Færsluflokkur: Ferðalög

Landasöfnun og spurning um plebbahátt

Ég hef óskaplega gaman af að ferðast, og ekki síður ferðalaginu sjálfu en áfangastöðunum. Þeir skipta þó líka máli, og eitt af því sem ég hef gaman af er að safna nýjum stöðum, sérstaklega nýjum löndum. Það skiptir mig máli hvernig ég kem til lands – t.d. finnst mér það ekki að vera að koma til einhvers lands að millilenda þar og eyða nokkrum klukkutímum á einhverjum alþjóðaflugvelli og fljúga síðan burt. Þannig finnst mér ég t.d. ekki hafa komið til Frakklands þó ég hafi verið eytt nokkrum klukkutímum á Charles de Gaulle-flugvelli fyrir nokkrum árum síðan. Ég hef varla komið til Belgíu, en þar var ég þó á akstri í einhvern tíma og steig a.m.k. tvisvar út úr bílnum.

Ég hef sett mér þá almennu reglu að til að teljast hafa komið til tiltekins lands, þá þurfi ég að hafa stigið fæti út undir bert loft þar (sem gerðist í Belgíu en ekki í Frakklandi), og helst hafa fengið mér eitthvað að borða þar og gert eitthvað sem mætti kalla samskipti við innfædda, þó ekki sé nema bara að fara inn í sjoppu til að kaupa mér vatn. Þetta síðasta tvennt gerði ég reyndar um borð í ferju til Englands úti fyrir strönd Belgíu, þannig að jú, Belgía á líklega heima á listanum (en þó í sviga því mér finnst ég ekki hafa komið þangað almennilega). Síðan er það bónus að hafa eytt nótt í landinu.

Ég var að leika mér að því um daginn að fylla út eitt af þessum gagnvirku kortum sem maður finnur á netinu þar sem maður merkir við lönd sem maður hefur komið til og það verður til kort þar sem þaworld-map-back-tattoo4.jpgu lönd eru sýnd og maður getur sett inn á blogg eða aðrar vefsíður. Sumir mundu kalla þetta mont – ég kalla það stolt yfir því hvert maður hefur farið, því ég er ekki í neinni keppni um að koma til sem flestra landa. Ég læt aðra um slíkt, t.d. þennan gaur sem gekk svo langt að láta húðflúra heimskort á bakið á sér og lætur fylla upp í hvert nýtt land sem hann kemur til.

Ég fyllti sem sagt út gagnvirkt kort af Evrópu til að sjá hvað ég hefði komið til margra landa og í ljós kom að ég hef gott tækifæri til að bæta við tveimur nýjum löndum á listann minn í fyrirhugaðri ferð, nefnilega Liechtenstein og Frakklandi. Það var alltaf ætlunin að fara til Frakkalnds í ferðinni - annað hvort sem aðaláfangastaðar eða þá að skjótast yfir landamærin til að stíga fæti á franska grund, anda að mér frönsku lofti og vonandi nota menntaskólafrönskuna mína smávegis og því er Strasbourg í Frakklandi inni á meginleiðinni sem ég dró upp í gegnum Þýskaland þegar ég fór fyrst að pæla í ferðinni.

Ég ætla að fara réttsælis hring um Þýskaland og byrja því á gamla Austur-Þýskalandi, því þangað hef ég ekki komið áður nema í helgarferð til Berlínar. Síðan á að aka í suður til Schwangau og þaðan til Bodensee/Konstanz og Freiburg, og síðan snúa norður á bóginn og taka Strasbourg á leiðinni til Heidelberg.

Þegar ég fór að skoða kortið sá ég að það tæki mig innan við einn dag út af leiðinni milli Schwangau og Konstanz að taka krók til Liechtenstein, þó reyndar sé ég að hugsa um að eyða nóttinni þar – er búin að finna fínt tjaldstæði þar til að gista á.

Ég fór að skoða upplýsingar um hvað væri hægt að sjá og gera í Liechtenstein, og komast að því að á tiltekinni ferðaspjallsíðu sem ég er fastagetur á virðist það viðhorf vera ríkjandi að Liechtenstein sé óspennandi og leiðinlegt land og eina ástæðan fyrir að fara þangað sé að strika það út af lista yfir lönd sem maður á eftir að heimsækja. Á milli línanna lá sú skoðun að það væru bara plebbar sem að safna löndum.

Nú spyr ég: er það plebbaskapur að hafa gaman af að ferðast til landa sem eru ekki í tísku og njóta þess að bæta þeim á listann yfir staði sem maður hefur komið á?

Er það þá heimsborgaraháttur að ræða ekki hvert maður hefur komið? Til hvers er maður þá eiginlega að ferðast ef það má ekki tala um það og vera stoltur af því?

Save

Save


Fákurinn heltist (sprungið dekk nr. 1)

Við Kattaraugað í VatnsdalMynd: Bíllinn við Kattaraugað í Vatnsdalnum.

Ég var á leiðinni í bæinn aftur úr fjölskyldusamkomunni sem ég minntist á í næstsíðustu færslu og ákvað víkja út af þjóðvegi 1 og keyra hringinn í Vatnsdalnum. Veðrið var gott og ég var ekkert að flýta mér, og það var gaman að fara þennan hring þó vegurinn væri sannast sagna hreint hroðalegur á köflum. Ég komst þetta klakklaust og niður á þjóðveg aftur, en rétt áður en ég kom í Víðigerði upphófst mikið skrölt og læti aftur í bílnum. Það var eins og það væri ærsladraugur að rífa innréttinguna í sundur og leika sér að hrossabresti á sama tíma, og ég renndi því í hlað við sjoppuna til að athuga hvað væri að gerast. Viti menn: það var sprungið á öðru afturdekkinu.

Nú hófust aðrar hremmingar. Ég er fullfær um að skipta um dekk á bíl – hef gert það áður, meira að segja blindandi í niðamyrkri – en þarna var vandamál sem ég hafði ekki mætt áður: ég náði ekki með nokkru móti varadekkinu undan bílnum. Það er nefnilega tryggilega fest undir hann að aftan og vel varið gegn bæði þjófum og eigendum.

Dekkið ásamt festibúnaðinum er einfaldlega of þungt fyrir mig, því þegar maður er búinn að losa rærnar sem halda því föstu þarf að lyfta því upp af titt sem það er skrúfað niður á og færa til vinstri (ekki hægri, takk fyrir, eins og stendur í handbókinni) með handfanginu af tjakknum.

Ég var komin með malbiksmunstur á hnén og orðin skafin og blóðug á hnúunum og öskuill þegar ég loksins gafst upp og hringdi í pabba til að fá að vita hvenær ég mætti eiga von á honum og mömmu, en þau voru á eftir mér einhvers staðar. Þau skiluðu sér eftir um klukkutíma, og á meðan fór ég inn í sjoppuna og fékk mér að borða.

Þar fékk ég að vita að vertinn hefði verið að horfa á mig basla þarna úti og hefði verið að „bíða eftir að ég kæmi inn til að biðja um hjálp“. Ég held ég kommenti ekkert á svona hugsunarhátt, annað en að segja að ég hef lítið álit á fólki sem getur staðið og horft á mann eiga í greinilegu basli án þess að bjóða manni hjálp að fyrra bragði. Ég hefði að minnsta kosti farið og spurt hvort viðkomandi vildi aðstoð í sömu aðstæðum og ætla að vona að svo sé um fleiri.

Pabbi kom svo og hjálpaði mér að ná varadekkinu undan bílnum og ég komst klakklaust í bæinn. Dekkið var ónýtt og ég pungaði út 17 þúsund kalli fyrir nýtt. En þetta var ekki síðasta punktering sumarsins...

Save

Save


Jæja, þá verður vart aftur snúið...

Mér var bent á það í gær að sumarið væri að bókast hratt upp hjá Smyril Line fyrir næsta sumar og því dreif ég mig í að bóka far með Norrænu til meginlandsins í vor. Ég hef viku til að hætta við og fá endurgreitt, en held varla að ég geri þaðsmile - ég er búin að eyða allt of miklum tíma í skipulagningu og pælingar til þess.

Nú get ég farið að hleypa ykkur inn í skipulagningu akstursferðar til útlanda og pælingar um hana. Ég hef hingað til bara tekið þátt í slíkum ferðum - fyrir utan Indlandsferð sem ég fór í 1996 - þannig að þetta verður lærdómur. Reynslan úr undirbúningi Indlandsferðarinnar kemur ekki til með að nýtast mér mikið, því það var hópferð á bíl með kojum og almennilegri eldunaraðstöðu og nóg pláss fyrir farangur, en um slíkt er ekki að ræða í litla bílnum. Þó hef ég reyndar í Caddyinum tvennt sem vantaði í blessaða rútuna: klósett og kæliskáp. Vegna þessa takmarkaða pláss sem er í boði þarf að hugsa allt mjög vel og ákveða hvort hlutirnir séu nauðsynjar eða ekki.

--

Hér átti að koma mynd af Neuschwanstein-kastala sem ég tók síðast þegar ég var á ferð um Romantische Strasse í Þýskalandi, en ég finn bara ekki myndirnar úr ferðinni.

Bætt við 17.10: Það var varla von að ég fyndi ekki myndirnar: Þetta voru síðustu myndirnar sem ég tók á filmu og mér hefur láðst að skanna þær á stafrænt form.

Save

Save


Þegar ég læstist út úr bílnum

dsc_9206.jpgMynd: Á leið norður.

Ég lofaði í opnunarfærslu þessarar umferðar bloggsins að segja nokkrar sögur úr ferðalögum sumarsins 2015. Þau einkenndust af vandræðagangi og óheppni, en voru samt líka skemmtileg og ég var einstaklega heppin með veður.

Þannig er að stórfjölskyldan á sumarbústað norður í landi. Þetta er gamall bóndabær sem við höfum verið að dunda við að gera upp undanfarinn áratug eða svo. Þó að svefnplássið nægi fyrir um 15 manns, þá hefur það verið svo að húsbílafólkið í fjölskyldunni hefur frekar kosið að sofa í bílunum úti á hlaði, aðallega af því að við nennum ekki að vera að bera rúmfötin inn úr bílunum og búa um okkur inni í húsi, og svo er gisting í húsbíl eins og að sofa í stórri og notalegri lokrekkju. Við einfaldlega leiðum rafmagnssnúru inn um einhvern gluggann á húsinu og stingum okkur í samband og höfum þá ljós, hita og kælingu á ískápunum án þess að ganga á rafgeyma og/eða gasbirgðir bílanna.

Ég var mætti þarna ásamt fleirum úr fjölskyldunni til að njóta samveru yfir helgi í góðu veðri, og svaf í bílnum, sem ég var enn að læra á. Ég vaknaði snemma um morguninn, fór úr náttfötunum og smeygði mér í buxur, inniskó og flísjakka. Ég skrapp því næst inn í hús til að athuga hvort fólk væri komið á fætur. Til þess aflæsti ég bílnum og notaði til þess fjarstýringuna. Ég hafði nefnilega ákveðið að það væri gott að venja mig á að læsa honum alltaf þó ég væri með hann á öruggum stað. Síðan fór ég út um aðra hliðarhurðina og lokaði henni á eftir mér. Lyklarnir urðu hins vegar eftir ofan á kæliskápnum, enda engin ástæða til að taka þá með mér, eða svo hélt ég.

Þeir sem eiga svona bíla vita hvað gerðist næst: þegar ég kom út aftur til að ná í hrein föt og handklæði til að fara í sturtu kom ég að bílnum læstum. Það er nefnilega svo með þessa bíla að ef þeim er aflæst með fjarstýringunni og framdyr ekki opnaðar, þá læsast þeir sjálfkrafa stuttu eftir að bílnum er lokað aftur (30 sekúndur eða 1 mínúta, man ekki hvort).

Þarna stóð ég, berfætt í inniskónum og ekki í neinu undir flísinni. Þetta var næstum því eins slæmt og þegar ég læsti mig út úr íbúðinni minni, berfætt og í pilsi og þunnum nærbol einum fata.

Ég var í hálfgerðu losti þegar ég sneri mér við og lullaði mér aftur inn í hús, og mér skilst að svipurinn á andlitinu á mér hafi verið eins og ég hefði séð draug, og hann bæði ljótan og leiðinlegan. Þetta hefði getað endað með ósköpum hefði ég verið ein þarna, enda var síminn minn líka inni í læstum bílnum. En eins og málin stóðu þá voru foreldrar mínir á staðnum og fleiri ættingjar, og von á fleirum seinna um daginn.

Það var þetta síðasta sem bjargaði málunum. Varalykillinn var nefnilega heima hjá foreldrum mínum í Kópavogi og föðurbróðir minn var með lykil að húsinu. Það besta var að hann ætlaði að koma norður þennan dag, en hafði seinkað, þannig að hann var ennþá í bænum þegar pabbi hringdi í hann. Honum var síðan fjarstýrt símleiðis að felustað lykilsins og mætti með hann norður rétt fyrir kvöldmat. Á meðan hélt ég mig inni við – með flísina rennda upp í háls – og hafði ofan af fyrir mér með spjalli og lestri.

Helgin leið síðan eins og best varð á kosið með góðum mat og samveru með fólkinu mínu, en hremmingunum var ekki lokið, ónei...

Save

Save

Save

Save


Vaknað úr dvala

vatnsnesHæ! Ég er skriðin úr híði mínu og ætla að fara að blogga aftur. Ég sprakk á limminu með bloggið af ýmsum ástæðum, en nú þegar tveggja ára skoðun bílsins nálgast finnst mér eðal að byrja aftur, sérstaklega þar sem til stendur stórt ferðalag næsta vor.

Ég ferðaðist talsvert á bílnum sumarið 2015, fór m.a. í ferðalag um Strandir og Vestfirði í þessu líka dásemdarinnar veðri. Þetta er m.a. ein af ástæðunum fyrir því að ég hætti að færa blogg: ég hreinlega hafði ekki tíma til að gera það eins vel og ég hefði viljað og sleppti því þess vegna. Ég er samt með eina eða tvær hrakfallasögur úr þessum ferðum sem eru eiginlega of góðar til að láta þær ósagðar, t.d. sögur af punkteringum á glænýjum dekkjum (takið eftir fleirtölunni!) og þegar ég læstist út úr bílnum í einu ferðalaginu.

Sumarið 2016 gisti ég hins vegar bara eina nótt í bílnum og ferðaðist lítið á honum, en hafði reyndar góða afsökun: fjölskyldan fór saman í 3 vikna akstursferð til Ameríku, og svo fór ég á Heilsustofnunina í Hveragerði og var þar í mánuð. Þá var farið að halla sumri og ég nennti ekki að fara í meiri útilegur, en fór samt í nokkrar berjaferðir. Ég nennti ekki einu sinni að fara í mína árlegu ferð upp á Snæfellsnes, en hugsanlega fer ég í svoleiðis dagsferð einhverja helgina áður en það fer að snjóa.

Það stendur hins vegar til bóta með ferðalög á bílnum á næsta ári: ég er að skipuleggja ferð til meginlandsins. Ein af ástæðunum fyrir endurvakningu bloggsins er að deila skipulagningunni á þeirri ferð með öðrum.


Útilegustóll

Ég hef áður lýst því yfir að mig langaði í fellistól, helst einn af þessum sem leggst saman í vöndul. Gallinn er að það kom í ljós að vöndlarnir eru svo langir að þeim er hvergi komandi fyrir í neinu hólfi og svoleiðis stóll yrði því að fá að rúlla laus á gólfinu, eða bíða þess að ég kaupi mér farangursbox til að setja upp á topp. Flati fellistóllinn minn kemst að minnsta kosti fyrir undir rúminu, þó ég þurfi reyndar að velja á milli hans og ferðagrillsins þegar ég fer eitthvað.

Fellikollur gæti gengið, en þeir eru flestir svo lélegir að ég þori varla að setjast á þá.

Í gærkvöldi fór ég á netið til að leita að lausn og fann þennan frábæra stól:

treo-chair-1.jpg

 

Þetta er snilld. Hann er ekki svo lágur að maður situr næstum á jörðinni og verður samt ekki stærri en hitabrúsi samanbrotinn. Ódýr er hann ekki, kostar um 100 dollara, eða rúmar 13 þúsund krónur. Á móti kemur að þetta virðist vera vönduð vara og mundi halda minni yfir-meðal-þyngd.

Annar kostur sem ekki tekur mikið pláss hefði verið uppblásinn stóll, en eftir að hafa lesið umsagnir um þá á ýmsum útileguspjallsíðum og sölusíðum sýnist mér það ekki vera sniðugt. Þeir virðast flestir vera lélegir, og svo er víst frekar erfitt að standa upp úr þeim. En þægilegir eru þeir örugglega.

 


Svipmyndir úr fyrstu næturgistireisunni, 2. hluti

Hvalfjörðurinn er draumur fyrir landslagsljósmyndara. Í þetta skipti stoppaði ég við líparítnámuna og tók myndir þar:

dsc_8908.jpg

 

dsc_8904.jpg

 

Það er líka vel þess virði að litast um eftir því smáa. Þetta fann ég t.d. niðri í fjöru rétt hjá Þylilsskálnum, utan á sjóreknu flotholti:

dsc_8914.jpg

 

 

dsc_8915.jpg


Svipmyndir úr fyrstu næturgistireisunni, 1. hluti

Ég fór í fyrstu næturgistireisuna á bílnum helgina 9. til 10. maí. Þetta var bara ein nótt, svona til að prófa mig áfram með þetta. Ég hóf ferðina með því að aka upp á Þingvelli og tók smá hring við vatnið, og fór síðan yfir í Hvalfjörðinn um Kjósarskarðsveg með viðkomu í Kaffi Kjós. Hér eru nokkrar myndir úr þessum legg ferðarinnar:

Mér hefur alltaf þótt þetta hús (sumarbústaður? veiðihús?) vera svolítið sjarmerandi:

dsc_8884.jpg

 

Horft inn Hvalfjörðinn. Í góðu veðri er það þess virði að keyra fjörðinn bara út af landslaginu (en reyndar er vegurinn skemmtilegur líka, sérstaklega sunnanmegin):

dsc_8889.jpg

 

Uppi við Steðja (Staupastein). Ég hef farið um Hvalfjörðinn ég-veit-ekki-hversu-oft, en það er oft, því ég var komin með bílpróf áratug áður en Hvalfjarðargöngin opnuðu, og þetta er í fyrsta skipti sem ég fer upp að Steðja:

dsc_8900.jpg

 

dsc_8895.jpg

 

Svo er ein dæmigerð póstkortamynd af Þyrli í lokin:

dsc_8910.jpg


Prófunarreisa nr. 2: Kleifarvatn og Seltún

dsc01541.jpgSunnudaginn 3. maí tók ég stuttan rúnt upp að Seltúni (háhitasvæðið við Kleifarvatn). Þó það væri freistandi að halda áfram og keyra Krísuvíkurhringinn og veðrið væri fallegt, ákvað ég að snúa frekar við og fara sömu leið til baka.  Þarna prófaði ég bílinn á tiltölulega vondu þvottabretti (bylgjóttum malarvegi), í beygjum og í hæðum. Þar er líka lítil umferð og langir beinir kaflar með malbiki og því gat ég prófað svolítið annað sem ekki hafði hvarflað að mér á laugardeginum, nefnilega skriðstillinn.

Í þessum tveimur leiðöngrum kom eftirfarandi í ljós:

  • Ég get sko vel vanist því að hafa skriðstilli (cruise control). (Annars er skriðstillir ekki beinlínis „opið“ orð og því ekki að furða þó menn tali bara um krúskontról. Kannski væri betra að tala um hraðastilli?).
  • Það er frábært að sitja hærra en í venjulegum fólksbíl. Maður sér svo mikið betur yfir.
  • Bíllinn er pínu latur upp brekkur, en réði samt ágætlega við Kambana – en sá vegur er líka ekkert afskaplega brattur eftir að nýji vegurinn kom til. Einnig líkar honum illa við mikla möl á vegum. (Sama gildir um mig. Þetta fer illa með rúður og lakk og svo er alltaf hætta á að bíllinn skríði til í lausamöl og maður missi stjórn á honum. Það þarf ekki mikinn hraða til þess að slíkt gerist.) Malarbrekkur eru því í litlu uppáhaldi hjá okkur. Stutta bratta brekkan á leiðinni upp að Kleifarvatni er reyndar alveg sérstaklega slæm. Núna er hún t.d. ekki bara eitt þvottabretti, heldur er líka mikil lausamöl á henni. Röfl: Ég hef aldrei skilið af hverju þessi stutti kafli á Kleifarvatnsveginum er hafður nakinn þegar búið er að slitleggja veginn næstum að brekkunni, og síðan aftur meðfram vatninu. Ætil það séu mismunandi sveitarfélög sem eiga þessa mismunandi kafla vegarins? (Sennilega – ég held að Hafnarfjörður og Vogar eigi þessa vegarkafla).
  • Dýnan skríður svolítið til, meira samt í titringi en í beygjum. Þetta er í sjálfu sér ekki vandamál því til að hún steypist niður á gólf mundi þurfa bæði mikinn hliðarhalla og mikinn hristing, sem er ólíklegt að eigi nokkurn tímann eftir að fara saman, því ég hef ekki hugsað mér að aka eftir veglausum fjallshlíðum. Það er bara ljótt að sjá hana liggja skakkt á rúmbotninum.
  • Klósettið er stöðugt á ferð inni í skápnum sínum, líka þegar tankurinn er fullur af vatni. Ég lagaði það tímabundið með því að troða púðum framan og aftan við það (það er skorðað til hliðanna), en hugsa að ég útbúi eitthvað varanlegra. Kannski ég setji lista, bönd eða net út við hliðarhurðina og hefti stólsessu innan á skáphurðina. Svo hugsa ég að ég fái mér mottu undir koppinn til að auðvelda að draga hann út og til að rispa hann ekki að neðan.
  • Skúffan umrædda tollir ekki lokuð í malarvegahristingi. Pabbi ætlar að setja öryggisloku á hana.
  • Kæliboxið kælir á við besta ísskáp. Ég setti volgar gosdósir í það í upphafi ferðar og þegar ég opnaði þá fyrstu eftir tveggja tíma kælingu voru veigarnar orðnar svalandi kaldar og fínar. Verst að maður þarf að skjóta á stillinguna, því skápurinn er þannig hannaður að hann kælir ekki í fyrirframákveðið hitastig, heldur visst mikið niður fyrir umhverfishita.
  • Ég hugsa að ég eldi ekki að staðaldri inni í bílnum, því það er svo stutt alls staðar í eitthvað sem getur kviknað í. Á þó eftir að gera vísindalegri úttekt á þeim möguleikum. Veit að minnsta kosti að ég fer ekki að elda sterklyktandi mat þar inni, því það mundi setjast í teppið, gardínurnar og dýnuna og þó mér þyki t.d. svínaflesk besti matur þá langar mig ekkert til að koma inn í bílinn angandi af vikugömlu eau de beikon.
  • Það er andsk. kalt að vera úti á vorin á Íslandi með beran skalla. Jebb, ég tók mig til, þennan sama sunnudagsmorgunn, og rakaði af mér allt hárið. Það hafði staðið til lengi og ég var loksins tilbúin til að gera það. Þegar þetta er skrifað eru komnir þessir fínu broddar og ég er það ánægð með þetta að ég ætla að halda þessari klippingu í ófyrirsjáanlega framtíð.

Prófunarreisa nr. 1 , frh.: Þjórsárdalsrúnturinn 2. maí

Bíllinn

Það var besta veður þegar ég lagði af stað í Þjórsárdalsleiðangurinn. Eins og áður sagði hlóð ég bílinn eins og ég ætlaði í gistiferð, enda ætlunin að prófa hvernig innréttingin stæði sig.

Ég hef skoðað svæðið meðfram þjóðvegi 1 á milli Reykjavíkur og Selfoss nokkuð vel. Mæli t.d. með göngu á Lyklafell (gengið frá Litlu kaffistofunni), en bara ef menn eru vel skóaðir. Ég var því ekkert að stoppa mikið á þeirri leið nema til að taka nokkrar myndir uppi í Þrengslum.   

Hélt áfram eftir þeim vegi, inn á veginn til Stokkseyrar og Eyrarbakka, og áfram til Selfoss. Þar skaust ég inn í sjoppu til að kaupa smá nesti og hélt síðan áfram þar til ég kom að afleggjaranum upp á Flúðir.

Vegurinn upp í Þjórsárdal er afleggjari út af Flúðaveginum og liggur á stórum köflum meðfram ánni, í fallegu landslagi:

dsc_8820.jpg

 

Við Gaukshöfða

 

 

dsc_8827.jpg

 

Ég hitti þennan vingjarnlega hest:

dsc_8822.jpg

Svo fór ég upp að Hjálparfossi:

Hjálparfoss

 

Það virðist ekki vera kviknað á ferðaþjónustunni þarna upp frá. Að minnsta kosti var lokað í móttökunni við Búrfellsvirkjun og enn næstum mánuður í að Þjóðveldisbærinn opnaði, en þó að bærinn líktist mest stórri heysátu var samt gaman að koma þarna:

dsc_8852.jpg

 

dsc_8855.jpg

 

dsc_8856.jpg

Ég ók líka upp á hálendið fyrir ofan virkjunina og kíkti á vindmyllurnar sem þar eru:

dsc_8866.jpg

 

Þá var að nálgast hádegi, sem sýnir bara hversu snemma ég fór af stað. Ég var nú orðin svöng, og renndi upp á Flúðir. Þar er Minilik, annar af tveimur eþíópískum veitingastöðum á landinu:

dsc01535.jpg

Ég hitti tvo af eigendunum og spjallaði við manninn, sem sagði mér að staðurinn gengi ágætlega, þó að þau gætu reyndar ekki lifað af rekstrinum einum saman og væru bæði í vinnu annars staðar líka. Þarna snæddi ég ágætis hádegisverð með framandi bragði, og stefndi að því loknu heim á leið. Ég vona að þeim gangi vel með þetta framtak sitt, sem er góð tilbreyting frá þessum eilífu hamborgurum, pizzum, pylsum og steikta fiski sem mæta manni í öllum bæjar- og þjóðvegasjoppum landsins og halda mætti að væru þjóðarréttir Íslendinga.

Í bakaleiðinni stoppaði ég við Gaukshöfða - höfða eða stapa sem skagar út úr fjallshlíð ofan við þjóðveginn. Þar segir sagan að Gaukur á Stöng hafi verið veginn út af ástamálum. Það er víst fínasta útsýni ofan af höfðanum, en ég kleif hann ekki, var of illa skóuð til þess (gönguskórnir gleymdust heima). Ég naut bara útsýnisins ofan úr fjallshlíðinni fyrir neðan og tók myndir af fólki sem hafði klifið höfðann og var að fíflast uppi á klettabrúninni:

dsc_8876.jpg

 

 Síðan má varla segja að ég hafi stoppað á leiðinni til baka, nema til að kíkja í nokkrar búðir á Selfossi. Ég hlífi ykkur við frásögn af því.

Allt í allt má segja að þessi ferð hafi gengið vel.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband