Útileguhremmingar

Ég minntist á það um daginn að ég er hætt að vilja sofa í tjaldi. Ástæðurnar eru ýmsar.

Það er ekki að ég sé ekki tjaldvön: Þegar ég var barn og unglingur ferðaðist fjölskyldan mikið og þá var nánast alltaf sofið í tjaldi og það var alltaf skemmtilegt, ekki síst þegar rigndi. Það var svo gaman að liggja í hlýjum svefnpokanum og hlusta á regndropana smella á tjaldhimininn, þó það værri reyndar minna gaman þegar það flæddi inn í tjaldið og maður vaknaði ofan í polli, blautur inn að skinni og kaldur inn að beini. Það gerðist sem betur fer ekki oft, enda kunnum við að velja tjaldinu stað.


Þetta hefur eflaust gert það að verkum að síðar meir kallaði ég ekki allt ömmu mína þegar kom að því að velja gistingu á ferðalögum mínum um fjarlæg lönd. En maður breytist og smám saman, eftir því sem ég eltist og varð vanafastari samhliða því að fjárhagurinn styrktist, fór ég að sækja í betri gistingu og vandist því að hafa það þægilegra.


Sumarið 2009 fékk ég lánað tjald og ók hringveginn. Þá hafði ég ekki sofið í tjaldi í ca. 19 ár. Eftir fyrstu nóttina var komið á hreint að þetta var ekki fyrir mig, þó að ég léti mig reyndar hafa það tvær nætur til viðbótar í ferðinni. Að einhverju leiti var þetta búnaðinum að kenna, en aðallega samt öðru.


Tjaldið var hefðbundið, gamaldags tjald, sem sagt ekki kúla heldur þak, en það var ekkert mál fyrir einn að tjalda því, það var svo lítið. Ég var með þægilega vindsæng, þannig að það var ekki hart undir mér, en þriggja árstíða svefnpokinn sem ég fékk lánaðan með tjaldinu var þannig gerður að hann hélt bara á manni hita ef maður fór alveg ofan í hann og dró fyrir hann þannig að nefið eitt stóð út úr. Sem betur fer er ég ekki með innilokunarkennd, en þegar maður er vanur að sofa í krossfisksstellingunni er þetta ansi þröngt. Mig hafði aldrei langað neitt sérstaklega að vita hvernig það er að vera rúllupylsa, en þarna fékk ég sem sagt góða hugmynd um það.

 

bill_tjald.jpg


Í ofanálag var pokinn úr efni sem var slétt og glansandi og hafði fyrir bragðið ekkert grip. Þetta gerði það að verkum að þegar upp á vindsængina var komið var ég eins og belja á svelli, eða öllu heldur ormur, því ekki hafði ég hendurnar til að bera fyrir mig. Pokinn rann til við minnstu hreyfingu og af því að ég þurfti að hafa handleggina ofan í honum til að það héldist á mér hiti var ómögulegt að halda mér á vindsænginni. Um leið og ég hélt að ég væri búin að koma mér almennilega fyrir rann ég af stað og lenti á maganum við hliðina á vindsænginni. Eftir mikið ið og blótsyrði tókst mér að komast á réttan kjöl og renna niður rennilásnum til að koma fyrir mig höndunum og toga mig upp á vindsængina.

 

Þetta endurtók sig a.m.k. tvisvar.

Þarna hefði venjuleg þunn tjalddýna bjargað miklu.

 

Verst var samt að ég á við það vandamál að stríða að geta ekki sofið heila nótt án þess að fara að minnsta kosti tvisvar á fætur til að míga. Þetta kann að hljóma sem lítilfjörlegt vandamál, en það verður frekar stórt þegar litið er til eftirfarandi:


Nætur eru almennt svalar eða jafnvel kaldar á Íslandi – líka á sumrin – og það að renna upp svefnpokanum, klæða sig liggjandi, brölta á fætur og tölta á óupphitað tjaldstæðisklósett til að pissa, tölta til baka, hátta sig og renna sér aftur ofan í svefnpokann - sem er þá orðinn skítkaldur - er til þess gert að maður sefur ekki meira þá nóttina. Tilraunir til að forðast þetta pisseríisástand með því að drekka ekkert eftir kvöldmatinn verða bara til þess að ég vakna í staðinn um þrjúleitið með ægilegan munnþurrk. Þessa tilteknu nótt var pisseríið sérlega slæmt og ég þurfti að fara á fætur á miðnætti, aftur um klukkan tvö og enn aftur um klukkan fimm, og með öllu þessu brölti og kulda varð lítið um svefn. Þarna fylltist ég öfund út í karlmenn, sem geta bara migið í flösku ofan í svefnpokanum, hent henni út í horn og farið aftur að sofa.


Það var heldur guggin og pirruð kona sem skreið út úr tjaldinu um morguninn og horfði illum augum á glaðhlakkalegan þröst uppi í nálægu tré sem hafði með háværum og eflaust dillandi söng sínum vakið hana upp af fyrsta almennilega lúrnum sem hún fékk um nóttina. Það bætti ekki úr skák að gashylkið í prímusnum reyndist næstum tómt og þegar einn bolli af vatni var varla farinn að volgna eftir korter yfir vesældarlegum bláum loganum þá gafst ég upp, tók búnaðinn saman og fann sjoppu til að fá mér morgunmat.


img_2715.jpgÉg svaf síðan sitjandi í bílnum daginn eftir þegar svefnleysið fór að taka í. Þennan dag rigndi svo mikið að ég keypti mér gistingu og náði þannig að hvílast nógu mikið til að geta haldið ferðinni áfram, en þriðja nóttin (önnur tjaldnóttin) var jafn slæm og sú fyrsta, þó það væri heldur hlýrra úti og styttra á klósettið. Fjórða kvöldið flúði ég tjaldstæðið á Eskifirði og fékk inni á gistiheimili í ausandi rigningu, þannig að aftur fékk ég hvíld frá tjaldinu, en eftir fimmtu nóttina, sem var þriðja tjaldnóttin, tóku þau sig saman blaðran í mér, miðnætursólin og þrastakór Norðurlands eystra um að halda fyrir mér vöku. Þá ákvað ég að nóg væri komið. Ég ók á einum degi frá Ásbyrgi til Skagastrandar, þar sem ég átti vísa gistingu, og þaðan í bæinn daginn eftir. Þegar heim kom skilaði ég tjaldinu og svefnpokanum og sagði „ekki meir!“

 

Þessi tjaldfælni hamlar manni auðvitað töluvert á ferðalögum innanlands. Ef mann langar að fara eitthvað lengra en dagsferð þarf að finna sér gistingu og þar sem ég er gjörn á að fara eftir veðri og leggja af stað með korters fyrirvara get ég ekki pantað gistingu með þeim fyrirvara sem þarf til að fá eitthvað ódýrt (ég þarf ekki mikið: bara rúm í hlýju herbergi og aðgang að inniklósetti).

Sem betur fer alls staðar á Íslandi hægt að finna skemmtilega og fallega staði til að skoða og það er hægt að ferðast töluvert langt og komast samt heim aftur á einum degi. Sem dæmi um dagsferðir frá Reykjavík má nefna hringinn á Snæfellsnesinu, Gullna hringinn, Suðurstrandarhringinn, Þórsmörk (fyrir þá sem eiga jeppa), að Skógum og til baka, eða þá hringinn eftir Kaldadal uppfrá Þingvöllum og niður í Borgarfjörð hjá Húsafelli, nú eða úr Lundarreykjardal upp á Uxahryggi og Kaldadal niður á Þingvelli og þaðan í bæinn. Þetta er ég allt búin að gera síðustu tvö sumur og nú er mig farið að langa til að fara í lengri ferðir. Húsbíllinn bjargar því.


Ég er þegar farin að skipuleggja ferðalög næsta sumar, bæði lengri og styttri. Til dæmis hefði ég ekkert á móti því að taka Snæfellsnesið í rólegheitunum á tveimur eða jafnvel þremur dögum, eða þá að skreppa austur á Jökulsárlón án þess að hafa áhyggjur af því að lenda einhvers staðar utan vegar í bakaleiðinni vegna syfju.


Svo er það auðvitað hringurinn plús Vestfirðirnir. Held ég láti Norðurlöndin og Þýskaland bíða til þarnæsta sumars, þegar reynsla verður komin á bílinn og fjárhagurinn eftir framkvæmdirnar er kominn í lag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 32455

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband