Færsluflokkur: Ferðalög
Föstudagur, 14. nóvember 2014
Innrétting í (smá)húsbíl
Ég er ekki týpan til að hanga inni við þegar ég er á ferðalögum: annað hvort er ég sofandi, að elda/borða/skrifa dagbókarfærslur, úti að gera eitthvað eða á akstri. Þess vegna þarf ég ekki plássmikinn húsbíl. Þegar ég fór að pæla fyrir alvöru í þessum málum var þetta það sem ég setti niður fyrir mér að ég vildi hafa:
- Svefnaðstaða og setaðstaða. Þetta er mjög mikilvægt, eiginlega það mikilvægasta, finnst mér. Út af takmörkuðu plássi er það eina sem kemur til greina rúmbekkur sem nýtist sem setpláss þegar ég er að borða eða ef ég þarf að vera inni við vegna veðurs. Þarna mundi mér duga bekkur með dýnu og eitthvað til að setja við bakið þegar hann er nýttur sem setpláss. Sængurfata-, skó- og etv. fatageymsla mundi verða undir rúminu. Ferðaklósettið mundi koma undir rúmið til fóta.
- Borð og skápapláss. Lítil innrétting á móti rúminu, helst með renniborðplötu sem fer inn í innréttinguna eða felliborðplötu sem leggst upp/niður á innréttinguna þegar hún er ekki í notkun, til að það sé auðveldara að sitja við skriftir og lestur. Þarna þarf líka að vera pláss fyrir nauðsynjar: skápur fyrir vatnsbrúsa og gaskút, skápur/skúffa fyrir matar-, hreinlætis- og eldunaráhöld, skúffa/skápur undir smábirgðir af matvælum. Í innréttingunni mundi líka verða:
- Aðstaða til að vaska upp og elda. Framtíðaráætlunin er að hafa eldavask (t.d. svona), en ég byrja sennilega með stóran vatnsbrúsa með krana eða pumpu og lítið vaskafat. Hið síðara er fyrirhafnarminna því það þarf að saga fyrir vaskinum og leggja vatnsleiðslur og vera með niðurfallskút ef hinn kosturinn er valinn. Það verður gert ráð fyrir að hægt sé að saga fyrir eldavaski seinna meir. Fyrir eldamennsku geri ég ráð fyrir að nota útilegugashellu (svipað þessari) eða prímus til að byrja með. Eldavaskur kostar nefnilega jafn mikið og lítill ísskápur!
- Pláss fyrir annað, s.s. bækur, landakort, handavinnudót o.s.frv. Spurning með vasa úr taui eða neti, annað hvort í loftið eða á vegginn ofan við rúmið?
- Kælir. Annað hvort rafknúið kælibox eða lítill ferðaísskápur. Byrja sennilega með kæliboxið og kaupi mér pressuísskáp seinna.
- Ferðaklósett. Mjög mikilvægt út af pisseríisvandamálinu.
- Ljós. Það berst náttúruleg birta inn í bílinn frá fram- og afturrúðunum, en ég þarf að geta athafnað mig þegar orðið er dimmt og til þess þarf rafmagnsljós.
- Fortjald, farangursbox og ferðagrill eru allt saman framtíðardraumar.
Svo held ég að það sé sniðugt að eiga fellistól og kannski lítið útileguborð til að nota utandyra í góðu verði og svo kæmi sér vel að eiga vindtjald þar til fortjaldið er orðið að veruleika.
Að lokum eru hér síðan krækjur á flottan sjálfinnréttaðan bíl. Eigandinn keypti sér Ford Transit Connect, sem er svipað stór og VW Caddy Maxi, og innréttaði hann sjálfur. Fyrri krækjan er á upplýsingar um vinnuna og sú síðari á upplýsingar um bílinn fullkláraðan. Hann er með flest það sem ég vil hafa í mínum bíl, plús sólarsellur og örbylgjuofn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 13. nóvember 2014
Vangaveltur um svefn-, setu- og geymslupláss í húsbílinn
Eins og ég skrifaði um í gær er rúmbekkurinn það næsta sem er á áætluninni. Við komum sem sagt til með að smíða hann inn í bílinn áður en klæðningin kemur í, taka hann niður og setja hann síðan upp aftur þegar hún er komin á. Ég veit annars ekki hvenær við komumst í að klæða bílinn að innan, því það má sennilega ekki vera mjög kalt þegar það fer fram, út af líminu sem er notað.
Við pabbi mældum og pældum mikið í innréttingunni í bílnum, og erum reyndar ekki enn komið að endanlegri niðurstöðu. Hér er það sem er komið á hreint:
Það er ágætis pláss á milli sætisbakanna og botnsins á flutningsrýminu, sem er nokkuð hærra en farþegarýmið. Annað af þessum hólfum kemur til með að innihalda aukarafgeymi til að keyra ljósin og ískápinn/kæliboxið þegar vélin er ekki í gangi. Hitt mun verða fyrir alls konar búnað, s.s. verkfæri, neyðarþríhyrninginn, skyndihjálparkassann og tjakkinn (sem hangir núna innan á einni hlið flutningsrýmisins, en verður að víkja fyrir innréttingunni).
Fyrir ofan farþegarýmið er lág hilla, jafn breið og bíllinn að innan, og djúp. Þarna má, eins og ég orðaði það við pabba, vel týna nokkrum bókum og landakortum.
Þetta er líka sniðugt undir t.d. sundföt, handklæði og snyrtivörur og annað lítillegt sem maður þarf að grípa til í skyndingu en vill ekki láta skrölta laust í bílnum. Hillunni hallar niður, þannig það þarf að vera ansi hreint brött brekka til að það renni eitthvað út úr henni.
Flutningsrýmið er 225 cm langt og 145 cm breitt, mælt neðarlega (reyndar bara 117 cm á milli hjólskálanna, en þær falla inn í rúmbekkinn og innréttinguna og skipta því ekki máli í útreikningnum). Mesta breidd er um 155 cm. Hæðin er ekki nema 113 cm, þannig að þeir einu sem geta staðið þar uppréttir eru börn og mjög lágvaxið fullorðið fólk. Þetta verður helst bögg þegar maður er að klæða sig í og úr eða þrífa með tilþrifum. Það er vel hægt að sitja við að elda og við ætlum að gera vinnuvistfræðilega úttekt á því hver hæðin á innréttingunnu þarf að vera miðað við bekkinn/rúmið, þannig að ég fái ekki í bakið við eldamennsku eða skrif þegar ég sit á rúmbekknum. Ég geri líka ráð fyrir að geta opnað aftirhurðina og jafnvel staðið úti við að elda, því það getur verið vandamál með matarlykt í svona litlu rými, ekki síst ef fólki finnst gott beikon (eins og mér).
Skynsamleg hæð á bekknum + dýnunni er auðvitað þannig að ég geti haft iljarnar á gólfinu þegar ég sit (ca. 45 cm), en reyndar væri ég til í að hafa bekkinn titlölulega háan til að auka geymsluplássið undir honum og nota skemil til að tylla fótunum á. Geymslan undir bekknum verður aðgengileg þannig að hægt verður að lyfta rúmbotninum upp og það verður sérstakt hólf fyrir klósettið, sem verður útdraganlegt.
Sá helmingurinn af bekknum sem liggur út að hliðarhurðinni verður þar að auki aðgengilegur utan frá og klósettið fer í þann endann til að ég geti tekið úr því tankinn utan frá (höfðalagið er í hinum endanum). Ég geri ráð fyrir að líka verði hægt að komast í hinn endann um afturhurðina.
Við komumst að þeirri niðurstöðu að rúmið þyrfti að lágmarki vera 70 cm breitt, og svo verður það 2 metra langt. 190 cm mundu duga mér, en pabbi vill hafa það 2 metra ef til þess kæmi í framtíðinni að bíllinn yrði seldur. Rúmið mun nema við afturhurðina og því verður pláss fyrir t.d. mjóan kassa á milli rúmendans og stólbaksins fram í.
Ég er líka að hugsa um að sauma hengivasa til að setja aftan á sætin. Þar má t.d. geyma landakort, snakk/nammi, og fleira smálegt aftan á farþegasætinu þar sem hægt er að seilast í það úr bílstjórasætinu, og vasa aftan á bílstjórasætið undir ýmislegt sem maður þarf að geta gripið til úr vistarverunni, t.d. bækur, lestölvu og annað smálegt. Það mætti meira að segja hugsa sér að vasinn fyrir farþegasætið yrði þannig að það yrðu vasar bæði framan og aftan á sætinu.
Þetta eru hins vegar bara pælingar, og þetta getur allt breyst.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 12. nóvember 2014
Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 5. hluti
Á mánudaginn fór ég eftir vinnu og náði í meira Reflectix og ók síðan í Kópavoginn. Þar beið pabbi og var búinn að kaupa meira masónít og saga út þær tvær panelplötur sem vantaði. Þær eru því tilbúnar, en fara ekki upp fyrr en búið er að fóðra með teppi og ganga frá þeim á annan hátt (þ.e. bólstra plöturnar rúmmegin og mála eða yfirdekkja hinar).
Hér er ein af plötunum sem voru í bílnum, ásamt tilsniðinni einangrun:
Við drifum síðan í því að klára að einangra undir plöturnar sem voru í bílnum, þ.e. í loftinu, hliðarhurðunum og afturhurðunum.
Svona lítur stærri afturhurðin út þegar búið er að taka af henni panelinn:
Fremri hlutann af loftinu höfðum við klárað á laugardeginum. Við tókum plöturnar niður og sniðum Reflectixið eftir þeim. Pabbi hafði ekki bara lagt einangrun undir fremri loftplötuna, heldur tróð hann líka einangrunarefni undir loftklæðninguna yfir farþegarýminu, eins langt og hann kom því.
Næsta verk á dagskrá er að smíða rúmið. Ætlunin er að fella það alveg inn á sinn stað og taka það síðan niður til að hægt sé að setja einangrunarteppið á veggina. Ætli við förum ekki í Bauhaus eftir vinnu í dag til að kaupa efnið í rúmið, og sennilega í innréttinguna líka.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2014
Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 4. hluti
Á laugardaginn settum við einangrunina í gólfið í bílnum og pabbi skrúfaði niður gólfplötuna, og síðan fór talsverður tími í að búa til mát fyrir panelplöturnar sem eiga að fara í gluggahólfin í hliðunum.
Mátin eru gerð þannig að fyrst er sléttaður kraftpappír yfir það sem á að sníða eftir og merkt við útlínurnar með blýanti. Síðan er mátið klippt út eftir blýantslínunum. Af því að pappírinn var erfiður viðureignar og krullaðist alltaf upp eða gekk í bylgjum ákváðum við að búa til endanlegt mát úr kartoni. Við límdum kraftpappírmátið ofan á stykki af kassakartoni og klipptum nýtt, stíft mát úr því. Síðan var farið með það í bílinn og klárað að sníða það nákvæmlega. Loks lögðum við það ofan á masonítplötuna og tókum útlínur af því, og pabbi sagaði síðan út panelinn með stingsög. Við endurtókum svo leikinn með minni plötuna.
Við náðum tveimur panelplötum, einni stórri og einni lítilli, út úr gömlu masónít-skápsbaki sem ég hélt eftir þegar skápurinn fór í endurvinnslu. Hinar tvær plöturnar verða sniðnar eftir hinum plötunum, úr nýrri masónítplötu og restin af henni nýtist eflaust í eitthvað annað. Þegar skrúfugötin eru komin í plöturnar sem verða við rúmið tek ég þær með mér heim til að bólstra þær, því ég kem til með að liggja upp við þær þegar ég sef og vil þess vegna hafa þær mjúkar.
Við erum ekkert að hamast við þetta, tökum það með rónni og vöndum okkur frekar. Ég vonast nú samt til þess að við verðum búin að klæða flutningsrýmið að innan fyrir jól.
Þegar ég segi við á ég auðvitað við pabba. Hann stjórnar ferðinni og er bæði arkitekt og smiður í þessu verki.
Ég er hins vegar aðstoðarhönnuður og handlangari. Mamma er í klappliðinu og sér um veitingar.
Ferðalög | Breytt 12.11.2014 kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 10. nóvember 2014
Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 3. hluti
Pabbi var orðinn það hress á föstudaginn að við gátum byrjað aftur að vinna í bílnum. Ég flýtti mér til hans úr vinnunni og við tókum til við verkið. Það var hrollkalt þegar við byrjuðum, enda hálfgert rok úti, en eftir því sem leið að kvöldi lygndi og hlýnaði.
Pabbi hafði ákveðið að það væri best að sníða rúmbotninn að hliðinni í bílnum áður en við klæddum bílinn að innan, og það var því verkefni dagsins, ásamt því að einangra undir aftari panelplöturnar sem eru í hliðunum og draga í fyrir rafmagni.
Hönnunin á rúminu þarf að vera þannig að plássið undir því verði sem aðgengilegast, því það verður geymslupláss. Eitt af því sem er gert til þess er að gera geymsluplássið sem aðgengilegast er að hafa rúmplötuna opnanlega, þannig að rúmbekkurinn verður líka kista. Geymslan verður líka aðgengileg um hliðarhurðina og afturhurðina.
Af því að ég kem sennilega til með að kaupa mér svampdýnu í rúmið, og þær eru þungar, ákvað pabbi að hanna rúmið þannig að í stað þess að festa botninn alveg upp við hliðina á bílnum, þá mundi rúmbotninn vera tvískiptur: með ca. 20 cm fastri plötu næst veggnum og við hana mundi restin af rúmbotninum festast með hjörum. Með þessu fyrirkomulagi myndast pláss sem dýnan getur hálf-staðið á þegar bekkurinn er opnaður, í stað þess að hún ýtist alveg upp að veggnum og maður þurfi að berjast við hana þegar lokinu er lyft. Af því að dýnan kemur ekki til með að geta staðið upp á rönd vegna lágrar lofthæðar, þá gerum við líka ráð fyrr einhverju til að halda við rúmbotninn þegar bekkurinn er opnaður, annað hvort priki undir botninn eða bandi upp í loft.
Þegar platan liggur niður verður henni haldið uppi af grind með 3-4 hólfum. Festingarnar fyrir hólfin verða líka fætur fyrir rúmið og styrkja það og halda uppi botninum. Ég er að hugsa um að lakka hliðarnar á rúminu eldrauðar, en það er framtíðarpæling og vel hugsanlegt að ég skipti um skoðun áður en að því kemur.
Það var mjóa platan sem við sniðum að hliðinni í bílnum. Hinn hlutinn verður bara einföld ferköntuð plata með lista á þeim endanum sem snýr að bílstjórasætinu, til að dýnan renni ekki aftan á sætið á leið niður brekkur eða skelli á því ef maður þarf að bremsa harkalega.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 9. nóvember 2014
Pakklistapæling fyrir húsbílaferðalag
Ég er talsvert ferðavön og hef í mörg ár verið að þróa pakklista sem styttist með hverju ferðalagi (sjá meira um hann hér). Eins skrítið og það nú er, þá hef ég yfirleitt tekið minna með mér eftir því sem ferðalagið er lengra, en það stafar reyndar af því að maður ferðast með allt öðru viðhorfi þegar ferðalagið er langt. T.d. þykir mér leiðinlegt að þurfa að standa í þvottum á fatnaði í stuttum ferðum, en þykir það sjálfsagt mál á lengri ferðalögum.
Nú þarf ég að hugsa pakklistann alveg upp á nýtt. Það má nefnilega segja að húsbíll sé nokkurs konar ferðataska, og reyndar er ein merkingin á orðinu caddy "ílát til að geyma hluti þegar þeir eru ekki í notkun", sem getur vel átt við ferðatösku. (Aðrar merkingar eru "tedós" og "kylfusveinn". Ég ímynda mér að það hafi verið fyrsta merkingin sem Þjóðverjarnir höfu í huga þegar nafnið var ákveðið).
En þó að bíllinn manns sé ferðataska í yfirstærð, þá þýðir það hins vegar ekki að maður geti nú tekið eldhúsvaskinn, þvottavélina og stofusófann með sér. Þetta þarf að íhuga vel.
Meira um það síðar.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. nóvember 2014
Af hverju húsbíll en ekki tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi?
Spurning: Er það ekki ódýrara fyrir einhleyping?
Svar: Kannski, en:
Sko, ég hef verið spurð hvort ég vilji ekki bara fá mér tjaldvagn eða fellihýsi, frekar en að vera að fá mér húsbíl. Auðvitað gæti ég það, en málið er að kaup á tjaldvagni eða fellihýsi hefðu kallað á að auk tengivagnsins þyrfti ég annað hvort að kaupa mér nýjan bíl með dráttarkrók eða láta setja dráttarbeisli á þann gamla. Ég hef ekki hugmynd um hvað blessaður gamli bíllinn minn (árgerð 2001) kemur til með að endast lengi, þó að hann sigli alltaf í gegnum bifreiðaskoðun því sem næst athugasemdalaust, og því fannst mér ekki borga sig að láta setja á hann dráttarbeisli. Svo er það eina sem mér finnst tjaldvagn hafa fram yfir tjald vera að maður sefur ekki á jörðinni og það er heldur rúmbetra í kringum mann, en maður þarf samt að fara út á nóttunni til að komast á klósett, eða þá að drösla því með sér í bílnum og bera það inn í fortjaldið í hvert sinn sem maður tjaldar.
Hvað fellihýsin varðar eru þau yfirleitt of stór fyrir einn. Ég þarf bara einbreitt svefnpláss, einfalda eldunaraðstöðu og pláss fyrir ferðaklósett, ekki partítjald og svefnaðstöðu fyrir tvo fullorðna, fjögur börn og hund. Þau eru eflaust til lítil, en So What? Sannleikurinn er sá að mig langar bara ekki í tjaldvagn eða fellihýsi.
Af því bara. Svo eru þau alveg jafn leiðinlega rök í rigningu og tjöld og tjaldvagnar.
Hjólhýsi er annað mál.
Ég væri alveg til í svoleiðis, hefði líklega fengið mér lítið A-hýsi, en stærsti ókosturinn við hjólhýsi er sá sami og við stóran húsbíl, fellihýsi og tjaldvagn: það þarf að geyma þetta þegar maður er ekki að nota það. Ég á ekki bílskúr og upphituð geymsla er það eina sem kemur til greina ef maður vill að þetta endist. Það kostar peninga og þó ég telji mig ekki níska finnst mér kostnaður við slíkt of hár.
Nei, húsbíll er það heillin, og það lítill, fjölnota húsbíll. Í staðinn fyrir að setja tækið í aðkeypta geymslu yfir veturinn verður nóg fyrir mig að draga dýnuna úr rúminu inn í geymslu hjá mér ásamt vatnsbrúsanum, klósettinu og öðru smálegu sem bílnum fylgir og nota hann síðan sem heimilisbíl yfir veturinn. Það er ekkert verra að geta sest niður og hitað sér kakó eða súpu í bílnum ef manni dettur í hug að fara í stutta vetrarferð.
Svo er ég líka ein af þeim sem flokka heimilissorpið með tilliti til endurvinnslu, og hvílíkur lúxus verður það ekki að geta hent poka af flöskum, pappír eða plastdrasli aftur í bílinn þar sem enginn sér það, í staðinn fyrir að geyma þetta inni hjá sér þar til maður nennir að fara í Sorpu og á meðan lítur íbúðin út eins og ruslahaugur. Ef maður safnar þessu í bílinn þarf maður ekki að gera sér ferð í Sorpu með draslið, því maður getur einfaldlega dottið þar inn á leiðinni annað. T.d. er tilvalið fyrir mig að fara í Sorpustöðina við Dalveginn á leiðinni til mömmu og pabba.
--
Ljósmyndin: "Holiday Time". Ljósmyndari: Simon Howden. Fegnin á freedigitalphotos.net.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. nóvember 2014
Vetrarútilega
Ég var að átta mig á því að það eina sem aftrar mér frá því að henda sængurfötum og vindsæng aftur í bílinn og prófa að fara í ferð með næturgistingu er að hann er á sumardekkjum. Ég er nefnilega handviss um að ef ég gerði það, þá mundi snjóa um nóttina eða rigna og síðan frjósa og ég mundi sitja spólandi einhvers staðar í hálku vegna dekkjanna.
Það væri einhvern veginn ekki eins mikil upplifun að sofa í bílnum í fyrsta skipti úti á bílastæði hjá foreldrum mínum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 31. október 2014
Útileguhremmingar
Ég minntist á það um daginn að ég er hætt að vilja sofa í tjaldi. Ástæðurnar eru ýmsar.
Það er ekki að ég sé ekki tjaldvön: Þegar ég var barn og unglingur ferðaðist fjölskyldan mikið og þá var nánast alltaf sofið í tjaldi og það var alltaf skemmtilegt, ekki síst þegar rigndi. Það var svo gaman að liggja í hlýjum svefnpokanum og hlusta á regndropana smella á tjaldhimininn, þó það værri reyndar minna gaman þegar það flæddi inn í tjaldið og maður vaknaði ofan í polli, blautur inn að skinni og kaldur inn að beini. Það gerðist sem betur fer ekki oft, enda kunnum við að velja tjaldinu stað.
Þetta hefur eflaust gert það að verkum að síðar meir kallaði ég ekki allt ömmu mína þegar kom að því að velja gistingu á ferðalögum mínum um fjarlæg lönd. En maður breytist og smám saman, eftir því sem ég eltist og varð vanafastari samhliða því að fjárhagurinn styrktist, fór ég að sækja í betri gistingu og vandist því að hafa það þægilegra.
Sumarið 2009 fékk ég lánað tjald og ók hringveginn. Þá hafði ég ekki sofið í tjaldi í ca. 19 ár. Eftir fyrstu nóttina var komið á hreint að þetta var ekki fyrir mig, þó að ég léti mig reyndar hafa það tvær nætur til viðbótar í ferðinni. Að einhverju leiti var þetta búnaðinum að kenna, en aðallega samt öðru.
Tjaldið var hefðbundið, gamaldags tjald, sem sagt ekki kúla heldur þak, en það var ekkert mál fyrir einn að tjalda því, það var svo lítið. Ég var með þægilega vindsæng, þannig að það var ekki hart undir mér, en þriggja árstíða svefnpokinn sem ég fékk lánaðan með tjaldinu var þannig gerður að hann hélt bara á manni hita ef maður fór alveg ofan í hann og dró fyrir hann þannig að nefið eitt stóð út úr. Sem betur fer er ég ekki með innilokunarkennd, en þegar maður er vanur að sofa í krossfisksstellingunni er þetta ansi þröngt. Mig hafði aldrei langað neitt sérstaklega að vita hvernig það er að vera rúllupylsa, en þarna fékk ég sem sagt góða hugmynd um það.
Í ofanálag var pokinn úr efni sem var slétt og glansandi og hafði fyrir bragðið ekkert grip. Þetta gerði það að verkum að þegar upp á vindsængina var komið var ég eins og belja á svelli, eða öllu heldur ormur, því ekki hafði ég hendurnar til að bera fyrir mig. Pokinn rann til við minnstu hreyfingu og af því að ég þurfti að hafa handleggina ofan í honum til að það héldist á mér hiti var ómögulegt að halda mér á vindsænginni. Um leið og ég hélt að ég væri búin að koma mér almennilega fyrir rann ég af stað og lenti á maganum við hliðina á vindsænginni. Eftir mikið ið og blótsyrði tókst mér að komast á réttan kjöl og renna niður rennilásnum til að koma fyrir mig höndunum og toga mig upp á vindsængina.
Þetta endurtók sig a.m.k. tvisvar.
Þarna hefði venjuleg þunn tjalddýna bjargað miklu.
Verst var samt að ég á við það vandamál að stríða að geta ekki sofið heila nótt án þess að fara að minnsta kosti tvisvar á fætur til að míga. Þetta kann að hljóma sem lítilfjörlegt vandamál, en það verður frekar stórt þegar litið er til eftirfarandi:
Nætur eru almennt svalar eða jafnvel kaldar á Íslandi líka á sumrin og það að renna upp svefnpokanum, klæða sig liggjandi, brölta á fætur og tölta á óupphitað tjaldstæðisklósett til að pissa, tölta til baka, hátta sig og renna sér aftur ofan í svefnpokann - sem er þá orðinn skítkaldur - er til þess gert að maður sefur ekki meira þá nóttina. Tilraunir til að forðast þetta pisseríisástand með því að drekka ekkert eftir kvöldmatinn verða bara til þess að ég vakna í staðinn um þrjúleitið með ægilegan munnþurrk. Þessa tilteknu nótt var pisseríið sérlega slæmt og ég þurfti að fara á fætur á miðnætti, aftur um klukkan tvö og enn aftur um klukkan fimm, og með öllu þessu brölti og kulda varð lítið um svefn. Þarna fylltist ég öfund út í karlmenn, sem geta bara migið í flösku ofan í svefnpokanum, hent henni út í horn og farið aftur að sofa.
Það var heldur guggin og pirruð kona sem skreið út úr tjaldinu um morguninn og horfði illum augum á glaðhlakkalegan þröst uppi í nálægu tré sem hafði með háværum og eflaust dillandi söng sínum vakið hana upp af fyrsta almennilega lúrnum sem hún fékk um nóttina. Það bætti ekki úr skák að gashylkið í prímusnum reyndist næstum tómt og þegar einn bolli af vatni var varla farinn að volgna eftir korter yfir vesældarlegum bláum loganum þá gafst ég upp, tók búnaðinn saman og fann sjoppu til að fá mér morgunmat.
Ég svaf síðan sitjandi í bílnum daginn eftir þegar svefnleysið fór að taka í. Þennan dag rigndi svo mikið að ég keypti mér gistingu og náði þannig að hvílast nógu mikið til að geta haldið ferðinni áfram, en þriðja nóttin (önnur tjaldnóttin) var jafn slæm og sú fyrsta, þó það væri heldur hlýrra úti og styttra á klósettið. Fjórða kvöldið flúði ég tjaldstæðið á Eskifirði og fékk inni á gistiheimili í ausandi rigningu, þannig að aftur fékk ég hvíld frá tjaldinu, en eftir fimmtu nóttina, sem var þriðja tjaldnóttin, tóku þau sig saman blaðran í mér, miðnætursólin og þrastakór Norðurlands eystra um að halda fyrir mér vöku. Þá ákvað ég að nóg væri komið. Ég ók á einum degi frá Ásbyrgi til Skagastrandar, þar sem ég átti vísa gistingu, og þaðan í bæinn daginn eftir. Þegar heim kom skilaði ég tjaldinu og svefnpokanum og sagði ekki meir!
Þessi tjaldfælni hamlar manni auðvitað töluvert á ferðalögum innanlands. Ef mann langar að fara eitthvað lengra en dagsferð þarf að finna sér gistingu og þar sem ég er gjörn á að fara eftir veðri og leggja af stað með korters fyrirvara get ég ekki pantað gistingu með þeim fyrirvara sem þarf til að fá eitthvað ódýrt (ég þarf ekki mikið: bara rúm í hlýju herbergi og aðgang að inniklósetti).
Sem betur fer alls staðar á Íslandi hægt að finna skemmtilega og fallega staði til að skoða og það er hægt að ferðast töluvert langt og komast samt heim aftur á einum degi. Sem dæmi um dagsferðir frá Reykjavík má nefna hringinn á Snæfellsnesinu, Gullna hringinn, Suðurstrandarhringinn, Þórsmörk (fyrir þá sem eiga jeppa), að Skógum og til baka, eða þá hringinn eftir Kaldadal uppfrá Þingvöllum og niður í Borgarfjörð hjá Húsafelli, nú eða úr Lundarreykjardal upp á Uxahryggi og Kaldadal niður á Þingvelli og þaðan í bæinn. Þetta er ég allt búin að gera síðustu tvö sumur og nú er mig farið að langa til að fara í lengri ferðir. Húsbíllinn bjargar því.
Ég er þegar farin að skipuleggja ferðalög næsta sumar, bæði lengri og styttri. Til dæmis hefði ég ekkert á móti því að taka Snæfellsnesið í rólegheitunum á tveimur eða jafnvel þremur dögum, eða þá að skreppa austur á Jökulsárlón án þess að hafa áhyggjur af því að lenda einhvers staðar utan vegar í bakaleiðinni vegna syfju.
Svo er það auðvitað hringurinn plús Vestfirðirnir. Held ég láti Norðurlöndin og Þýskaland bíða til þarnæsta sumars, þegar reynsla verður komin á bílinn og fjárhagurinn eftir framkvæmdirnar er kominn í lag.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. október 2014
Tryggingar
Áður en ég fór til að sækja kerruna fór ég inn á vefsíðu tryggingafélagsins til að athuga hvort búið væri að tryggja bílinn. Bílasölur sjá yfirleitt um slíkt, en ég vildi vera viss um að kaskótryggingin hefði ekki gleymst.
Mitt einkasvæði á vefsíðunni opnaðist og það var sjokk: ábyrgðartryggingin hljóðaði upp á tæpar 200 þúsund krónur, og kaskóið rétt tæp 100 þúsund. Ég var í hálfgerðri andnauð þegar ég hringdi í tryggingafélagið, því ég hafði fengið allt aðrar og viðkunnanlegri upphæðir uppgefnar nokkrum dögum áður.
Í ljós kom að þeir hjá Heklu höfðu sent upplýsingar um að þetta ætti að vera atvinnubíll - enda eru VW Caddyarnir seldir sem slíkir - þó að þeir vissu reyndar að þetta átti að verða einkabíll. Þegar sá misskilningur hafði verið leiðréttur lækkuðu upphæðirnar niður í viðunandi tölur og andardrátturinn léttist: ábyrgðartryggingin er bara rúmlega 95 þúsund og kaskóið rúmlega 40 þúsund.
Ég var búin að taka gamla bílinn úr kaskó, þannig að róðurinn verður ekkert allt of þungur að tryggja tvo bíla, og í vor verður ástandið vonandi orðið þannig að ég get látið hinn bílinn fara. Það verður eiginlega að gerast, því sumardekkin á Toyotunni eru orðin frekar slitin og það þarf sennilega að kaupa ný í vor. Það er reikningur upp á lágmark 80 þúsund og dreifist ekki yfir árið eins og tryggingarnar. Ég vil helst sleppa við að kaupa ný dekk undir bíl sem ég eru um það bil að fara að selja.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar