Færsluflokkur: Ferðalög

Innkaup fyrir húsbílinn, eða nú er tími til að stilla sig aðeins...

Ég skrifaði um daginn um listana mína yfir það sem þarf eða er gott að hafa í húsbíl. Eftir að ég var búin að semja listann yfir eldhúsbúnað og merkja við eftir minni hvað var til fór ég í eldhússkápana mína og -skúffurnar og athugaði hvað ég átti meira til.

Í rauninni vantar mig engan eldhúsbúnað fyrir bílinn - þetta er allt til á heimilinu. Ég á meira að segja útilegueldunarsett (2 potta, pönnu og ketil) sem ég keypti fyrir hringferðina góðu. Ýmislegt af því sem ég á í eldhúsinu mínu heima hentar hins vegar ekki í húsbíl. Sumt af því er t.d. hreinlega helst til stórt, því í bílnum verður takmarkað geymslupláss.

Svo finnst mér að þó að mömmu hafi tekist að nota diska, skálar, glös og könnur úr postulíni, leir og gleri án þess að neitt brotnaði á skrölti þeirra pabba á sínum húsbíl um holótta vegi landsins, þá henti mér betur að nota ílát úr plasti og/eða ryðfríu stáli.

Ég er nefnilega stundum svolítill klaufi.

Það koma tímabil þegar ég glopra öllu út úr höndunum á mér og brýt og bramla bæði innanstokksmuni og matarílát fyrir einskæra gleymsku og hugsunarleysi og ef slíkt tímabil félli saman við húsbílaferðalag gæti það orðið til þess að ég gleymdi að loka skáp og allt mundi hrynja út og brotna þegar ég æki af stað. (Engar áhyggjur: þetta ástand hefur ekki áhrif á aksturslagið hjá mér. A.m.k. hef ég engan drepið og er sjálf enn í fullu fjöri).

Þess vegna ákvað ég að nota stál og plast eins mikið og ég get.

Ég gramsaði í eldhússkápunum og dró fram stálbakka og tvö stálglös sem ég keypti á sínum tíma úti á Indlandi og hef ekki notað mikið. Einnig fann ég löngu gleymda tekönnu úr melamíni og góðan plastdisk og einhvers staðar á ég að eiga súpuskál í stíl, ef ég bara gæti fundið hana. Þetta fór ofan í kassa, kyrfilega merktan húsbílnum, ásamt hitakönnu fyrir kaffi frá einni af bensínstöðvakeðjunum sem mér var gefin en hef aldrei notað.

Svo á ég helling af alls konar skrautlegum og skemmtilegum dósum og dollum sem koma nú til með að nýtast undir hitt og þetta í bílinn, t.d. tedósir sem ég tímdi ekki að henda þegar þær tæmdust og sem mætti lakka í fallegum litum og nota undir t.d. hrísgrjón, sykur, baunir og önnur þurr matvæli.  Ókosturinn við málminn er auðvitað að það glymur í honum, en það er einfalt mál að laga það með því að leggja servíettur (nú eða heklaðar dúllur, sem ég á nóg af) á milli hluta svo að þeir skelli ekki saman.

Tedósirnar eru einstaklega vel til þess fallnar að nota þar sem er lítið pláss til að moða úr, því þær eru kassalaga og falla þétt saman og nýta plássið mun betur en sívalningar. Ég er nú samt að hugsa um að safna saman nokkrum Pringles-dósum til að nota undir t.d. plastpoka, þvottaduft og klemmur og annað smálegt sem ekki er matarkyns.

Síðan rakst mín inn í Góða hirðinn og fann þar salatskál, matardisk og nokkrar minni skálar, allt úr ryðfríu stáli, sem mér fannst fyrirtak að fá mér, sumt í húsbílinn og annað í eldhúsið, því ég er smám saman að skipta út plastdollum (og tilteknum glerílátum) fyrir stál heima hjá mér, því það er auðveldara að halda stálinu fallegu (og svo brotnar það ekki ef maður missir það á gólfið). Plastið rispast auðveldlega og glerið verður smám saman matt af kíslinum í vatninu hérna og þó að það setjist líka kísill á stálið er miklu minna mál að ná honum af málmi en gleri. Áætlunin er sú að á endanum verði einu matarílátin úr plasti á heimilinu þau sem ég nota undir frystivörur. En þetta var útúrdúr.

Hjá Hirðinum góða fann ég líka svo til ónotaða litla handkvörn með tveimur stærðum af rifjárnum. Hún er fín til að rifa ost og gulrætur og annað matarkyns. Samt var ég næstum búin að kaupa lítið standandi rifjárn með fjórum hliðum (fínt, gróft, raspur og sneiðari) þegar ég skrap í Rúmfatalagerinn um daginn, en skynsemin náði yfirhöndinni og ég fór tómhent út.

Ég þurfti að stilla mig um að pakka niður í kassann góða gamalli kaffikönnu (ein af þessum blá-emaleruðu) sem ég hef upp á punt í eldhúsinu hjá mér, bara af því að það var svo spennandi að tína til dót í bílinn. Málið er að ég hef bara enga þörf fyrir að geta hellt upp á lítra af kaffi í einu. Það er mikið betra að nota lítinn hitabrúsa til að hella upp á kaffi í.

Það verður erfitt að forðast að kaupa og kaupa endalaust, en ég ætla að reyna, þar til reynsla kemst á þetta allt saman, að halda mig við að kaupa það sem vantar í alvörunni, láta hitt bíða og bera í millitíðinni það sem ég á til á milli bílsins og eldhússins. Þetta er reyndar allt tiltölulega ódýrt, þannig að ég get alltaf skroppið í búð og keypt það sem vantar þegar ég uppgötva þörfina fyrir það. Það verður samt erfitt að koma inn í Góða hirðinn, Rúmfatalagerinn, Ikea og búsáhaldaverslanir án þess að kaupa eitthvað. Sem betur fer er ég dottin úr öllu sambandi við Tupperware-samfélagið. Það hefði getað orðið dýr pakki.

Reyndar ætlar mamma að líta yfir listana og athuga hvort hún er aflögufær með eitthvað, því þau pabbi eiga þrennt af sumu. Áður en þau fluttu alfarin í Kópavoginn héldu þau nefnilega um nokkurra ára skeið heimili í tveimur landshlutum, auk þess að vera með húsbíl, og því eru til aukaeintök af hinu og þessu. Sumt fékk bróðir minn þegar hann fór að búa, annað var gefið, en sumt er enn til.

Tiltekna hluti verður hins vegar léttir að losna við úr eldhúsinu. T.d. hefur mér verið gefið svo mikið af viskastykkjum í gegnum tíðina að ég held að ég hafi aldrei náð að nota þau öll.


Meira um lista

Hér er ég komin aftur, eftir frábæra en lýjandi helgi í London. Tel mig heppna með að hafa sloppið með geðheilsuna í lagi eftir tvo klukkutíma í jólaösinni á Oxford-stræti. Og þetta á bara eftir að versna eftir því sem líður á aðventuna. En snúum okkur að efninu:

Tilgangurinn með listunum sem ég skrifaði um á mánudaginn fyrir viku er að vita nokkuð nákvæmlega hvað ég á af því sem þarf í bílinn eða er gott að hafa í honum og hvað ég þarf að útvega mér. Mér finnst nefnilega að það sé betra að dreifa öllum kostnaði eins og hægt er og kaupa dýrari hluti eins og t.d. ferðaklósettið og dýnuna í rúmið ekki á sama tíma. Þannig get ég borgað sem mest beint út af launareikningnum mínum en þarf ekki að ganga óþarflega á spariféð. Ég er nefnilega að safna fyrir utanlandsferð með bílinn sem skal farin þegar reynsla er komin á hann, sennilega sumarið 2016 eða 2017, og ég geri fastlega ráð fyrir að sú reisa geti kostað á bilinu 2-300 þúsund krónur þegar allt er tekið saman, ca. 100 þúsund í fargjöld með Norrænu og restin í ferða-, matar- og gistikostnað (það kostar nefnilega að leggja húsbíl á lokuðu svæði). Önnur innkaup gætu svo bæst við.

Ég byrjaði á að semja eigin lista og skoðaði síðan þá sem eru taldir upp hérna að neðan og pikkaði út af þeim það sem ég hafði gleymt eða ekki dottið í hug.

Þessir listar eru sýnilega ætlaðir fyrir stærri bíla, t.d. eru hlutir á sumum þeirra sem benda til þess að bílar höfundanna séu búnir alls konar tækjum sem vantar í minn bíl, svo sem  bakarofnum, örbylgjuofnum, frystum og stórum ískápum, svo ekki sé minnst á umtalsvert meira geymslupláss. Þeir hentuðu mér því ekki í heild sinni, en henta kannski betur en minn listi fyrir þá sem eiga stóra húsbíla þar sem slíkur búnaður kemst fyrir.

Hér eru listarnir (allir á ensku):

Our tour. Þetta eru nokkrir listar - ég fór bara í þann hluta sem við átti. Hérna er listi yfir alla listana sem þau bjóða upp á.

 Ég notaði nokkra af listunum hérna undir yfirskriftinni Supplies RVers Generally Like To Have On-Board At All Times.

Svo fann ég þennan, sem var mjög gagnlegur.

 Ég ætla ekki að birta mína lista fyrr en mér finnst þeir vera nálægt því að vera fullbúnir. Hugsa að ég setji þá á Google Drive þannig að hægt verði að skoða þá út frá ýmsum forsendum og prenta þá út sem tékklista.

 


Nýjustu pælingar um innréttinguna í bílinn

Fyrsta hugmyndin um innréttinguna var með borðplötu sem náði yfir hana alla og þá var gert ráð fyrir að það yrði keyptur ísskápur. Nú er búið að stytta borðplötuna sem nemur tæpri lengdinni á kæliboxinu, því það er jú með loki sem opnast upp. Það þýðir að ef keyptur verður eldavaskur verður afar takmarkað borðpláss eftir, jafnvel þó maður færi út í að kaupa einingu sem er lokað með glerplötu. Þessi stykki eru nefnilega frekar breið, enda ætluð í plássmeiri bíla.

Nýjasta hugmyndin er því sú að fella vask niður í borðið og vera með lausa eldunareiningu í skúffu, eitthvað í líkingu við þetta, nema undir vaskinum.

Þetta er eldunareiningin sem mig langar í:

cooker.jpg

Því miður er hún of stórfrown

Að hafa eldunareininguna í skúffu mundi lækka hana, sem þýðir að það yrði auðvelt að standa úti við að elda, og líka þyrfti  maður ekki að standa bograndi yfir pottunum inni í bílnum ef maður vill kíkja ofan í þá, eins og hefði verið raunin með eldunarhellu(r) í borðinu. Ég ætla að skreppa í útivistarverslun í Lundúnaferðinni og kannski kem ég með eldunareiningu til baka. Kannski.

En nú fer ég í pásu fram yfir helgi. Mæti aftur á mánudaginn.

 


Ferðaminning

Ein fyrsta minningin sem er skýr í huga mér er frá ferð upp í Þórsmörk þegar ég var fjögurra eða fimm ára gömul. Við vorum á leið yfir Krossá og það sem ég man var að það var bíll fastur í hyl rétt neðan við vaðið yfir ána. Hann var brúnn og mér finnst þetta hafa verið Ford Bronco, þó að mamma fullyrði að þetta hafi verið Jeep Cherokee.

Hvað um það, bíllinn flaut í hylnum með afturendann einan upp úr og ég starði á hann og hugsaði með mér að ekki hefði ég viljað vera í honum þessum. Síðan heyrði ég eitthvað gutl og leit niður, og sá þá að það var ökkladjúpt vatn inni í bílnum, og ég dró undir mig fæturna og hnipraði mig saman í sætinu.

Ég man annars ekkert eftir heimsókninni sjálfri í Þórsmörk eða öðrum atriðum úr ferðalaginu. Svona getur minni manns verið skrítið.


Listar, listar, dásamlegu listar!

Ég er ein af þeim sem finnst gaman að búa til lista. Kannski er það af því að ég hef allta verið frekar óskipulögð.

Eitt dæmi um þessa listaáráttu mína eru pakklistarnir, sem ég hef skrifað um áður á þessu bloggi (hér, og hér). Um helgina settist ég niður og tók saman þrjá gátlista fyrir húsbílinn:

  • einn yfir búnað, þ.e. varanlega hluti sem verða í bílnum, flestir bara á ferðatímabilinu, s.s. eldunarbúnaður og dýnan í rúminu, en aðrir alltaf, s.s. verkfæri, landakort, startkaplar og sjúkrakassi;
  • einn yfir vörur, þ.e. endurnýjanlega hluti eins og eldspýtur, hreinlætisvörur og geymsluþolin matvæli, sem flestir mega vera í bílnum á ferðatímabilinu, plús hluti eins og varaöryggi, varaperur í ljós, WD40, lásaolíu og fleira smálegt sem er gott að eiga alltaf í bílnum;
  • og einn yfir það sem ég tek með mér að heiman þegar ég fer af stað í ferðalag á bílnum, s.s.  myndavélabúnað og ferskar matvörur.

Svo á ég auðvitað eftir að búa til gátlista fyir föt, einn fyrir styttri ferðir og annan fyrir lengri, sem og sundurliðun á innihaldi verkfærakassans og sjúkrakassans (ég á eftir að athuga hvað mér finnst vanta í sjúkrakoddann sem fylgdi bílnum). En það bíður til seinni tíma.

Þetta er kannski svolítið snemmt, en það er betra að vera við öllu búinn þegar að því kemur. Eru ekki einkunnarorð skátanna einmitt Ávallt viðbúinn? Þó ég hafi aldrei verið skáti finnst mér þetta vera frábær einkunnarorð.


Kælir í húsbílinn

Það hafa verið ýmsar hugmyndir á lofti um innréttinguna í bílinn. Þær hafa aðallega snúist um það hvernig kæli ætti að kaupa og hvernig eldunar- og uppvasksaðstaðan yrði. Stærwaeco.jpgðirnar á þessum búnaði eru nefnilega svo misjafnar.

Eins og ég sagði frá í gær er plássið fyrir kælinn svo til tilbúið. Og reyndar er ég búin að kaupa kæli. Fyrir valinu varð Waeco TC21, 21 lítra kæli- og hitabox sem er hægt að keyra á 12, 24 og 220V.

Það fer á hilluna sem ég ég birti mynd af í gær. Það á eftir að koma hlið í hilluna, og síðan þverslá að framan til að koma í veg fyrir að boxið renni fram úr henni þegar maður bremsar. Ég pantaði boxið á eBay og læt senda það á hótelið sem ég verð á í Bretlandi í helgarferðinni sem ég er að fara í. Kem síðan með það til baka sem farangur. Sparnaðurinn miðað við hvað þetta kostar hér borgar hótelgistinguna í þrjár nætur og gott betur.

Svo get ég notað kælinn heima á veturna, til að kæla gos, safa og vatn, því ég vil hafa svoleiðis lagað svo kalt að það er óhollt fyrir t.d. grænmeti að hafa ísskápinn nógu kaldan.

 


Að ferðast með öðrum, jákvæða hliðin

Sagt er að eitt besta próf sem hægt er að nota til að komast að því hvort samband við aðra manneskju sé traust sé að ferðast með viðkomandi. Ástæðan er auðvitað sú að ferðalög draga fram bæði það besta og það versta í fólki og leiða stundum í ljós persónuleikaþætti sem fólk jafnvel vissi ekki sjálft að það ætti til. Vináttusambönd hafa styrkst og hjónabönd rústast (og öfugt) í ferðalögum, og ef um verulega langt eða erfitt ferðalag var að ræða, þá verða þar oft til órjúfanleg bönd á milli fólks. Það hefur svo sem ekki reynt mikið á þetta hjá mér, en ég veit að ferðalög hafa breytt mér, og ég veit líka að uppáhalds ferðafélagar mínir eru fjölskyldan mín.

img_5267.jpgVið höfum ferðast saman frá því að ég var barn, og við förum ennþá saman í fjölskyldubíltúra um helgar, þó bróðir minn komi reyndar sjaldan með í þá núorðið því hann er oft að vinna um helgar og er þar að auki í nýliðaþjálfun hjá björgunarsveit.

Þegar við systkinin bjuggum ennþá heima og vorum í skóla fór fjölskyldan oft í tjaldferðalög saman. Við flæktumst út um allt Ísland og ég var t.d. búin að koma á flesta þéttbýlisstaði landsins fyrir tvítugt. Tvisvar fórum við öll saman í löng ferðalög til útlanda, tókum okkur far með Norrænu og höfðum með okkur bílinn og flæktumst út um alla norður- og mið-Evrópu. Ég man ekki eftir að það hafi nokkurn tímann verið leiðinlegt í þessum ferðum, jafnvel þegar við vorum á akstri svo klukkustundunum skipti. Við systkinin gátum unað okkur við að horfa á landslagið og hlusta á útvarpið eða spjalla við mömmu og pabba.

Það hjálpaði líka til að við mamma og bróðir minn eigum öll auðvelt með að sofa í bíl, og maður getur ekki látið sér leiðast á meðan maður sefur. Það var ekki oft að það kæmi upp ósætti, enda erum við öll frekar afslöppuð og auðveld í umgengni. Ég er þeirrar skoðunar að þessi ferðalög hafi þjappað okkur saman og gert okkur nánari sem fjölskyldu, og ég sakna þess að við erum hætt að fara saman í lengri ferðalög.

Nú er ég að fara í ferðalag eftir viku, með fimm öðrum stelpum. Þetta er reyndar bara löng helgarferð, en það verður gaman að vera saman og treysta vináttuböndin og eyða saman gæðastundum án truflana frá börnum, mökum og daglegu amstri. Ég reikna fyllilega með að við verðum ennþá betri vinkonur í lok ferðar.

 

 


Þessi húsbílaárátta mín er að komast á hættulegt stig...

Um daginn spurði mamma mig hvort bíllinn væri tengdasonur sinn.


Pælingar um innréttingu og geymslupláss í húsbílinn

Nú eru framkvæmdir hafnar við innréttinguna, sem er eiginlega bara skápur. Sökkullinn er sem sagt kominn upp:

Sökkullinn undir skápinn.

Skápurinn verður 80 cm hár og 160 cm langur. Borðplatan verður 40 cm djúp og skagar nokkra sentímetra fram fyrir skápinn, sem hvílir hvílir á 5 cm háum og 35 cm djúpum sökkli. Sökkullinn, sem er opinn - þ.e. það er ekki botn á milli hans og restarinnar af skápnum - er til að gefa aðeins meira tárými án þess að fórna of miklu geymsluplássi. (Eins skagar rúmbotninn um 10 cm fram fyrir hliðina á rúminu, til að hægt sé að sitja þar með fæturna aðeins undir sig). 

Innréttingin mun ná frá afturhurðinni og aðeins inn á hliðarhurðina farþegamegin. Það verður sennilega ekki borðplata alla leið - það er eiginlega ákveðið að það verði keypt kælibox sem mun hvíla í hólfi við endann á innréttingunni og af því að það opnast upp er betra að hafa ekki borðplötu yfir því, því mig langar ekkert að þurfa að draga það fram í hvert skipti sem ég vil komast í það.

Svo verða líklega tvær skúffur (a.m.k. keypti pabbi tvö pör af skúffuberum í gær) undir hnífapör, minni eldunaráhöldin og annað smálegt. Svo er ég með áætlun um að útbúa útdraganlega borðplötu til að nota við skriftir. Það er gert með því að setja lista beggja vegna innan á hliðarnar í annarri skúffunni og leggja þar niður lausa krossviðarplötu.

Plássið inni í innréttingunni kemur aðallega til með að verða fyrir kæli, gaskút, vatnbrúsa, skolvatnsbrúsa, hreinlætisvörur, eldunaráhöld og annan þægindaaukandi búnað sem skilur á milli húsbíls og útilegubíls.

Nema klósettið.

Það fer undir rúmið.

Ég vil nefnilega hafa það sem lengst frá staðnum þar sem ég útbý mat.

Þó ég komi til með að byrja með rafmagnskælibox hugsa ég að ég fái mér kannski ísskáp seinna. Innréttingin verður þannig hönnuð að það verður auðvelt að breyta henni fyrir t.d. ísskáp. Eins langar mig í sambyggðan vask og eldunarhellu með loki, en held ég byrji með vaskafat og litla útilegueldunarhellu sem tekur einnota gasbrúsa, nú eða þá prímus, en geri ráð fyrir að hægt verði að saga úr borðplötunni fyrir hinu.


Dýnan í rúmið

Eitt af því sem ég kem til með að þurfa að huga vel að með bílinn er að kaupa góða dýnu ofan á rúmbekkinn. Ég ekkert unglamb lengur og skrokkurinn á mér er ekki lengur þannig að ég geti sofið á hverju sem er. Þeir dagar þegar ég gat hreiðrað um mig ofan á fóðurbætispokum (í einu eftirminnilegu hestaferðalagi á Suðurlandi), sofið á þunnum tjalddýnum (ótal útilegur) eða á beru gólfi (æskuminning) eru liðnir, þó að enn geti ég sofnað hvenær sem er ef undirlagið er tiltölulega þægilegt og stöðugt og hávaðinn undir óþolsmörkum. Það er t.d. ekkert mál fyrir mig að sofna sitjandi í flugvél eða rútu eða bíl. En þetta var útúrdúr.

Dýnan er eitt það mikilvægasta sem ég mun koma til með að þurfa að fá mér í bílinn. Án hennar verður þetta bara rúntmaskína með klósetti og eldunaraðstöðu. Svampdýnur eru góðar til síns brúks, en ég er orðin vön að sofa á gormadýnum og held að ein slík sé málið. Ég á góðar minningar frá eftirminnilegri langferð á breyttri rútu þar sem voru gormadýnur í öllum rúmum og hreyfingin á rútunni upp í gegnum fjaðrandi dýnuna ruggaði manni notalega inn í svefninn. (Ekki fyrirmyndarhegðun, því það er alls ekki sniðugt að liggja í rúminu í húsbíl á ferð, en þegar maður er ungur er maður ekkert að pæla í slíku). Ég segi kannski síðar meira frá því ferðalagi, á að minnsta kosti eftir að segja eitthvað frá rútunni sjálfri.

Ég er reyndar nýlega búin að fá mér heilsurúm með dýnu úr minnissvampi, en það er allt of dýr pakki fyrir ferðarúm sem verður í mesta lagi notað í 30 nætur á ári. Þar að auki er ekkert sérstaklega þægilegt að sitja á þeim til lengdar.

Nei, gormadýna var það heillin, og hana þarf að sérpanta. Ég skoðaði vefsíður helstu verslana sem selja svoleiðis og engin þeirra bauð upp á fullorðinsdýnu mjórri en 80 cm. Rúmið er 70 cm breitt og því verður úrræðið að panta sérsmíðaða dýnu frá RB Rúm, sem er ekki mikið dýrara en að kaupa tilbúið.

En þetta er framtíðarpæling. Dýnan verður ekki keypt fyrr en hægt er að setja hana beint í bílinn, sem sagt þegar allt hitt er tilbúið. Af því að það verður líka setið á henni, þá held ég að ég saumi utan um hana hlíf. Enn eitt sem fer á minnislistann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband