Færsluflokkur: bílar

Jæja, það var ekki allt of slæmt

Bíllinn minn fór í lesningu í gær. Í ljós kom að kertin voru orðin mjög léleg, og svo kom svörun frá tveimur háspennukeflum. Það hafði lítil áhrif að skipta um kertin, þannig að keflin eru næst.

Vonandi kemst kerran í lag í dag eða á morgun, nema pabbi ákveði að panta keflin í gegnum eBay. Þá er aldrei að vita hvenær þau skila sér. Sama er mér, það er fínt að vera á jeppanum í færðinni sem er á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana (hann lánaði mér sem sagt jeppann og ég er mjög þakklát fyrir að þurfa ekki að labba í vinnuna í öllum ruðningunum).

Hvert kefli kostar rétt tæp 20 þúsund, þannig að það er ekki of slæmt, sérstaklega þegar hugsað er til þess að ég þarf ekki að láta setja þau í á verkstæði. Það er svo einstaklega gott að hafa laghentan mann í fjölskyldunni.

Bætt við í hádeginu: Bíllinn er kominn í lag, jibbí! Hef bílaskipti við pabba eftir vinnu í dag.


Ekur þú um á svörtum Honda Accord? Passaðu þig á bílaþjófum!*

*Dæmigerð dagblaðsfyrirsögn.

Ég get ekki ímyndað mér að það sé mikill markaður fyrir stolna bíla hérna á Íslandi, hef á tilfinningunni að bílum hér sé frekar stolið annað hvort til að nota þá í stuttan tíma eða þá til að stela úr þeim varahlutum, en í t.d. Evrópu, þar sem er auðveldara að koma þeim langt í burtu á stuttum tíma, er líflegur markaður fyrir stolna bíla.

Ég var að vafra á netinu í fyrradag og, eins og vill gerast, lenti ég eftir flóknum krókaleiðum inni á vefsíðu þar sem fjallað var um bílaþjófnaði. Hún leiddi mig síðan áfram í að skoða efnið betur, og ég komst að ýmsu áhugaverðu.

Mest stolni bílaliturinn?SvarturBlárHvíturÞað var fróðlegt að uppgötva að algengustu litirnir á þeim bílum sem er stolið eru alltaf vinsælustu bílalitirnir á hverjum tíma. Núna er til dæmis algengast að svörtum, bláum og silfruðum/gráum bílum sé stolið í Evrópu, því það eru vinsælustu litirnir nú um stundir.

Í Bandaríkjunum eru þrír vinsælustu litirnir, bæði hjá bílakaupendum og bílaþjófum, silfurgrár, hvítur og svartur, í þessari röð.

Bestu litirnir til að fæla frá þjófa munu hins vegar vera túrkísblár, gulur og bleikur, allt bílalitir sem njóta lítilla vinsælda. Samkvæmt þessu ætti ég því að láta sprauta bílinn tyggjóbleikan, heiðgulan eða túrkíssanseraðan til að fæla frá þjófa. Kannski bara alla saman?

Fáðu þér þennan lit á bílinn ef þú vilt tryggja þig gegn þjófnaði.

Hollensk rannsókn leiddi í ljós að fyrir um 20 árum síðan, þegar rauður var vinsæll bílalitur þar í landi, var það einmitt algengasti liturinn á bílum sem var stolið.

Einhver kann að segja að fylgnin á milli vinsælla bílalita og lita á stolnum bílum sé bara af því að það eru minni líkur á að bílaþjófurinn náist með góssið ef bíllinn er í algengum lit, en einhvern veginn hafa rannsakendur komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé vegna þess að það sé auðveldara að selja bíl ef hann er í vinsælum lit, og svo fáist líka hærra söluverð fyrir hann (duh!). Atvinnubílaþjófar eru greinilega með markaðslögmálin á hreinu.

Það er hins vegar afar mismunandi hvaða bílategundum er algengast að sé stolið, eftir löndum og álfum, en í Þýskalandi eru það t.d. bílar framleiddir af Volkswagen sem er mest stolið af, sem kemur ekki á óvart því VW mun framleiða um 20% af þeim bílum sem eru seldir þar. Sá bíll sem mest er stolið af í Þýskalandi var hins vegar ákveðin týpa af BMW.

Og hvað með Honda Accord? Jú, það mun vera mest stolna týpan af bíl í Bandaríkjunum.

Ekki beint sú mynd sem dregin upp í bíómyndum eins og Gone in 60 Seconds.

 

 


Að velja gott nafn á húsbílinn sinn

...er næstum því eins erfitt og að temja drekann sinn. Maður vill ekki að það sé hallærislegt, ófrumlegt eða fráhrindandi. Helst af öllu vill maður að nafnið sé einstakt, frumlegt og skemmtilegt.

Ég hef hingað til skýrt bílana mína með hestanöfnum sem pössuðu við litinn á þeim. Kannski ekki mjög frumlegt, en það virkar fyrir mig. Þannig var fyrsti bíllinn minn, ljós Fiat Panorama, nefndur Bjartur. Tveir smábílar (Toyota Starlet og Peugeot) sem ég átti ekki en hafði afnot af voru Rauðka og Rauður, MMC Coltinn minn var Mósi og Toyotan sem ég ek um á núna er Grána. Toyotan sem ég átti á undan Gránu var undantekningin því hún var grænsanseruð á lit og fékk aldrei nafn, þó mér dytti reyndar í hug að kalla hana Drekafluguna.

Nýi bíllinn er hvítur. Skjanna-, blindandi-, skærhvítur. Annar skítsælasti bílalitur á jarðríki á eftir svörtum. Svoleiðis bíll ætti eiginlega að heita Skjóni, en mig langar ekki að skýra hann einu hestanafninu enn. Sennilega bíð ég bara þangað til að ég er búin að nota hann í einhvern tíma og sé til hvað mér dettur í hug. Kannski er þetta ekki einu sinni strákur, heldur stelpa. Það verður bara að koma í ljós.

Annars vorum við mamma að ræða þetta um daginn. Þau pabbi eru með frumlegt nafn á sínum húsbíl sem oft hefur orðið að umræðuefni þegar húsbílafólk kemur saman, því allir vilja vita hvað liggur að baki nafninu. Mamma nefndi nokkur nöfn og þar á meðal var “Víðförli”. Þá fékk ég hugdettu og spurði “af hverju ekki bara Þorvaldur?” Það tók hana nokkur augnablik að fatta brandarann.


Það er svoldið skrítið...

...þegar maður hugsar til þess að VW skuli brýna fyrir manni, í handbókinni sem fylgir bílnum, að vera ekki með neitt lauslegt inni í stýrishúsinu, en bjóða síðan upp á fullt af hólfum og bökkum undir dót, sem öll eru opin nema öskubakkinn. Það er ekki einu sinni lok á hanskahólfinu. Ef maður á ekki að vera með neitt lauslegt skröltandi þarna inni, undir hvað eru þá hólfin? Loftið tómt?

geymslur.jpg


Húsbílaupplifun fyrir byrjendur

Volkswagen Caddy er til í ýmsum útfærslum. Grunngerðirnar eru skutlur í tveimur stærðum: Caddy og Caddy Maxi. Báða er hægt að fá í fólksbílaútfærslu, fimm sæta og sjö sæta. Svo er það Tramper-útfærslan. Hann byggist á fimm sæta Caddy-fólksbílaútfærslu með stórt farangursrými. Þessi bíll er ýmist kallaður Caddy (Maxi) Tramper eða Life Tramper, sennilega eftir markaðssvæðum. 

 

vw_tramper.jpgTramperinn er útilegubíll. Ég mundi ekki kalla hann húsbíl, því mér finnst að til að kallast húsbíll þurfi bíll ekki bara að búa yfir svefnaðstöðu, heldur líka einhvers konar fastri innréttingu og helstu þægindum, s.s. eldunaraðstöðu og kæliboxi/ískáp, og helst vaski og klósetti.


Þó að allt þetta (nema innréttinguna) megi setja í Tramperinn (kæliboxið fylgir honum reyndar frá framleiðanda), þá er erfitt að nota það inni í bílnum og það þarf að ganga frá því eftir notkun, rétt eins og maður væri í tjaldi eða tjaldvagni.


Sætin leggjast fram og ofan á þau leggst dýna og þá er komið rúm. Undir því er geymsla. Þar má finna kælibox, útileguborð og tvo stóla, og annan búnað sem fylgir bílnum, s.s. gardínur og mjúk geymsluhólf sem er hneppt innan á veggina. Líka fylgir bílnum fortjald og svo er hægt að fá sóllúgu og mér sýnist líka vera hægt að fá hækkanlegan topp.


Þessir bílar eru ekki til hjá Heklu og mér vitandi er enginn slíkur í notkun hér á landi, en þeir geta sérpantað þá fyrir þá sem vilja.

Þetta er flottur fyrsti kostur fyrir fólk sem vill fá að prófa húsbílalífið án þess að eyða allt of mörgum milljónum í að kaupa innréttaðan húsbíl, því það er lítið mál að taka úr honum útilegubúnaðinn og nota hann sem fjölskyldubíl á milli ferðalaga.

Hér er umsögn. Og myndir.

 


Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 32384

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband