Færsluflokkur: megrun
Mánudagur, 29. september 2008
Dagur 22
Í dag er upphafið á síðustu vikunni, lokaspretturinn í þessari umferð. Svo tekur við sjálfstýrð dagskrá, og þá byrjar átakið fyrir alvöru. Það er auðvelt að halda sig við fasta dagskrá í svona hálfvegis lokuðu umhverfi eins og HNLFÍ, en þegar maður kemur aftur út í daglegt líf, með vinnu og öðrum skuldbindingum, þá fer róðurinn að þyngjast. Ég verð að segja að ég hef ekki fundið hjá mér mikla þörf fyrir a nasla á milli mála á meðan á þessu hefur staðið, en það er líka búið að fjarlægja flest áreitin sem valda þessum millimálaátköstum hjá mér, t.d. vinnuna. Það er eftir að sjá hvernig ég stend mig þegar heim kemur. Ég veit að ég mun líklega ekki léttast jafn hratt og ég hef gert hérna, en ég er ákveðin í að halda áfram að léttast, þó ekki sé nema um 1 kg. á mánuði út næsta ár.
Um helgina skrapp ég í JSB og líka í World Class í Laugardalnum og fékk að skoða aðstöðuna. Hvílíkur munur á tveimur stöðum! JSB er lítil stöð sem virkar mjög róleg og afslöppuð, á meðan World Class er hrikalega stór, glymur og hávaði, allt fullt af verslunum innandyra með dýrum sportvarningi (það er líka veitingasalur þarna), risastór tækjasalur, og ég sá ekki betur en að allir væru í spandexi og designer-skóm. Samt eru báðir staðirnir með sömu tækin og stundaskrárnar sýna svo fram á að tímar með þjálfurum eru bara svipað margir á báðum stöðum. Þar sem JSB er nær og virkar ekki nærri því eins stressuð og World Class, þá ætla ég að byrja á að fá mér mánaðarkort þar, til að prófa. Ef mér líkar vel, þá kaupi ég árskort, annars fer ég í World Class og prófa mánuð þar. Svo ef það hentar mér ekki, þá getur ég alltaf prófað Baðhúsið, eða jafnvel bara keypt mér kort í tækjasalinn hjá Gáska (þar sem ég er í sjúkraþjálfun) og árskort í sundlaugarnar.
Annað í fréttum er að það virðist vera hætt að rigna í bili, og ég geri mér vonir um að komast þurr í gönguna á morgun.
megrun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 12. september 2008
Dagur 5
Er heldur betri í bakinu í dag, sérstaklega eftir svakalega fínt slökunarbað sem ég fór í klukkan þrjú. Kom upp úr ilmandi af blóðbergi og öðrum blómum, en út í baðvatnið fer olía unnin úr íslenskum jurtum hjá Purity Herbs. Verð í svona böðum næstu föstudaga. Jibbí! Ég er líka búin að fá tíma í sjúkranuddi og fer með íþróttakennaranum í tækjasalinn á mánudaginn og fæ æfingar.
Baðkarið er gamalt grænt tröll sem trónir uppi á háum palli sem maður þarf að klifra upp á. Það er með stærðarinnar stjórnborði með alls konar krönum og rofum, þar á meðal nuddrofa og rofa fyrir rafmagnsbað, en er í dag víst bara notað fyrir heilsuböðin.
Ég fór líka í þrekpróf í dag sem fólst í því að ganga fram og aftur eftir einum ganginum í 6 mínútur eins hratt og maður komst án þess að hlaupa og meta síðan hversu erfið manni þótti gangan. Íþróttakennarinn og sjúkarþjálfarinn töldu mig vel komna í gönguhópi nr. 3, sem ég hef verið að ganga með undanfarið.
Svava, þú minntist á nafngiftir á stöðum þarna í síðasta kommenti - það er alveg rétt. Gangurinn sem ég er á heitir t.d. Sprengisandur og næsti gangur Langisandur. Bæði eru réttnefni, enda gangarnir langir mjög og erfiðir fyrir fólk sem er stirt eða á erfitt með gang, enda Sultartangi hafður sem matsalur til að spara þeim gönguna inn í stóra matsalinn. Svo heita nýjustu gangarnir Gullströnd, Perluströnd og Demantsströnd. Þeir eru næstir matsalnum, bókasafninu og sundlauginni, og eru með stærri herbergi með meiri þægindum, enda kostar meira að vera í þeim herbergjum.
Nú er ég komin heim í helgarfrí og fékk góðar móttökur frá tveimur einmana páfagaukum, enda hafa þeir bara séð Friðrik í smátíma á dag síðan ég fór austur, en eru vanir að fá að fljúga lausir í klukkutíma á dag þegar ég er heima.
megrun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. september 2008
Dagur 3
Kl. 18:00.
Þá er prógrammið byrjað. Í dag var það 50 mínútna leikfimi kl. 8 og ca. 40 mínútna þolganga klukkan 11. Ég fór í göngu nr. 3, sem er næsterfiðasta gangan, og svipuð og 5 km. gangan sem ég hef farið með mömmu á Skagaströnd (svona fyrir þá sem þekkja til), þó heldur meiri brekkur. Það var gengið upp með Varmá og upp í skógræktina, en hún endar bara hérna við lóðarmörkin. Það var hætt að rigna, en ennþá blautt yfir.
Ég er enn hvorki búin að fá tilsögn í tækjunum né tíma í nuddi eða heilsuböðum. Eftir hádegi var svo stuttur fundur með Steinunni hjúkrunarfræðingi (Kóngulóarkonunni).
--
Það eru hátalarar inni á herbergjunum hérna og tvisvar á dag, í hádeginu og klukkan rúmlega tíu á kvöldin, er útvarpað slökunardagskrá inn á öll herbergin. Í fyrrakvöld var ég farin í háttinn klukkan hálf-tíu. Ég var svo sem ekkert búin að pæla neitt í hátalaranum, en það átti eftir að breytast, því um kl. 22:20 hrekk ég upp af værum blundi við það að slökunardagskráin fer í gang. Ég rýk á fætur og reyni að slökkva, en auðvitað er það ekki hægt, og ekki heldur að taka úr sambandi, því snúran er tengd inni í vegginn. Ég lækka því niður í tækinu, en heyri samt vel orðaskil, sem þýðir að ég gat ekki reynt að sofna í þær 20-30 mínútur sem dagskráin stóð. Það er ekki séns að ég geti notfært mér þessa slökun, því þetta er fólk sem talar eins og prestar sem eru að ræða um líf og mannkosti heiðursgestsins í jarðarför, með slepjulega vöggustofutónlist á bak við sig. Þetta endurtók sig síðan í gærkvöldi, og þá fór ég fram og talaði við næturvaktina. Þær gátu sjálfar ekkert heyrt og héldu að kerfið væri bilað. Þær ákváðu síðan að vera ekkert að útvarpa dagskránni þarna um kvöldið, en vitiði hvað: ég fékk mér kríu eftir hádegismatinn í dag, og fimm mínútum eftir að ég skreið upp í og var á leið inni í draumalandið fór slökunardagskráin af stað. Garg! Það væri hægt að nota þetta helvíti í heilaþvott!
Ég tók mig til og kvartaði við Steinunni á fundinum. Vona að eitthvað verði gert í málinu svo ég geti fengið minn fegrunarblund í nótt. Það væri lágmark að setja rofa á snúruna svo maður geti kveikt og slökkt á þessu. Vona að kenning mín um heilaþvott sé ekki rétt...
megrun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 9. september 2008
Dagur 2, færsla 2
Kl. 20:00.
Hér er súld. Áðan þegar ég fór í sund var óvenjuleg rigning: hún var lóðrétt! Mjög notalegt að finna hana leika um líkamann á meðan maður gekk á milli lauganna, enda var hún ekki neitt sérstaklega köld. Ég afrekaði svo að synda heila 240 metra. Vona bara að ég vakni ekki upp með hálsríg í fyrramálið eins og hefur einstaka sinnum komið fyrir eftir sundferðir. Þyrfti að kaupa mér augndropa, því klórinn fer illa í augun á mér. Eða kannski að ég kaupi mér sundgleraugu, en bara ef ég finn einhver sem eru með ábyrgð gegn því að fyllast af vatni við eðlilega notkun.
Sundaðstaðan hérna er frábær. Það eru tvær sundlaugar, úti- og inni-, innilaugin er 15 metrar og ég giska á að útilaugin sé 25 metrar. Heitu pottarnir eru 3. Einn er bæði inni og úti og rúmar örugglega hátt í 30 manns. Annar hinna er með nuddi, ekki bara þessu venjulega, heldur er svæði þar sem maður getur lagst niður og látið hann nudda næstum allan skrokkinn á sér í einu. Svo eru það víxlböðin. Þar byrjar maður á að ganga eftir ca. hnédjúpu trogi í mjög heitu vatni, síðan eftir öðru trogi með 10-12°C heitu vatni, og endurtekur tvisvar. Kemur blóðrásinni vel af stað, en mann lagar helst að öskra þegar maður kemur með lappirnar ofan í kalda vatnið.Það er líka sána og gufubað (sem sagt, þurrt OG blautt), en ég er ekki búin að prófa það.
Ég er ekki búin að fá sérstundaskrána mína, en læknirinn ætlaði að setja mig í nudd og slökunarböð ofan á hópagskrána. Í fyrramálið byrja ég daginn með venjulegri leikfimi, og fer síðan í einhverja kynningartíma og viðtöl.
megrun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 9. september 2008
Dagur 2
Kl. 9:30.
Hér rignir. Ég vaknaði klukkan 3 við að einhver skellti hurð á klósettinu það er hrikalega hljóðbært hérna og sofnaði ekki aftur. Það hefur rignt frá a.m.k. klukkan 4, svona ekta ausandi íslensk haustrigning. Mjög fegin að gönguferðirnar byrja ekki fyrr en á morgun, og vona að þá verði stytt upp.
Byrjaði daginn með morgunverði. Hér er boðið upp á afskaplega hollan morgunmat: tómatar, gúrkur, 17% ostur og sojaostur í boði ofan á rúgbrauð, flatbrauð og 2 aðrar tegundir af rúgbrauði. Það er smjör á boðstólum og reyndar las ég í gær að öll fita, hvort sem hún er úr jurta- eða dýraríkinu, inniheldur nákvæmlega jafn margar hitaeiningar, þannig að Létt & Laggott er bara sniðugt fyrir hjartað en ekki mittismálið. Auglýsingarnar eru sem sagt villandi og ætti að kæra þær. Svo er L&L bara vont. En áfram með morgunmatinn: það er hægt að fá sér hafragraut eða AB-mjólk, og alls konar múslí og fræ og klíði saman við, og líka ávexti. Síðan eru ca. 20 tegundir af tei og jurtaseiði, og hunang út í. Ekki hvítur sykur í sjónmáli. Ef einhvern langar í kaffi getur hann bara keypt sér það út í búð og hunskast með það inn í þvottahús til að hella upp á. Í gamla daga var víst bara hægt að hella upp á í reykhúsinu (sem er nú niðurlagt), þannig að reyklausir þurftu að skreppa út í Eden ef þá langaði í sopa.
Síðan tók við sundleikfimi, hörkugóð hreyfing í ca. hálftíma, mikið sprikl, og hopp, en allt í hægagangi út af vatninu. Ég fór svo og hitti lækninn, sem sagði mér að ég væri með góða tegund af offitu, þ.e. ég er svokallað epli (með fitu á maga og rassi) og þar með ekki í áhættuhópi vegna hjarta- og æðasjúkdóma eins og perurnar (fitusöfnun á rass og læri). Hann sagði líka að það væri ólíklegt að ég yrði nokkurn tímann tágrönn aftur, og að ég mundi líklega ekki léttast mjög mikið. Ég sagði honum að það væri ekki tilgangurinn með minni veru á staðnum, ég vil bara léttast nógu mikið til að losna við bakflæðið, hvort sem það verður vegna megrunar eða að magalæknirinn samþykki loksins að taka mig í aðgerð (hann vill fá mig niður í 80 kíló).Hann minntist líka á að hér væri unnið eftir því að ná fólki niður í þyngd sem ekki hefði slæm áhrif á heilsuna, en hún getur verið vel yfir svokallaðri kjörþyngd.
Ég fór líka á vigtina í morgun, og vó þá 101,6 kg. í fötum, þannig að ég er ca. 101 kg.
Næst er svo kynningarfundur, þar sem væntanlega verður farið ofan í saumana á meðferðaráætluninni.
Kl. 10:30.
Kynningarfundurinn búin. Þar fjallaði leikfimikennarinn um meðferðina og æfingar og annað sem við þurftum að vita.
Var ég annars búin að minnast á rigninguna? Hún er blaut, það er mikið af henni, það er rok, og leikfimikennarinn var að enda við að leggja til að við færum út að labba.
megrun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 8. september 2008
Dagur 1
Kl. ca. 14:00.
Jæja, þá er maður mættur á staðinn: HNLFÍ í Hveragerði. Hér er þráðlaust net, en sambandið er svo slæmt inni á herberginu mínu að ég þarf að fara fram til að komast á netið, enda er það staðsett á bókasafninu. Samkvæmt kortinu af byggingunni er bara lengra þangað úr kapellunni, enda er ég staðsett á Sprengisandi, sem er einn af elstu íbúðargöngunum í byggingunni. Bókasafnið er aftur á móti á miðsvæðinu á milli Gullstrandar og Perlustrandar, en þar er nýjustu herbergin, sem bjóða upp á svona óþarfa lúxus eins og sjónvörp og einkabaðherbergi.
Á myndinni til vinstri (þeirri efri) má sjá herbergið mitt. Það virkar stærra en það í rauninni er. Þessi álma var byggð um miðjan sjötta áratuginn, og mér sýnist fataskápurinn vera upprunalegur, en skrifborðið og hægindastóllinn bera með sér að vera frá þeim sjöunda. Rúmið er sem betur fer nýlegt, enda vönduð sjúkrarúm á öllum herbergjum. Byggingin hérna er öll á einni hæð og ægir saman gömlu og nýju. Þetta er svo mikið völundarhús að hvaða flugstöðvarhönnuður sem er mundi fyllast öfund ef hann sæi húsið, en auðvitað er skalinn talsvert minni þó vegalengdirnar virðist vera svipaðar.
Í dag var á dagskránni viðtal við hjúkrunarfræðing, og klukkan 5 er leiðsögn um stofnunina. Hjúkkan heitir Steinunn, en ég kalla hana í huganum Kóngulóarkonuna, af því að ég taldi einar 4 kóngulær inni á skrifstofunni hennar, sem er ekki mikið stærri en herbergið mitt. Ein var meira að segja í gardínunni við skrifborðið hennar. Mamma hefði fengið slæman hroll þarna inni. Mig langaði bara að ná mér í kúst.
Kl. 17:50.
Jæja, þá er skoðunarferðinni lokið og maður búinn að hitta flesta hina úr hópnum. Aldursdreifingin er allmikil: yngst er stúlka sem er rétt rúmlega tvítug, það er ein sem virðist geta verið á svipuðu róli og ég, og svo er restin á fimmtugs- og sextugsaldri. Þyngdardreifingin er líka breið.
Ég sá á kort áðan: það var greinilega snilldarbragð hjá mér að velja Sprengisand, því það eru um 250 metrar úr herberginu mínu á bókasafnið, og aðeins lengra í matsalinn. Sem sagt: hálfur kílómetri fram og til baka. Svona til viðmiðunar þá labba ég 650 metra í vinnuna heiman að frá mér.
Innréttingar í setustofum og á göngunum hérna eru frekar elliheimilislegar: borðin virðast ýmist vera bambus, eldgömlu tekki eða ljósum stofnanavið og svo eru stórrósóttir hægindastólar og sófar, og það eru málverk út um allt, helmingurinn af þeim af góðvinum NLFÍ, sum í fullri líkamsstærð, öll með góðlátlegan svip á andlitinu til að hræða ekki gestina, þó einn sé hálf skelfilegur til andlitsins, en ég held að það sé málaranum að kenna en ekki skaparanum.
Á morgun byrjar svo ballið með læknisskoðun, kynningarfundi og fundi með næringarráðgjafa. Kannski vatnsleikfimi, en annars hefjast ekki æfingar fyrr en á miðvikudaginn. Annar matsalurinn hérna ber það virðulega nafn Sultartangi. Þar var víst aðstaða fyrir þá sem voru í megrun í gamla daga, en mér skilst á Steinunni að þeir hafi lifað á gulrótarsafa og kjötsoði og verið í stólpípumeðferð. Mikið er ég fegin að það er búið með svoleiðis miðaldameðferðir. Nú koma þangað þeir sem eru of hrumir eða veikburða til að ganga hálfan kílómetra til að komast í og úr mat.
megrun | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar