Færsluflokkur: Jólin

Hver haldiði að hafi fengið klósett í jólagjöf?

JólagjafirnarHver önnur en ykkar einlæg? Ég fékk sem sagt ferðaklósett frá foreldrunum – og þau sem voru búin að lýsa því yfir og lofa hátíðlega að ég fengi bara eitthvað lítið í jólagjöf þetta árið. Þetta var hins vegar bæði stór gjöf og dýr. Ekki að ég sé neitt að kvarta...

 

Ég held reyndar að ég hafi aldrei fengið eins mikið af gagnlegum gjöfum og þessi jól – og verið jafn ánægð með þær. Næstum allar gjafirnar sem ég fékk tengjast húsbílnum á einhvern hátt, og hinar eru gagnlegar líka. Ég fékk, fyrir utan klósettið, ferðagashellu, bílslökkvitæki, rafgeymabox og með því brúsa af sótthreinsivökva fyrir klósettið (líka frá foreldrunum) og ferðahandbókina 155 Ísland: Áfangastaðir í alfaraleið. Þar fyrir utan fékk ég borvél og tvö súkkulaðistykki.

 

Borvélin er áhald sem ætti að vera til á öllum heimilum og borvélin mín gamla var orðin slitin og léleg þannig að þetta var eðalgjöf. Nú get ég aftur farið að hengja upp myndir af fullum krafti. Svo er fátt matarkyns sem gleður sálina jafn mikið og gott súkkulaði.

Nú klæjar mig bara í puttana að hefja aftur framkvæmdir við bílinn, en það verður víst að bíða þess að það hlýni aðeins og versta snjóinn taki upp.


Meira um jólalög

Í fýlupúkajólalagapistlinum í gær minntist ég m.a. á þunglyndisleg jólalög sem ég vil helst ekki heyra. Til viðbótar við þau sem ég taldi upp þar eru tvö til viðbótar sem ég hef ekkert á móti að hlusta á, en í hófi þó: Have Yourself a Merry Little Christmas, í nánast hvaða útsetningu sem er, og Blue Christmas, en bara í flutningi Elvis Presley.

Ástæðurnar eru ólíkar.

Have Yourself a Merry Little Christmas er fallegt jólalag sem ég held mikið upp á og syng yfirleitt með þegar ég heyri það þó ég hafi söngrödd eins og kría. Það virkar samt svolítið dapurlegt á mig. Það ætti ekki að gera það, enda er það sungið í dúr, sem er yfirleitt tengt við gleði, á meðan moll er tengt við dapurleg lög (hér er útgáfa af laginu sungin í moll, sem gerir það næstum því draugalegt).

Þetta lag minnir mig alltaf á sorglega senu úr kvikmyndinni Meet Me in St. Louis þar sem lagið heyrðist fyrst. Esther, leikin af Judy Garland, reynir að fá litlu systur sína, Tootie (leikin af grátprinsessunni Margaret O‘Brien), til að líta á björtu hliðarnar þegar hún er niðurdregin af því að fjölskyldan er að fara að flytja til New York, en er sjálf með tárin í augunum á meðan hún syngur lagið.

Hér er textinn eins og Judy söng hann upphaflega (hann hefur reyndar tekið smá breytingum í gegnum tíðina, og var reyndar enn dapurlegri eins og hann var upphaflega skrifaður (en aldrei fluttur)):

Have yourself a merry little christmas
Let your heart be light
Next year all our troubles will be
Out of sight
Have yourself a merry little christmas
Make the yule-tide gay
Next year all our troubles will be
Miles away
Once again as in olden days
Happy golden days of yore
Faithful friends who are dear to us
Will be near to us once more
Someday soon, we all will be together
If the fates allow
Until then, well have to muddle through somehow
So have yourself a merry little christmas now

Lag: Ralph Blane; Texti: Hugh Martin.

Hér er umrædd sena:

 

 

--

Hvað Blue Christmas varðar, þá fjallar það um mann sem grátbiður elskuna sína, sem er farin frá honum, að koma og vera hjá sér um jólin svo að hann verði ekki í þunglyndiskasti yfir hátíðarnar. Elvis aftur á móti flytur það kaldhæðnislega – „tongue in cheek“ eins og enskumælandi mundu segja – þannig að maður skynjar að honum er ekki alvara, að hann er að grínast, og því verður boðskapur lagsins sá að maður eigi ekki að láta smáræði eins og sambandsslit skemma fyrir sér jólin.

Hér lagið, eins og Elvis flutti það á tónleikum 1968:

 


Jóla-la-lög

 

Í dag ætla ég ekki að fjalla um ferðalög, heldur jólalög.

Ég byrja yfirleitt að búa mig undir jólin með því að hlusta á Fairytale of New York í flutningi Kirsty MacColl og The Pogues, og síðan horfi ég á bíómyndina The Nightmare Before Christmas. Þetta á sér stað í kringum allraheilagramessu, enda er Nightmare bæði jóla- og Halloween-mynd. Síðan vil ég ekki heyra jólalög fyrr en í desember, og þá í hófi. Undantekningin er þegar ég mæti í saumaklúbb hjá jólabörnunum vinkonum mínum, sem eru sumar hverjar farnar að spila jólalög í byrjun september. (Ein var búin að skreyta tréð upp úr byrjun október).

En þó að það sé freistandi að ræða um uppáhaldsjólalögin mín, þá ætla ég núna að fjalla um jólalög sem ég vil helst ekki heyra.

Í fyrsta lagi eru tvö jólalög sem ég vil bara heyra á aðfangadag og jóladag: Ó helga nótt og Heims um ból. Þau eru bara hreinlega of hátíðleg til að spila þau á öðrum dögum. Að minnsta kosti er það mín skoðun. Mér finnst líka vera á mörkunum að spila Borgin litla Betlehem einhverja aðra daga og almennt séð finnst mér að því hátíðlegri sem jólasálmurinn er, því takmarkaðri eigi spilunin á honum að vera. Það er til alveg nóg af aðventulögum til að spila í staðinn, bæði trúarlegum og veraldlegum.

Kallið mig fýlupúka ef þið viljið, en ég hef mjög sterkar tilfinningar til jólanna og finnst þau eiga að vera hátíðleg og notaleg, jafnvel þó þau séu ekki trúarhátíð fyrir mér. Í aðdraganda jólanna, á aðventunni og jafnvel fyrr, finnst mér hins vegar að léttleikinn eigi að fá að ráða ríkjum: menn megi alveg sprella, hlusta á aðventu- og jólalög og lyfta sér upp í skammdeginu, en hátíðlegir jólasálmar eigi bara heima á jólunum sjálfum.

Það eru til nokkur jóla- og aðventulög sem mér hafa aldrei þótt skemmtileg, og svo eru nokkur sem ég hélt upp á fyrst þegar þau komu fram en hef hreinlega fengið ógeð á vegna ofspilunar. (Halló, Jólahjól!).

Ég ætla að byrja á einu jólalagi sem ég hreinlega fatta ekki og hef aldrei getað skilið vinsældirnar á. Þetta er The Little Drummer Boy eða Litli trommuleikarinn. Í fyrsta lagi er lagið sjálft frekar drungalegt í flestum útsetningum. Takturinn er næstum eins og í útfararsálmi eða hátíðlegum hergöngumarsi, nema kannski diskó-rafmagnstrommuútsetningin á íslensku útgáfunni með Siggu Beinteins, sem er eins ójólaleg og hugsast getur.

Svo er það textinn. Kannski er ég bara svona rosalega viðkvæm, en hefur einhver hlustað á hann? Mundir þú vilja hafa trommuleikara berjandi húðir yfir nýfæddu barni og þreyttri móður þess sem eflaust vill helst af öllu fá að sofa og hvíla sig eftir erfiðið? Ég mundi a.m.k. ekki kalla það framferði til fyrirmyndar. (Hér eru reyndar tvær útfærslur sem sem eru báðar lausar við drungann sem oft fylgir laginu: hressileg rokkútgáfa og hátíðleg acapella-útgáfa. Textinn heldur hins vegar áfram að vera ...skrítinn)

Ofspiluðu lögin sem ég þoli ekki eru, þó ótrúlegt megi virðast, bara tvö: Jólahjól, upprunalega flutt af Sniglabandinu, og Last Christmas, upphaflega flutt af Wham! Ég þoli hvorugt, sama þó að um tökuútgáfur sé að ræða. Ég held ég þurfi ekkert að útskýra þetta nánar: allir sem hlusta eitthvað á útvarp um þetta leiti árs ættu að skilja af hverju mér er uppsigað við þessi lög.

Reyndar er All I want for Christmas is You í flutningi Mariah Carey á leiðinni inn á þennan ofspilunarlista. Það eina sem heldur því af honum er að það er bara þessi tiltekna útsetning sem er farin að fara pínku-ponsu í mínar fínustu. Ég get alveg hlustað á Michael Bublé eða My Chemical Romance flytja lagið, og svo finnst mér líka gaman að heyra það svona einu sinni fyrir hver jól á íslensku í flutningi Friðriks Ómars, jafnvel þó að sú útsetning líkist mjög þeirri upprunalegu.

Do They Know It's Christmas er í sínum eigin klassa. Hugsunin að baki þess er falleg, en framkvæmdin er í meira lagi gölluð. Það kom mér á óvart að það var ekki fyrr en með nýjustu útgáfunni af laginu (vegna ebóla-faraldursins) sem menn tóku að gagnrýna textann opinberlega, en mér hefur alltaf fundist hann vera yfirlætislegur í meira lagi gagnvart þeim sem lagið á að hjálpa: "aumingja þau, vita þau að það eru jól?"

Þar að auki er sungið um Afríku eins og hún sé ein samfelld  eyðimörk þar sem allir eru að deyja, en ekki stór og fjölbreytt heimsálfa með fjölbreyttu mannlífi og gróðurfari, og svo er textinn greinilega saminn til að láta áhlustendum líða illa, fá samviskubit yfir að þjást ekki eins og fólkið í Afríku.

Þá vil ég frekar hlusta á Hjálpum þeim þar sem boðskapurinn er mun betur fram settur. Þar er höfðað til samúðartilfinningar fólks frekur en samvisku þess, og ekki sungið niðrandi um þá sem eru hjálpar þurfi.

Svo eru jólalög sem mér finnast vera niðurdrepandi og sem minna mig á brottfallna og fjarverandi vini og ættingja, sem er ekki mjög uppbyggilegt þegar maður er með skammdegisþunglyndi. Ég man eftir tveimur í augnablikinu. Hið fyrra er Pabbi, komdu heim um jólin (fann það ekki á netinu, en þekkja það ekki allir?), þar sem ung stúlka sendir kveðju í gegnum Óskalög sjómanna og grátbænir fjarstaddan, vinnusjúkan föður sinn um að koma nú heim af sjónum yfir jólin. Hitt er Amma engill, sem er hlýlegt og fallegt jólalag sem ég get ekki heyrt án þess að fara að gráta, því það minnir mig á ömmur mínar sem eru báðar fallnar frá.

Á ensku má nefna bömmerlög í líkingu við Please Come Home For Christmas og I'll Be Home for Christmas (if only in my dreams). Það eina sem bjargar Christmas (Baby Please Come Home) frá því að vera enn eitt jólaþunglyndislagið er að lagið sjálft, þ.e. hljómurinn, er svo hressilegt.

Svo má telja velgjulög í líkingu við Suzy Snowflake, vetrarlag sem er aðallega spilað um jólaleitið og sem heyrist sem betur fer ekki oft spilað í íslensku útvarpi. Það er svo sakkarínsætt og tilgerðarlegt að ég fæ æluna upp í háls af því að heyra það.

Annað erlent jólalag sem mér er uppsigað við er The Happiest Christmas Tree. Það byrjar voða flott með kór sem syngur:

"With a hey and a hee and a hoo hoo

With a hee and a hoo and a hah hah

With a hoo and a hah and a hee hee"

og maður á von á hressilegu sleðalagi , en svo byrjar Nat king Cole að syngja þennan líka heimskulega texta sem er skrifaður á vondri ensku sem í þokkabót rímar hvorki né rennur vel:

"I'm the happiest Christmas tree

Hoo hoo hoo, hee hee hee

Someone came and they found me

And took me home with them

 

Oh, I'm the happiest Christmas tree

Hoo hoo hoo, hee hee hee

Look how pretty they dressed me

Oh, lucky, lucky me"

 

Íslenski textinn er aftur á móti frekar vel saminn, og það er að minnsta kosti húmor í honum (Ég er hýrasta jólatréð...).

Sumir hafa horn í síðu þess siðar íslenskra textahöfunda að semja jólatexta við erlend (oft ítölsk popp-)lög sem eru ekki upprunalega jólalög. Ekki ég. Ég hef ekkert á móti þessum sið, enda mikill aðdáandi Baggalúts og jólaskopstælingarlaga þeirra (Gleðileg jól við lagið Run to the Hills er t.d. mjög flott, svo ekki sé minnst á Rjúpur/I got you babe og fleiri góð). Eitt vel heppnað dæmi um jólalag sem varð til með þessum hætti er Svona eru jólin sem er sungið við Eurovision-lagið Gente di mare. Mér finnst hins vegar að það þurfi að vanda til verks við svona framkvæmd.

Eitt svona lag sem nýtur vinsælda hér en mér finnst glapræðislega misheppnað sem jólalag er Ef ég nenni, upprunalega flutt af ítalska raularanum Zucchero undir titlinum Cosi Celeste. Það var reyndar kosið besta jólalagið nýlega, í (óvísindalegri) skoðanakönnun á visir.is, sem að mínu viti ber þess glöggt vitni hvað vel heppnaður flutningur og útsetning geta gert mikið. Flutningurinn er nefnilega óneitanlega flottur: Helgi Björns bregst ekki og lagið er mjög fallegt, en textinn maður!

Ef hlustað er á textann kemur í ljós frekar leiðinleg lítil frásögn, nefnilega draumórar blanks letingja um að húkka konuna sem hann langar í, með gjöfum sem hann hefur ekki efni á að gefa henni. Ef nánar er að gætt er þetta meira að segja ekki endilega jólalag þó það sé alltaf spilað sem slíkt. Það er bara gjafaþemað sem gerir það að jólalagi. Kannski kom það fyrst út á jólaplötu og varð þess vegna jólalag?

Hvað um það. Þetta voru nokkur af þeim jólalögum sem ég vil síður þurfa að hlusta á í aðdraganda jólanna, og alls ekki á jólunum sjálfum. En nú held ég að ég láti staðar numið (í bili að minnsta kosti).

Og nú þætti mér gaman að heyra frá lesendum: Eru einhver jólalög sem þið þolið ekki, eða er eitthvert af ykkar uppáhalds jólalögum kannski á listanum mínum yfir óþolandi jólalög?


Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband