Færsluflokkur: húsbílar

Pakklistapæling fyrir húsbílaferðalag

Ég er talsvert ferðavön og hef í mörg ár verið að þróa pakklista sem styttist með hverju ferðalagi (sjá meira um hann hér). Eins skrítið og það nú er, þá hef ég yfirleitt tekið minna með mér eftir því sem ferðalagið er lengra, en það stafar reyndar af því að maður ferðast með allt öðru viðhorfi þegar ferðalagið er langt. T.d. þykir mér leiðinlegt að þurfa að standa í þvottum á fatnaði í stuttum ferðum, en þykir það sjálfsagt mál á lengri ferðalögum.

Nú þarf ég að hugsa pakklistann alveg upp á nýtt. Það má nefnilega segja að húsbíll sé nokkurs konar ferðataska, og reyndar er ein merkingin á orðinu caddy "ílát til að geyma hluti þegar þeir eru ekki í notkun", sem getur vel átt við ferðatösku. (Aðrar merkingar eru "tedós" og "kylfusveinn". Ég ímynda mér að það hafi verið fyrsta merkingin sem Þjóðverjarnir höfu í huga þegar nafnið var ákveðið).

En þó að bíllinn manns sé ferðataska í yfirstærð, þá þýðir það hins vegar ekki að maður geti nú tekið eldhúsvaskinn, þvottavélina og stofusófann með sér. Þetta þarf að íhuga vel.

Meira um það síðar.

eldhusvaskurinn.jpg

 

 


Af hverju húsbíll en ekki tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi?

id-10056323.jpg

Spurning: Er það ekki ódýrara fyrir einhleyping?

Svar: Kannski, en:

 

Sko, ég hef verið spurð hvort ég vilji ekki bara fá mér tjaldvagn eða fellihýsi, frekar en að vera að fá mér húsbíl. Auðvitað gæti ég það, en málið er að kaup á tjaldvagni eða fellihýsi hefðu kallað á að auk tengivagnsins þyrfti ég annað hvort að kaupa mér nýjan bíl með dráttarkrók eða láta setja dráttarbeisli á þann gamla. Ég hef ekki hugmynd um hvað blessaður gamli bíllinn minn (árgerð 2001) kemur til með að endast lengi, þó að hann sigli alltaf í gegnum bifreiðaskoðun því sem næst athugasemdalaust, og því fannst mér ekki borga sig að láta setja á hann dráttarbeisli. Svo er það eina sem mér finnst tjaldvagn hafa fram yfir tjald vera að maður sefur ekki á jörðinni og það er heldur rúmbetra í kringum mann, en maður þarf samt að fara út á nóttunni til að komast á klósett, eða þá að drösla því með sér í bílnum og bera það inn í fortjaldið í hvert sinn sem maður tjaldar.

 

Hvað fellihýsin varðar eru þau yfirleitt of stór fyrir einn. Ég þarf bara einbreitt svefnpláss, einfalda eldunaraðstöðu og pláss fyrir ferðaklósett, ekki partítjald og svefnaðstöðu fyrir tvo fullorðna, fjögur börn og hund. Þau eru eflaust til lítil, en So What? Sannleikurinn er sá að mig langar bara ekki í tjaldvagn eða fellihýsi.

 

Af því bara. Svo eru þau alveg jafn leiðinlega rök í rigningu og tjöld og tjaldvagnar.

 

Hjólhýsi er annað mál.

Ég væri alveg til í svoleiðis, hefði líklega fengið mér lítið A-hýsi, en stærsti ókosturinn við hjólhýsi er sá sami og við stóran húsbíl, fellihýsi og tjaldvagn: það þarf að geyma þetta þegar maður er ekki að nota það. Ég á ekki bílskúr og upphituð geymsla er það eina sem kemur til greina ef maður vill að þetta endist. Það kostar peninga og þó ég telji mig ekki níska finnst mér kostnaður við slíkt of hár.

 

Nei, húsbíll er það heillin, og það lítill, fjölnota húsbíll. Í staðinn fyrir að setja tækið í aðkeypta geymslu yfir veturinn verður nóg fyrir mig að draga dýnuna úr rúminu inn í geymslu hjá mér ásamt vatnsbrúsanum, klósettinu og öðru smálegu sem bílnum fylgir og nota hann síðan sem heimilisbíl yfir veturinn. Það er ekkert verra að geta sest niður og hitað sér kakó eða súpu í bílnum ef manni dettur í hug að fara í stutta vetrarferð.

 

Svo er ég líka ein af þeim sem flokka heimilissorpið með tilliti til endurvinnslu, og hvílíkur lúxus verður það ekki að geta hent poka af flöskum, pappír eða plastdrasli aftur í bílinn þar sem enginn sér það, í staðinn fyrir að geyma þetta inni hjá sér þar til maður nennir að fara í Sorpu og á meðan lítur íbúðin út eins og ruslahaugur. Ef maður safnar þessu í bílinn þarf maður ekki að gera sér ferð í Sorpu með draslið, því maður getur einfaldlega dottið þar inn á leiðinni annað. T.d. er tilvalið fyrir mig að fara í Sorpustöðina við Dalveginn á leiðinni til mömmu og pabba.

 

--

Ljósmyndin: "Holiday Time". Ljósmyndari: Simon Howden. Fegnin á freedigitalphotos.net.

 

 

 


Ævintýri í húsbílaferð

Hér er eitt sem þarf að passa sig á ef menn ætla með húsbílinn sinn til Bretlands í gegnum Frakkland: laumufaþegar. 

Ég las í sumar grein í bresku dagblaði um feðgin sem voru að skila húsbíl sem þau höfðu leigt til að ferðast um á meginlandi Evrópu. Þau voru komin heim og voru að taka farangurinn sinn úr bílnum þegar dasaður ungur Afríkumaður skreið undan bílnum. Honum hafði einhvern veginn tekist að troða sér undir lágan bílinn og hafði hangið þar alla leiðina frá Calais í Frakklandi, í von um að komast til fyrirheitna landsins. Innflytjendalögreglan kom síðan og handtók hann, þannig að tilraun hans til að finna nýtt og betra líf í Bretlandi mistókst.

Bretar sem eru á leið til Evrópu með húsbíla er sumir hverjir víst varaðir við að stoppa í nágrenni við Calais með bílinn ólæstan, því það eru fleiri dæmi um svona laumufarþega, þó þeir fari víst reyndar frekar í farangurslestina á bílunum en undir þá.

Maður á erfitt með að ímynda sér örvæntinguna sem fær menn til að taka svona áhættu. 

Fréttin öll.

 


Vetrarútilega

Ég var að átta mig á því að það eina sem aftrar mér frá því að henda sængurfötum og vindsæng aftur í bílinn og prófa að fara í ferð með næturgistingu er að hann er á sumardekkjum. Ég er nefnilega handviss um að ef ég gerði það, þá mundi snjóa um nóttina eða rigna og síðan frjósa og ég mundi sitja spólandi einhvers staðar í hálku vegna dekkjanna.


Það væri einhvern veginn ekki eins mikil upplifun að sofa í bílnum í fyrsta skipti úti á bílastæði hjá foreldrum mínum.

 

 

 


Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 2. hluti

Þegar gólfið er frágengið verður næsta verk að koma raflögnunum fyrir. Síðan verður flutningsrýmið  klætt að innan, því það er ekki beint vistlegt þessa stundina: berir hvítlakkaðir veggir með alls konar bungum og götum fyrir festingar og aukahluti af ýmsu tagi.

 

Í það verk þarf einangrunarefni, filt eða teppi og viðarpanil. Ég hef séð myndir af bílum sem voru algerlega þiljaðir að innan með panil, og mér leist engan veginn á það - mundi fá innilokunarkennd. Því verða væntanlega settar panilplötur innan í plássin þar sem hægt er að taka úr hliðunum til að setja glugga, og síðan þakið með ljósu teppi á milli. Ekki kemur heldur til greina að vera bara með teppi, af sömu ástæðu og ég kæri mig ekki um alklæðningu með panil.


einangrun.jpgEinangrunarefnið fer undir panilplöturnar, en teppið á að nægja til að einangra önnur svæði. Einangrunin sem varð fyrir valinu heitir Reflectix og er úr tveimur lögum af áli og pólýetýleni - það sama og er notað í neyðarteppi - með bóluplasti á milli. Það endurkastar allt að 97% af öllum varma og er því góð einangrun gegn hitatapi, og veitir líka raka- og hljóðeinangrun. Erfiðir staðir eins og hjólskálarnar verða væntanlega klæddir með teygjanlegu teppaefni. Svo verður klæðningin í loftinu tekin niður og einangrað undir hana. Veit ekki alveg hvort ég vil fá teppi meðfram henni - það má a.m.k. ekki vera dökkt því þá fengi ég innilokunarkennd.


Hvað panilinn varðar, þá þarf ekki þykkar plötur í hann, bara 2-3 mm, því að hann verður uppi í hliðunum þar sem ekki mæðir mikið á honum. Ég mundi allt í einu eftir baki úr gömlum Ikea-bókaskáp sem ég hélt eftir þegar ég henti skápnum og ætlaði að nota í eitthvað. Það er með beykiáferð og lítur vel út, og mundi gefa hlýlegan blæ innandyra. Gallinn er bara sá að ég er eiginlega búin að velja eik í innréttinguna. Sá nefnilega þessar fínu eikar-límtrésplötur á vinsamlegu verið í Bauhaus. En, það er alltaf hægt að kaupa harðplastsklæðningar (e. laminate) í réttum viðarlit og líma á plöturnar. Ég sá t.d. nokkrar flottar þannig þegar ég fór í Þ. Þorgrímsson til að kaupa einangrunardúkinn.

 

Kannski tek ég mig meira að segja til og kaupi veggfóður á plöturnar, mála þær eða klæði með svampi og strekki efni yfir. Það kæmi líka til greina að líma korkþynnu á eina þeirra til að búa til minnistöflu, eða mála hana með segulmálningu til að fá segulminnistöflu, eða með krítartöflumálningu til að fá krítartöflu. Því miður er víst ekki hægt að nota þetta tvennt saman til að búa til segulmagnaða krítartöflu, en.að væri mögulegt að nota stálplötu og mála hana með krítartöflumálningu, eða bara sleppa því að líma teppi á smá hluta af veggnum og mála blettinn með krítartöflumálningu. En þetta er allt hægt að hugsa betur um seinna, því það er einfalt mál að losa panilinn.


Þegar þessu er lokið er fyrst hægt að fara að huga að því að smíða innréttingarnar. Pabbi er illa kvefaður þessa dagana og þar sem það er búið að vera kalt og vinnan inni í bílnum kemur til með að fara fram utanhúss er stopp á framkvæmdum sem stendur. Mamma mundi seint fyrirgefa mér ef hann fengi lungnabólgu.

Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 1. hluti

Það sem allra fyrst þarf að gera til að breyta sendiferðabíl í húsbíl er að gera hann tilbúinn undir tréverk. Notaðan bíl þarf etv. að gera eitthvað við og kannski mála að innan, og auðvitað þrífa.


Þar sem bíllinn minn er glænýr þarf ekki að gera neitt af þessu (sem betur fer, segi ég). Pabbi lét það verða sitt fyrsta verk að taka úr honum skilrúmið á milli flutningsrýmisins og farþegarýmisins. Það er nefnilega mikilvægt að geta komist aftur í án þess að fara út úr bílnum. Það er ekki bara snyrtilegra: maður ber ekki óþarfa sand, jarðveg, vatn eða drullu inn; heldur líka hagkvæmara: maður hleypir ekki hitanum út með því að opna dyrnar; og svo er það þægilegra: maður blotnar ekki í rigningu eða verður kalt í roki eða frosti á leiðinni. Ég á aftur á móti eftir að sjá hvort ég get yfirleitt bramboltast þarna aftur í á milli sætanna...


Er annars einhver að leita að skilrúmi í VW Caddy? Mitt er nefnilega til sölu. Tilboð óskast.


Næst fór gólfmottan. Hún verður annað hvort seld eða notuð til að sníða úr henni litlar mottur til að hafa við inngangana. Ef hún væri aðeins þjálli og auðveldara að brjóta hana saman mundi ég freistast til að geyma hana í bílnum og nota hana sem útimottu þegar ég vil sitja úti í góðu veðri.


Síðan fór hirsla á gólfinu sem er ætluð undir smádót en hefði bara orðið fyrir (það er önnur hinum megin, sem verður gott að hafa undir rúmbekknum), og nokkrar flutningslykkjur sem eru skrúfaðar við gólfið til að hægt sé að binda niður farm í bílnum. Skrúfugötin frá þeim verða notuð til að festa gólfplötuna niður.  


Það fyrsta sem bætist við er nefnilega gólfplata, því gólfið í bílnum er bæði ójafnt og óeinangrað. Það fer einangrun í botninn og síðan kemur þykk krossviðarplata og ofan á hana fer gólfdúkur. Sennilega vel ég ljósan dúk í hlutlausum lit, samt ekki hvítan, því hann er svo skítsæll, og ekki heldur gráan, því mér finnst það niðurdrepandi litur þó hann feli reyndar skít glettilega vel. Teppi kemur ekki til greina á gólfið: það er bara hægt að þrífa það þar sem maður nær í ryksugu, og mig langar ekkert að vera að drösla slíku tæki með mér í ferðalög.

 

Held ég fari eftir vinnu á mánudaginn og nái mér í nokkur sýnishorn af gólfdúk.

Við fórum á fimmtudaginn í Byko og keyptum krossviðinn og gengum í að sníða plötuna til þannig að hún liggur nú slétt á gólfinu og fellur þétt að öllum útlínum innan í rýminu. Nú þarf að huga að því hvort það þurfa að koma einhver göt í gólfið, t.d. þarf að koma gat niður úr hólfi fyrir gaskút (svo að gasið geti lekið út ef það bilar ventill á kútnum), þannig að það þarf að staðsetja það pláss snemma í ferlinu. Ef ætlunin er að vera með stóran affallskút er líka gott á þessu stigi að gera ráð fyrir stút til að tæma hann utan frá. Minn verður það lítill að ég mun geta kippt honum út og hellt út honum, enda er ég að reyna að spara pláss, en í stærri bíl sem er notaður af fleira fólki er gott að vera með 50 lítra affallskút eða stærri og þá hreyfir maður ekki svo glatt.

Líka er gott að hugsa um hvort það eiga að koma einhverjar raflagnir undir gólfplötuna, en ég held reyndar að það sé sniðugra að festa þær undir klæðningarnar á veggjunum, helst hafa þær liggjandi í kverkum eða etv. þræða þær á milli hinna ýmsu gata í hliðunum, því þá er einfaldara að komast að þeim þegar eitthvað bilar.

Næsta verk er að einangra gólfið. Svo verður sennilega farið í að fúa- og vatnsverja plötuna áður en hún er fest niður, því maður veit aldrei hvað getur gerst - t.d. gæti komið leki að vatnsbrúsanum eða rignt meðfram illa lokaðri hurð, nú eða bara þessi óumflýjanlegi raki sem fylgir íslensku veðri. Ég er líka að hugsa um að bóna gólfið áður en einangrunin kemur í, til að fá smá auka ryðvörn.

Loks er platan fest niður (og gerð á hana viðeigandi göt ef einhver eru). Síðan er að festa hana niður, og loks að leggja gólfefnið á hana.

 Síðan er hægt að snúa sér að veggjunum og loftinu. 

Myndir af ferlinu:

Platan sett inn til að merkja hvar skuli saga úr henni:

golf01.jpg

 

Platan komin á gólfið, úrsöguð og fín, bara eftir að stytta endann:

 golf02.jpg

 

Búið til mát til að sníða endann eftir:

golf03.jpg

 

Platan mátuð við og smellpassar:

golf04.jpg


Húsbílaupplifun fyrir byrjendur

Volkswagen Caddy er til í ýmsum útfærslum. Grunngerðirnar eru skutlur í tveimur stærðum: Caddy og Caddy Maxi. Báða er hægt að fá í fólksbílaútfærslu, fimm sæta og sjö sæta. Svo er það Tramper-útfærslan. Hann byggist á fimm sæta Caddy-fólksbílaútfærslu með stórt farangursrými. Þessi bíll er ýmist kallaður Caddy (Maxi) Tramper eða Life Tramper, sennilega eftir markaðssvæðum. 

 

vw_tramper.jpgTramperinn er útilegubíll. Ég mundi ekki kalla hann húsbíl, því mér finnst að til að kallast húsbíll þurfi bíll ekki bara að búa yfir svefnaðstöðu, heldur líka einhvers konar fastri innréttingu og helstu þægindum, s.s. eldunaraðstöðu og kæliboxi/ískáp, og helst vaski og klósetti.


Þó að allt þetta (nema innréttinguna) megi setja í Tramperinn (kæliboxið fylgir honum reyndar frá framleiðanda), þá er erfitt að nota það inni í bílnum og það þarf að ganga frá því eftir notkun, rétt eins og maður væri í tjaldi eða tjaldvagni.


Sætin leggjast fram og ofan á þau leggst dýna og þá er komið rúm. Undir því er geymsla. Þar má finna kælibox, útileguborð og tvo stóla, og annan búnað sem fylgir bílnum, s.s. gardínur og mjúk geymsluhólf sem er hneppt innan á veggina. Líka fylgir bílnum fortjald og svo er hægt að fá sóllúgu og mér sýnist líka vera hægt að fá hækkanlegan topp.


Þessir bílar eru ekki til hjá Heklu og mér vitandi er enginn slíkur í notkun hér á landi, en þeir geta sérpantað þá fyrir þá sem vilja.

Þetta er flottur fyrsti kostur fyrir fólk sem vill fá að prófa húsbílalífið án þess að eyða allt of mörgum milljónum í að kaupa innréttaðan húsbíl, því það er lítið mál að taka úr honum útilegubúnaðinn og nota hann sem fjölskyldubíl á milli ferðalaga.

Hér er umsögn. Og myndir.

 


Tryggingar

 

dsc00842_1248500.jpg

 

Áður en ég fór til að sækja kerruna fór ég inn á vefsíðu tryggingafélagsins til að athuga hvort búið væri að tryggja bílinn. Bílasölur sjá yfirleitt um slíkt, en ég vildi vera viss um að kaskótryggingin hefði ekki gleymst.

 

Mitt einkasvæði á vefsíðunni opnaðist og það var sjokk: ábyrgðartryggingin hljóðaði upp á tæpar 200 þúsund krónur, og kaskóið rétt tæp 100 þúsund. Ég var í hálfgerðri andnauð þegar ég hringdi í tryggingafélagið, því ég hafði fengið allt aðrar og viðkunnanlegri upphæðir uppgefnar nokkrum dögum áður.

 

 

Í ljós kom að þeir hjá Heklu höfðu sent upplýsingar um að þetta ætti að vera atvinnubíll - enda eru VW Caddyarnir seldir sem slíkir - þó að þeir vissu reyndar að þetta átti að verða einkabíll. Þegar sá misskilningur hafði verið leiðréttur lækkuðu upphæðirnar niður í viðunandi tölur og andardrátturinn léttist: ábyrgðartryggingin er “bara” rúmlega 95 þúsund og kaskóið rúmlega 40 þúsund.

 Ég var búin að taka gamla bílinn úr kaskó, þannig að róðurinn verður ekkert allt of þungur að tryggja tvo bíla, og í vor verður ástandið vonandi orðið þannig að ég get látið hinn bílinn fara. Það verður eiginlega að gerast, því sumardekkin á Toyotunni eru orðin frekar slitin og það þarf sennilega að kaupa ný í vor. Það er reikningur upp á lágmark 80 þúsund og dreifist ekki yfir árið eins og tryggingarnar. Ég vil helst sleppa við að kaupa ný dekk undir bíl sem ég eru um það bil að fara að selja.

 


Búin að fá bílinn

dsc00841.jpgÉg fékk bílinn afhentan í gær. Þetta er í fyrsta skipti sem ég eignast alveg nýjan bíl og tilfinningin er sérstök. Ég fékk að fara úr vinnunni til að sækja hann og pabbi hitti mig við Heklu þar sem við tók hátíðleg athöfn: opinber afhending á tækinu með miklum handaböndum og öskju af konfekti (sem reyndist útrunnið þegar til kom, en bragðaðist samt vel) og kennsla á ýmsan tækjabúnað í bílnum.


Það er t.d. hægt að tengja saman bílinn og snjallsíma með bluetooth-tækni þannig að þegar síminn hringir lækkar sjálfkrafa í útvarpinu, það er hægt (að vissum tæknilegum skilyrðum uppfylltum) að sjá á mælaborðstölvunni hver er að hringja í mann, og svo er innbyggður handfrjáls búnaður í bílnum. Ætli þetta sé ekki orðinn staðalbúnaður í bílum í dag?


dsc00838.jpgÍ bílnum er líka símkort sem er notað til að stýra olíukyndingunni í honum. Ef ég sæki mér ákveðið app get ég sem sagt ræst kyndinguna með því að hringja í bílinn úr snjallsíma og hitað hann upp áður en ég kem út í hann. Reyndar kemur það ekki til með að gagnast mér mikið dagsdaglega, því það gengur á rafgeyminn og ég er yfirleitt ekki á nógu löngum akstri innanbæjar til að hlaða rafgeyminn almennilega eftir slíkt. Það er hins vegar líka hægt að ræsa olíukyndinguna innan úr bílnum. Á ferðalögum þýðir þessi kynding að ég get hitað upp bílinn á nóttunni án þess að ræsa vélina og vekja upp hálft tjaldstæðið í kringum mig. Ég ákvað að vera ekkert að sækja appið fyrr en ég fer að nota bílinn fyrir alvöru, og kem varla til með að nota það mikið, en það er gott að hafa það ef með þarf.


Svo er aksturstölva í honum. Sumt kannast ég við úr Toyotunni minni, s.s. meðaleldsneytisnotkun, en annað var nýtt fyrir mér, s.s. eldsneytiseyðsla í ferð, o.fl.


Að athöfn lokinni ók ég honum inn í Kópavog til mömmu og pabba, þar sem hann verður næstu mánuðina á meðan við pabbi dundum okkur við að innrétta hann. Ég fer að heimsækja bílinn eftir vinnu í dag og ætla þá að setjast inn í hann með handbókina og læra á tækin.



Jæja, þá kom að því

 

Síðasta færsla var skrifuð fyrir um mánuði síðan, en ég kom mér ekki að því að birta hana fyrr en í gær, því ég vissi ekki hvað væri langt í að bílakaup kæmust í höfn.

 

Það gerðist síðan hraðar en ég átti von á: Ég er nú orðin eigandi að splunkunýjum Volkswagen Caddy Maxi. 

Það kom mér á óvart að sjálfskiptur bíll af þessari tegund er ekki dýrari en beinskiptur bíll með sömu mál, kraft og aukabúnað, því oftast kostar sjálfskipting nokkur hundruð þúsundum meira en beinskipting. Svo er í honum olíumiðstöð, afar sniðugt tæki sem er t.d. hægt að ræsa úr fjarska með appi í snjallsíma, þannig að það verður liðin tíð að koma út í kaldan bíl á veturna (ef maður þá man eftir að ræsa tækið).

Ég fæ bílinn í hendurnar einhvern tímann á næstu dögum en fer væntanlega ekki að keyra mikið um á honum fyrr en í vor, því hann verður hjá pabba næstu mánuðina á meðan innréttingin er í smíðum. Því mun ég halda í Gránu gömlu (Toyota Avensis) fram á vorið.

 

Ég tek auðvitað mynd af nýja klárnum og hendi henni inn um leið og tækifæri gefst. Þangað til er hérna mynd af Gránu, tekin við Jökulsárlón sumarið 2009 (smellið á myndina til að skoða kerruna  betur):

 

img_5471.jpgVið fórum í prufuakstur á mánudaginn og þó að sá bíll væri reyndar beinskiptur, þá var gaman að fá að prófa hann. Bíllinn er mjög léttur í stýri, lipur og með lítinn snúningspunkt, en fjöðrunin, sérstaklega á afturöxlinum, er hörð, sem fannst berlega þegar ég ók yfir hraðahindrun á hraða sem Grána hefði varla tekið eftir. Caddyinn er hins vegar hannaður til að bera umtalsvert meiri þunga en fólksbíll, mig minnir um 750 kg. Samkvæmt umsögn um þessa bíla sem ég las á netinu mýkist fjöðrunin þegar það er hlass í bílnum, og ég reikna með að innréttingin komi til með að verða nægilega þung til að mýkja fjöðrunina aðeins. Úti á þjóðvegi finnur maður auðvitað ekkert fyrir þessu.

Og nú er sem sagt komið að yfirlýsingu um tilganginn með þessari bloggskorpu: Ætlunin er að leyfa þeim sem áhuga hafa að fylgjast með framkvæmdunum við bílinn frá tómu flutningsrými yfir í stúdíóíbúð á hjólum. Þess á milli verður póstað um allt á milli himins og jarðar.

 

Enda þetta á dáleiðandi gif-teiknimynd sem ég fann á Giphy:

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 32541

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband