Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 1. hluti

Það sem allra fyrst þarf að gera til að breyta sendiferðabíl í húsbíl er að gera hann tilbúinn undir tréverk. Notaðan bíl þarf etv. að gera eitthvað við og kannski mála að innan, og auðvitað þrífa.


Þar sem bíllinn minn er glænýr þarf ekki að gera neitt af þessu (sem betur fer, segi ég). Pabbi lét það verða sitt fyrsta verk að taka úr honum skilrúmið á milli flutningsrýmisins og farþegarýmisins. Það er nefnilega mikilvægt að geta komist aftur í án þess að fara út úr bílnum. Það er ekki bara snyrtilegra: maður ber ekki óþarfa sand, jarðveg, vatn eða drullu inn; heldur líka hagkvæmara: maður hleypir ekki hitanum út með því að opna dyrnar; og svo er það þægilegra: maður blotnar ekki í rigningu eða verður kalt í roki eða frosti á leiðinni. Ég á aftur á móti eftir að sjá hvort ég get yfirleitt bramboltast þarna aftur í á milli sætanna...


Er annars einhver að leita að skilrúmi í VW Caddy? Mitt er nefnilega til sölu. Tilboð óskast.


Næst fór gólfmottan. Hún verður annað hvort seld eða notuð til að sníða úr henni litlar mottur til að hafa við inngangana. Ef hún væri aðeins þjálli og auðveldara að brjóta hana saman mundi ég freistast til að geyma hana í bílnum og nota hana sem útimottu þegar ég vil sitja úti í góðu veðri.


Síðan fór hirsla á gólfinu sem er ætluð undir smádót en hefði bara orðið fyrir (það er önnur hinum megin, sem verður gott að hafa undir rúmbekknum), og nokkrar flutningslykkjur sem eru skrúfaðar við gólfið til að hægt sé að binda niður farm í bílnum. Skrúfugötin frá þeim verða notuð til að festa gólfplötuna niður.  


Það fyrsta sem bætist við er nefnilega gólfplata, því gólfið í bílnum er bæði ójafnt og óeinangrað. Það fer einangrun í botninn og síðan kemur þykk krossviðarplata og ofan á hana fer gólfdúkur. Sennilega vel ég ljósan dúk í hlutlausum lit, samt ekki hvítan, því hann er svo skítsæll, og ekki heldur gráan, því mér finnst það niðurdrepandi litur þó hann feli reyndar skít glettilega vel. Teppi kemur ekki til greina á gólfið: það er bara hægt að þrífa það þar sem maður nær í ryksugu, og mig langar ekkert að vera að drösla slíku tæki með mér í ferðalög.

 

Held ég fari eftir vinnu á mánudaginn og nái mér í nokkur sýnishorn af gólfdúk.

Við fórum á fimmtudaginn í Byko og keyptum krossviðinn og gengum í að sníða plötuna til þannig að hún liggur nú slétt á gólfinu og fellur þétt að öllum útlínum innan í rýminu. Nú þarf að huga að því hvort það þurfa að koma einhver göt í gólfið, t.d. þarf að koma gat niður úr hólfi fyrir gaskút (svo að gasið geti lekið út ef það bilar ventill á kútnum), þannig að það þarf að staðsetja það pláss snemma í ferlinu. Ef ætlunin er að vera með stóran affallskút er líka gott á þessu stigi að gera ráð fyrir stút til að tæma hann utan frá. Minn verður það lítill að ég mun geta kippt honum út og hellt út honum, enda er ég að reyna að spara pláss, en í stærri bíl sem er notaður af fleira fólki er gott að vera með 50 lítra affallskút eða stærri og þá hreyfir maður ekki svo glatt.

Líka er gott að hugsa um hvort það eiga að koma einhverjar raflagnir undir gólfplötuna, en ég held reyndar að það sé sniðugra að festa þær undir klæðningarnar á veggjunum, helst hafa þær liggjandi í kverkum eða etv. þræða þær á milli hinna ýmsu gata í hliðunum, því þá er einfaldara að komast að þeim þegar eitthvað bilar.

Næsta verk er að einangra gólfið. Svo verður sennilega farið í að fúa- og vatnsverja plötuna áður en hún er fest niður, því maður veit aldrei hvað getur gerst - t.d. gæti komið leki að vatnsbrúsanum eða rignt meðfram illa lokaðri hurð, nú eða bara þessi óumflýjanlegi raki sem fylgir íslensku veðri. Ég er líka að hugsa um að bóna gólfið áður en einangrunin kemur í, til að fá smá auka ryðvörn.

Loks er platan fest niður (og gerð á hana viðeigandi göt ef einhver eru). Síðan er að festa hana niður, og loks að leggja gólfefnið á hana.

 Síðan er hægt að snúa sér að veggjunum og loftinu. 

Myndir af ferlinu:

Platan sett inn til að merkja hvar skuli saga úr henni:

golf01.jpg

 

Platan komin á gólfið, úrsöguð og fín, bara eftir að stytta endann:

 golf02.jpg

 

Búið til mát til að sníða endann eftir:

golf03.jpg

 

Platan mátuð við og smellpassar:

golf04.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glæsilegt! Krökkunum leist nú aldeilis vel á bílinn og Sigrún Effa ætlaði ekki að fást úr honum aftur :)

Svava 4.11.2014 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband