Færsluflokkur: Ferðalög

Prófunarreisa húsbílsins nr. 1

Við eldiviðar (held ég) stafla við afleggjarann upp að Flúðum.Jæja, þá er það afstaðið: Ég er búin að prufukeyra bílinn (reyndar líka að vígja hann, en meira um það síðar).

Ég ákvað sem sagt að kynnast bílnum svolítið betur áður en ég legði af stað í gistiferð á honum.

Ég er búin að vera á bílnum hátt í þrjár vikur og hef notað hann í innanbæjarsnatti. Hann er hærri, lengri og svolítið breiðari en Toyotan og ýmislegt í honum er öðruvísi en hjá Gránu gömlu. T.d. er ég búin að vera að venjast því að bakka algerlega eftir speglunum, því það eru engar hliðarrúður að aftan sem er hægt að horfa út um. Það venst furðu vel, enda á það ekki að vera neitt vandamál ef speglarnir eru rétt stilltir. Ég hafði bara ekki mikla reynslu af því. Ég hef þó afturrúðu, sem vantar á marga stærri sendibíla. Það hjálpar að bíllinn er lipur og hefur lítinn snúningspunkt.

Helgina 2. og 3. maí fór ég í tvær dagsferðir þar sem ég prófaði bílinn við ýmsar aðstæður, s.s. í þjóðvegaakstri, á malarvegum, í bröttum brekkum, á hlykkjóttum vegum, og svo framvegis. Tilgangurinn var annars vegar að prófa bílinn í lengri akstri og hins vegar að að finna hugsanlega vankanta á innréttingunni.

Ég hlóð bílinn eins og ég ætlaði í nokkurra daga ferðalag, raðaði t.d. öllum eldunar- og matarílátum ofan í skúffur, fyllti á vatnsbrúsann og ferðaklósettið, og setti stóra vatnsflösku og gosdósir í kælinn til að prófa kæligetuna. Ég setti líka púða og teppi á dýnuna til að sjá hvort það mundi skríða til, og setti sitt lítið af hverju ofan í rúmið. Tilgangurinn var að prófa hvort hlutirnir mundu skríða mikið til, hvað mundi skrölta og hvar, hvernig væri að ganga um þetta og svo framvegis.

Fyrri daginn, þann 2. maí, fór ég upp í Þjórsárdal.

Skúffan.Fyrsta vandamálið kom í ljós þegar ég fór yfir fyrstu hraðahindrunina á leiðinni út úr hverfinu mínu: ein skúffan vildi ekki tolla lokuð þegar komin var hleðsla í hana. Skúffurnar eru, allar nema ein, sem er með öryggisloku, þannig hannaðar að það þarf að beita kröftum og lagni til að opna þær og þær eiga að tolla lokaðar á því, en til vara eru þær með öryggisbúnaði þannig að þær geta ekki runnið alla leið út. Af því þær eru djúpar er heldur engin hætta á að það detti eitthvað upp úr þeim þó þær opnist (nema hristingurinn sé því mun meiri eða bíllinn hreinlega velti).

Þessi eina skúffa opnaðist sem sagt á leið yfir hraðahindrun á ca. 20 km. hraða, og síðan opnaðist hún og lokaðist til skiptis í nokkrum beygjum. Á endanum stoppaði ég á bensínstöð og tók dótið úr henni og setti léttara dót í hana. Hún var að mestu til friðs eftir það, en vildi þó opnast í vinstri beygjum, sérstaklega ef í þeim var einhver hliðarhalli. Þetta var eina vandamálið sem opinberaðist í þeirri ferð.

Meira, um ferðina sjálfa, á morgun.


Í framhaldi af síðasta pistli

Við ÞyrilÍ síðustu færslu minntist ég á að aðalatriðið við húsbílinn væri að geta pissað á nóttunni án þess að þurfa að klæða sig og fara út til þess. En auðvitað er það ekki í alvöru mikilvægasta atriðið, heldur bara hugmyndin sem mætti fá af lestri á fyrstu færslunum um húsbílaævintýrið á þessu bloggi.

Það sem mestu máli skiptir í sambandi við þennan húsbíl er auðvitað frelsið sem hann veitir mér. Ég fer í bíltúra flestar helgar á sumrin (og nokkrum sinnum á hverjum vetri) og nýt þess að snuðra uppi áhugaverða staði og skoða bæði menningu og landslag.

Ég hef ferðast talsvert um suður- og suðvesturland á undanförnum árum (og norðvesturland og Eyjafjarðarsvæðið áður en ég flutti til Reykjavíkur). Þetta hafa nánast allt saman verið dagsferðir, sem takmarkaði óneitanlega hversu langt ég komst. Ég held að það lengsta sem ég hef farið út frá Reykjavík í einni dagsferð hafi verið að Skógum. Ég ætlaði reyndar að fara alla leið að Jókulsárlóni á Breiðamerkursandi í þeim leiðangri, en þá hefði ég þurft að geta stoppað einhvers staðar á leiðinni til að leggja mig, því það er þreytandi að sitja undir stýri þegar veðrið er eins og það var þennan dag: glampandi sól og steikjandi hiti sem gerðu það að verkum að í hvert skipti sem ég stoppaði lengur en korter varð bíllinn eins og bakarofn að innan og það tók talsverðan tíma að kæla hann niður aftur. Á meðan sat ég sveitt og sólbrennd í bílstjórasætinu og leið eins og ég væri um það bil að fá hitaslag. Það er nefnilega þreytandi að keyra í góðu veðri, sérstaklega þegar maður hefur sólina í andlitið megnið af ferðinni.

Kosturinn við bílinn er að ég þarf ekki lengur að vera á harðaspani milli áhugaverðra staða í dagsferðum (dæmi: Snæfellsnesið á 10 tímum með 10 stoppum - var illa þreytt þegar ég kom heim), heldur get ég tekið mér góðan tíma til að skoða mig um, taka myndir og fara í gönguferðir, vitandi að mín bíður möguleiki á að fá mér þægilegan síðdegislúr - ekki ónotalega kríu í framsætinu - og eitthvað kalt að drekka, ekki í næstu sjoppu heldur strax og ég kem í bílinn.

Nú mundi einhver eflaust spyrja hvort ég hefði ekki bara getað keypt mér gistingu í þessum ferðum mínum, en svarið við því er að það er engan veginn öruggt að maður geti fengið gistingu á sumrin með litlum fyrirvara og svo veit ég oft ekki hvar ég enda uppi. Ég hef t.d. lagt af stað upp á Þingvelli með það fyrir augum að aka hringinn umhverfis vatnið, en endað með því að keyra Kaldadalinn í staðinn.

Nú get ég bara tekið því með rónni, hvílt mig þegar ég er hvíldar þurfi og tekið alla helgina frá föstudagseftirmiðdegi fram á sunnudagskvöld til að ferðast, í stað þess að þeytast af stað snemma á laugardagsmorgni og koma þreytt heim um kvöldið.

En nú er bíllinn orðinn ferðafær, og ég er reyndar búin að prufukeyra hann og vígja. Meira um það síðar.

Þetta er búinn að vera skemmtilegur tími og bloggið hefur hjálpað mér að halda utan um framkvæmdirnar. Ég hef hugsað mér að halda áfram að blogga um bílinn hérna og ætla að reyna að blanda saman því sem er skemmtilegt, s.s. frásögnum af atvikum sem koma fyrir á ferðalögum og stöðum sem ég heimsæki, og því sem er hagnýtt, þ.e. það sem ég læri um húsbílalífið á ferðum mínum og upplýsingar um húsbíla- og tjaldstæði, sundlaugar og fleira sem getur hjálpað húsbílafólki og öðrum ferðalöngum að skipuleggja ferðir. Það gætu jafnvel slæðst með stöku uppskriftir, og auðvitað verða líka myndir.

Ferðalagið er bara rétt að byrja.

 


...og svo eru það gluggatjöldin, 1. hluti

Það er bráðnauðsynlegt að setja upp tjöld í húsbílnum, annars vegar til að hafa fyrir afturgluggunum og hins vegar fyrir aftan framsætin. Maður vill jú ekki flassa nágrannana þegar maður er að hátta, svo ég tali ekki um þegar maður þarf að nota ferðaklósettið. Svo er alltaf til fólk sem finnur hjá sér þörf fyrir að gægjast á glugga og það finnst mér óþægileg tilhugsun.

Gluggatjöldin séð framan úr bílnum.

Besta lausnin fyrir þennan bíl var að setja upp gardínubraut fyrir aftan sætin. Uppsetningin á henni var ekkert mál, enda er sveigjan á loftinu ekki meiri en svo að það þurfti ekki einu sinni að hafa fyrir því að beygja brautina fyrirfram, heldur sjá skrúfurnar alveg um að halda henni eins og hún á að vera.

Það var vitað að gluggatjöldin þyrftu helst að vera úr myrkvunardúk eða þykku, dökku efni. Helst vildi ég einhvern annan lit en svartan eða dökkbrúnan, og lausnin, a.m.k. til að byrja með, var að endurnýta þykk, rauð damask-gluggatjöld sem ég átti inni í skáp en var hætt að nota. Þau tóna líka vel við rauðu panelplötuna. Ég saumaði mér þessi líka fínu tjöld úr þeim:

Tjöldin séð aftanu úr bílnum

Það þarf að vera hægt að festa tjöldin út í hliðarnar á bílnum, framan við rennihurðirnar, þegar það er dregið fyrir, bæði til að komast hjá ljósleka og eins til að það sjáist ekki inn. Bíllinn er nefnilega um 30 cm breiðari niðri við gólf en hann er upp við þakið þar sem tjöldin eru fest, og því þarf að halda þeim út í hliðarnar með einhverju móti.

Lausnin á því er einföld: það eru skrúfugöt á réttum stöðum (eftir þilið sem var á milli flutningsrýmisins og bílstjórarýmisins). Þar er ætlunin að koma fyrir skrúfum eða róm með breiðum haus og sauma annað hvort hnappagöt í gluggatjöldin eða setja á þau litlar lykkjur sem er hægt að nota til að hneppa tjöldunum upp á skrúfuhausana. Svo á ég þetta líka fína gluggatjaldahengi með dúsk, sem ég get notað til að halda tjaldinu frá þegar ég er á ferðinni.

Séð inn í bílinn að aftan

Fyrir afturgluggana þurfa líka að koma tjöld, en ég er ekki byrjuð á þeim. Ég hugsa að ég geri átak í að klára allan nauðsynlegan saumaskap yfir páskana.

 dsc01417.jpg

 


Nýjustu fréttir af húsbílamálum

Mér var bent á í saumaklúbb um daginn að fólk væri farið að lengja eftir fréttum af bílaframkvæmdum, þannig að ég þorði ekki annað en að skila af mér skýrslu.

Málin standa sem sagt þannig að við kláruðum að klæða bílinn að innan með bílateppi úr ull (ég á bara eftir að snurfusa sýnilegu samskeytin og láta þau hverfa), lögðum gólfdúkinn og svo setti pabbi innréttinguna upp.

Hér má sjá glitta í gólfdúkinn:

dsc01215.jpg

 

Ein panelplatan er líka frágengin, sú sem fór hálf á bak við innréttinguna. Það liggur minna á hinum, en ég er nokkurn veginn búin að ákveða hvað ég geri. (Nei, ég ætla ekki að gefa neitt upp fyrr en ég er búin að framkvæma það...).

Innréttingin og platan.

Þegar kom að því að ganga frá plötunni fékk ég þá snilldarhugmynd að mála hana og teikna síðan á hana. Pabbi á helling af alls konar lakki á úðabrúsum og af hverju ekki að nýta eitthvað af því? Hann dró fram grunn, matta hvíta málningu, matt svart kamínulakk, rautt bílalakk (Peugeot, seldur fyrir ca. 10 árum síðan), brúnsanserað bílalakk (MMC Colt, fór í endurvinnslu fyrir ca. 12 árum síðan), silfurlitað felgulakk og svart vélalakk. Þetta síðasta tvennt var strax útilokað, enda fyrirsjáanlegt að hann gæti þyrfti að nota það.

Eftir grunnun og Peugeot-lakkið. Áhugavert dropamunstur, eiginlega eins og blóðslettur, en ekki beint það sem ég ætlaði mér.Fyrst grunnaði ég plötuna með hvítum grunni. Síðan greip ég Peugeot-lakkið, sem var mjög fallega rautt og gat sómt sér eitt og sér án teikninga. Ég náði einni rák eftir endanum á plötunni og þá kom svona blautt prumpuhljóð og síðan ffft, ffft, fffffttttt-hljóð og ég stóð með næstum fullan brúsann í höndunum en allt drifefnið búið af honum. Þetta gerist víst ef maður geymir úðabrúsa of lengi.

Ég yppti öxlum og greip næsta brúsa: hvítu málninguna, sem mér fannst vera fínn bakgrunnur til að teikna á. Ég hristi brúsann eftir kúnstarinnar reglum og mundaði hann í áttina að plötunni. Úðunin byrjaði vel, en svo hætti bara allt í einu að koma málning úr brúsanum. Drifefnið var búið. Brúsinn fór í ruslið (þ.e. kassa fyrir spilliefni).

Næst tók ég fram brúnsanseraða bílalakkið. Stúturinn datt af þegar ég hreyfði við honum, og þegar mér tókst loks að basla honum á aftur gerðist ekki neitt þegar ég ýtti á takkann, ekki heldur eftir að ég skipti um stút á honum. Samt hafði puðrast úr honum lakk á meðan ég var að reyna að fá stútinn til að tolla, og puttarnir á mér voru orðnir merlandi brúnir og klístraðir. Hann fylgdi hinum brúsunum í ruslið og ég fór og þvoði mér um hendurnar upp úr hreinsaðri terpentínu.

Þá var farið að fækka úrræðunum. Ég slaufaði framkvæmdum þann daginn og fór heim.

Daginn eftir kom ég aftur og hafði með mér eina litaða lakkið sem ég átti sem ég gat hugsað mér að nota: blóðrautt (hitt var logagyllt, og þó ég hafi augljóslega notað það á eitthvað, þá langaði mig ekkert að hafa það fyrir augunum inni í bílnum). Það besta var samt að það var nýlegt, þannig að það var ennþá góður þrýstingur á brúsanum. Ég úðaði einu lagi yfir plötuna og fór svo og fékk mér kaffi á meðan það þornaði.

Síðan fór ég aftur út í skúr og greip brúsann og byrjaði að úða næstu umferð. Allt í einu koma þetta kunnuglega, dónalega prump, prump-hljóð og síðan bara lágvært suð: það var enn þrýstingur á brúsanum, en lakkið var uppurið. Auðvitað var það neðri hlutinn á plötunni sem ég var búin með, sá sem á endanum fór á bak við innréttinguna. Í gegnum einfalda lakklagið á efri hlutanum glitti enn í merkinguna sem sagði til um hvert platan átti að fara og hvað sneri upp.

Eins og gengur og gerist.

Ég ætlaði ekki að gefast upp og skrapp í Byko. Úti var flughálka, bleyta og bálhvasst, og ég þakkaði mínum sæla fyrir að komast í búðina og heim aftur án þess að

a) renna á rassinn,

b) fjúka hjálparlaust út í buskann og

c) horfa á það sama koma fyrir mömmu, sem fór með mér.

Í Byko fékk ég lakkið sem mig vantaði og ég gat klárað umferðina, og aðra til. Nú á ég næstum fullan brúsa að rauðu lakki sem ég þarf að finna einhver not fyrir. (Hmmmmm, það er enn ein plata til sem ég á eftir að ákveða hvað ég geri við...).

Auðvitað var í fínu lagi með felgulakkið og vélalakkið, eins og kom í ljós þegar ég stalst til að lakka þessar öskjur utan af Stóra-Dímon osti:

Öskjurnar.

Nú bíða bara hinar plöturnar eftir að ég hefjist handa. Ég er búin að prófa krítartöflumálninguna, og hún virkar fínt. Þetta gerði ég við enn eina öskju utan af Stóra-Dímon:

Krítartöfluaskjan.

Þetta eru hinar fínustu öskjur utan um ýmislegt, t.d. skartgripi eða annað smálegt.

Svo þarf ég að kaupa meira af húsgagnaolíu. Ég kláraði úr heilli 1/2 lítra fötu af henni á innréttinguna, en nú er komið í ljós að stykkin sem límtrésplöturnar eru samsettar úr tóku mjög misjafnlega við olíunni, þannig að það þarf að fara aftur yfir þetta. Sjáiði bara hvað þetta er ljótt (og jafnframt hvað höldurnar sem pabbi renndi taka sig vel út):

dsc01214.jpg

 

Þar að auki gleymdist einhvern veginn að bera á skáphurðina fyrir klósetthólfinu. En þetta getur beðið aðeins.

 


Nú kemur að því sem snýr að útlitshönnun inni í húsbílnum: panelplöturnar

Lokahnykkurinn á framkvæmdum helgarinnar var að ég tók  panelplöturnar innan úr hliðunum heim með mér til að ganga frá þeim fyrir uppsetningu. Á dagskrá er að bólstra þá stóru sem kemur upp við rúmið ofanvert, af því að ég kem til með að liggja upp við hana þegar ég sef. Undir áklæðið fer annað hvort þunnur svampur eða pólýestervatt. Held að ég festi áklæðið með teygjum að aftan og hnöppum að framan frekar en að líma eða hefta það niður, svo það verði auðvelt að skipta um það eða taka það niður til að þvo það án þess að skemma plötuna.

Hin stóra platan verður hálf á bak við eldhúsinnréttinguna og partur af henni verður næst vaskinum, þannig að ég held að ég fái mér vatnshelt plastveggfóður á hana. Hugsa að ég velji mér veggfóður með beykiáferð, þó það sé reyndar freistandi að kaupa eitthvað annað. Það kemur líka til greina að lakka hana.

Það kemur ýmislegt til greina með plöturnar sem fara í rennihurðirnar ofanverðar. Eitt væri að mála þær báðar með krítartöflumálningu. Það sem mælir á móti því er að krítartöflumálningin er svört og með uppsetningunni á teppinu er orðið frekar dimmt aftur í bílnum, og svo er rúmið þannig staðsett að það verður ekkert sérstaklega auðvelt að komast að rennihurðinni til að kríta fallega á plötuna. Það er raunar hægt að fá græna krítartöflumálningu í Litir og föndur en hún passar bara ekki við neitt inni í bílnum og því keypti ég svarta. Þetta eru einu litirnir á krítartöflumálningu sem ég hef fundið hérna innanlands, en það er reyndar hægt að fá hana í öðrum litum erlendis, t.d. rauðum eða bláum. Þó að það sé hægt að blanda heimatilbúna krítartöflumálningu í lit að eigin vali, þá held ég að ég nenni ekki að standa í því af því að vandamálin eru hreinlega allt of mörg (hér eru nokkur dæmi).

Annar kostur væri að bólstra eða tauklæða hurðarplötuna rúmmegin, lakka hana eða veggfóðra. Það væri t.d. skemmtilegt að prenta einhverja fallega landslagsmynd og líma á hana til að búa til þykjustuútsýni, nú eða líma á hana kort. Ég bar lítið Íslandskort við hana og uppgötvaði að hlutföllin voru því miður röng ef ég vildi fá allt landið inn á plötuna án þess að neitt stæði út af og hvergi glitti í bera plötuna. Önnur pæling var að gera hana að segultöflu, en smá gúgl leiddi í ljós að segultöflumálning tekur bara mjög létta segla. Korktafla er enn einn möguleikinn. En kannski ég fái mér bara vegglímmiða á hana til að byrja með.

Ég þigg aðrar hugmyndir ef einhver vill láta þær í ljós smile

Hvað sem ég geri, þá verður platan í hurðinni farþegamegin krítartöflumáluð.


Og framkvæmdir halda áfram...

Teppið virkar mun ljósara hérna en á hinum myndunum.Ástæðan fyrir niðurtökunni á innréttingunni sem ég minntist á í gær var ekki bara að bera á viðinn, heldur til að við gætum klætt íbúðarrýmið að innan: veggina með bílateppi og gólfið með dúk.

Teppið farþegameginTeppið, sem er úr ull og keypt hjá Bílasmiðnum, er milligrátt. Þetta er ekki slæmur litur, en ég hefði helst viljað fá það annað hvort aðeins ljósara – sem var ekki í boði – eða drapplitað, því sá litur tónar betur við viðinn. Þá hefði ég annað hvort þurft að kaupa pólýesterteppi, eða panta frá útlöndum og þó við höfum keypt hitt og þetta að utan fannst okkur ekki sniðugt að gera það með teppið, því litir á tölvuskjá eru oft allt öðruvísi í raunveruleikanum, og svo getur alltaf gerst að maður misreikni sig og þurfi að kaupa meira í miðju kafi.

Svo var pólýesterteppið líka með Teppið bílstjórameginröndum, þannig að það var ekki hægt að setja það upp hvernig sem er eins og ullarteppið, sem er eins og filt, þ.e. það liggur ekki í því, sem gerir það auðvitað drýgra því það er hægt að snúa því hvernig sem er.

Við byrjuðum að líma upp teppið á sunnudaginn og náðum að klára talsvert áður en límið kláraðist (afar ódrjúgt: við kláruðum Það ver einfalt að bera límið á, ekki síst af því að það er þykkt og fer ekki út um allt. Við vörðum nú samt plötuna í loftinu.næstum heilan úðabrúsa af snertilími á þetta sem sést á myndunum). Býst við að við klárum þetta í dag eða á morgun - í síðasta lagi um helgina.

Þegar teppalagningunni lýkur er ætlunin að leggja dúkinn á gólfið og setja síðan innréttinguna og rúmið aftur upp.

Svo pöntuðum við 12v leslampa hjá vini okkar Ali í Kína. Hann ætti að skila sér einhverntímann fyrir lok mars.


Að láta drauminn rætast

Bretinn Mike Hudson tók sig til og hætti í vinnunni, breytti stórum sendiferðabíl í húsbíl og lagði síðan af stað í langt ferðalag um Evrópu. Krækjan er á þann hluta bloggsins sem fjallar um framkvæmdirnar við bílinn, en hann er líka með ferðablogg.

Þetta langar mig til að gera, en á stærri bíl en þeim sem ég er að vinna í núna. Ég held að hann sé of lítill til að búa lengi í honum, þó hann sé notalegur.


Nýjasta nýtt um húsbílaframkvæmdir

Innréttingin, séð inn um afturhurðina. Vaskurinn er næst hurðinni.Jæja, þá eru loksins einhverjar fréttir af nýjum framkvæmdum. Á milli jóla og nýárs settumst við pabbi saman út í bílinn og ræddum um innréttinguna – þ.e. hann sagði mér hvað hann hefði í huga að gera (sem hefur breyst talsvert frá upprunalegu pælingunni) og ég samþykkti það.

Til sögunnar eru komnir tveir vatnsbrúsar, háir og mjóir, sem verða notaðir undir ferskt vatn og grávatn (affallsvatn úr vaskinum). Þeir koma í botninn á innréttingunni, hvor í sitt hólfið, og skorðast á milli hjólskálarinnar og sökkulsins.

GrávatnsbrúsinnFerskvatnsbrúsinn verður vinstra megin, horft frá rúminu, og verður aðgengilegur um vængjahurðir (sem eru komnar upp). Í raun þarf aldrei að hreyfa hann neitt nema til að þrífa hann, því það verður hægt að skrúfa af honum lokið og hella vatninu í hann, t.d. úr garðkönnu eða flösku, sem mér finnst þægilegra en að vera að burðast með hann fullan af vatni. Ofan í hann fer lítil dæla sem pumpar vatninu upp í kranann (við eigum eftir að kaupa kranann en ég held að dælan sé á leiðinni með pósti frá útlöndum). Grávatnsbrúsinn kemur hægra megin, undir vaskinn (næst afturhurðinni), og tengist við niðurfallið með þvottavélarslöngu sem er auðvelt að losa þegar tæma þarf brúsann. Grávatnsbrúsanum verður auðveldlega hægt að kippa út um afturhurðina til losunar.

VaskurinnTil viðbótar við vængjahurðirnar er pabbi búinn að sníða til vaskinn og fella hann niður í borðplötuna (sjá mynd til hægri), setja hliðarplötu í hólfið fyrir kælinn og koma fyrir djúpri skúffu undir hólfinu (sjá neðst á næstu mynd). Svo var hann að smíða fleiri skúffur þegar ég kom í heimsókn á fimmtudaginn, og á sunnudaginn voru þær komnar í innréttinguna (sjá efst á næstu mynd). Það er kannski eins gott að ég er ekki að hjálpa honum þessa dagana, því það er orðið svo þröngt í bílnum að það er erfitt fyrir fleiri en einn að athafna sig þar inni.

Allar hirslurnar sem eru komnar. Það vantar ennþá framhliðarnar (frontana) á aftari skúffurnar fjórar.Það eru komnar tvær skúffur, ágætlega djúpar, fyrir ofan ferskvatnsbrúsann, og tvær til viðbótar fyrir ofan grávatnsbrúsann. Önnur þeirra er mjó, enda við hliðina á vaskinum, og hin er breiðari.

Svo er spurning með að búa til hólf ofan á hjólskálina undir skúffunum, en það verður erfitt að komast í það nema fara út og opna afturhurðina og smeygja hendinni inn um endann á innréttingunni, þannig að kannski látum við það bara vera þó það sé sárt að sjá plássið fara til spillis.

Nú er innréttingin svo til fullfrágengin, bara eftir að setja framhliðarnar á hillurnar og setja á þær hnúða til að auðvalda að draga þær út, og svo er líka eftir að setja upp kranann og koma fyrir vatnslögnunum á milli vasksins og vatnsbrúsanna.

Svo áskotnaðist mér lítið notað ferðagasgrill – kærar þakkir, S og D – sem fellur inn í hólfið undir rúminu eins og flís við rass. Með því fylgdi lítill gaskútur sem ég þarf að athuga hvort þarf að útbúa öryggiskassa fyrir (hann má ekki vera stærri en 2 kg – ég man ekki hvort hann er 2 eða 2,5 kg). Ég þarf að minnsta kosti að kaupa gasskynjara ef ég ætla að taka grillið með í ferðalög.

Hér eru að lokum leiðbeiningar frá Félagi húsbílaeigenda um meðhöndlun á gaskútum og gaslagnir í húsbílum.

 

Fleiri myndir:

Skúffurnar.

 

Skúffa í smíðum


Nýjustu fréttir af húsbílaframkvæmdum

Ég kom til mömmu og pabba í mat um daginn og uppgötvaði að þó lítið hafi gerst í framkvæmdum í bílnum undanfarið, þá hefur pabbi ekki setið iðjulaus. Hann virðist hafa farið hamförum á eBay og er búinn að kaupa alls konar dót, þar á meðal tengla og mæla af ýmsu tagi, bæði fyrir mig og sig („þetta var svo ódýrt að ég pantaði þrjú stykki, eitt í þinn bíl, eitt í okkar og eitt til vara“).

Svo er hann búinn að fá í hendurnar skrúfur með töppum sem hann pantaði í síðasta mánuði til að festa panelplöturnar í bílinn. Þær eru eins á litinn og þær sem voru fyrir í bílnum, en aðeins stærri, sem er víst ekkert verra.

Núna síðast litu þau mamma inn í Góða hirðinn og komu þaðan út með tempúrdýnu (10.000 kr.) og eldhúsvask úr stáli (1.000 kr.). Dýnan fór inn í bíl og er grjóthörð í frostinu, enda veltur stífleikinn á tempúrdýnum víst á umhverfishita.  Pabbi ætlar svo að taka vaskinn í sundur og nota skolvaskinn og hluta af vaskaborðinu í húsbílinn. Vaskurinn er frekar ljótur eins og er en verður fínn þegar búið er að sníða hann til, þrífa og fægja.

dsc01090.jpg

 

Svo þarf að snikka til dýnuna og taka úr henni fyrir hjólskálinni, og þá get ég tekið mig til og saumað utan um hana.

Ég er að vonast til að það hlýni yfir hátíðarnar og haldist þurrt svo við getum farið að gera eitthvað í bílnum á meðan ég er í fríi (16 dagar, hvorki meira né minna). Annars liggur ekkert á – ég kemst ekki af stað á honum í vetrarfærðinni hvort sem er og hef reyndar takmarkaðan áhuga á að sofa í honum í vetrarkuldanum.

Hvað hinn bílinn minn varðar, þá var hann heima hjá mömmu og pabba á meðan hann beið þess að verða tekinn í aflestur hjá Toyota-umboðinu. Á meðan var ég á jeppanum hans pabba, og það er enginn slyddujeppi, heldur MMC Pajero, mikill reynslujálkur sem skilaði mér vel í vinnuna og á milli staða í jólaútréttingum í hríðinni og slabbinu í vikunni. Þetta var svolítið eins og að hafa skipt út fjörugum smáhesti fyrir hægfara en traustan gamlan burðarhest, en þó það sé gott að hafa jeppa í svona færð er enn betra að vera komin aftur á minn eigin bíl, sem ég þekki betur og er öruggari á.

 


Kælirinn er kominn í hús

dsc01060.jpgEins og ég minntist á áður á að vera rafmagnskælibox í bílnum. Það keypti ég nýtt á eBay og lét senda á hótelið sem ég gisti á í London. Gaf fyrir það 170 pund, sem gerir ca. 33.600 kr. á því gengi sem var þá. Til samanburðar má nefna að sams konar kælibox kostar rétt tæpar 60 þúsund kr. hér heima.

Það beið mín síðan þegar ég kom á hótelið á fimmtudeginum. Þetta er box frá Waeco, gerð nr. TC21, tekur 21 lítra, kælir niður í 30°C undir umhverfishita og getur hitað upp í 65°C. Það gengur fyrir  12v, 24v og 220V rafmagni. 

 

 

dsc01024.jpgÉg hafði smá áhyggjur af því að koma því heilu heim, var enda nýbúin að sjá myndbönd af hroðalegri meðferð hlaðmanna á viðkvæmum farangri, en það skilaði sér í heilu lagi.

Sem betur fer verslaði ég ekki mikið annað í London, því það er bara leyfilegt að fara með eitt stykki af lestuðum farangri í flug þegar maður er með ódýrustu tegund af flugmiðum. Ég hefði reyndar getað opnað kassann og pakkað dóti ofan í kæliboxið - sem sagt notað það fyrir ferðatösku - en því var svo vel pakkað inn í plast með merkingum um að það væri viðkvæmt, að ég tímdi hreinlega ekki að opna kassann. Fyrir bragðið var ég með það litla sem ég verslaði annað í handfarangri. Ég var samt bara með 3 kg. meiri handfarangur á leiðinni heim en á leiðinni út, enda fór ég til Manchester í vor og fataði mig þá upp fyrir næsta árið.

Horft ofan í boxiðKassinn fór í það sem er kallað outsize luggage. Þó að af orðanna hljóðan mætti halda að þetta eigi bara við um óvenjulega stóran farangur, þá er það reyndar svo að í þessari farangursmóttöku er líka tekið við óvenjulegum farangri almennt, t.d. kössum (óvenjulegir fyrir að yfirleitt vantar á þá handföng), sérkennilega löguðum farangri (s.s. hljóðfærum), og þungum farangri, og líka viðkvæmum farangri.

Ein vinkona mín var þó með skrítnasta farangurinn af öllum í hópnum: hún kom heim með eitt stykki sílófón undir handleggnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 32555

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband