Færsluflokkur: Ferðalög

Meiri undirbúningur

Á föstudeginum gerði ég meira: renndi inn í Kópavog og sótti um endurnýjun á vegabréfinu mínu. Það gamla var gatað og þannig gert ógilt, og svo var tekin af mér mynd og fingraför - hvað ætli þeir krefji mann um næst, lífssýni?

 Fékk svo vegabréfið afhent niðri á Þjóðskrá á þriðjudaginn var, og renndi því næst beint niður í sendiráð og fyllti út ítarlega umsókn um áritun. Ég skil af hverju þeir vilja fá "reference" heima og úti - það er til að hægt sé að hafa samband ef eitthvað kemur fyrir - en af hverju þarf maður að fylla út nöfn og fæðingarstaði foreldra sinna? Ekki ætla þau með mér út. 

 Fékk vegabréfið í hendurnar á föstudaginn og þá var bara eitt eftir...


Undirbúningur

Það er ýmislegt sem maður þarf að huga að þegar halda á til fjarlægra landa, og eitt af því er bólusetningar. Ég var ekki búin að ákveða fyrir víst að ég færi þegar ég fór að huga að þeim, enda halda þær virkni sinni í 5-10 ár og ef ég hefði ákveðið að fara ekki, þá hefði ég bara haft gagn af þeim seinna.

 Sem sagt.  Á föstudeginum í vikunni vondu hringdi mín í heilsugæsluna og pantaði bólusetningar, og var svo mætt í bitið á mánudagsmorguninn. Ég fékk boostera fyrir:

stífkrampa

barnaveiki

og

lömunarveiki

og bólusetningar fyrir 

taugaveiki

og

lifrarbólgu A

samtals 4 stungur. Ég var þar af leiðandi götótt þegar ég gekk þarna út á eftir og þakin í plástrum á upphandleggjum báðum megin. 

Svo átti að athuga með meira, svo sem japanska heilabólgu B, hundaæði, flensu og kóleru.

 Hjúkrunarfræðingurinn talaði við sérfæðing og hann mælti með  því síðasta, og sagði að mér væri í sjálfsvald sett hvort ég tæki heilabólgusprautuna, en það kostar víst 50 þúsund og er ekki mikil hætta þar sem ég er að fara, þannig að ég sleppti því.

Fór á föstudaginn til að fá kólerubólusetninguna - það er reyndar inntökulyf sem ég fékk með mér heim, og er tekið í tveimur skömmtum með viku millibili. Er búin að taka inn skammt 1 og tek hinn á sunnudaginn kemur. Svo fékk ég lyfseðil fyrir Malaron, sem er malaríulyf.


Skyndiákvörðun, eða kannski ekki

Ég hef alltaf verið gefin fyrir að ferðast. Sumar af mínum elstu minningum eru úr ferðalögum um Ísland  með mömmu og pabba, og mér hefur alltaf þótt það gaman, líka þegar rigndi eldi og brennisteini eða heilsan var ekki upp á það besta.

Árið 1995-6 fór ég í langt landferðalag sem hófst í Danmörku og endaði í Pakistan, með viðkomu í Þýskalandi, Tékklandi, Austurríki, Ítalíu, Grikklandi, Tyrklandi, Íran, Indlandi og Nepal. Leiðin sem var farin fylgdi að nokkru leiti gömlu hippaslóðinni, nema við sneiddum hjá Balkanskaganum þar sem enn var vandræðaástand, og einnig framhjá Afganistan, en þar var auðvitað ennþá verra vandræðaástand (sem hefur ekki farið batnandi síðan). Þarna fékk ég í fyrsta skipti að bragða á því hvernig það er að ferðast upp á eigin spýtur, því við nýttum hvert tækifæri sem gafst til að yfirgefa rútuna og ferðast á eigin vegum, ýmist saman eða ein. Ferðaneistinn sem alltaf hafði týrað á hjá mér varð þarna að báli, og þó stundum hafi logarnir legið í dvala, þá hefur það bál aldrei slökknað alveg.

Ég hef verið að hugsa um að fara í aðra langa ævintýraferð alveg síðan ég sneri heim úr þessari reisu, en að ýmsum ástæðum hefur það ekki gerst ennþá. Bara það að gerast íbúðareigandi gerði það að verkum að ég hef ekki haft mjög mikið fé á milli handanna. Þó hefur mér tekist að fara í nokkrar utanlandsferðir síðan, en þær hafa allar verið frekur stuttar og með öðrum, en samt nógu langar til að viðhalda eldinum. 

Eitt af því sem ég hef gert til að viðhalda bálinu er að taka þátt í ferðaspjalli á netinu. Ég hef verið þáttakandi í einni stærstu ferðaspjallsíðunni á netinu í hátt í 15 ár, og var fyrstu árin eina manneskjan þar sem vildi viðurkenna að vera Íslendingur. Þótt okkur hafi nú fjölgað nokkuð, þá halda hinir sig aðallega í Íslandshorni síðunnar, en ég hef gerst meðlimur annarrar af tveimur stærstu klíkunum á síðunni og held mig aðallega á hennar borði. Þetta er notalegur staður og umræðuefnin fjölbreytt, ekki bara ferðalög heldur ýmislegt annað.Því var fullkomlega eðlilegt að ég segði öðrum klíkumeðlimum frá því hvað hefði skeð. Ég endaði skilaboðin með því að segja þeim að þótt þetta væri hrikalegt áfall og allt það, þá væri það eina sem kæmist að hjá mér þá stundina að slaufa þessu öllu, setja íbúðina í leigu og fara á heimshornaflakk næstu tvö árin eða svo.

Viðbrögðin voru frábær. Innan klukkutíma var ég búin að fá heimboð til 3 landa, og innan tveggja tíma voru löndin orðin 6, þar á meðal eitt í Afríku og eitt í Asíu. Þarna fékk ég þá hvatningu sem þurfti. Ég settist niður og reiknaði, og innan skamms var orðið ljóst að ég hefði vel efni á að halda til útlanda í einhvern tíma, tímalengdin færi eftir því hvert ég færi. Þar sem vitað er að þó ég fari að vinna strax upp úr áramótum þá mundi ég ekki eiga nema nokkra frídaga á næsta orlofsári, þá var tilvalið að fara núna í langt frí, og nota til þess orlofspeningana og óvænt "fríið" sem ég hafði fengið.

Það má því segja að þetta hafi verið skyndiákvörðun tekin eftir 13 ára umhugsun.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 33285

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband