sem betur fer er hægt að fá einhverja styrki frá stéttarfélögunum. Þarf að athuga hverju mikið áður en ég fer út í þetta.

Ég hringdi vongóð upp á tannlæknadeild HÍ (þar sem tönnin var rótfyllt á sínum tíma) til að athuga hvort ég kæmist í svona aðgerð þar, því þar er nefnilega bara rukkað fyrir efniskostnað, ekki vinnu. Mér var sagt að hringja aftur í ágúst. Það væri nefnilega allt fullt út önnina, enda er þetta vinsæl þjónusta.

Ég á tíma hjá tannlækninum á morgun. Vona bara að hann geti drepið sýkinguna niður nógu lengi til að kaupa bévítans tönninni aðeins lengri líftíma þannig að ég komist kannski inn hjá tannlæknadeildinni í haust.


Snjór

Það var vænn skafl á húddinu og framrúðunni á bílnum mínum - og ekki á neinum öðrum bíl á stæðinu - í morgun þegar ég lagði af stað í vinnuna. Held að hann hljóti að hafa lent inni í hringiðu í skafhríðinni í gærkvöldi, enda stóð hann upp við spennistöð Orkuveitunnar sem er á bílastæðinu.

Ég vildi að ég hefði verið almennilega vakandi. Þá hefði ég væntanlega haft vit á að taka mynd þessu til sönnunar.


Á fætur!

Suma daga langar mann hreinlega ekki á fætur. Það var ekki vandamálið í þetta skiptið, ónei.

Vekjarinn í símanum mínum hringdi og ég spratt á fætur, eldhress, vel hvíld og tilbúin fyrir nýjan dag.

Útvarpsvekjarinn minn gaf upp öndina skömmu fyrir jól, og ég hef notað símann minn síðan og finnst það mjög þægilegt. Það er engin klukka lengur á náttborðinu sem segir mér með rauðum tölum hvað tímanum líður, og fyrir bragðið tekst mér að sofna aftur þó ég vakni innan við tveimur klukkustundum fyrir fótferðatíma. Áður var það stærðarinnar vandmál, því þó að líkaminn vildi sofa, þá átti heilinn til að ákveða að það tæki því ekki að sofna aftur með svona stuttan tíma til stefnu. Ég hef símann frammi á gangi, þannig að ég verð að fara á fætur til að slökkva á honum, sem hefur algerlega eytt hjá mér öllu „snúsi“ og tilheyrandi syfju og skapvonsku.

Nú, ég dunda mér við að gera mig tilbúna: næ í páfagaukana (þeir verða móðgaðir ef ég hef þá ekki hjá mér við morgunverkin), fer í sturtu (og baða fuglana), bursta tennur, klæði mig, borða morgunmat, skipti um vatn hjá fuglunum og bæti á korni hjá þeim, loka þá inni í búri og tygja mig til farar. Þetta tekur um 50 mínútur.

Það var ekki fyrr en ég var komin út í bíl að mér varð litið á klukku. Hún sýndi 0:53.

Jamm, ég fór á fætur um miðnætti í nótt og var lögð af stað í vinnuna þegar ég fattaði það. Ég fór nefnilega óvenju snemma í rúmið í gærkvöldi, upp úr klukkan átta, kom mér fyrir með bók, og sofnaði út frá henni. Ég var með símann stilltan til að minna mig á að taka pensilín-pillu á miðnætti, þá síðustu í kúr sem ég er búin að vera á vegna tannsýkingar, en þegar síminn vakti mig upp af værum blundi mundi ég ekkert eftir pillunni, heldur hélt að það væri kominn tími til að fara í vinnuna.

Þetta var ergilegt, en hvað hefur maður ekki oft óskað þess að morgni að maður gæti skriðið aftur upp í rúm og haldið áfram að sofa í staðinn fyrir að fara í vinnuna? Ég fékk það sem sagt í nótt.


Er það ekki skrítið...

að þegar maður kemur heim með nýtt eintak af einhverju sem maður vissi að var til á heimili en fannst ekki, þá finnst það týnda skömmu eftir að það nýja kom í hús?

Ég fór sem sagt og keypti nýtt fjöltengi af því mig vantaði það.

Það voru þrjú vís þegar ég fór í innkaupaleiðangurinn og öll voru í notkun. Nú er ég búin að finna þrjú til viðbótar, plús eina framlengingarsnúru sem var búin að vera týnd í marga mánuði. Sem betur fer er vitað mál að maður á aldrei of mörg fjöltengi - af því að þau eru alltaf að týnast.

Það hlýtur að vera til eitthvað lögmál um þetta. Sennilega kennt við Murphy og félaga.


Hvílíkur dagur!

Gærdagurinn var með þeim viðburðameiri á árinu, bæði í góðu og slæmu.

Fyrst ber auðvitað að nefna að það var tvennt um að vera sem mig langaði að taka þátt í. Reyndar var ekkert mál að velja, en það hefði verið gaman að geta gert bæði. Það var sem sagt jólakvöldverður í vinnunni hjá mér sem stangaðist á við árlega ferð saumaklúbbsins míns í afslöppun í heilsulind. Auðvitað fór ég með saumaklúbbnum, en þetta er í annað skiptið á árinu sem ég er bókuð annað þegar það er kvöldverður í vinnunni hjá mér, og gómsætt nautakjöt á borðum í bæði skiptin. Ekki það, gæsin sem ég borðaði í Laugum var reyndar bara frekar góð...

Óvenjulegir viðburðir dagsins hófust með því að bíllinn minn bilaði á leiðinni heim úr vinnunni. Vélarljósið kviknaði og ganghljóðið varð skrítið og ég þorði ekki annað en að renna inn í næsta bílastæði. Þó það væri vélarljósið en ekki olíuljósið sem hafði kviknað þá leit ég samt á olíuna, því það eru (af gamalli reynslu) mín fyrstu viðbrögð þegar eitthvað viðvörunarljós kviknar í mælaborðinu.

Bíllinn reyndist vera næstum olíulaus, sem hefði ekki átt að vera, því hann brennir ekki mjög mikilli olíu nema hann nái að hitna vel, t.d. í þjóðvegaakstri, og olíutankurinn var rúmlega hálfur áður en ég ók á flugvöllinn í lok nóvember og hann hefði ekki átt að brenna svona miklu á þeirri stuttu leið.Sennilega hefur kuldinn haft áhrif. Ég viðurkenni aftur á móti fúslega að ég hefði átt að mæla olíuna þegar ég kom heim úr Keflavík.

En hvað um það, ég var stödd neðst í Skipholtinu og ekki ýkja langt í bensínstöð efst á Laugaveginum, þannig að mín töltir af stað. Það tölt breyttist fljótt í lullandi hægagang, því hálkan var hrikaleg og lítið um upphitaðar eða sandbornar gangstéttar í Skipholtinu. Ég náði samt upp eftir á rúmum 10 mínútum, keypti lítra af vélaolíu og labbaði til baka niður eftir Laugaveginum, þar sem gangstéttarnar voru aðeins skárri. Mér tókst að komast niður eftir án þess að detta, og hellti olíunni í vélina. Startaði síðan, og þá blikkaði vélarljósið á mig, sem var þó sk0mminni skárra.

Ég sá að þetta gekk ekki og hringdi í pabba og sagði honum söguna alla og játaði á mig syndir mínar með olíuna. Hann taldi víst að bíllinn væri búinn að bræða úr sér og þá fékk mín heldur betur hland fyrir hjartað. Hann kom svo á jeppanum, og mamma með honum, og leit á bílinn og þá kom í ljós að ekki var um úrbræðslu að ræða, heldur eitthvað annað. Honum hafði heyrst ég segja að það væri olíuljósið sem hefði kviknað, en þegar hann sá að það var "bara" vélarljósið og hann heyrði hljóðið í vélinni hýrnaði heldur yfir honum og úrskurðurinn var að bíllinn gengi ekki á öllu strokkunum og að það væri sennilega tilviljun að hann hefði verið orðinn olíulítill á sama tíma. Við erum að vona að orsökin séu annað hvort kertin eða súrefnismælirinn, því það er svo auðvelt að laga það.

Pabbi ók Toyotunni heim og ég fylgdi í kjölfarið á jeppanum. Áður en þau kvöddu afhenti mamma mér helling af hálsbindum sem afi minn hafði átt. Hann dó fyrir skömmu og mamma var að hjálpa til við að ganga frá fötunum hans, og minntist á það við frænku mína og stjúpdóttur afa sem voru þar líka að ég væri að safna bindum til að nota í bútasaum. Þeim þótti þá fyrirtak að ég fengi þau, og með bindunum frá pabba og bindunum frá hinum afa mínum er ég nú komin með efni í talsvert stórt bútasaumsteppi. Ég þarf að kynna mér vel hvernig er best að meðhöndla þau áður en ég hefst handa, því sum þeirra eru úr silki.

Ég hafði haft rænu á að hringja í eina vinkonu mína og biðja hana að taka mig með sér í Laugar. Hún er rétt að renna í hlað þegar pabbi hringir. Þá höfðu þau mamma rekist inn í Góða hirðinn á leiðinni heim og fundið þar handa mér dýnu í bílinn, hvorki meira né minna en Tempur-dýnu. Ég á eftir að skoða gripinn, en af lýsingunni að dæma verður hún bara fín, sérstaklega þegar ég er búin að sauma utan um hana.

Ég átti svo ljúfar stundir í Laugum og kom út vel slök og svífandi á vellíðunarskýi. Vinkonan sem sótti mig fór heim á undan mér, þannig að ég ákvað að labba heim, sem tekur um kortér í góðu færi, en þegar út kom var kominn næðingsvindur og snjókoma og mér leist ekkert á að ganga heim í hörkufrosti og vindi og með snjó ofan á hálkubunkunum, þannig að ég tók leigubíl. Þegar ég kom heim að húsi ákvað ég að taka nokkra hluti úr bílnum mínum inn, því það komst raki í lásinn á honum og það hefur ekki verið hægt að læsa honum síðan frysti. Haldiði að ég hafi ekki stigið á hálkubunka við hliðina á bílnum?

Ég lenti með hausinn á hliðarspeglinum og olnbogann á bílnum og skall á hliðina niður á bílastæðið og sat síðan flötum beinum á bílastæðinu, emjandi "æ!æ!æ!" þegar leigubílstjórinn kom tiplandi út úr bílnum og hífði mig á fætur. Ég haltraði síðan inn og kleif stigann upp á fjórðu hæð (ég velti stundum fyrir mér hvað ég var eiginlega að hugsa þegar ég keypti þessa íbúð).

Ég furðaði mig mest á því hvað ég fann lítið til, þó að ég fyndi að olnboginn á mér var að bólgna upp. Síðan rann upp fyrir mér ljós: Ég hafði tekið gigtarlyf áður en ég fór af stað í Laugarnar og það er sársaukastillandi og hlaut enn að vera virkt.

Ég tók aðra pillu fyrir háttinn, en nú er hún hætt að virka og ég er stíf í allri hægri hliðinni á líkamanum. Hausinn er sem betur fer í lagi - ég fékk ekki einu sinni kúlu - en ég fer ekki ofan af því að ég hefði rotast ef ég hefði lent með hausinn á bílhurðinni en ekki speglinum, sem lét undan högginu og lagðist upp að bílnum. Held ég þurfi nú að taka eina pilluna enn og fara síðan í sund og leggjast í heitu pottana.


Ævintýri í húsbílaferð

Hér er eitt sem þarf að passa sig á ef menn ætla með húsbílinn sinn til Bretlands í gegnum Frakkland: laumufaþegar. 

Ég las í sumar grein í bresku dagblaði um feðgin sem voru að skila húsbíl sem þau höfðu leigt til að ferðast um á meginlandi Evrópu. Þau voru komin heim og voru að taka farangurinn sinn úr bílnum þegar dasaður ungur Afríkumaður skreið undan bílnum. Honum hafði einhvern veginn tekist að troða sér undir lágan bílinn og hafði hangið þar alla leiðina frá Calais í Frakklandi, í von um að komast til fyrirheitna landsins. Innflytjendalögreglan kom síðan og handtók hann, þannig að tilraun hans til að finna nýtt og betra líf í Bretlandi mistókst.

Bretar sem eru á leið til Evrópu með húsbíla er sumir hverjir víst varaðir við að stoppa í nágrenni við Calais með bílinn ólæstan, því það eru fleiri dæmi um svona laumufarþega, þó þeir fari víst reyndar frekar í farangurslestina á bílunum en undir þá.

Maður á erfitt með að ímynda sér örvæntinguna sem fær menn til að taka svona áhættu. 

Fréttin öll.

 


Froða

Kem þessu hér með á framfæri ef einhverjir hrekkjalómar þarna úti vilja nýta sér það:

kolsyruhylki.jpg

Ónefnd vinkona mín fékk gesti og bar á borði fyrir þá dýrindis franska súkkulaðiköku og rjóma í rjómasprautu. Einn gesturinn spurði hvað hún hefði sett í kökuna sem léti smella í henni á tungunni. Allir fóru að velta þessu fyrir sér, þar til gestgjafinn uppgötvaði að það var rjóminn en ekki kakan sem framkallaði smellina. Einn gesturinn hafði á orði að bragðið af rjómanun væri eins og það væri sódavatn saman við hann – hann væri froðukenndari en hann ætti að vera og það væri kolsýrubragð af honum.

Þá rann upp ljós fyrir gestgjafanum: hún hafði keypt nýja tegundpop-rocks.jpg af gashylkjum. Pakkinn var sóttur og þá kom í ljós að í staðinn fyrir rjómasprautugas hafði hún gripið lítil kolsýruhylki fyrir gosvélar.

Kolsýran hafði blandast rjómanum þannig að borða hann var eins og að borða Pop Rocks-sælgæti, sem springur á tungunni og framkallar smelli. Þetta má vel útfæra sem hrekk, þó að það væri auðvitað ennþá sniðugra að fela Pop Rocks í lituðu kremi á köku, en þá verða menn líka að vera snöggir að bera kökuna fram áður en lætin byrja. 

 

 

rRk1ZMfaHrOAE


Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband