Vandræðagangur

dsc00842.jpgEins og ég hef minnst á er ég búin að vera að læra á bílinn því ýmislegt er öðruvísi en í Toyotunni, og reyndar öðruvísi en í öðrum bílum sem ég hef átt. T.d. er rúðuþurrkuslánni í Toyotunni ýtt niður til að setja þurrkurnar af stað, en upp á Caddyinum, og ég hef enn ekki vanist því. Þar af leiðandi set ég alltaf þurrkurnar í hæsta gír þegar ég ætla að slökkva á þeim. Þetta er nefnilega eitt af því sem maður gerir án umhugsunar og notar snertiminnið til að gera, og mitt snertiminni hefur verið að ýta þurrkuslánni niður frá því 2001 (að minnsta kosti – ég man ekki hvernig þetta var í MMC Coltinum sem ég átti fyrir þann tíma). Aftur á móti er hægt að breyta stigstillingunni á þurrkunum í Caddyinum án þess að sleppa hendi af stýri, sem er erfitt í Toyotunni. Svo er engin afturþurrka á Toyotunni, en á Caddyinum er auðvelt að reka sig í og setja hana óvart af stað, því það er gert með því að ýta þurrkustönginni aftur. Þegar ég slysaðist til að setja hana af stað (í þurru veðri) tók það mig talsverðan tíma að finna út úr því hvernig hún virkaði, en mér tókst það þó án þess að fletta því upp í handbókinni. Sumt hefst alveg með smá fikti. Það er samt best að stöðva bílinn áður en maður byrjar að fikta.

Það sama gilti ekki um eldsneytislokið. Í Toyotunni er hlerinn yfir því opnaður með lítilli stöng niðri við gólf, vinstra megin við farþegasætið. Maður togar í hana og hlerinn opnast. Voða sniðugt og þægilegt.

Á Caddyinum ýtir maður á endann á hleranum til að opna hann og opnar þvínæst lásinn á lokinu með bíllyklinum (eðalráð til að tryggja að maður drepi á bílnum þegar tekið er eldsneyti). Síðan er lokinu snúið til að skrúfa það opið. Ekki flókið, en ég var með hugann við ferðalagið framundan þegar ég tók dísil á bílinn í fyrsta skipti og það gekk ekki vel. Eins gott að ég tók þó dísil en ekki bensín, því þótt að það sé erfitt að setja dísil á bensínbíla (af því að dísilstúturinn er stærri en sá fyrir bensínið), þá er mjög auðvelt að dæla bensíni á dísilbíla. Þetta ætti eiginlega að vera öfugt, því það er víst minni hætta á að skemma vélina í bensínbíl með dísil en í dísilbíl með bensíni.

Nú, þetta var snemma morguns og fáir á ferð (sem betur fer, segi ég). Ég var því ekkert að flýta mér þegar ég renndi inn á Atlantsolíustöðina í Fossvoginum.

Það byrjaði á því að ég fór öfugu megin að tönkunum. Af einhverjum ástæðum hafði ég bitið það í mig að það væri dælt á bílinn farþegamegin, sem reyndist rangt, og ég hafði lagt þannig að það var ekki hægt að toga slönguna aftur fyrir bílinn. Ég fór því inn aftur og færði bílinn þannig að hann stóð rétt.

Síðan sat ég og leitaði að stöng eða takka til að opna hlerann, en fann ekki. Fór þá í handbókina og las mér til um hvernig ætti að gera þetta, fór út, opnaði hlerann og stakk lyklinum í skrána. Sem snerist, og snerist og snerist, þangað til ég greip í hann og hélt í og tókst að aflæsa. Ekki tók betra við: lokið hélt áfram að snúast, og snúast, og snúast, og ekkert gerðist. Á endanum tókst mér, með talsverðu basli og skinnsprettum á tveimur hnúum, að ná helv. lokinu af. Það hjálpaði ekki að það er fest við bílinn með plastspotta sem flækist fyrir þegar maður snýr lokinu. Hins vegar er lítil hætta á að maður gleymi því á dælunni þegar maður ekur á brott (alltaf að líta á björtu hliðarnar eins og Pollýanna).

Því næst dældi ég dísilolíu á bílinn, tókst að loka og læsa tankinum án vandræða, prentaði kvittun og settist inn í bílinn. Allt tók þetta talsverðan tíma. Ég var að pára kílómetrafjöldann á mælinum á kvittunina (ég átti eftir að fá mér þjónustubók) þegar stór jeppi með mann innanborðs renndi upp að hliðinni á bílnum. Maðurinn var með eitthvað pat og vildi greinilega tala við mig.

Ég renndi niður rúðunni og spurði hvað hann vildi. Hann kynnti sig og sagðist vera starfsmaður Atlantsolíu og spurði hvort það væri eitthvað að. „Ha, nei,“ svaraði mín, með minni bestu Marilyn Monroe (í „dumb blonde“ ham) augnavíkkun,  augnhárablikki og „litlustelpu“rödd.

marilyn.jpg

Þetta eru oft mín fyrstu viðbrögð þegar ég held að fólk ætli að fara að hrella mig (og virkar andsk. vel á bæði löggur og dyraverði). Ég útskýrði síðan að bíllinn væri nýr og að ég væri enn að læra á ýmislegt í honum og hefði lent í basli með eldsneytislokið. Hann baðst þá afsökunar á ónæðinu og ók á brott. Þarna hefði ég roðnað gæti ég það enn.

Það er gott að vita að eftirlitið á þessum sjálfafgreiðslustöðvum er svona gott, svona ef maður skyldi lenda í alvöruvandræðum.

Síðan ók mín af stað og átti besta dag í leiðangri upp í sveit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband