Hvílíkur dagur!

Gærdagurinn var með þeim viðburðameiri á árinu, bæði í góðu og slæmu.

Fyrst ber auðvitað að nefna að það var tvennt um að vera sem mig langaði að taka þátt í. Reyndar var ekkert mál að velja, en það hefði verið gaman að geta gert bæði. Það var sem sagt jólakvöldverður í vinnunni hjá mér sem stangaðist á við árlega ferð saumaklúbbsins míns í afslöppun í heilsulind. Auðvitað fór ég með saumaklúbbnum, en þetta er í annað skiptið á árinu sem ég er bókuð annað þegar það er kvöldverður í vinnunni hjá mér, og gómsætt nautakjöt á borðum í bæði skiptin. Ekki það, gæsin sem ég borðaði í Laugum var reyndar bara frekar góð...

Óvenjulegir viðburðir dagsins hófust með því að bíllinn minn bilaði á leiðinni heim úr vinnunni. Vélarljósið kviknaði og ganghljóðið varð skrítið og ég þorði ekki annað en að renna inn í næsta bílastæði. Þó það væri vélarljósið en ekki olíuljósið sem hafði kviknað þá leit ég samt á olíuna, því það eru (af gamalli reynslu) mín fyrstu viðbrögð þegar eitthvað viðvörunarljós kviknar í mælaborðinu.

Bíllinn reyndist vera næstum olíulaus, sem hefði ekki átt að vera, því hann brennir ekki mjög mikilli olíu nema hann nái að hitna vel, t.d. í þjóðvegaakstri, og olíutankurinn var rúmlega hálfur áður en ég ók á flugvöllinn í lok nóvember og hann hefði ekki átt að brenna svona miklu á þeirri stuttu leið.Sennilega hefur kuldinn haft áhrif. Ég viðurkenni aftur á móti fúslega að ég hefði átt að mæla olíuna þegar ég kom heim úr Keflavík.

En hvað um það, ég var stödd neðst í Skipholtinu og ekki ýkja langt í bensínstöð efst á Laugaveginum, þannig að mín töltir af stað. Það tölt breyttist fljótt í lullandi hægagang, því hálkan var hrikaleg og lítið um upphitaðar eða sandbornar gangstéttar í Skipholtinu. Ég náði samt upp eftir á rúmum 10 mínútum, keypti lítra af vélaolíu og labbaði til baka niður eftir Laugaveginum, þar sem gangstéttarnar voru aðeins skárri. Mér tókst að komast niður eftir án þess að detta, og hellti olíunni í vélina. Startaði síðan, og þá blikkaði vélarljósið á mig, sem var þó sk0mminni skárra.

Ég sá að þetta gekk ekki og hringdi í pabba og sagði honum söguna alla og játaði á mig syndir mínar með olíuna. Hann taldi víst að bíllinn væri búinn að bræða úr sér og þá fékk mín heldur betur hland fyrir hjartað. Hann kom svo á jeppanum, og mamma með honum, og leit á bílinn og þá kom í ljós að ekki var um úrbræðslu að ræða, heldur eitthvað annað. Honum hafði heyrst ég segja að það væri olíuljósið sem hefði kviknað, en þegar hann sá að það var "bara" vélarljósið og hann heyrði hljóðið í vélinni hýrnaði heldur yfir honum og úrskurðurinn var að bíllinn gengi ekki á öllu strokkunum og að það væri sennilega tilviljun að hann hefði verið orðinn olíulítill á sama tíma. Við erum að vona að orsökin séu annað hvort kertin eða súrefnismælirinn, því það er svo auðvelt að laga það.

Pabbi ók Toyotunni heim og ég fylgdi í kjölfarið á jeppanum. Áður en þau kvöddu afhenti mamma mér helling af hálsbindum sem afi minn hafði átt. Hann dó fyrir skömmu og mamma var að hjálpa til við að ganga frá fötunum hans, og minntist á það við frænku mína og stjúpdóttur afa sem voru þar líka að ég væri að safna bindum til að nota í bútasaum. Þeim þótti þá fyrirtak að ég fengi þau, og með bindunum frá pabba og bindunum frá hinum afa mínum er ég nú komin með efni í talsvert stórt bútasaumsteppi. Ég þarf að kynna mér vel hvernig er best að meðhöndla þau áður en ég hefst handa, því sum þeirra eru úr silki.

Ég hafði haft rænu á að hringja í eina vinkonu mína og biðja hana að taka mig með sér í Laugar. Hún er rétt að renna í hlað þegar pabbi hringir. Þá höfðu þau mamma rekist inn í Góða hirðinn á leiðinni heim og fundið þar handa mér dýnu í bílinn, hvorki meira né minna en Tempur-dýnu. Ég á eftir að skoða gripinn, en af lýsingunni að dæma verður hún bara fín, sérstaklega þegar ég er búin að sauma utan um hana.

Ég átti svo ljúfar stundir í Laugum og kom út vel slök og svífandi á vellíðunarskýi. Vinkonan sem sótti mig fór heim á undan mér, þannig að ég ákvað að labba heim, sem tekur um kortér í góðu færi, en þegar út kom var kominn næðingsvindur og snjókoma og mér leist ekkert á að ganga heim í hörkufrosti og vindi og með snjó ofan á hálkubunkunum, þannig að ég tók leigubíl. Þegar ég kom heim að húsi ákvað ég að taka nokkra hluti úr bílnum mínum inn, því það komst raki í lásinn á honum og það hefur ekki verið hægt að læsa honum síðan frysti. Haldiði að ég hafi ekki stigið á hálkubunka við hliðina á bílnum?

Ég lenti með hausinn á hliðarspeglinum og olnbogann á bílnum og skall á hliðina niður á bílastæðið og sat síðan flötum beinum á bílastæðinu, emjandi "æ!æ!æ!" þegar leigubílstjórinn kom tiplandi út úr bílnum og hífði mig á fætur. Ég haltraði síðan inn og kleif stigann upp á fjórðu hæð (ég velti stundum fyrir mér hvað ég var eiginlega að hugsa þegar ég keypti þessa íbúð).

Ég furðaði mig mest á því hvað ég fann lítið til, þó að ég fyndi að olnboginn á mér var að bólgna upp. Síðan rann upp fyrir mér ljós: Ég hafði tekið gigtarlyf áður en ég fór af stað í Laugarnar og það er sársaukastillandi og hlaut enn að vera virkt.

Ég tók aðra pillu fyrir háttinn, en nú er hún hætt að virka og ég er stíf í allri hægri hliðinni á líkamanum. Hausinn er sem betur fer í lagi - ég fékk ekki einu sinni kúlu - en ég fer ekki ofan af því að ég hefði rotast ef ég hefði lent með hausinn á bílhurðinni en ekki speglinum, sem lét undan högginu og lagðist upp að bílnum. Held ég þurfi nú að taka eina pilluna enn og fara síðan í sund og leggjast í heitu pottana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 32512

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband