Færsluflokkur: Ferðalög

Búin að fá bílinn

dsc00841.jpgÉg fékk bílinn afhentan í gær. Þetta er í fyrsta skipti sem ég eignast alveg nýjan bíl og tilfinningin er sérstök. Ég fékk að fara úr vinnunni til að sækja hann og pabbi hitti mig við Heklu þar sem við tók hátíðleg athöfn: opinber afhending á tækinu með miklum handaböndum og öskju af konfekti (sem reyndist útrunnið þegar til kom, en bragðaðist samt vel) og kennsla á ýmsan tækjabúnað í bílnum.


Það er t.d. hægt að tengja saman bílinn og snjallsíma með bluetooth-tækni þannig að þegar síminn hringir lækkar sjálfkrafa í útvarpinu, það er hægt (að vissum tæknilegum skilyrðum uppfylltum) að sjá á mælaborðstölvunni hver er að hringja í mann, og svo er innbyggður handfrjáls búnaður í bílnum. Ætli þetta sé ekki orðinn staðalbúnaður í bílum í dag?


dsc00838.jpgÍ bílnum er líka símkort sem er notað til að stýra olíukyndingunni í honum. Ef ég sæki mér ákveðið app get ég sem sagt ræst kyndinguna með því að hringja í bílinn úr snjallsíma og hitað hann upp áður en ég kem út í hann. Reyndar kemur það ekki til með að gagnast mér mikið dagsdaglega, því það gengur á rafgeyminn og ég er yfirleitt ekki á nógu löngum akstri innanbæjar til að hlaða rafgeyminn almennilega eftir slíkt. Það er hins vegar líka hægt að ræsa olíukyndinguna innan úr bílnum. Á ferðalögum þýðir þessi kynding að ég get hitað upp bílinn á nóttunni án þess að ræsa vélina og vekja upp hálft tjaldstæðið í kringum mig. Ég ákvað að vera ekkert að sækja appið fyrr en ég fer að nota bílinn fyrir alvöru, og kem varla til með að nota það mikið, en það er gott að hafa það ef með þarf.


Svo er aksturstölva í honum. Sumt kannast ég við úr Toyotunni minni, s.s. meðaleldsneytisnotkun, en annað var nýtt fyrir mér, s.s. eldsneytiseyðsla í ferð, o.fl.


Að athöfn lokinni ók ég honum inn í Kópavog til mömmu og pabba, þar sem hann verður næstu mánuðina á meðan við pabbi dundum okkur við að innrétta hann. Ég fer að heimsækja bílinn eftir vinnu í dag og ætla þá að setjast inn í hann með handbókina og læra á tækin.



Jæja, þá kom að því

 

Síðasta færsla var skrifuð fyrir um mánuði síðan, en ég kom mér ekki að því að birta hana fyrr en í gær, því ég vissi ekki hvað væri langt í að bílakaup kæmust í höfn.

 

Það gerðist síðan hraðar en ég átti von á: Ég er nú orðin eigandi að splunkunýjum Volkswagen Caddy Maxi. 

Það kom mér á óvart að sjálfskiptur bíll af þessari tegund er ekki dýrari en beinskiptur bíll með sömu mál, kraft og aukabúnað, því oftast kostar sjálfskipting nokkur hundruð þúsundum meira en beinskipting. Svo er í honum olíumiðstöð, afar sniðugt tæki sem er t.d. hægt að ræsa úr fjarska með appi í snjallsíma, þannig að það verður liðin tíð að koma út í kaldan bíl á veturna (ef maður þá man eftir að ræsa tækið).

Ég fæ bílinn í hendurnar einhvern tímann á næstu dögum en fer væntanlega ekki að keyra mikið um á honum fyrr en í vor, því hann verður hjá pabba næstu mánuðina á meðan innréttingin er í smíðum. Því mun ég halda í Gránu gömlu (Toyota Avensis) fram á vorið.

 

Ég tek auðvitað mynd af nýja klárnum og hendi henni inn um leið og tækifæri gefst. Þangað til er hérna mynd af Gránu, tekin við Jökulsárlón sumarið 2009 (smellið á myndina til að skoða kerruna  betur):

 

img_5471.jpgVið fórum í prufuakstur á mánudaginn og þó að sá bíll væri reyndar beinskiptur, þá var gaman að fá að prófa hann. Bíllinn er mjög léttur í stýri, lipur og með lítinn snúningspunkt, en fjöðrunin, sérstaklega á afturöxlinum, er hörð, sem fannst berlega þegar ég ók yfir hraðahindrun á hraða sem Grána hefði varla tekið eftir. Caddyinn er hins vegar hannaður til að bera umtalsvert meiri þunga en fólksbíll, mig minnir um 750 kg. Samkvæmt umsögn um þessa bíla sem ég las á netinu mýkist fjöðrunin þegar það er hlass í bílnum, og ég reikna með að innréttingin komi til með að verða nægilega þung til að mýkja fjöðrunina aðeins. Úti á þjóðvegi finnur maður auðvitað ekkert fyrir þessu.

Og nú er sem sagt komið að yfirlýsingu um tilganginn með þessari bloggskorpu: Ætlunin er að leyfa þeim sem áhuga hafa að fylgjast með framkvæmdunum við bílinn frá tómu flutningsrými yfir í stúdíóíbúð á hjólum. Þess á milli verður póstað um allt á milli himins og jarðar.

 

Enda þetta á dáleiðandi gif-teiknimynd sem ég fann á Giphy:

 


Skutlur, skutlur, allt um kring


Er það ekki skrítið þegar maður fer að hugsa um eitthvað sem maður hefur aldrei pælt í áður og allt í einu er það alls staðar í kringum mann?

 

file711265105039.jpg

Ég er lengi búin að láta mig dreyma um að eignast húsbíl, því ég nenni ekki lengur að gista í tjaldi á ferðalögum innanlands, og það er dýrt að gista á gistihúsum og hótelum. Það var því augljóst mál að húsbíll væri lausnin fyrir mig, því hann sameinar þægindi þess að gista innandyra og og ódýra gistingu. Ég hef hins vegar ekki efni á að kaupa húsbíl fyrr en ég er búin að greiða upp stærsta húsnæðislánið mitt, sem verður í kringum 2017. Eftir það tekur síðan nokkur ár að safna fyrir bílnum.

Húsbílar eru nefnilega dýrir, og það er líka dýrt að reka tvo bíla, því jafnvel þó maður noti annan ekki nema part úr árinu og taki hann jafnvel af númerum yfir veturinn, þá kostar samt að eiga hann. T.d. er ekki sniðugt að láta svona tæki standa úti og þarf helst að geyma þau í upphitaðri geymslu, sem kostar sitt. Svo eru margir húsbílar, jafnvel þeir minni (s.s. Ford Econoline) dýrir í rekstri því þeir eru ekki beint eyðslugrannir (Econo hvað?).

Svo var það í fyrra eða hittífyrra að ég las frétt um nýja bílaleigu, Happy Campers, sem leigir út húsbíla sem eru byggðir á litlum sendiferðabílum, svokölluðum skutlum. Ég hugsaði svo sem ekki meira um það, annað en „Já! Þetta gæti verið sniðugt fyrir mig!“

caddy-maxi-camper01.jpgÍ vor aðstoðuðu foreldrar mínir síðan bróður minn fjárhagslega til að eignast fjallajeppa og pabbi tilkynnti mér síðan að nú væri komið að mér: þau mundu hjálpa mér að eignast húsbíl, og hann ætlaði sér að sjá um að innrétta hann (ég held að hann vanti eitthvað til að gera í vetur...). 

Ég treysti honum vel til þess verks, enda er hann þegar búinn að innrétta einn húsbíl, og það svo snilldarlega að núna, 20 árum síðar, hef ég enn ekki komið inn í húsbíl sem var jafn haganlega innréttaður.

Auðvitað kom ekkert annað til greina en að kaupa skutlu, og plúsinn við hana er að ég get notað hana sem heimilisbíl því þessir bílar eru svo litlir að það er ekkert mál að leggja þeim í venjuleg bílastæði, og svo neyslugrannir að ég mundi spara á því að skipta út Toyotunni minni fyrir svona bíl. Ókosturinn er reyndar að þeir eru flestir beinskiptir og mér leiðist svoleiðis í innanbæjarakstri, en það má vel yfirstíga með því að nota bílinn minna innanbæjar og ganga eða hjóla í staðinn.

Athugun leiddi í ljós að það er um ýmsa kosti að velja:

 

Volkswagen Caddy Maxi:

volkswagen_caddy_maxi.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ford Transit Connect:

2014_transitconnect_1248217.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mercedes-Benz Citan:

mercedes-c-class-citan_1248218.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Citroën Berlingo:

berlingo_1248219.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Peugeot Partner:

peugeot-partner.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Renault Kangoo:

renault-kangoo-maxi.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

...og kannski fleiri.

 

Okkur leist best á þjá þrjá fyrsttöldu (þ.e. pabba leit best á þá – hann hefur af einhverjum orsökum óbeit á frönskum bílum). Bensinn er í dýrari kantinum og sá sem við skoðuðum kostaði meira notaður en hinir kosta nýir, og því eru það Fólksvagninn og Fordinn sem við erum að pæla mest í.

 

Við höfum verið að skoða notaða bíla, og höfum sett okkur markmið: Þetta þarf að vera vel með farinn bíll, ekki of gamall og ekki of mikið ekinn, því ég vil eignast eitthvað sem ég get tekið með mér til útlanda án þess að hafa of miklar áhyggjur af því að hann bili úti á miðjum sveitavegi einhvers staðar í Portúgal. Ég er að hugsa mér ekki eldri en 2008 og ekki meira ekinn en 90-100 þúsund km. Verðhugmynd er á milli 1,2 til 2 milljónir, sem á alveg að geta gengið miðað við þá bíla sem ég hef skoðað.


En, sem sagt: ég vissi að skutlur væru til, en var svo sem ekkert að veita þeim eftirtekt – þangað til ég fór að pæla í þessu. Nú sé ég þær alls staðar. Það er örugglega ekki langt í að ég geti greint á milli árgerða.


Takk fyrir síðast

Það er nú langt um liðið síðan ég skrifaði eitthvað hérna síðast. Indlandsbloggið rann út í sandinn af því það var eitthvað bögg á myndainnsetningum og ég kláraði ferðasöguna því annars staðar. En nú er komið nýtt tilefni til að blogga á íslensku (meira um það næst), þannig að ég ætla að byrja aftur. Það virðist líka vera talsvert auðveldara að eiga við myndirnar núna en þá. Að minnsta kosti tókst mér þokkalega að henda þessari inn:

dsc_7558.jpg


Dubare og Búdda

Frá Hunangsdal fórum við til Dubare, sem er útivistarsvæði þar sem m.a. er boðið upp á flúðasiglingar. En það voru ekki flúðasiglingar sem freistuðu okkar, heldur fílar. Þarna er nefnilega hægt að komast í nána snertingu við tamda fíla. Það er t.d. hægt að fá að gefa þeim að éta og fara á bak, og líka þvo þeim. Við vinkona mín borguðum okkur inn í fílaþvottinn og settum manninn hennar á myndavélarnar á meðan við óðum berfættar út í volga ána og burstuðum fíla með þvottaburstum og nutum þess að fá að koma nálægt þeim. Húðin á fílunum er svakalega skrítin viðkomu, hrukkótt og mjög hrjúf, og stíf hár standandi út í loftið hér og þar. Þeim leið greinilega mjög vel ofan í ánni og einn lagðist meira að segja út af ofan í vatninu með ranann upp úr. Ég held að það sem laðar mig að fílum sé ekki bara stærðin, heldur líka að maður fær á tilfinninguna að þetta séu mjög gáfaðar skepnur, og líka það að þeir virðast alltaf vera brosandi:
Photobucket
Frá Dubare fórum við til Bylakuppe, en þar er Tíbesk nýlenda sem var stofnuð af flóttamönnum frá Tíbet sem fengu úthlutað landi þarna frá indversku ríkisstjórninni. Aðalaðdráttaraflið er hið svokallaða Gullna Musteri, en það er búddamusteri í tíbeskum stíl sem þjónar hinu 18.000 manna tíbeska samfélagi þarna. Það er áhugavert að um 8.000 af þeim íbúum eru búddamunkar eða -nunnur, enda eru mörg klaustur á svæðinu og munkarnir sérstaklega áberandi með sína rauðu kyrtla og rökuðu hausa. Musterið, eða öllu heldur musterin, því þau eru tvö, var skrautlegt. Að utan voru þau bæði þakin í myndum af guðum og dansandi djöflum og skrautlega máluð og gylluð. Inni í öðru musterinu (hitt var lokað) trónuðu 3 búddastyttur, allar frekar strangar á svip.
Photobucket
Frá Bylakuppe lá leiðin síðan til Mysore, og á leiðinni rákumst við á gott dæmi um það hvernig trúin gegnsýrir indverskt þjóðfélag. Við stoppuðum við kaffihús á leiðinni og það reyndist vera opnunardagur hjá þeim. Þetta var nýtískulegt kaffihús, allt byggt úr gleri og marmara með nýjustu kaffivélum og fínni loftkælingu. Úti var það allt skreytt með blómsveigum úr morgunfrúm, jasmínu og rósum, og inni var þetta:
Photobucket
Þetta er sem sagt bráðabirgðaaltari og kókoshnetan er fórn til einhvers guðs (hugsanlega Ganesh, sem veitir gott gengi í viðskiptum) eða jafnvel þeirra allra, um velgengni. Leiðir skildi síðan í Mysore, og ég fann mér þar fínt hótel inni í miðbænum. Meira seinna.

Dvölin í Hunangsdal

Photobucket

Eins og sjá má af myndinni er Hunangsdalur náttúruparadís. Þetta er útsýnið sem ég sá þegar ég opnaði dyrnar á herberginu mínu. Þetta var ódýrasta gistingin á staðnum, 300 Rs. nóttin fyrir lítið herbergi með rúmi og hillum fyrir farangur, og áföstu einkaklósetti.

 

Húsin þarna eru byggð úr rauðum steini og eru með leirflögum á þakinu og falla ótrúlega vel inni í landslagið. Gróðurinn er þarna allt um kring og ræktunin er eins umhverfisvæn og hægt er. Þetta er tilvalinn staður til að koma á til að sleppa við umferðarnið og hávaða, og í nágrenninu er fjöldi gönguleiða sem henta mismunandi „fit“ fólki. Það er meira að segja hægt að klífa hæsta tind fjallgarðsins á um 3 ½ tíma frá Hunangsdal.

Fyrsti dagurinn fór aðallega í hvíld, enda var heitasti tími dagsinn upprunninn þegar við vorum búin að borða hádegismatinn. Við fórum samt í stuttan könnunarleiðangur um svæðið og leist vel á. Um kvöldið var borinn á borð ágætis grænmetismatur í mötuneytinu, þar á meðal eðalgott og vel sterkt pickles, gert úr litlum súraldinum og chilli með fleiri kryddum. Ég fékk mér vel af þessu pickles, en kem ekki til með að smakka á því aftur, því bara að skrifa um það veldur mér nú ógleði. Ég vaknaði nefnilega upp klukkan tvö um nóttina með ólgu í maga og rétt náði fram á klósett áður en gusan stóð út úr báðum endum (ég ældi í baðfötuna), og ég get sagt ykkur það að picklesið var ekki gott á uppleiðinni, enda blandað magasýrum og brenndi vélindað, og svo var ég með bragðið af því í munninum langt fram á næsta dag þrátt fyrir ítrekaða tannburstun. Þetta hlýtur að hafa verið ælupest, því um 40 aðrir borðuðu sama matinn og enginn annar veiktist. En auðvitað gæti þetta líka hafa verið óþol fyrir helv. picklesinu...

Pestin stóð fram yfir hádegi næsta dag, en þá var ég orðin svo máttfarin af því að borða ekkert að ég skreið upp í matsal og fékk þar banana, vatnsmelónusneiðar og Electral, vökvabindandi duft sem maður blandar saman við vatn til að bæta upp vökvatap. Ég hætti að æla eftir fyrsta skammtinn af Electralinu, en niðurgangurinn hélt áfram allan daginn. Um kvöldið var ég orðin nógu góð í maganum til að fá mér hrísgrjón í kvöldmatinn.

Daginn eftir var það ristað brauð í morgunmatinn og hrísgrjón í hádeginu, en ég var orðin nógu hress til að fara í göngutúr með vinum mínum. Ég vissi ekki hvert við ætluðum – það reyndist vera niður að fossi í nágrenninu – en við villtumst og fengum góðan og langan labbitúr alla leið niður á þjóðveg, en fengum sem betur fer far upp að afleggjaranum niður að fossinum, enda leiðin upp eftir aftur brött mjög og erfið yfirferðar á köflum bæði fyrir gangandi og akandi.

Fossinn var fallegur og á meðan við vorum þar og nutum úðans frá honum birtist stærðarinnar Indversk fjölskylda, 3 eða 4 kynslóðir, líklega um 20 manns, sem óðu flest upp ána í áttina að fossinum og þótti greinilega mjög gaman.

Við gengum síða upp að glænýju gistihúsi sem sonur eigenda Hunangsdals hefur byggt með amerískum meðeiganda sínum, og skoðuðum það, og fengum síðan far upp eftir. Eins gott, því hnémeinið mitt gamla var farið að taka sig upp – greinilegt að ég er ekki ein af þeim sem ættu að stunda miklar fjallgöngur eða brekkuklifur.

Nóttin var hrollköld – ég var í varmanærfötum, tvennum peysum og með teppi , en ef ekki hefði verið fyrir þreytu hefði ég ekki getað sofið fyrir kuldanum. Ef ég fer aftur þarna upp eftir, þá verður sko svefnpoki með í farangrinum.


Leiðin til Coorg

Ég hafði látið vinafólki mínu eftir að ákveða hvert við færum og vinkona mín fann á netinu hreint frábæran stað í Coorg (eða (Kodagu)-héraði. Coorg er staðsett uppi í Western-Ghats fjallgarðinum í Karnataka-ríki og er frægt fyrir kaffirækt. Ef menn vilja lesa um svæðið þá skrifaði írska ferðakonan og rithöfundurinn Dervla Murphy ágæta bók um dvöl sína í héraðinu: On a Shoestring to Coorg.

Við lögðum af stað klukkan fimm að morgni, í niðaþoku sem fór ekki að létta fyrr en sólin var komin nógu hátt upp til að hita loftið. Ég sat aftur í hjá farangrinum og svaf vært þangað til við stoppuðum á dhaba til að fá okkur morgunverð. Dhaba er heiti yfir það sem við mundum kalla þjóðvegasjoppur, og eru margar þeirra víst reknar af fyrrverandi vörubílstjórum. Í innskoti má bæta því við að ég sá seinna sjónvarpsþátt þar sem tveir indverskir matmenn ferðast á dhaba-staði út um allt land og borða þar í leit að besta dhaba landsins.

Þarna smakkaði ég í fyrsta skipti masala dosa, eðalgóða pönnuköku með fyllingu úr kartöflum og lauk með mildu kryddi, kókoshnetuchutney og chili-sósu. Þetta er herramannsmatur og mjög vinsæll út um allt Suður-Indland. Smakkaði líka á idli, sem eru gerðar úr svipuðu deigi og dosa-pönnsurnar en bara gufusoðnar svo þærlyfta sér og verða léttar og svolítið seigar. Mmmmm! Ef ég á eftir að sakna einhvers matar úr ferðinni þá eru það dosas og idlis.

Það er nánast ein samfelld byggð meðfram aðalveginum á milli Bangalore og Mysore (kíkið nú á kortið). Það var ekki fyrr en við vikum út af aðalbrautinni að við komum út í sveit. Þar skiptust á akrar með ýmis konar gróðri, s.s. sykurreyr og hrísgrjónum með trjágróðri og banana- og kókoshnetuplantekrum inni á milli, og litlum þorpum með nokkurra kílómetra millibili.

Þarna mátti með sanni finna að Indverjar vita vel hvað hraðahindranir eru. Því miður virðist hver sem er geta dritað þeim niður, þannig að í hverju þorpi fórum við yfir þetta 2-3 (oft við skólann, pósthúsið og musterið), og svo var þær oft að finna utan þéttbýlisins þar sem einhver dhaba- eða gistiheimiliseigandinn vildi hægja á umferðinni svo menn sæju nú örugglega staðinn hans. Fæstar voru þessar hraðahindranir merktar, og þar fyrir utan eru þær þannig gerðar - mjóar og háar - að það er ekki hægt að taka þær á hraðanum - maður mundi bara bara brjóta demparana eða jafnvel hreinsa framhjólastellið undan bílnum ef maður reyndi slíkt. Maður vinkonu minnar var því sífellt að bremsa sig niður til að komast yfir hraðahindranir og gefa svo í aftur, sem var ekki mjög gaman því að það eru engin bílbelti aftur í bílnum. 

Landslagið tók smám saman að breytast eftir því sem við nálguðumst fjöllin og fórum að hækka okkur, en lægsti punktur í Coorg er í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli. Skógurinn þéttist og á tímabili ókum við í gegnum upprunalegan skóg á náttúruverndarsvæði. Einu villtu dýrin sem sáust voru nokkrir langur-apar og einn mongúsi sem skaust yfir veginn. Síðan tóku við ræktarlegar kaffiplantekrur með fallegum húsum og velsældarlegu fólki. Kaffi er þarna ræktað í skugganum af trjánum, og með kaffinu er ræktaður pipar, en þær plöntur eiga víst mjög vel saman í ræktun. Það eru líka ræktaðar kardimommur þarna, en ég sá hvorki pipar né kardimommur til að taka myndir af þeim á plöntunni, enda ekki réttur árstími til þess.

Við komum til næsta þorps (eiginlega bara pósthús og strætóstoppistöð) við gististaðinn, og þar beið okkar jeppi sem leit út eins og Willys-jeppi frá sjöunda-áratugnum, en þeir eru reyndar innlend framleiðsla og smíðaðir eftir gömlum amerískum teikningum. Við eltum hann smá spöl inn á bílastæði þar sem við skildum eftir bílinn og tróðum okkur aftur í jeppann. Síðan hófst mikið skrölt og torfærur þar sem bílstjórinn djöflaði farartækinu áfram eins og hægt var. Vegurinn þarna upp eftir er til skiptis leirborið moldarflag og grjót, mikið niðurgrafinn á milli moldarbakka og stundum hlaðinna veggja og ekki breiðari en svo að ég efa að maður gæti ekið venjulegum Toyota Landcruiser þarna up. Litlu indversku jepparnir henta aftur á móti ágætlega til þess. Öll leiðin lá í gegnum plantekruna, til skiptis kaffiplöntur og óræktuð svæði með þéttari trjágróðri.

Eftir um 3 kílómetra í hristingnum rann jeppinn inn á steypta innkeyrslu og við vorum komin til Hunangsdals. Staðurinn hlaut nafnið af því að þarna var einu sinni framleitt hunang, og Hunangsdalur var reyndar stærsti framleiðandi hunangs á Indlandi þangað til fyrir um 15 árum síðan að vírus nánast þurrkaði út allar býflugur á svæðinu. 

 Meira næst - um versta hluta alls ferðalagsins, en líka ýmislegt gott og skemmtilegt.


Sitt lítið af hverju:

Kæru lesendur, ég biðst forláts á þeim hiksta sem hefur komið í bloggfærslur, en þær eru ekki mér að kenna. Ég hef hreinlega ekki komist á netið nógu lengi til að gera annað en að skoða tölvupóst síðan síðasta færsla fór inn. Ég er nú komin heim og hef ætlað mér að ljúka ferðasögunni á næstu vikunni eða svo. Síðan ætla ég að setja inn myndir. Ég var áður búin að senda þennan texta út á tölvupósti til nánustu vina og ættingja vegna þess að netkaffitölvurnar í Mysore voru þannig stilltar að það var ekkert hægt að setja inn á Moggabloggið úr þeim. Þeir sem ekki fengu eintak þá geta nú lesið framhald ferðasögunnar hér.

Danssýningin var frábær. Dansaðir voru hefðbundnir dansar, aðallega frá Rajastan. Skemmtilegasta atriðið var hefðbundinn rajastanskur brúðuleikur þar sem brúðumeistari lét strengjabrúður leika svo listilega listir sínar að maður hefði getað haldið að þær væru lifandi. Flottastur var svo vatnskeradansinn, þar sem kvendansari dansaði með vatnsker á höfðinu - byrjaði með 1 og endaði með stafla af 10 kerjum sem var hærri en hún sjálf.

Ég átti aðra kalda nótt á leiðinni til Bombay - get sjálfri mér um kennt að panta svefnvagn á 2 farrými, þar sem gluggar eu óþéttir og ekki boðið upp á rúmföt. Það er hreint ótrúlegt hvað það er kalt hérna á nóttunni: ég var í varmanærfötunum mínum, tvennum peysum og með lak og (reyndar þunnt) ullarsjal ofan á mér og var samt kalt. Svo var mér orðið allt of heitt þegar leið á daginn, því engin var loftkælingin.

Fékk flottar móttökur í Bombay: vinkona mín hafði reddað mér gistingu hjá foreldrum sínum, sem tóku mér opnum örmum. Ég tók tvo daga í að skoða mig um í borginni eftir hvíldardag, en náði ekki að skoða allt, enda er rakastigið þarna hátt og ég þoli slíkt illa. Hitinn var í sjálfum sér þolanlegur, en með rakanum varð allt mjög erfitt, maður svitnar svo svakalega og líður bara illa. Skoðaði m.a. aðal-lestarstöðina í borginni, mikið og ljótt bákn með mikill persónuleika, frá tímum Breta. Sá líka m.a. Taj hótelið, sem varð sem verst úti í hryðjuverkaárásunum í fyrra, og Hlið Indlands, annað ferlíki frá tímum Breta. Rakinn olli því að ég fékk stórar og sársaukafullar blöðrur neðan á iljarnar af sandölunum, og þurfti að standa í skurðaðgerðum til að tæma þær og þurrka upp. Er nú orðin nokkuð góð.

Ég átti í erfiðleikum með að fá lest til Bangalore, og á endanum ákvað ég að fljúga, sem er hræódýrt hér um slóðir. Reiknaði dæmið þannig að með því að gista svona oft á einkaheimilum hefði ég sparað mér inn fyrir fluginu og vel það.

Vinkona mín tók á móti mér og við drifum okkur heim til hennar. Næstu 2 dagar fóru í að skoða sig um í borginni, en reyndar var skoðunarferð sem ég skráði mig í felld niður vegna dræmrar þáttöku. Gat nú verið. Ég náði samt að skoða mig sæmilega um áður en við héldum af stað til Coorg.

Nú líkur frásögn í bili. Meira seinna, um gönguferðir, kaffiplantekrur og fílaþvott.

Grillaðar gúrkur

Ég komst loksins að því hvernig á að stilla íslensku stafina inn á lyklaborðið tímabundið, þannig að framvegis verður vonandi allt sem ég set inn á vel stafsettri Frónsku. Enda eins gott - ég á að taka próf vegna starfsins hjá Utanríkisráðuneytinu. Allir að hugsa fallega til mín og senda mér góða strauma klukkan 10:15 í dag. Fann netkaffihús sem hefur hraða nettengingu og nýlegar og að því er virðist traustar tölvur sem hrynja vonandi ekki á meðan á prófinu stendur.

 

Er búin að koma mér vel fyrir á ágætis hóteli í Udaipur. Veðrið er loksins orðið betra, sól en smá svali og því ekki of heitt. Fyrsta daginn hérna staulaðist ég inn á fyrsta veitingastaðinn sem ég kom auga á, og hann reyndist vera líka hótel. Ég fékk hérna fínt lítið herbergi á rúmar 600 Rs. nóttina. Mitt fyrsta verk var samt að fara upp á þak og setjast niður á veitingastaðnum og panta mér grillaða grænmetissamloku og te til að hressa mig við eftir hremmingar undanfarinnar nætur. Samlokan kom og á henni voru eðalgóðir tómatar, hæfilega mjúkir, og ... gúrkusneiðar. Fyrsta skipti sem ég hef borðað grillaðar gúrkur. Þær voru alls ekki slæmar, en það verður að taka fram að ég mæli ekki með að menn prófi þetta heima á Fróni, því gúrkurnar hérna er bragðmeiri en gúrkurnar heima og virðast vera þurrari. Að minnsta kosti voru þessar ekki í mauki.

 

Beint á móti hótelinu trónir musteri frá 17. öld, Shree Jagdish. Það er gott útsýni yfir það ofan af hótelþakinu. Á kvöldin er það svo lýst upp líkt og kirkjur heima, en með diskóljósum sem breyta um lit. Eini ókosturinn við nálægðina er að um tíuleitið á kvöldin og fimmleitið á morgnana er spiluð hávaðatónlist, alltaf sama lagið, um 10 mínútna langt, úr hátölurum á musterinu, væntanlega til að tilkynna um opnun og lokun.

 

Fór í gær í skoðunarferð um höllina, sem er stórvirki og í raun samsafn margra halla sem hafa verið byggðar yfir um 400 ára tímabil. Sá líka í fjarska Lake Palace Hotel, fræga höll sem stendur út í miðju stöðuvatni og var notuð í James Bond myndinni Octopussy (sem er sýnd á hverju kvöldi á nokkrum stöðum í borginni). Allt saman mjög flott.

 

Í morgun fór ég í Bagore Ki Haveli, gamalt uppgert hús (höll á okkar mælikvarða) sem hefur verið gert upp og inniheldur safn um lífsstíl gamla aðalsins í borginni. Ætla svo á danssýningu þar í kvöld.


Brrrrrrrr!

Ég for í ferð með leiðsögn um Jaipur á föstudaginn. Leiðsögumaðurinn var Rajastani með tilkomumikið yfirvararskegg, en menn leggja mikið upp úr slíku hér um slóðir. Því miður var varla hægt að skilja hann, hreimurinn var svo þykkur, en maður náði svona helmingnum og gat notað leiðsögubókina til að geta í eyðurnar. Við skoðuðum meðal annars höll fyrrum maharajans af Jaipur, stjörnuskoðunarstöðina Jantar Mantar, 2 tilkomumikil en frekar hrörleg virki, og Amber-virkið, sem er frægt fyrir stærð og fegurð. Útsýnið þaðan ku vera hið fegursta, en það var bara allt of mikil þoka til að maður sæi mikið.

Svo var farið með okkur í tvær verslanir, undir því yfirskini að sýna okkur hefðbundið rajastanskt handverk. Reyndar voru báðar verslanirnar með tiltölulega vandað handverk, en bara í dýrari kantinum, svona rétt til að þeir geti haft eitthvað upp úr þessu ásamt því að borga leiðsögumanninum umboðslaun. Þetta var reyndar ferð á vegum ferðamálaráðs ríkisins – hvernig ætli ferðir á vegum ferðaskrifstofanna séu þá?

 

Ég pantaði mér far til Udaipurá laugardagskvöldið og lenti á biðlista. Fékk svo staðfest að ég fengi far og var komin út á lestarstöð góðum tveimur klukkutímum fyrir brottför – að ég hélt. Lestinni seinkaði síðan – átti að fara af stað kl. 22:30, en gerði það ekki fyrr en 6:30. Á endanum var hún 9 tímum á eftir áætlun, og ég átti vonda nótt á lestarpallinum því það var alltaf verið að smá-mjatla í mann seinkuninni í stað þess að láta vita strax hversu mikil hún yrði endanlega. Því var ómögulegt að leita sér gistingar. Ég svaf á endanum samanhnipruð undir kasmírsjalinu sem mér var gefið í Delhi, á gólfi lestarstöðvarinnar í napurlegri þoku sem gerði allt rakt og þvalt. Enda er ég núna komin með heiftarlegt kvef ofan í mig og hósta í sífelldu.

En ég var fljót að finna ágætis hótel, nógu langt frá vatnsbakkanum til að það er ekki mikið um moskítóflugur (bara 4 bit komin), en nógu stutt til að vera í göngufæri. Meira á morgun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband