Færsluflokkur: Ferðalög
Sunnudagur, 25. október 2009
Pakklistinn, frh.
Hér restin af pakklistanum, það sem fer í aðgengilegan handfarangur og innanklæðaveskið. Þetta er heldur meira en ég tek venjulega með inn í vél, því þetta er tæplega 10 klukkutíma flug og maður þarf ýmis þægindi í langflugi sem maður þarf ekki ef maður er á leið til Köben, og svo þarf að hafa fjölbreyttari tómstundir en annars til að maður lognist ekki út af af leiðindum. Svo er líka alltaf hætta á að hin taskan þurfi að fara í innritaðan farangur, og þá er best að vera með hjá sér það sem maður vill ekki vera án í sólarhring eða svo, og vill ekki eiga á hættu á að "týnist" úr innrituðu töskunni.
Listinn er ekki endanlegur, ég get átt eftir að taka eitthvað af honum eða bæta við hann, kaupi t.d. oftast nær enskt krossgátublað þegar ég á leið um Heathrow.
Uppástungur eru vel þegnar. Maður getur alltaf gleymt einhverju þó maður eigi svona allsherjarpakklista.
Bók til að lesa, kannski 2-3, svona ef einhver þeirra reynist vera leiðinleg. Skipti þeim út eða gef þær þegar ég kem á leiðarenda.
Buff eða bómullarslæða.
Dagbók og nauðsynlegir fylgihlutir, ss. 2-3 pennar í mismunandi litum, límstifti, límhorn, blýantur og strokleður. Hætti ekki á yddara, hlýt að fá hann úti.
Farsími og hleðslutæki.
Ferðahandbók.
Ferðapappírar: Farmiðar, bólusetningarvottorð, vegabréf, tryggingaskírteini.
Gjafirnar til gestgjafanna.
Hálstöflur.
Hárbursti, lítill.
Minnisbók m. ferðaupplýsingum. Svo ég þurfi ekki eilíflega að vera að gramsa í innanklæðaveskinu eftir ferðapappírunum.
Moskítófæliþurrkur ég kem á staðinn á besta tíma fyrir moskítóflugur um kvöld - og því er gott að geta skellt DEET á sig strax. Þurrkurnar fékk ég í Office 1 og ég vona bara að þær virki eins vel og lofað er á pakkanum.
mp3 spilari til að þreyja þær stundir þegar ég nenni ekki að lesa eða tími ekki að borga fyrir bíómynd.
Myndavél ásamt auka-rafhlöðum og tveimur minniskortum.
Nesti: ég tek alltaf eitthvað matarkyns með mér í flug, t.d. hnetu-og ávaxtablöndu og smá nammi, t.d. Tópas eða Altoids, til að narta í á milli mála eða til að bæta upp vondan flugvélamat.
Peningar.
Sandalar fínt að geta smeygt sér úr gönguskónum og leyft loftinu að leika um fæturnar og þurfa ekki að brölta í skóna aftur þegar maður þarf á klóið.
Sólgleraugun mín. Gott ef mig langar að sofa þegar ekki er svefntími í flugvélinni, því ég á erfitt með að nota augngrímu.
Sólhattur, freyðitöflur.
Sótthreinsandi blautþurrkur.
Spilastokkur ég á einn góðan með myndum frá Íslandi.
Svitalyktareyðir, þurr.
Tannbursti og ögn af tannkremi (fer í pokann góða).
Tannþráður.
Varagloss fínt til að lífga upp á útlitið og halda vörunum mjúkum og kyssilegum (maður veit aldrei...)
Ýmislegt smálegt, ss. auðkennislykill fyrir netbanka og USB-lykill.
Öll lyf, þ.m.t. magalyf, pillan, malaríutöflur og verkjatöflur, líka fjölvítamín og svo Acidophilus-töflur til að halda þarmaflórunni í lagi malaríulyfið er nefnilega sýklalyf sem auk þess að hafa fyrirbyggjandi áhrif gegn malaríu drepur líka gerla, bæði góða og vonda.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. október 2009
Grátanti hér, grátandi þar...
Ein besta regla sem ég þekki í sambandi við val á græjum til að taka með sér í ferðalög er þessi:
Græt ég ef ég glata því?
Ég þurfti að beita þessari reglu í dag þegar ég var að pakka niður farangrinum mínum (fyrir alvöru í þessa skipti - hann hefur ekkert þyngst).
Ég hef alltaf tekið með mér einhverja tónlist þegar ég ferðast. Fyrst var það vasadiskó og slatti af spólum, síðan geislaspilari og slatti af diskum, síðan geislaspilari með mp3 afspilun og nokkrir diskar, og núna síðast mp3 spilari. Ég á tvo. Annar er lítill og léttur, með flash-drifi sem tekur 2 gb af tónlist, er með upptökumöguleika og tekur myndavélabatterí sem er hægt að fá á hverju götuhorni. Hinn er Creative-tryllitæki á stærð við Blackberry, tekur 30 gb af gögnum (tónlist, myndir, kvikmyndir, osfrv.) á harðan disk, er með upptökumöguleika og útvarp. Annar kostaði 3000 kall, hinn 35 þúsund.
Mig langar að taka þennan stóra fullkomna með mér, en gallinn á honum er sá að hann er stór og helst til þungur til að hengja um hálsinn, og það þarf að stinga honum í samband við rafmagn og hlaða hann í 7 klukkutíma þegar hann tæmist. Þetta er allt saman yfirstíganlegt, en gallinn við að taka með sér rafmagnstæki til Indlands er að á mörgum stöðum í landinu er rafmagnið ekki mjög áræðanlegt, t.d. virðist nokkuð algengt að það komi yfirspenna á kerfið sem þýðir að ef maður er ekki með spennuvara á rafmagnstækjunum þá brenna þau yfir. Mig langar ekki að glata tryllitækinu í svoleiðis. Hann er líka frábær til að geyma varaeintök af ljósmyndunum mínum, en vandinn er sá að þá þarf ég að fara í gegnum tölvu, og tölvur á netkaffihúsum eru þekktar fyrir að vera smitaðar af flestum þeim vírusum og annarri tölvuóværu sem gengur, og mig langar ekki til að sitja uppi með gagnslausan spilara eftir tilraun til að afrita myndirnar mínar.
Því varð litla krílið ofan á. 400 lög og ca. 20 mb pláss til upptöku á umhverfishljóðum hlýtur að duga mér í þessar 5 vikur.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 24. október 2009
Í framhaldi af flugsætapælingunni
Hér er frábær vefsíða sem gefur manni upplýsingar um sætaskipan í flugvélum hjá ýmsum flugfélögum og segir manni hverjir eru kostirnir og ókostirnir við hvert sæti: SeatGuru.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. október 2009
Pakklistar – ef þú notar ekki svoleiðis, þá mæli ég með að þú byrjir strax
Það hefur alltaf hjálpað mér til að takmarka farangursmagnið að útbúa pakklista og fylgja honum út í hið ýtrasta. Þegar ég byrjaði á þessu var hann yfirleitt frekar langur en styttist síðan þegar nær dró og ég var búin að prófa að pakka eftir honum og hafði uppgötvað hvað farangurinn var þungur með öllu ég-gæti-þurft-á-þessu-að-halda draslinu. Ég er fyrir löngu búin að koma mér upp allsherjar pakklista yfir allt það sem teljast má nauðsynlegt að taka með í ferðalög og líka það litla og létta sem getur aukið þægindi, og síðan laga ég listann að áfangastaðnum og lengd ferðarinnar. Ef einhvern langar að prófa að útbúa svona pakklista, þá er gott að byrja með lista frá reyndum ferðalangi og laga hann síðan að sjálfum sér. Ég mæli með að prófa The Universal Packing List, sem er byggður á margra ára reynslu margra ferðalanga og býr ekki bara til pakklista sem hentar ferðinni, heldur líka lista yfir það sem maður þarf að gera áður en haldið er að heiman.
Það blasir ekki alltaf við hvað er gott að taka með sér. Sumt segir sig sjálft að maður verður að taka það með, eins og nærföt, vegabréf og peninga, á meðan annað er ekki eins augljóst, ss. eins og hengilás, svifdiskur og bútur af þunnu gúmmíi, og enn annað gæti einhverjum öðrum ferðalangi þótt vera alger óþarfi, t.d. dagbók, mp3-spilari eða myndavél.
Ég hef enn ekki náð taki á þeirri list að ferðast bara með handfarangur, enda er alveg hreint svakalega misjafnt hvað maður má taka með sér inn í farþegarými flugvéla. Sum flugfélög leyfa bara 4 kíló á almennt farrými á meðan önnur leyfa allt upp í 8 kíló. Það léttasta sem ég hef náð niður í voru 12 kíló, sem reyndist blessun því að í því ferðalagi gat ég bjargað einum ferðafélaganum sem var með yfirvigt.
Hér er listinn yfir það sem fer í stærri töskuna:
Föt: 1 brjóstahaldari, 3 stuttermabolir, 3 pör af sokkum, 1 par af göngusokkum, 5 nærbuxur, gammosíur og langerma nærbolur, hettupeysa. Fer út í gallabuxum, langermabol, vindjakka og gönguskóm. Kaupi mér létt bómullarföt þegar út kemur.
Hreinlæti og heilsa: Andlitskrem, andlitsvatn og hreinsimjólk, bómullarklattar, eyrnapinnar, handáburður, handhreinsigel, handklæði, joð (sótthreinsandi), koddaver, naglaklippur, plástrar og blöðruplástrar, sápubox, sjampó og hárnæring, sótthreinsandi blautklútar. Allir vökvar og krem í ferðastærðum.
Ýmislegt smálegt, bæði gagnlegt og gott, sumt nauðsyn, annað kannski ekki lífsnauðsynlegt: 1 ljósrit af vegabréfinu og árituninni í hvora tösku, bókalímband, bómullartrefill, drykkjarkanna, einangrunarlímband í 2 breiddum, eyrnatappar, flísatöng, gleraugnaresept, grisjupokar, gúmmímotta til að nota sem tappa, hengilásar, kennaratyggjó, klemmur, lítill borð-þrífótur fyrir myndavélina, míkrófíbertuska, neyðar-saumasett, nælonsnúra, svifdiskur (nýtist sem leikfang, skurðbretti og diskur), teskeið, Tide-penni (blettaeyðir), vasaljós (handtrekkt snilldarverkfæri sem fæst í Tiger á 600 kr.), þvottahanski.
Ef ykkur finnst eitthvað vanta, svo sem eins og sápu, þá er það af því að ég ætla að kaupa það úti.
Ég gerði prufupakk í litla, létta (= hjólalausa og mjúka) tösku og hún vegur ekki nema tæp 6 kíló með öllu af þessum lista. Þetta er persónulegt met í mínimalískri farangurspakkningu og þýðir að af því að allur vökvinn kemst í líterspoka þá get ég farið með þetta sem handfarangur alla leið ef ég sleppi vasahnífnum, skærunum og heklunálinni. Jibbí!
Nú er bara að prófa að pakka í litlu töskuna hún er tölvutaska þannig að ég get farið með hana inn líka segi bara að þetta sé veski. Til vonar og vara þá kemst tölvutaskan tóm ofan í hina og ég tek stórt alvöru veski með mér sem er hægt að nota ef hitt gengur ekki.
Ferðalög | Breytt 25.10.2009 kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 22. október 2009
Meira um farangur: umbúnaðurinn
Spurningin virðist einföld: ferðataska eða bakpoki? En það er ýmislegt fleira sem maður þarf að athuga við val á tösku.
Það er óneitanlega auðveldara að taka með sér bakpoka ef maður þarf að ganga langar leiðir með farangurinn sinn. Pokinn, ef maður hengir hann rétt á sig, dreifir þunganum jafnt á herðar, bak og mjaðmir og maður fær síður allskonar skrokkverki og þreytist seinna en ef maður er sífellt að færa ferðatösku á milli handa eða axla. Ókosturinn við bakpokann er auðvitað að maður verður eins og einbúakrabbinn sem ber heimilið sitt á bakinu og svo er hann fyrir aftan mann þannig að jafnvel þó maður geti læst honum, þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að einhver laumist aftan að manni og noti hníf til að komast í töskuna. Það hefur líka þekkst að menn hlaði bakpoka svo mikið að það þarf að hjálpa þeim til að standa upp með pokann á bakinu, og ég hef oftar en einu sinni séð fólk með troðna 80 lítra bakpoka sem virðast vera svo þungir að það þyrfti ekki mikla vindhviðu til að það dytti aftur fyrir sig af þunganum.
Ferðatösku er hægt að vernda með því einfaldlega að hengja hana með ólina í kross yfir brjóstið þannig að það er ekki hægt að hrifsa hana af manni á hlaupum. Aftur á móti getur hún sigið í ef maður þarf að labba langt til að komast í leigubíl eða á hótel, og maður minnir helst á togara með slagsíðu.
Ef ferðataskan verður ofan á, þá tekur við spurning um harða eða mjúka tösku, hjól eða ekki hjól, handfang eða axlaról, o.s.frv. Harðar töskur hlífa óneitanlega farangrinum betur en mjúkar, en ókosturinn er að þær eru harðar, þ.e. þó að þær séu hálftómar taka þær alltaf sama pláss á meðan þeim mjúku er hægt að þjappa saman með ól eða límbandi, og jafnvel nota þær fyrir kodda ef með þarf. Þær hörðu eru líka þyngri en þær mjúku, sem þýðir að það gengur meira á þessi 20 kíló sem maður má taka með sér í innritaðan farangur.
Hjólaspurningin er næst. Hjólin eru óneitanlega þægindaaukandi á meðan maður er á sléttu flugstöðvargólfi eða gangstétt, en ókostir þeirra koma fljótlega í ljós þegar gangstéttin endar og moldar- eða malarstígur tekur við. Þau þýða líka að taskan er að minnsta kosti með harðan botn, því hjólatöskur eru flestar líka með handfang sem er hægt að draga út = aukaþyngd. Þungar hjólatöskur hafa líka þann ókost að eiga það til að festast á minnstu hindrunum, eins og t.d. þröskuldum og gangstéttarköntum, ef að hjólin neita þá ekki að snúast.
Handfangs/axlarólarspurningunni er auðsvarað: Bæði. Það er frábært að geta hengt þunga tösku á öxlina á sér þegar handleggirnir eru að slitna af manni, eða halda á henni þegar axlinar eru teknar að sía undan þunganum. (Best er samt að vera alltaf með létta tösku).
Síðan þarf að passa upp á að það sé hægt að læsa töskunni á einhvern hátt, því þar sem ég er að fara ferðast maður mikið með lestum og þá er gott að geta sett hengilás á rennilásana og fest töskuna með keðju við sætið sitt ef maður þarf að skreppa á klóið.
Ef bakpokinn verður aftur á móti ofan á, þá er um ýmislegt annað að ræða, til að byrja með hvort maður velur harða grind eða mjúkan poka. Sá harði er þyngri í sjálfum sér, og því mundi heilsumeðvituð manneskja velja mjúkan poka upp á það að gera að minnka burðinn. Helsti gallinn sem ég sé við bakpoka er sá að sumum þeirra er ekki hægt að læsa þeim er mörgum hverjum bara lokað með reim að ofan og þau módel sem ég skoðaði voru almennt bara með einn flipa á rennilásnum = ekki hægt að læsa þeim með hengilás. Svo er það líka þekkt vandamál að bakpokar koma stundum skemmdir úr flugi, með rifnar ólar og brotnar sylgjur, því ef ekki er rétt frá þeim gengið fyrir flugið þá geta þeir húkkast á eitthvað og hlaðmenn heimsins eru ekki beinlínis þekktir fyrir að fara mjúkum höndum um farangur, hvað þá farangur sem tefur fyrir verki þeirra.
Í mínu tilfelli er enn verið að velta fyrir sér hvað skuli gera varðandi farangur. Ég á sæmilegan 28 lítra bakpoka sem er væri hægt að læsa ef ég set hring í flipann við endann á rennilásnum, og svo rúmar hann tæplega það sem ég er að hugsa um að taka með mér, og svo á ég minni bakpoka í handfarangursstærð sem er hægt að troða afganginum í. Gallinn er sá að ég ætla mér að versla þarna úti. Landið er frægt fyrir allskonar fallegt handverk, og ég hef ekki ætlað mér að fara þaðan án þess að taka með mér einhver góð sýnishorn heim. Því kemur líka til greina eðalgóð 40 lítra ferðataska með axlaról sem ég fékk fyrir slikk í Góða hirðinum. Heilsu minnar vegna hef ég jafnvel íhugað að nota litla hjólatösku, svokallaða flugfreyjutösku, því ég geri ekki ráð fyrir að vera mikið á röltinu eftir óhentugum vegum með hana, en það verður allt að koma í ljós þegar ég er búin að tína saman allt sem er á pakklistanum mínum og vigta það og rúmmálsmæla. Meira um það seinna.
(Ég veit, ég veit: ég er alger nörd)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. október 2009
Góðar fréttir fyrir veskið
Fékk póst frá ferdavernd.is þar sem kemur fram að munurinn á því að taka Malarone vs. doxycycline er aðallega sá að maður tekur Malaronið bara í viku eftir heimkomu en doxyið í 4 vikur. Það er auðvitað ekkert gamanmál að taka sýklalyf samfellt í meira en tvo mánuði, en alveg hægt í sparnaðarskyni, sérstaklega ef maður tekur líka hylki með AB-gerlum og/eða er duglegur að borða jógúrt með lifandi gerlum til að viðhalda góðu gerlaflórunni í meltingafærunum. Ætla að byrja strax, til að byggja upp flóruna áður en ég byrja á lyfinu.
Ég ætla að reyna að ná í heimilislækninn minn í símatíma á morgun og fá hjá henni lyfseðil upp á vikuskammt af doxy, og kaupa síðan meira (fyrir langt um minni pening) þegar út kemur. Þarf ekki einu sinni lyfseðil þar.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. október 2009
Ógeðslega dýrt en lífsnauðsynlegt
Arrrggghhhhh!
Þetta er alltaf að verða dýrara. Ég fékk lyfseðil fyrir malaríulyfinu Malarone hjá heimilislækninum mínum, en þegar ég ætlaði að leysa það út reyndist það vera of lítill skammtur, þannig að ég fór á heilusgæslustöðina og fékk viðbót. Læknirinn sem ég talaði við þar tók andköf þegar hann var að útbúa lyfseðilinn í tölvunni og minntist á að lyfið væri dýrt, næstum 700 kr. taflan, eða um 35 þúsund krónur skammturinn sem ég þarf. Og ég sem hélt að magalyfið mitt væri dýrt með ca. 260 kr á pilluna!
Þetta er ekki gott því ég þarf líka að leysa út magalyf upp á um 6 þús. kr. (þökk sé framleiðendum fyrir samheitalyf - upprunalega lyfið kostar um 26 þús. fyrir 98 daga skammt) og pilluna upp á ca. 4 þús. kr., því hana tek ég út í eitt á ferðalögum til að sleppa við að vera á túr á meðan ég ferðast.
Ég get ekki keypt bara einn skammt af Malarone og fengið restina ódýrari úti, því samkvæmt tiltölulega áræðanlegum heimildum fæst lyfið ekki á staðnum og það er svo nýtt að samheitalyf virðast ekki vera komin til sögunnar. Það þykir hins vegar mjög gott því að lítið er um aukaverkanir.
Þegar svona kemur fyrir borgar sig að rannsaka málin betur áður en maður borgar, þannig að mín fór á netið og fann tvö önnur lyf sem henta fyrir þetta svæði: Lariam/Mefloquine, og Doxycycline. Af þessum tveimur er hið fyrra ekki árennilegur kostur, hefur alvarlegar aukaverkanir hjá of stóru hlutfalli notenda til að ég leggi í það, en þær felast m.a. í ofskynjunum og skapsveiflum. Hitt hefur aftur á móti lágt hlutfall alvarlegra aukaverkana, og skammturinn sem mig vantar kostar um 9 þúsund kr. hérna heima. Best er að það fæst úti, ég held meira að segja án lyfseðils. Ég er nokkuð viss um að þetta er lyfið sem ég tók síðast og ég man ekki eftir að hafa fundið fyrir aukaverkunum, þannig að þeirra vegna er ég til í að taka það.
Svona til vonar og vara sendi ég tölvupóst á ferðavernd.is og spurðist fyrir um muninn, vil vera viss um að ég sé að gera rétt með því að taka ódýrari kostinn.
Það hefur aldrei hvarflað að mér að sleppa malaríulyfinu og verja mig bara með DEET, því að malaría getur verið banvæn: hún er 8 algengasta dánarorsökin í heiminum, og samt finnst hún varla í tveimur af heimsálfunum. Vona bara að ég fái ekki Dengue-sótt í staðinn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. október 2009
Hugleiðingar um farangur
Annað sem þarf að huga að þegar halda á í ferðalag er farangurinn.
Ég hef stundum grínast með það að það eina sem ég þurfi raunverulega að taka með mér í helgarferð til New York sé vegabréfið mitt, veskið og fötin sem ég stend í. Ástæðan er ekki sú að veskið mitt sé eins og taskan hennar Mary Poppins sem inniheldur allar lífsins nauðsynjar, heldur sú að það inniheldur nokkuð sem er bráðnauðsynlegt til að maður geti yfirleitt ferðast, nefnilega seðlaveskið mitt og í því kreditkortið. Með því er hægt að kaupa allt annað sem mann vantar á staðnum: föt, hreinlætisvörur, afþreyingu, o.s.frv.
Að því sögðu þá hef ég stundum velt því fyrir mér hvort ég ætti að prófa að gera þetta í alvörunni, bara til að sjá hvernig mér gengur að bjarga mér, en tilhugsunin um að eyða kannski heilum degi í að kaupa inn nauðsynjar þegar ég hef bara tvo daga til að skemmta mér setur að mér hroll. Ég er alveg jafn kaupglöð og hver önnur íslensk kona, en hver vill standa í því að leita að sokkum og sjampói þegar maður getur verið að gramsa á flóamörkuðum eftir bókum, tískuvörum eða skartgripum, eða þá að kanna söfn, lystigarða eða kaffihús? Ekki ég.
Ég hef líka tekið eftir því að því styttri sem ferðin er, því meiri verður farangurinn. Ef ég ætla í ferðalag sem á að standa í 2 daga til viku þá pakka ég meira dóti niður en fyrir ferð sem á að standa í 10 daga til 3 vikur, og fyrir lengri ferð þarf ég enn minna. Ástæðan er sú að í styttri ferð hef ég minni tíma til að njóta lífsins en á lengri ferð og því tek ég með mér meiri föt til að þurfa ekki að standa í þvottum. Í meðalreisu þessu dæmigerða sumarfríi erlendis sem stendur í 1 til 3 vikur tek ég með minna af fötum og skil eftir mikið af ónauðsynlegu en þægindaaukandi dóti sem ég mundi taka með í styttri ferð, eins og t.d. hárþurrku, fartölvuna og eina bók fyrir hverja 2 daga sem ferðin stendur. Í enn lengri ferð tek ég nánast bara með mér nauðsynjar og geri ráð fyrir að taka frá tíma til að þvo af mér föt og kaupa inn ódýrari nauðsynjar. Í langferðalag tek ég mjög lítið sem ekki er nauðsynlegt, en ég skilgreini auðvitað myndavélina mína, dagbókina og mp3-spilarann sem nauðsynjar. Ef ég er að fara til fátækari landa, þá tek ég með mér smádót sem hentar til gjafa handa fólki sem reynist mér hjálplegt og neitar að taka við peningum fyrir veitta hjálp eða greiða. Merktir pennar, póstkort og klink frá heimalandinu hefur allt reynst vinsælt til slíks og tekur lítið pláss.
Að sjálfsögðu ræðst svo farangursmagnið líka af því um hvers konar ferðalag er að ræða. Það liggur í hlutarins eðli að maður tekur með sér meiri farangur í hótelferð en í bílferð, og meira í bílferð en í rútuferð, og meira í rútuferð en í hjóla- eða gönguferð.
Síðast þegar ég fór í ferðalag sem ekki var annað hvort hótelferð eða farin á einkabíl eða bílaleigubíl var hluti af áðurnefndri Asíuferð fyrir 13 árum síðan. Ég var að vísu með helling af farangri með mér í húsbílnum, en í þær sex vikur sem ég ferðaðist um Indland og Nepal á eigin vegum áður en ég hitti hina úr hópnum aftur fyrir heimförina, þá dugði mér ein mjúk taska, c.a. í handfarangursstærð, og stórt veski. Saman innihéldu þessar töskur tvo umganga af fötum og þrjá af nærfötum, myndavél og aukalinsu, dagbókina mína, leiðsögubók og eina bók til aflestrar, auk smánauðsynja eins og sjampó, handsápu, tannkrem og bursta, OG ég hafði pláss fyrir minjagripi. Þegar taska fylltist eða ég var komin með bækur sem ég hafði lesið og vildi eiga, þá var farið á pósthúsið og dótið sett í póst heim (það skilaði sér heim nokkrum mánuðum á eftir mér). Mér fannst ég aldrei vera með of lítið af farangri, en velti stundum fyrir mér hvort ég gæti losað mig við eitthvað.
Ég kalla þetta öfugu farangursregluna.
Nú þegar ég er að fara aftur til Asíu ætla ég að reyna að halda mig við þessa góðu reglu, en það gæti orðið erfitt, því ég er að fara á svo ólíka staði. Á öðrum þeirra er loftslagið í nóvember svipað og í Reykjavík í ágúst en getur orðið eins og hérna í nóvember, en á hinum er meðal-nóvember nokkuð hlýrri en hlýjasti meðal-mánuður í Reykjavík og í besta falli getur hitastigið þar orðið hærra í nóvember en hefur nokkurn tímann mælst í nokkrum mánuði í Reykjavík. Auk þess er kalt á nóttunni á fyrrnefnda staðnum og hús almennt ekki með kyndingu í hverju herbergi. Þetta gæti orðið erfitt.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. október 2009
Pælingar um val á flugsæti
Almennt eru pælingarnar varðandi flugsætin eftirfarandi:
- Tek ég gluggann til að njóta útsýnisins og geta hallað mér upp að veggnum til að sofa, en á það jafnframt á hættu að pirra nágrannana með því að vera sífellt klifrandi yfir þá á tíðum klósettferðum (það er eins og blaðran skreppi saman í hvert skipti sem ég þarf að fljúga) og/eða að vera króuð af af leiðinlegum nágranna? (ég hugsa enn með hryllingi til þess þegar ég og vinkona mín lentum fyrir innan fyrrverandi umsjónarmann vinsæls sjónvarpsþáttar sem samkjaftaði ekki alla leiðina frá Dublin til Keflavíkur)
- Tek ég ganginn til að eiga greiðan aðgang á klósettið án þess að trufla nágrannana og til að geta staðið upp til að teygja úr mér að vild en á það jafnframt á hættu að vera trufluð af öðrum sem eru á leið á klóið og annað hvort halla sér fram á sætið hjá mér í biðröðinni, taka sér stöðu og lesa yfir öxlina á mér, missa eitthvað í kjöltuna á mér eða prumpa framan í mig á leiðinni framhjá? Kostur er að maður á jafnframt auðvelt með að flýja í smástund ef nágranninn gerist leiðinlegur.
- Eða tek ég miðjuna og á það á hættu að lenda á milli tveggja leiðinlegra nágranna og pirra bara annan þeirra með því að fara á klósettið, en eiga það á hættu að pirra þá báða með því að sofna niður á öxlina á þeim til skiptis eða það sem verra er: fá þá báða hrjótandi og slefandi á axlirnar á mér?
Það er líka talsverð list að velja réttu staðsetninguna í flugvél.
- Þægilegast finnst mér að sitja í fremstu röð því þá get ég setið við glugga og þarf samt ekki að klifra yfir nágrannana á tíðum klósettferðum mínum og kannski vekja þá upp af værum blundi. Svo er maður alltaf svo fljótur út. Ókostur að maður verður að ganga frá töskunni upp í farangurshólf í flugtaki og lendingu, enda engin sæti fyrir framan mann til að stinga henni undir.
- Næst best er að sitja við væng, því þó maður böggi nágrannana með klósettferðum ef maður situr innst, þá er ekki svo þröngt að troða sér framhjá þeim að maður situr næstum í fanginu á þeim á meðan.
- Verst er svo að sitja við ganginn í öftustu eða fremstu röð, því þá getur verið þrælerfitt að sofna fyrir klósetthurðinni, og þar að auki ef maður situr aftast, þá er maður síðastur út og jafnframt síðastur í vegabréfaskoðunina og að farangursfæribandinu og leigubílunum fyrir utan.
Svo liggur maður auðvitað á bæn um að lenda hvergi nálægt óværum litlum börnum, drukknu, illa lyktandi eða flugveiku fólki, eða við hliðina á perra eða manni (oftast nær karlmanni, en konum fer þó fjölgandi í þessum flokki) sem lyftir arminum á sætinu á milli okkar upp og breiðir sig yfir í sætið hjá manni.
En nú er ég að fara að leggja upp í lengsta flug sem ég hef nokkurn tímann farið í: rúmlega 10 klst. samanlagt. Ég hefði getað valið flug með millilendingu sem brýtur ferðina meira upp, t.d. í Istanbúl, Bahrain, Kuwait eða Dubai sem kallaði allt á ferðalög á milli flugstöðva, fyrir utan það að reynsla mín af flugstöðvum er sú að sætin, sem virka þægileg þegar maður HORFIR á þau, eru hönnuð til þess að maður geti tyllt sér niður í ca. kortér áður en rasskinnarnar á manni byrja að dofna upp. Þar að auki er þar oft hávaði og allar veitingar dýrar og ekkert að gera nema versla í rándýrum fríhafnarverslunum eða rölta um þangað til maður er genginn upp að hnjám og farinn að sjá flugsætið sitt í hillingum. Ég efa að ég fái sæti við væng, því flest flugfélög virðast vera farin að úthluta þeim sætum til fólks sem getur hjálpað öðrum að komast út um neyðarútganginn og talar tungumál sem allir skilja - af því að þetta er Air France geri ég ráð fyrir að maður þurfi ekki bara ensku heldur líka frönsku, en hjá mér takmarkast hún við nokkur orð og setningar sem henta til að spyrja til vegar og panta mat á veitingahúsum. Ég hugsa að ef ég fæ ekki sæti í fremstu röð við glugga, þá vilji ég sitja við ganginn nálægt miðjunni, því þá get ég staðið oft upp og þarf að ganga hálfa vélina til að komast á klósettið - fyrirtak til að koma blóðrásinni í fótunum af stað. En svo er auðvitað spurning hvort ég get nokkuð valið mér sæti. Það kemur í ljós.
Ferðalög | Breytt 24.10.2009 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. október 2009
Undirbúningur heldur áfram
Það eina sem var eftir til að ég kæmist örugglega af stað var að bóka farmiðana. Ég var búin að fara á netið daglega og skoða fargjöld og vissi því nokk hvað ég mundi koma til með að borga. Valið stóð í rauninni aðallega um hluti eins og tengiflug, biðtíma, brottfarar- og komutíma frekar en hvort ég borgaði 5 þúsund kallinum meira eða minna fyrir farið með hinu eða þessu flugfélaginu.
Það eru ótrúlegustu flugfélög sem fljúga þarna austur - fyrir utan flugfélög frá landinu er hægt að komast með British Airways (helv. dýrir), Emirates (besta þjónusta sem ég hef upplifað, en líka í dýrari kantinum), Gulf Air (dýrari en BA), Kuwait Air (nokkuð freistandi), tyrknesku flugfélagi sem ég man ekki nafnið á (viðunandi verð en stoppið í Istanbúl of langt til að maður nennti að hanga á flugvellinum og of stutt til að maður gæti með góðu móti farið inn í borgina). Endaði með að velja Air France, því þeir voru með bestu samsetninguna á verði, tengiflugi, biðtíma og brottfarartíma, þó að komutíminn til áfangalandsins sé reyndar áhyggjuefni: klukkan rúmlega ellefu að kvöldi, og svo má gera ráð fyrir amk. 2 tímum í bið eftir að komast í gegnum útlendingaeftirlitið, amk. miðað við sögur sem ég hef heyrt. Þá er klukkan hálf-sex að morgni heima á Fróni og má gera ráð fyrir að ég hafi verið á fótum hátt í sólarhring, og sé bæði úrill og ringluð. Flugið fer frá London til Parísar og þar skipti ég um vél og fæ beint flug á áfangastað.
Ætlaði fyrst að bóka á netinu, en netið hafði aðrar hugmyndir. Heimasíða flugfélagsins bauð ekki upp á að bóka í einu lagi flug á einn áfangastað og til baka frá öðrum. Fyrsta allsherjarbókunarsíðan bauð Íslendingum ekki upp á að bóka, en það kom ekki í ljós fyrr en kom að því að velja heimilisfang til að setja á pöntunina. Sú næsta var bara fyrir Breta. Sú þriðja hleypti manni í gegnum allt valferlið og gat síðan ekki sótt staðfestar bókunarupplýsingar á netið. Ég gafst því upp á að reyna að bóka á netinu og hringdi í Úrval-Útsýn, en þau redduðu mér einmitt síðast þegar ég gat ekki bókað netmiða. Þau tóku frá fyrir mig miða sem ég sótti svo og borgaði seinna um daginn þegar ég var búin að bóka flugið til London í gegnum heimasíðu Flugleiða. Það tókst svo vel að eina vandamálið var spurningin um hvar ég ætti að velja mér sæti í vélinni. Það er nefnilega svolítil list að gera það rétt, sérstaklega ef maður er kvenkyns og einn á ferð. Meira um það seinna.
Ég gat borgað fyrir Flugleiðaflugið með vildarpunktum - nema skatta og önnur svoleiðis gjöld, sem námu næstum 20 þúsund. Mikið hrikalega hafa flugvallarskattarnir hækkað!
Ég ákvað að fljúga til og frá London þó að aðalflugið færi frá París, því að það er svo dýrt að gista í París, og samdægurs-tengingin á milli Flugleiðaflugsins og Air France flugsins var óhentug.
Hvað um það, nú er bara eftir að kaupa gjaldeyri og ákveða hvað ég verð nauðsynlega að taka með mér, því ég ætla með eins lítinn farangur og ég mögulega kemst upp með. Meira um þær pælingar seinna...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar