Færsluflokkur: Bílar og akstur

Dagur 22

Í dag er upphafið á síðustu vikunni, lokaspretturinn í þessari umferð. Svo tekur við sjálfstýrð dagskrá, og þá byrjar átakið fyrir alvöru. Það er auðvelt að halda sig við fasta dagskrá í svona hálfvegis lokuðu umhverfi eins og HNLFÍ, en þegar maður kemur aftur út í daglegt líf, með vinnu og öðrum skuldbindingum, þá fer róðurinn að þyngjast. Ég verð að segja að ég hef ekki fundið hjá mér mikla þörf fyrir a nasla á milli mála á meðan á þessu hefur staðið, en það er líka búið að fjarlægja flest áreitin sem valda þessum millimálaátköstum hjá mér, t.d. vinnuna. Það er eftir að sjá hvernig ég stend mig þegar heim kemur. Ég veit að ég mun líklega ekki léttast jafn hratt og ég hef gert hérna, en ég er ákveðin í að halda áfram að léttast, þó ekki sé nema um 1 kg. á mánuði út næsta ár.


Um helgina skrapp ég í JSB og líka í World Class í Laugardalnum og fékk að skoða aðstöðuna. Hvílíkur munur á tveimur stöðum! JSB er lítil stöð sem virkar mjög róleg og afslöppuð, á meðan World Class er hrikalega stór, glymur og hávaði, allt fullt af verslunum innandyra með dýrum sportvarningi (það er líka veitingasalur þarna), risastór tækjasalur, og ég sá ekki betur en að allir væru í spandexi og designer-skóm. Samt eru báðir staðirnir með sömu tækin og stundaskrárnar sýna svo fram á að tímar með þjálfurum eru bara svipað margir á báðum stöðum. Þar sem JSB er nær og virkar ekki nærri því eins stressuð og World Class, þá ætla ég að byrja á að fá mér mánaðarkort þar, til að prófa. Ef mér líkar vel, þá kaupi ég árskort, annars fer ég í World Class og prófa mánuð þar. Svo ef það hentar mér ekki, þá getur ég alltaf prófað Baðhúsið, eða jafnvel bara keypt mér kort í tækjasalinn hjá Gáska (þar sem ég er í sjúkraþjálfun) og árskort í sundlaugarnar.


Annað í fréttum er að það virðist vera hætt að rigna í bili, og ég geri mér vonir um að komast þurr í gönguna á morgun.


Dagur 16

Í dag var ég bara með vatnsleikfimi og göngu á stundaskránni, og bætti svo við einni umferð í tækjasalnum. Er mun hressari eftir nuddið og ætti gjörsamlega að vera full orku á fimmtudaginn, því ég verð aftur í nuddi á morgun. Ég ákvað að setja mér takmörk og fór í göngu 3, sem var eins gott, því ganga 4 koma til baka á sama tíma og við, og þar sem við vorum á réttum tíma, þá hljóta þau að hafa skokkað góðan part leiðarinnar, sem er ekki gott í þungum fjallgönguskóm. Fann ekki fyrir verknum, en ætla samt bara í göngu 3 á morgun. Nú hlýtur samningurinn við veðurguðina að vera útrunninn, því það rigndi allan tímann á meðan við vorum í göngunni, og úlpan mín var þung af vatni þegar ég kom til baka, en hélt mér samt þurri, sem er annað en ég get sagt um þartilgerða flík sem ég tók líka með mér. Við gengum fram á slatta af hálf-föllnum trjám - þegar jarðvegurinn er svona gegnsósa þarf ekki mjög mikið hvassviðri til að blása um koll stórum trjám. Kanínurnar í Ölfusborgum voru heldur ekki mjög hressar, húktu blautar í skjóli trjánna og hafa sjálfsagt látið sig dreyma um þurrar holur og birgðir af gulrótum.

Eftir hádegi var stundaskráin tóm hjá mér og ég skrapp því í bíltúr. Fór niður á Stokkseyri og Eyrarbakka og ætlaði að skoða Draugasetrið fræga, en það er þá komið á vetraropnunartíma og er bara opið á föstudagskvöldum og um helgar. Renndi í staðinná Selfoss og fór í búðir, þar á meðal litla og skemmtilega verslum sem heitir Alvörubúðin og selur í bland íslenskt og indverskt dót.

Hér hefur annars rignt linnulaust síðan í gær, og það er stífluð þakrenna fyrir utan gluggann hjá mér þannig að ég get ekki haft gluggann opinn. Eins og regnhljóðið er nú róandi og gott fyrir svefninn, þá er drrrrp! sluuuurpp! slabb! -hljóðið þegar fer að renna út úr stíflunni ekki skemmtilegt. Annað sem ekki er gott fyrir svefninn hérna er að þurfa að fara fram til að komast á klósettið. Ég er ein þeirra sem endilega þurfa að pissa á nóttunni, og það er frekar auðvelt að glaðvakna við það að þurfa að klæða sig fyrst í eitthvað svo maður mæti nú ekki nágrannanum á nærbuxunum frammi á gangi, fara síðan fram á ganginn sem er uppljómaður til að enginn geti nú villst í myrkrinu, og inn á klósettið sem er lýst með enn bjartari ljósum og svo illa upphitað að manni finnst maður vera með frostskemmdir á rassinum eftir leiðangur þangað. Mig hlakkar ekki til að koma hérna aftur í janúar upp á þetta, þannig að það getur verið að ég fái mér herbergi með klósetti þá.


Dagur 4

Synti 90 metra og fór svo í hörku vatnsleikfimi í morgun. Var búin að koma mér fyrir á fínum stað í lauginni þegar ofan í kom andfýla og á eftir henni maður sem þurfti endilega að taka sér stöðu fyrir aftan mig. Ég færði mig hið snarlegasta.

Fór síðan í ágætis þolgöngu kl. 11. Var ekki alveg jafn rennandi sveitt og í gær, enda gekk forystusauðurinn hægar og það voru færri eða að minnsta kosti ekki jafn brattar brekkur og í gær. Það rigndi bara smávegis á okkur á leiðinni. Ég horfði með öfund upp á heiði, en þar var léttskýjað, sem mér þótti benda til bjartviðris í Reykjavík. Vona að það verði komið hingað á morgun svo ég geti farið út með myndavélina, því ég er búin að koma auga á fjöldann allan af tækifærum til að taka flottar myndir í gönguferðunum. Maður stoppar nefnilega ekki á þolgöngu, nema rétt til að taka teygjur.

Ég veit ekki hvað er að hafa slæm áhrif: sund, leikfimi eða ganga, nema allt þrennt sé, en ég er búin að vera að drepast í bakinu frá því um hádegi. Endaði á því að taka Naproxen. Þó það slaki ekki á verknum þá getur verið að það mýki vöðvana eitthvað. Ég er greinilega ekki ennþá búin að jafna mig eftir húsgagnaflutningana fyrir mánuði síðan (ég var að setja saman skenk frá Ikea og fjarlægja kommóðu/skatthol úr eldhúsinu hjá mér og tognaði í bakinu við það - því miður hélt ég að ég væri orðin góð og skildi Parkódínið eftir heima). Verð að sjá til með hvort ég treysti mér í leikfimina í fyrramálið. Hitti vonandi sjúkraþjálfarann eftir hádegi á morgun.

--

Maturinn hérna er mjög góður. Þar sem viðmiðun flestra lesenda er væntanlega maturinn á Grænum kosti eða Á næstu grösum, þá er hann talsvert betri en á þeim fyrrnefnda og svipað góður ef ekki betri en hjá þeim síðarnefnda.

Nema súpurnar. Ég er ekki enn búin að fá góða súpu hérna. Eiginlega alveg furðulegt miðað við hvað annar matur er góður.

Nema í kvöld. Það  var kalt kartöflu- og eplasalat á borðum, í karrýsósu sem innihélt allt of mikið túrmerik. Ég rétt smakkaði á salatinu og fékk mér svo bara skyr í staðinn, en það er alltaf á boðstólum á kvöldin.

--

Hér er lítið við að vera eftir klukkan fjögur á daginn, annað en að horfa á sjónvarpið, lesa blöðin eða spila pool. Ég er að reyna að sofna ekki, nema ég hef tvisvar fengið mér kríu eftir hádegismatinn og í bæði skiptin verið gert rúmrusk af slökunarprógramminu. Hef verið að lesa í staðinn. Í kvöld á reyndar að dansa í Kapellunni, sem þrátt fyrir nafnið er samkomu-, leikfimi- og fyrirlestrasalur auk þess að vera helgidómur. Það er nefnilega alltaf eitthvað um að vera þar á fimmtudagskvöldum, oftast kvöldvökur, en í kvöld hafa líklega ekki fengist neinir sjálfboðaliðar úr hópi dvalargesta til að skemmta svo það hefur verið sett á ball í staðinn. Á morgun kem ég síðan heim og stoppa fram á sunnudag.


Dagur -2

Ég er ekki ennþá komin austur, fer ekki fyrr en á mánudaginn þannig að þetta telst vera dagur -2. Ég er sem sagt á leiðinni á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, öðru nafni Heilsuhælið í Hveró, til að reyna að ná af mér einhverjum þessara allt of mörgu umfram kílóa sem hafa safnast utan á mig á síðustu 12 árum, eða síðan ég kom heim frá útlöndum 1996 eftir rúmlega 8 mánaða heimshornaflakk. Þá var ég 55 kíló, reyndar 20 kílóum léttari en þegar ég fór út 1995.

Samkvæmt BMI (Body Mas Index) eða líkamsþyngdarskalanum, á ég að vega á bilinu 50 til 68 kíló, með BMI upp á 18,5 til 25. Ég er með BMI upp á 37,5, sem telst vera offita, og veg 102 kíló samkvæmt vigtun í morgun.

Ég er ein af þessum sem þyngjast ekki jafnt og þétt, heldur í stökkum. Stökkin hafa næstum undantekningalaust staðist á við tímabil þegar ég hef lítið verið að hreyfa mig, t.d. veikindi, próflestur, ritgerðavinnu og þýðingaverkefni. Þyngdaraukningin hefur þá verið allt frá 1 og upp í 5 kíló í senn, yfir 1 til 6 vikna tímabil. Þess á milli hef ég náð að þyngjast um nokkur hundruð grömm í ofátsköstum sem koma annarsvegar vikuna á undan blæðingum og hins vegar í þunglyndis- og streituköstum, en í öllum þessum tilfellum sæki ég miskunnarlaust í sælgæti.

Pillan hefur hjálpað upp á fyrirtíðarspennuna og átið sem henni fylgir, og eftir að ég gerði mér grein fyrir því að ég væri þunglynd, þá hefur það át svo til stoppað. Ég á ennþá erfitt með mig þegar ég er stressuð, en ekki meira en svo að ég hef ekkert þyngst í um 18 mánuði.

Í vor ákvað ég að gera eitthvað í málinu, talaði við heimilislækninn minn og fékk tilvísum á HNLFÍ hjá henni, og komst inn í meðferð sem er að byrja hjá þeim núna í september.

Í sumar hefur mér síðan tekist að létta mig um 5 kíló. Það tókst með aukinni hreyfingu (aðallega gönguferðum) og með aðgerðum eins og að nota minna smjör ofan á brauðið, hætta í gosinu, drekka oftar vatn með matnum, fá mér ekki aftur á diskinn, minnka mjög steiktan mat sem ég borða, og svo auðvitað með minnkuðu sælgætisáti.

Svo byrjaði þessi vika. Á sunnudags-, mánudags- og þriðjudagsmorgun vóg ég 100 kíló (ég miða þyngdaraukningu og -tap alltaf við meðaltal 3-4 daga). Á þriðjudagskvöldið var ég svo í saumaklúbbi heima hjá vinkonu minni. Við höfum alltaf mikið að tala um, og það eru alltaf veglegar veitingar á borðum. Þetta skipti var engin undantekning, og á borðum var meðal annars himnesk frönsk súkkulaðikaka...

Nú, þeir sem hafa átt við átvandamál að stríða vita að það er hættulegt að borða þegar maður er með hugann við eitthvað annað. Ég vóg 100,5 kíló á miðvikudagsmorguninn, en það sem verra var að ég virtist vera komin út í óstjórnlegt nart á milli mála. Líklega hefur spennan vegna austurferðarinnar verið byrjuð að vaxa. A.m.k. vó ég 101 kíló á fimmtudagsmorguninn, og 102 í morgun. Ég er að vonast til að þetta sé að mestu bjúgur, en óttast helst að þetta sé bara fita.

Í dag var ég svo í barnaafmæli.  Mér tókst að forðast rjómann og súkkulaðið, og sem betur fer notar frændfólk mitt ekki mikið af majónesi í brauðterturnar, en ég borðaði samt of mikið. Það er nefnilega svo erfitt að stoppa þegar það er svona góður matur á borðstólum. Svo eru rækjur og egg ekki beint megrandi.

Það er annað afmæli hjá mér á morgun, og svo fer ég austur á mánudaginn. Fróðlegt að vita hvað ég veg þá.


Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband