Hugleiðingar um farangur

Annað sem þarf að huga að þegar halda á í ferðalag er farangurinn.

Ég hef stundum grínast með það að það eina sem ég þurfi raunverulega að taka með  mér í helgarferð til New York sé vegabréfið mitt, veskið og fötin sem ég stend í. Ástæðan er ekki sú að veskið mitt sé eins og taskan hennar Mary Poppins sem inniheldur allar lífsins nauðsynjar, heldur sú að það inniheldur nokkuð sem er bráðnauðsynlegt til að maður geti yfirleitt ferðast, nefnilega seðlaveskið mitt og í því kreditkortið. Með því er hægt að kaupa allt annað sem mann vantar á staðnum: föt, hreinlætisvörur, afþreyingu, o.s.frv.

Að því sögðu þá hef ég stundum velt því fyrir mér hvort ég ætti að prófa að gera þetta í alvörunni, bara til að sjá hvernig mér gengur að bjarga mér, en tilhugsunin um að eyða kannski heilum degi í að kaupa inn nauðsynjar þegar ég hef bara tvo daga til að skemmta mér setur að mér hroll. Ég er alveg jafn kaupglöð og hver önnur íslensk kona, en hver vill standa í því að leita að sokkum og sjampói þegar maður getur verið að gramsa á flóamörkuðum eftir bókum, tískuvörum eða skartgripum, eða þá að kanna söfn, lystigarða eða kaffihús? Ekki ég.

 Ég hef líka tekið eftir því að því styttri sem ferðin er, því meiri verður farangurinn. Ef ég ætla í ferðalag sem á að standa í 2 daga til viku þá pakka ég meira dóti niður en fyrir ferð sem á að standa í 10 daga til 3 vikur, og fyrir lengri ferð þarf ég enn minna. Ástæðan er sú að í styttri ferð hef ég minni tíma til að njóta lífsins en á lengri ferð og því tek ég með mér meiri föt til að þurfa ekki að standa í þvottum.  Í meðalreisu – þessu dæmigerða sumarfríi erlendis sem stendur í 1 til 3 vikur – tek ég með minna af fötum og skil eftir mikið af ónauðsynlegu en þægindaaukandi dóti sem ég mundi taka með í styttri ferð, eins og t.d. hárþurrku, fartölvuna og eina bók fyrir hverja 2 daga sem ferðin stendur. Í enn lengri ferð tek ég nánast bara með mér nauðsynjar og geri ráð fyrir að taka frá tíma til að þvo af mér föt og kaupa inn ódýrari nauðsynjar. Í langferðalag tek ég mjög lítið sem ekki er nauðsynlegt, en ég skilgreini auðvitað myndavélina mína, dagbókina og mp3-spilarann sem nauðsynjar. Ef ég er að fara til fátækari landa, þá tek ég með mér smádót sem hentar til gjafa handa fólki sem reynist mér hjálplegt og neitar að taka við peningum fyrir veitta hjálp eða greiða. Merktir pennar, póstkort og klink frá heimalandinu hefur allt reynst vinsælt til slíks og tekur lítið pláss.

 Að sjálfsögðu ræðst svo farangursmagnið líka af því um hvers konar ferðalag er að ræða. Það liggur í hlutarins eðli að maður tekur með sér meiri farangur í hótelferð en í bílferð, og meira í bílferð en í rútuferð, og meira í rútuferð en í hjóla- eða gönguferð.

 Síðast þegar ég fór í ferðalag sem ekki var annað hvort hótelferð eða farin á einkabíl eða bílaleigubíl var hluti af áðurnefndri Asíuferð fyrir 13 árum síðan. Ég var að vísu með helling af farangri með mér í húsbílnum, en í þær sex vikur sem ég ferðaðist um Indland og Nepal á eigin vegum áður en ég hitti hina úr hópnum aftur fyrir heimförina, þá dugði mér ein mjúk taska, c.a. í handfarangursstærð, og stórt veski. Saman innihéldu þessar töskur tvo umganga af fötum og þrjá af nærfötum, myndavél og aukalinsu, dagbókina mína, leiðsögubók og eina bók til aflestrar, auk smánauðsynja eins og sjampó, handsápu, tannkrem og –bursta, OG ég hafði pláss fyrir minjagripi. Þegar taska fylltist eða ég var komin með bækur sem ég hafði lesið og vildi eiga, þá var farið á pósthúsið og dótið sett í póst heim (það skilaði sér heim nokkrum mánuðum á eftir mér). Mér fannst ég aldrei vera með of lítið af farangri, en velti stundum fyrir mér hvort ég gæti losað mig við eitthvað.

 Ég kalla þetta „öfugu farangursregluna“.

Nú þegar ég er að fara aftur til Asíu ætla ég að reyna að halda mig við þessa góðu reglu, en það gæti orðið erfitt, því ég er að fara á svo ólíka staði. Á öðrum þeirra er loftslagið í nóvember svipað og í Reykjavík í ágúst en getur orðið eins og hérna í nóvember, en á hinum er meðal-nóvember nokkuð hlýrri en hlýjasti meðal-mánuður í Reykjavík og í besta falli getur hitastigið þar orðið hærra í nóvember en hefur nokkurn tímann mælst í nokkrum mánuði í Reykjavík. Auk þess er kalt á nóttunni á fyrrnefnda staðnum og hús almennt ekki með kyndingu í hverju herbergi. Þetta gæti orðið erfitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 32500

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband