Færsluflokkur: Ferðalög

Rigning in Jaipur

Jaipur er fræg fyrir ýmislegt, en rigning í nóvember er ekki eitt af því. Þegar ég kom hingað, klukkan ca. 6 í gærmorgun, þá var mjög rigningarlegt, og það byrjaði að rigna um það leiti sem ég tékkaði mig inn á glænýtt hótel. Það er að vísu í nokkuð löngu göngufæri frá aðalaðdráttarafli borgarinnar, virkisborginni, en bætir það upp með því að vera nálægt lestarstöðinni.

ég lagði mig til hádegis og labbaði svo af stað og var komin upp í virkisborgina um kl. 13:30.

Hún er stór! Það tók mig örugglega hátt í 40 mínútur að labba inn í hana miðja, þar sem hinn stórfurðulega og glæsilega höll vindanna er staðsett. Byggingarstíllinn er í hreinræktuðum piparkökuhúsastíl, með allskonar flúri og skrauti sem hefur verið snilldarlega höggið út í steininn.

ég fór inn og skoðaði hana baka til líka, og þó hún sé ekki jafn glæsilega þar, þá er hún alls ekki slæm.

á heimleiðinni tók aldeilis að kárna gamanið, því ég villtist. ég er ekki ennþá farin að venjast því að það fer að dimma hérna upp úr fimm, og er mjög fljótt að verða mjög dimmt. Götulýsingar eru ekki góðar, 1 ljósastaur lýsir hér upp svæði sem við mundum nota 2-3 staura, og perurnar lýsa ekki jafn vel. Jafnframt tók að rigna meira, og kólna. ég var kvefuð fyrir, og er ekki betri í dag.


Borg brjalaedisins

Halloo Madame!
Svona ávarpa sölumennirnir herna mann áður en þeir byrja að reyna að selja manni eitthvað, nema orð a skjánum geta omogulega lyst þvi hversu creepy tónninn er. það þarf að minnsta kosti 3 nei til að losna við þa, mun fleiri ef þeim hefur t.d. tekist að kroa mann af úti a umferðareyju i miðju umferðarflóðinu herna, eins og kom fyrir mig i morgun. Hreinraektraður heilaþvottur.

Eg er annars i Delhi. Fekk goðar mottokur hjá kunningja mínum og for með mömmu hans i gaer til að kaupa nýja myndavél. Er mjög anaegð med taekið.

þessi borg er líkleg til ad koma viðkvaemum sálum inn a Klepp - maður faer ekki frið allan liðlangann daginn. Ef það er ekki solumaður, þa er það nokkud mun verra: ahugasamur innfaeddur, oftast karlmaður (sem dytti aldrei i hug ad ávarpa okunnuga innfaedda konu), sem vill forvitnast um hvítingjann. það er erfiðara að eiga við þa af þvi að þeir eru ekki beint að bögga mann og eru mjög kurteisir og þvi erfiðara að slita þa af sér ef maður er ekki i skapi til að tala. Solgleraugu og skyndilegt heyrnarleysi virka ekki a þa, en ef maður er a gangi er um að gera að halda þvi afram, a íslenskum hraða.

 Fer til Jaipur i kvöld.  Meira seinna.


Apar, pönnukökur og heimsókn til skósmiðs

Jæja, þá fer dvölinni hérna í Shimla að ljúka. Ég hef haft það mjög gott hérna (fyrir utan næturkuldann), en nú er tími til kominn að halda áfram ferðalaginu. Ég er búin að fá far með næturlest til Delhi á morgun. Af því að foreldrar vinkonu minnar fara með sömu lest, þá fæ ég far með þeim til Kalka, sem þýðir að ég spara mér á bilinu 250 til 1200 rúpíur, eftir því hvaða ferðavalkost ég hefði tekið niður eftir: rútu (ekki spennandi eftir fréttir dagsins: 33 látnir eftir rútuslys í nágrenninu í gær), smálestina (búin að gera það, og þó það hafi verið gaman, þá eru sætin óþægileg og 95 km. á 5:30 klst. er svolítið hægfara), eða leigubíl (sem ég hefði þurft að deila með ókunnugum til að geta borgað temmilegt verð fyrir).

Í gær tók mín sig til og steikti pönnukökur. Vinnumaður vinkonu minnar hitaði mjólkina og ég nennti ekki að bíða eftir að hún kólnaði, svo ég blandaði henni heitri saman við hveitið, sem er mjög fínmalað, og útkoman var kekkir. Þeim var eytt með töfrasprota, en hitinn hafði gert það að verkum að pönnsudeigið varð búðingslegt og skreið til á pönnunni eins og lifandi væri í stað þess að loða við hana. Pannan var chappati-panna, en þær eru í grunninn plötur með pínulitlu skálarlagi til að hægt sé að nota þær yfir gaseldi. Fyrir bragðið urðu þetta hálfgerðar lummur, en bragðið var alveg eins og maður er vanur að heiman. Notaði kardimommur til að gefa bragð, og fékk hrós fyrir.

Í dag hélt vinkona mín hádegisverðarboð fyrir 3 vini sína sem búa hérna, og við fengum skemmtun: hópur af langur-öpum kom og raðaði sér í tréð fyrir utan stofugluggann, á svalahandriðið og gluggakistuna. Því miður eru þeir feimnir við myndavélar svo ég náði ekki mynd, en ég held ég hafi aldrei komið svona nálægt villtum dýrum á ævinni. Bara gluggarúða á milli. Langúrarnir eru fallegri en rhesus-aparnir sem ógna vegfarendum hérna, og eru ekki eins ágengir. En þeir hefðu aveg mátt sleppa því að vekja mig með hamagangi uppi á þaki klukkan fimm í morgun.

Eftir að gestirnir voru farnir fórum við tvær niður í bæ, hún til að kaupa afmælisgjöf handa dóttur nágranna síns, og ég til að láta gera við gönguskóna mína. Ég var þegar búin að láta festa sólann aftur við annan þeirra, en í þetta skipti var það gat á ytra byrði hins skósins sem hafði heldur stækkað við göngur undanfarinna daga. Við fórum með skóna til sama skósmiðsins og áður. Sá er með vinnustofu úti á götu niðri á basar. Við horfðum sem dáleiddar á hann í næstum klukkutíma á meðan hann gerði snilldarlega vel við skóinn, límdi hann, bætti og saumaði, litaði bótina í nákvæmlega sama lit og skóinn, og hressti svo upp á útlit skónna að hver sá sem ekki þekkti til mundi halda að þeir væru nýir en ekki 15 ára gamlir.

Ég verð í Delhi eins stutt og ég get – á mánudaginn ætla ég að reyna að hitta kunningja minn sem ég kynntist í Króatíu í fyrrasumar, og líka að athuga með viðgerð á myndavélinni. Ef viðgerðin reynist of tímafrek eða dýr, þá ætla ég að kaupa nýja vél – get fengið ágætisvél fyrir um 30 þúsund. Á þriðjudaginn ætla ég svo að kíkja inn á þjóðminjasafnið, í ríkisrekna verslun með indverskt handverk, og í verslum til að kaupa mér eitt eða tvo sett af salwar kameez. Það er hefðbundinn búningur kvenna í Punjab-héraði sem konur út um allt land hafa tekið upp sem hversdagsfatnað, og er mjög þægilegur: víðar buxur, dregnar saman í mittið, síð skyrta við og slæða sem er kölluð dupatta. Ég ætlaði fyrst að láta sauma á mig hérna uppfrá, en öll efnin sem stóðu til boða eru of þykk og hlý fyrir veðurfarið niðri á sléttunum og fyrir sunnan. Vinkona mín benti mér á verslun í Delhi þar sem maður getur keypt tilbúin svona föt í stórum stærðum, og ég held að það sé sniðugt að kaupa tvö sett sem ég get blandað saman eftir þörf.

Frá Delhi verður haldið til Rajastan, byrja líklega í Jaipur.


Musteri, musteri, og aftur musteri

Í gær og í dag hef ég verið að heimsækja musteri borgarinnar með foreldum vinkonu minnar. Hún hefur bíl og bílstjóra til afnota á vegum vinnunnar sinnar og getur notað hann í persónulegum tilgangi, svo á meðan hún er í vinnunni höfum við notað bílinn til að komast í musterin. Þau eru Hindúar og fara til að biðjast fyrir en ég til að skoða. Það eru engin verulega gömul musteri hérna, það elsta er frá því um miðja 19 öld, en þau eru talin standa á grunni eldri mustera.

 

Í gær fórum við að musteri Tara Devi, sem er talsvert langt í burtu héðan, uppi á hárri hæð. Vegurinn hlykkjast þarna upp og þaðan er frábært útsyni til allra átta. Þegar á staðinn kemur fer maður úr skónum og fer berfættur upp í musterið. Gyðjan er tilbeðin inni í lágreistu húsi sem stendur inni í blómstrandi garði, og er logagyllt og lítil – það sést bara s sem gægist upp úr glingurlegri fatahrúgu - og standa líkön af Kalí og Sarasvati (nú er það alfræðiorðabókin...) vörð um hana. Trén í garðinum eru öll þakin í rauðum klútum með gylltu kögri sem fólk kaupir fyrir utan musterið og bindur utan um trén og óskar sér einhvers um leið. Það var meira en lítið skrítið að sjá kirsuberjatré í blóma þarna uppi, en auðvitað er skynsamlegra af þeim að blómstra núna en á sumrin, því það verður auðvitað allt of heitt fyrir blómin þá. Uppi á sömu hæð er líka Shiva-musteri, um 50 ára gamalt. Það er byggt í svo víkingalegum stíl að það er ekki fyndið. Það eina sem vantar er drekaútskurður, og þá gæti það staðið við Fjörukrána í Hafnarfirði.

 

Í morgun fórum við síðan að musteri Kali Bari sem er nánast í miðbænum. Fengum skutl þangað og gengum svo upp hæðina að musterinu. Þaðan er líka gott útsyni, yfir miðbæinn. Aðalmótsstaður bæjarbúa heitir Scandal Point – ekki erfitt að ímynda sér hvað hefur gengið á þar á tímum Bretanna. Eftir heimsóknina til Kali skildi leiðir og ég fór í langa og erfiða fjallgöngu upp að Hanuman-musteri sem stendur á svokallaðri Jakko-hæð. Þangað er 1.5 kílómetra ganga upp mjög bratta hlíð, og þó það séu hér og þar þrep til hliðar við veginn til að hjálpa manni, þá er þetta þrælerfitt. Náði samt upp á 40 mínútum – bara frekar gott fyrir manneskju með mitt holdafar. Af því að Hanuman er apaguð, þá eru aparnir þarna uppi heilagir og fyrir bragðið eru þeir enn hættulegri en aparnir niðri í bæ. Maður er varaður við að halda fast í allt lauslegt og fela gleraugu ef maður er með svoleiðis, því þeir eiga það til að hrifsa þau af manni og skila þeim ekki fyrr en þeir fá mat í staðinn.

 

Gangan niður var enn erfiðari en upp, því að ég er slæm í hnjánum og brattinn óskaplegur á köflum.

Verðlaunaði mig með cappucino þegar niður kom, á Lavazza-kaffihúsi, en valdi að láta gera það úr indverskum kaffibaunum, sem brögðuðust bara ágætlega. Samlokan var aftur á móti bragðlaus með öllu – serves me right að fá mér ekki indverskan hádegismat.

Myndavélin er ennþá biluð.

 

 


Meira frá Shimla

Ég hef það mjög gott hérna, er í besta yfirlæti en mikið, djö. er kalt hérna á nóttunni. Hitinn fer upp í kannski þetta 15 til 18 gráður á daginn og dettur niður undir frostmark á nóttunni, og það er engin kynding í húsinu nema hitablásarar sem ráða illa við kuldann. Sem betur fer hef ég ágæta, þykka ábreiðu yfir mér og fyrst ég er ekki búin að kvefast nú þegar, þá efast ég að það gerist héðan af.

 

Í morgun fór ég ein í labbitúr upp á Observatory Hill, sem er ein af hæðunum sem borgin stendur á. Þar stendur stórt hús eða öllu heldur lítil höll, sem var á sínum tíma aðsetur bresku landsstjóranna á Indlandi, en Shimla var sumarhöfuðborg landsins um langt skeið. Það var reyndar Dufferin lávarður sem lét byggja húsið, en hann skrifaði ferðasögu frá Íslandi þegar hann var yngri, Letters from High Latitudes. Svona geta tengsl á milli staða verið óvænt.

 Eftir hádegi fór ég í gönguferð um borgina með gestgjafanum mínum. Við kíktum á basarinn og skoðuðum ýmsa skemmtilega ranghala borgarinnar. Sumir borgarhlutar þar sem eru bara gömul hús eru eins og þeir séu í austur-Evrópu: byggingarstíllinn er mjög evrópskur en þau eru mörg niðurnídd og illa við haldið. Úti á einu torginu hafði verið settur upp útisjónvarpsskjár og fjöldi fólks fylgdist af áhuga með krikketleik á milli Indlands og Ástralíu. Hann stendur enn, kl. 10:30 að kvöldi, og fjölskyldan sem ég dvelst hjá er öll að horfa spennt.

 Hér er svo mikil apaplága að maður getur ekki látið þá sjá sig úti á götu með mat, þá hrifsa þeir hann af manni og maður er bitinn ef maður streitist á móti. Hef því á mér góðar gætur.

Myndavélin mín er biluð. Ég er að vona að það séu bara léleg batterí sem valda, en ef ekki þá verð ég að kaupa mér nýja.

 Myndir annarra frá Shimla.


Delhi-Shimla

Gærdagurinn fór næstum allur í ferðalög. Ég lagði af stað á lestarstöðina kl. 5:00 um morguninn - basarinn var mjög skuggalegur á þessum tíma sólarhringsins. Lestin fór af stað kl. 5:50, og það var mikill léttir að rúlla út af stöðinni, því lyktin þar er eins og af vel gerjuðum útikamri, enda tæmast lestarklósettin beint niður a teinana og fólk notar þau gjarnan inni a stöðvunum, og það eru meira en 20 lestarpallar þarna...

 

Var komin til Kalka (náið nú í kortabókina...) um 12:30, og svo fór ég með annarri lest til Shimla (líka stafað Simla, svona fyrir þá sem eru búnir að draga fram kortabókina). Sú er svo merkileg að hún er á heimsminjaskrá UNESCO, enda mikið verkfræðiundur. Göngin ein eru yfir 100, og ég veit ekki hvað það eru margar bryr. Himalaja-fjöllin undursamleg og jafnvel dísel-fýlan frá eimreiðinni var framför frá mengunni í Delhi. Loftið hérna uppi er hreint og tært, en brrrr! Það er kalt hérna á nóttunni.

 

Ég fékk frábærar móttökur: það beið eftir mér bíll og bílstjóri og á leiðarenda hitti ég foreldra gestgjafans míns, mjög viðkunnanlegt fólk, og hún kom svo heim skömmu seinna.

 

Í dag fór ég með gestgjafanum mínum upp í vatnsverndarsvæði borgarinnar ásamt hópi af öðru fólki, og það var yndislegt: þykkur, óspilltur skógur í bröttum fjallahlíðum, þægilegt hitastig og skemmtilegt fólk. Borgin hérna er ótrúleg, byggð utan í fjallshlíðum og dreifbyl og falleg. Sum húsin eru hálftimbruð og eins og klippt út úr Shakespeare-leikriti á meðan önnur gætu hafa verið flutt inn frá Sviss.  Bretar byggðu borgina upp á 19 öld og hún var höfuðborg breska Indlands á sumrin þegar hitinn í Kalkútta og seinna Delhi varð of mikill.

 Eins og sjá má er ég komin í tölvu með ritvinnsluforriti – get ekki lofað að þetta verði alltaf svona.

Hef von um að geta hent myndum út á netið fljótlega. Læt vita.

 

 


London-Paris-Delhi

Er komin til Delhi. Lenti um miðja nótt og beið á flugvellinum fram i dagrenningu og for þa með leigubil inn i borgina. Fann mer hótel i Paharganj, sem er rétt hjá aðal-lestarstod borgarinnar. þetta er ekta basar - volundarhus af litlum gotum sem sumar serhaefa sig i einhverju, t.d. fann eg i dag gotu grannmetissalanna þegar eg var a flotta undan leiguvagnsstjóra sem vildi endilega fara með mig i "state emporium" alveg ókeypis  - sem þydir að hann mundi fara með mig beint i einkarekna verslun þar sem eg vaeri hvött til að kaupa dýrt drasl sem hann fengi svo umboðslaun af. Verst er að brodir hans vinnur herna a hótelinu, þannig að það er erfitt að forðast hann. 

   Fyrsta hotelid sem eg for a herna er svona sjabbi "einu sinni var" staður sem einhverntimann hefur verid frekar flott en er núna ordid frekar luid, þott verdid sé ennþa midad vid forna saemd thegar hotelid var nytt og hreint. Nu er eg komin a odyrara ferdamannahotel sem er ekki jafn flott en þad eina sem vantar upp a þad sem var bodid upp a hinum stadnum  er ad þad er ekki fiskabur i veggnum og Animal Planet naest ekki i sjonvarpinu. Svo virkar loftkaelingin ekki þessa stundina, en viftan er alveg nog a þessum arstima.

For  i gaer og skodadi grof Humayums (sorry, get ekki sett inn mynar myndir strax) og sa i leidinni stora parta af Nyju-Delhi. I dag for eg og skodadi Rauda Virkid  og Chandni Chowk (Tunglskinsstraeti). Fer med lestinni til Shimla kl. half-fimm i nott. Laet vita af  mer aftur um leid og eg get.

Andskotans tolvan leyfir mer ekki ad vista allar islenskar leidrettingar - Pukinn er liklega biladur eina ferdina enn. Nenni ekki ad leita ad ASCII-toflunni thannig ad thid verdid bara ad reyna ad stafa ykkur framur thessu eftir bestu getu.


Ég flýg

...klukkan níu. Færslur hér eftir verða stopular, og hugsanlega á svolítið skrítinni íslensku ef ég er að flýta mér og nenni ekki að grafa upp ASCII-listann.

 Ég flýg til London, verð þar yfir nótt, síðan til Parísar, og þaðan til Nýju Delhi. Verð þar í 2-3 daga, síðan með lest til Shimla, verð þar hugsanlega í allt að viku. Síðan til Jaipur (kannski líka Agra - Taj Mahal er vel þess virði að sjá aftur), Udaipur, Ahmedabad, Mumbai (Bombay). Síðan suður á bóginn, og enda í Bangalore þar sem ég verð í allt að viku. Flýg þaðan til Parísar þann 3 desember, þaðan til London og heim þann 4 desember.

 Bless, bless!


Nú er komið að því sem alltaf reynist mér erfitt

Nefnilega að velja lesefni fyrir ferðina. Þetta er alvarlegt mál þegar maður er jafn mikill lestrarhestur og ég, sem les 100 blaðsíður á klukkutímann á ensku og enn hraðar á íslensku og píni mig ekki til að klára leiðinlegar bækur. Núna er valið enn erfiðara en ella, því fyrir utan að velja læsilegar bækur þarf ég líka að velja bækur sem ég vil ekki eiga áfram eftir lestur. Þetta er vegna þess að mig langar ekkert að burðast í 5 vikur með bunka af bókum sem ég er búin að lesa, heldur vil ég geta býttað þeim fyrir aðrar bækur.

 Það er um að gera að velja fjölbreytt lesefni, og ekki bækur sem eru mjög þungar eða þykkar, því það verður erfitt að halda á þeim til lengdar í flugvélinni. Valið stendur núna á milli spennu-ástarsögu, 3 glæpasagna, alvarlegrar skáldsögu sem gerist á Indlandi, hæðinnar skáldsögu sem gerist á Bretlandi, og bókar um þýðingafræði sem mig hefur lengi langað til að lesa. Af þessum bókum þarf ég að velja þrjár til að taka með mér.

 

Eftir að ég skrifaði ofangreint skrapp ég út og fór í Góða hirðinn, svona af gömlum vana, og heppin var ég: einhver hafði gefið hirðinum stærðarinnar bunka af vasabrotsútgáfum af bókum Terry Pratchett. Ég á allar bækurnar hans nema þrjár, allar nema tvær í harðspjaldaútgáfum = ekki gott að taka þær með í ferðalög. Þarna fann ég eina bókina sem mig vantaði – vísindaskáldsögu frá því áður en Diskheimur varð til – en það besta var að ég fékk aukaeintak af Good Omens, sem ég er búin að lesa í tætlur, og svo valdi ég mér tvær í viðbótar til að taka með í flugið. Síðan ætla ég að velja eina eða tvær af hinum bókunum, og þá er ég tilbúin til brottfarar. Jibbí!


Nokkur orð um ferðahandbækur

Einn af hinum óhjákvæmilegu fylgifiskum ferðalaga er ferðahandbókin. Þótt ótrúlegt megi virðast eru til ferðahandbækur frá því fyrir tíma Krists, en þær urðu ekki að iðngrein fyrr en ferðaskrifstofur komu til sögunnar um miðja 19. öld. Ferðahandbókum er ætlað að upplýsa ferðamenn um áhugaverða staði, opnunartíma, gistingu og matsölustaði og annað sem þeir þurfa að vita til að geta notið dvalarinnar. Þær geta verið frábært verkfæri sem sparar manni bæði tíma og peninga, en þær geta líka komið í veg fyrir að maður uppgötvi áhugaverða staði og annað sem ekki kemur fram í þeim. Maður heyrir sögur (vonandi ósannar) af ferðafólki sem fer svo nákvæmlega eftir ferðahandbókinni sinni að það útilokar allt sem er ekki í bókinni og missir þar með af því sem einmitt gerir ferðalög svo skemmtileg: að uppgötva hlutina upp á eigin spýtur. Gott dæmi um þrælslega hlýðni við ferðahandbækur má lesa um í bók E.M. Forster, A Room With a View, þar sem breskir ferðalangar á Ítalíu fylgja Baedecker-leiðsögubókinni eftir stafnum og þykir ekkert merkilegt nema það sé í henni.

Ég er þeirrar skoðunar að ferðahandbækur séu gagnlegar, en þær eigi alls ekki að ráða því hvað maður gerir. Þegar maður lætur bókina eina segja manni hvað maður á að sjá og gera þá hættir hún að vera handbók og verður að einhverju allt öðru og skuggalegu. Ég hef yfirleitt nokkuð góða yfirsýn yfir það sem mig langar til að gera og skoða þegar ég ferðast og ég nota handbækur aðallega til upprifjunar og til að spara mér tíma við að finna út opnunartíma banka og verslana, siði og venjur, gagnlegan orðaforða,  og til að vísa mér á svæði þar sem er gott að versla eða gista. Þær allra bestu geta vísað manni á áhugaverða staði sem maður hefur ekki grafið upp sjálfur með lestri bóka eða á netinu. Mér finnst þær sem gefa manni sögulegan bakgrunn fyrir staðina sérstaklega áhugaverðar og það er frábært þegar þær vísa manni á lesefni með frekari upplýsingum. Kort í leiðsögubókum geta líka verið mjög gagnleg, því þó að þau séu oft ekki jafn nákvæm og opinber götukort, þá sýna þau yfirleitt smærri svæði og gefa manni yfirsýn sem ekki fæst á stærri kortum. Ég varast samt kortin í Lonely Planet bókunum því það er mjög auðvelt að villast eftir þeim. Þau eru vonlaus, gefa ekki upp nóg af götunöfnum, skekkja skalann og sleppa jafnvel alveg sumum götunum.

Í Bandaríkjunum og mörgum Evrópulöndum er auðvelt að ferðast án handbóka. Maður kaupir einfaldlega gott vegakort og fer svo á Tourist Information þegar maður mætir á staðinn og hirðir þar slatta af bæklingum. Í USA eru oftast nær svona upplýsingaskrifstofur við fylkjamörkin við alla stærstu þjóðvegi, og þar getur maður nálgast upplýsingar sem ekki finnast í neinum ferðahandbókum og líka ókeypis vegakort.

En nú liggur leiðin til Indlands, og þangað fer ég ekki án ferðahandbókar. Sú sem ég á úr fyrri ferðinni er löngu úrelt hvað varðar allar upplýsingar um gististaði og veitingahús og ýmislegt annað, t.d. er ekki að finna nein netkaffihús í henni. Því tek ég hana ekki með mér. Ætlunin er að fara í bókabúð í London, þar sem ég millilendi í hálfan sólarhring, og kaupa þar annað hvort Rough Guide eða Footprint handbók. Ég er auðvitað búin að plana leiðina svona nokkurn veginn, en allt hitt verður gagnlegt. T.d. er gott að skoða gistiupplýsingar og sjá á hvaða svæðum gistihúsin eru staðsett, láta síðan leiguvagn fara með sig á einn gististaðinn í bókinni og skoða síðan hvað er í boði í kring sem er ekki í bókinni. Mín kenning (byggð á reynslu minni og annarra) er nefnilega sú að mörg gistihús hækka verðin og minnka þjónustuna þegar þau komast inn í leiðsögubækurnar. Sama með matsölustaði.

--

Nú er farið að styttast verulega í brottför, og ég geri ekki ráð fyrir að ég muni geta bloggað jafn stíft í ferðinni og ég hef gert hér, en ég mun reyna að láta sjá mig eins oft og ég get.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 33123

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband