Svipmyndir úr fyrstu næturgistireisunni, 2. hluti

Hvalfjörðurinn er draumur fyrir landslagsljósmyndara. Í þetta skipti stoppaði ég við líparítnámuna og tók myndir þar:

dsc_8908.jpg

 

dsc_8904.jpg

 

Það er líka vel þess virði að litast um eftir því smáa. Þetta fann ég t.d. niðri í fjöru rétt hjá Þylilsskálnum, utan á sjóreknu flotholti:

dsc_8914.jpg

 

 

dsc_8915.jpg


Svipmyndir úr fyrstu næturgistireisunni, 1. hluti

Ég fór í fyrstu næturgistireisuna á bílnum helgina 9. til 10. maí. Þetta var bara ein nótt, svona til að prófa mig áfram með þetta. Ég hóf ferðina með því að aka upp á Þingvelli og tók smá hring við vatnið, og fór síðan yfir í Hvalfjörðinn um Kjósarskarðsveg með viðkomu í Kaffi Kjós. Hér eru nokkrar myndir úr þessum legg ferðarinnar:

Mér hefur alltaf þótt þetta hús (sumarbústaður? veiðihús?) vera svolítið sjarmerandi:

dsc_8884.jpg

 

Horft inn Hvalfjörðinn. Í góðu veðri er það þess virði að keyra fjörðinn bara út af landslaginu (en reyndar er vegurinn skemmtilegur líka, sérstaklega sunnanmegin):

dsc_8889.jpg

 

Uppi við Steðja (Staupastein). Ég hef farið um Hvalfjörðinn ég-veit-ekki-hversu-oft, en það er oft, því ég var komin með bílpróf áratug áður en Hvalfjarðargöngin opnuðu, og þetta er í fyrsta skipti sem ég fer upp að Steðja:

dsc_8900.jpg

 

dsc_8895.jpg

 

Svo er ein dæmigerð póstkortamynd af Þyrli í lokin:

dsc_8910.jpg


Prófunarreisa nr. 2: Kleifarvatn og Seltún

dsc01541.jpgSunnudaginn 3. maí tók ég stuttan rúnt upp að Seltúni (háhitasvæðið við Kleifarvatn). Þó það væri freistandi að halda áfram og keyra Krísuvíkurhringinn og veðrið væri fallegt, ákvað ég að snúa frekar við og fara sömu leið til baka.  Þarna prófaði ég bílinn á tiltölulega vondu þvottabretti (bylgjóttum malarvegi), í beygjum og í hæðum. Þar er líka lítil umferð og langir beinir kaflar með malbiki og því gat ég prófað svolítið annað sem ekki hafði hvarflað að mér á laugardeginum, nefnilega skriðstillinn.

Í þessum tveimur leiðöngrum kom eftirfarandi í ljós:

  • Ég get sko vel vanist því að hafa skriðstilli (cruise control). (Annars er skriðstillir ekki beinlínis „opið“ orð og því ekki að furða þó menn tali bara um krúskontról. Kannski væri betra að tala um hraðastilli?).
  • Það er frábært að sitja hærra en í venjulegum fólksbíl. Maður sér svo mikið betur yfir.
  • Bíllinn er pínu latur upp brekkur, en réði samt ágætlega við Kambana – en sá vegur er líka ekkert afskaplega brattur eftir að nýji vegurinn kom til. Einnig líkar honum illa við mikla möl á vegum. (Sama gildir um mig. Þetta fer illa með rúður og lakk og svo er alltaf hætta á að bíllinn skríði til í lausamöl og maður missi stjórn á honum. Það þarf ekki mikinn hraða til þess að slíkt gerist.) Malarbrekkur eru því í litlu uppáhaldi hjá okkur. Stutta bratta brekkan á leiðinni upp að Kleifarvatni er reyndar alveg sérstaklega slæm. Núna er hún t.d. ekki bara eitt þvottabretti, heldur er líka mikil lausamöl á henni. Röfl: Ég hef aldrei skilið af hverju þessi stutti kafli á Kleifarvatnsveginum er hafður nakinn þegar búið er að slitleggja veginn næstum að brekkunni, og síðan aftur meðfram vatninu. Ætil það séu mismunandi sveitarfélög sem eiga þessa mismunandi kafla vegarins? (Sennilega – ég held að Hafnarfjörður og Vogar eigi þessa vegarkafla).
  • Dýnan skríður svolítið til, meira samt í titringi en í beygjum. Þetta er í sjálfu sér ekki vandamál því til að hún steypist niður á gólf mundi þurfa bæði mikinn hliðarhalla og mikinn hristing, sem er ólíklegt að eigi nokkurn tímann eftir að fara saman, því ég hef ekki hugsað mér að aka eftir veglausum fjallshlíðum. Það er bara ljótt að sjá hana liggja skakkt á rúmbotninum.
  • Klósettið er stöðugt á ferð inni í skápnum sínum, líka þegar tankurinn er fullur af vatni. Ég lagaði það tímabundið með því að troða púðum framan og aftan við það (það er skorðað til hliðanna), en hugsa að ég útbúi eitthvað varanlegra. Kannski ég setji lista, bönd eða net út við hliðarhurðina og hefti stólsessu innan á skáphurðina. Svo hugsa ég að ég fái mér mottu undir koppinn til að auðvelda að draga hann út og til að rispa hann ekki að neðan.
  • Skúffan umrædda tollir ekki lokuð í malarvegahristingi. Pabbi ætlar að setja öryggisloku á hana.
  • Kæliboxið kælir á við besta ísskáp. Ég setti volgar gosdósir í það í upphafi ferðar og þegar ég opnaði þá fyrstu eftir tveggja tíma kælingu voru veigarnar orðnar svalandi kaldar og fínar. Verst að maður þarf að skjóta á stillinguna, því skápurinn er þannig hannaður að hann kælir ekki í fyrirframákveðið hitastig, heldur visst mikið niður fyrir umhverfishita.
  • Ég hugsa að ég eldi ekki að staðaldri inni í bílnum, því það er svo stutt alls staðar í eitthvað sem getur kviknað í. Á þó eftir að gera vísindalegri úttekt á þeim möguleikum. Veit að minnsta kosti að ég fer ekki að elda sterklyktandi mat þar inni, því það mundi setjast í teppið, gardínurnar og dýnuna og þó mér þyki t.d. svínaflesk besti matur þá langar mig ekkert til að koma inn í bílinn angandi af vikugömlu eau de beikon.
  • Það er andsk. kalt að vera úti á vorin á Íslandi með beran skalla. Jebb, ég tók mig til, þennan sama sunnudagsmorgunn, og rakaði af mér allt hárið. Það hafði staðið til lengi og ég var loksins tilbúin til að gera það. Þegar þetta er skrifað eru komnir þessir fínu broddar og ég er það ánægð með þetta að ég ætla að halda þessari klippingu í ófyrirsjáanlega framtíð.

Vandræðagangur

dsc00842.jpgEins og ég hef minnst á er ég búin að vera að læra á bílinn því ýmislegt er öðruvísi en í Toyotunni, og reyndar öðruvísi en í öðrum bílum sem ég hef átt. T.d. er rúðuþurrkuslánni í Toyotunni ýtt niður til að setja þurrkurnar af stað, en upp á Caddyinum, og ég hef enn ekki vanist því. Þar af leiðandi set ég alltaf þurrkurnar í hæsta gír þegar ég ætla að slökkva á þeim. Þetta er nefnilega eitt af því sem maður gerir án umhugsunar og notar snertiminnið til að gera, og mitt snertiminni hefur verið að ýta þurrkuslánni niður frá því 2001 (að minnsta kosti – ég man ekki hvernig þetta var í MMC Coltinum sem ég átti fyrir þann tíma). Aftur á móti er hægt að breyta stigstillingunni á þurrkunum í Caddyinum án þess að sleppa hendi af stýri, sem er erfitt í Toyotunni. Svo er engin afturþurrka á Toyotunni, en á Caddyinum er auðvelt að reka sig í og setja hana óvart af stað, því það er gert með því að ýta þurrkustönginni aftur. Þegar ég slysaðist til að setja hana af stað (í þurru veðri) tók það mig talsverðan tíma að finna út úr því hvernig hún virkaði, en mér tókst það þó án þess að fletta því upp í handbókinni. Sumt hefst alveg með smá fikti. Það er samt best að stöðva bílinn áður en maður byrjar að fikta.

Það sama gilti ekki um eldsneytislokið. Í Toyotunni er hlerinn yfir því opnaður með lítilli stöng niðri við gólf, vinstra megin við farþegasætið. Maður togar í hana og hlerinn opnast. Voða sniðugt og þægilegt.

Á Caddyinum ýtir maður á endann á hleranum til að opna hann og opnar þvínæst lásinn á lokinu með bíllyklinum (eðalráð til að tryggja að maður drepi á bílnum þegar tekið er eldsneyti). Síðan er lokinu snúið til að skrúfa það opið. Ekki flókið, en ég var með hugann við ferðalagið framundan þegar ég tók dísil á bílinn í fyrsta skipti og það gekk ekki vel. Eins gott að ég tók þó dísil en ekki bensín, því þótt að það sé erfitt að setja dísil á bensínbíla (af því að dísilstúturinn er stærri en sá fyrir bensínið), þá er mjög auðvelt að dæla bensíni á dísilbíla. Þetta ætti eiginlega að vera öfugt, því það er víst minni hætta á að skemma vélina í bensínbíl með dísil en í dísilbíl með bensíni.

Nú, þetta var snemma morguns og fáir á ferð (sem betur fer, segi ég). Ég var því ekkert að flýta mér þegar ég renndi inn á Atlantsolíustöðina í Fossvoginum.

Það byrjaði á því að ég fór öfugu megin að tönkunum. Af einhverjum ástæðum hafði ég bitið það í mig að það væri dælt á bílinn farþegamegin, sem reyndist rangt, og ég hafði lagt þannig að það var ekki hægt að toga slönguna aftur fyrir bílinn. Ég fór því inn aftur og færði bílinn þannig að hann stóð rétt.

Síðan sat ég og leitaði að stöng eða takka til að opna hlerann, en fann ekki. Fór þá í handbókina og las mér til um hvernig ætti að gera þetta, fór út, opnaði hlerann og stakk lyklinum í skrána. Sem snerist, og snerist og snerist, þangað til ég greip í hann og hélt í og tókst að aflæsa. Ekki tók betra við: lokið hélt áfram að snúast, og snúast, og snúast, og ekkert gerðist. Á endanum tókst mér, með talsverðu basli og skinnsprettum á tveimur hnúum, að ná helv. lokinu af. Það hjálpaði ekki að það er fest við bílinn með plastspotta sem flækist fyrir þegar maður snýr lokinu. Hins vegar er lítil hætta á að maður gleymi því á dælunni þegar maður ekur á brott (alltaf að líta á björtu hliðarnar eins og Pollýanna).

Því næst dældi ég dísilolíu á bílinn, tókst að loka og læsa tankinum án vandræða, prentaði kvittun og settist inn í bílinn. Allt tók þetta talsverðan tíma. Ég var að pára kílómetrafjöldann á mælinum á kvittunina (ég átti eftir að fá mér þjónustubók) þegar stór jeppi með mann innanborðs renndi upp að hliðinni á bílnum. Maðurinn var með eitthvað pat og vildi greinilega tala við mig.

Ég renndi niður rúðunni og spurði hvað hann vildi. Hann kynnti sig og sagðist vera starfsmaður Atlantsolíu og spurði hvort það væri eitthvað að. „Ha, nei,“ svaraði mín, með minni bestu Marilyn Monroe (í „dumb blonde“ ham) augnavíkkun,  augnhárablikki og „litlustelpu“rödd.

marilyn.jpg

Þetta eru oft mín fyrstu viðbrögð þegar ég held að fólk ætli að fara að hrella mig (og virkar andsk. vel á bæði löggur og dyraverði). Ég útskýrði síðan að bíllinn væri nýr og að ég væri enn að læra á ýmislegt í honum og hefði lent í basli með eldsneytislokið. Hann baðst þá afsökunar á ónæðinu og ók á brott. Þarna hefði ég roðnað gæti ég það enn.

Það er gott að vita að eftirlitið á þessum sjálfafgreiðslustöðvum er svona gott, svona ef maður skyldi lenda í alvöruvandræðum.

Síðan ók mín af stað og átti besta dag í leiðangri upp í sveit.


Prófunarreisa nr. 1 , frh.: Þjórsárdalsrúnturinn 2. maí

Bíllinn

Það var besta veður þegar ég lagði af stað í Þjórsárdalsleiðangurinn. Eins og áður sagði hlóð ég bílinn eins og ég ætlaði í gistiferð, enda ætlunin að prófa hvernig innréttingin stæði sig.

Ég hef skoðað svæðið meðfram þjóðvegi 1 á milli Reykjavíkur og Selfoss nokkuð vel. Mæli t.d. með göngu á Lyklafell (gengið frá Litlu kaffistofunni), en bara ef menn eru vel skóaðir. Ég var því ekkert að stoppa mikið á þeirri leið nema til að taka nokkrar myndir uppi í Þrengslum.   

Hélt áfram eftir þeim vegi, inn á veginn til Stokkseyrar og Eyrarbakka, og áfram til Selfoss. Þar skaust ég inn í sjoppu til að kaupa smá nesti og hélt síðan áfram þar til ég kom að afleggjaranum upp á Flúðir.

Vegurinn upp í Þjórsárdal er afleggjari út af Flúðaveginum og liggur á stórum köflum meðfram ánni, í fallegu landslagi:

dsc_8820.jpg

 

Við Gaukshöfða

 

 

dsc_8827.jpg

 

Ég hitti þennan vingjarnlega hest:

dsc_8822.jpg

Svo fór ég upp að Hjálparfossi:

Hjálparfoss

 

Það virðist ekki vera kviknað á ferðaþjónustunni þarna upp frá. Að minnsta kosti var lokað í móttökunni við Búrfellsvirkjun og enn næstum mánuður í að Þjóðveldisbærinn opnaði, en þó að bærinn líktist mest stórri heysátu var samt gaman að koma þarna:

dsc_8852.jpg

 

dsc_8855.jpg

 

dsc_8856.jpg

Ég ók líka upp á hálendið fyrir ofan virkjunina og kíkti á vindmyllurnar sem þar eru:

dsc_8866.jpg

 

Þá var að nálgast hádegi, sem sýnir bara hversu snemma ég fór af stað. Ég var nú orðin svöng, og renndi upp á Flúðir. Þar er Minilik, annar af tveimur eþíópískum veitingastöðum á landinu:

dsc01535.jpg

Ég hitti tvo af eigendunum og spjallaði við manninn, sem sagði mér að staðurinn gengi ágætlega, þó að þau gætu reyndar ekki lifað af rekstrinum einum saman og væru bæði í vinnu annars staðar líka. Þarna snæddi ég ágætis hádegisverð með framandi bragði, og stefndi að því loknu heim á leið. Ég vona að þeim gangi vel með þetta framtak sitt, sem er góð tilbreyting frá þessum eilífu hamborgurum, pizzum, pylsum og steikta fiski sem mæta manni í öllum bæjar- og þjóðvegasjoppum landsins og halda mætti að væru þjóðarréttir Íslendinga.

Í bakaleiðinni stoppaði ég við Gaukshöfða - höfða eða stapa sem skagar út úr fjallshlíð ofan við þjóðveginn. Þar segir sagan að Gaukur á Stöng hafi verið veginn út af ástamálum. Það er víst fínasta útsýni ofan af höfðanum, en ég kleif hann ekki, var of illa skóuð til þess (gönguskórnir gleymdust heima). Ég naut bara útsýnisins ofan úr fjallshlíðinni fyrir neðan og tók myndir af fólki sem hafði klifið höfðann og var að fíflast uppi á klettabrúninni:

dsc_8876.jpg

 

 Síðan má varla segja að ég hafi stoppað á leiðinni til baka, nema til að kíkja í nokkrar búðir á Selfossi. Ég hlífi ykkur við frásögn af því.

Allt í allt má segja að þessi ferð hafi gengið vel.


Prófunarreisa húsbílsins nr. 1

Við eldiviðar (held ég) stafla við afleggjarann upp að Flúðum.Jæja, þá er það afstaðið: Ég er búin að prufukeyra bílinn (reyndar líka að vígja hann, en meira um það síðar).

Ég ákvað sem sagt að kynnast bílnum svolítið betur áður en ég legði af stað í gistiferð á honum.

Ég er búin að vera á bílnum hátt í þrjár vikur og hef notað hann í innanbæjarsnatti. Hann er hærri, lengri og svolítið breiðari en Toyotan og ýmislegt í honum er öðruvísi en hjá Gránu gömlu. T.d. er ég búin að vera að venjast því að bakka algerlega eftir speglunum, því það eru engar hliðarrúður að aftan sem er hægt að horfa út um. Það venst furðu vel, enda á það ekki að vera neitt vandamál ef speglarnir eru rétt stilltir. Ég hafði bara ekki mikla reynslu af því. Ég hef þó afturrúðu, sem vantar á marga stærri sendibíla. Það hjálpar að bíllinn er lipur og hefur lítinn snúningspunkt.

Helgina 2. og 3. maí fór ég í tvær dagsferðir þar sem ég prófaði bílinn við ýmsar aðstæður, s.s. í þjóðvegaakstri, á malarvegum, í bröttum brekkum, á hlykkjóttum vegum, og svo framvegis. Tilgangurinn var annars vegar að prófa bílinn í lengri akstri og hins vegar að að finna hugsanlega vankanta á innréttingunni.

Ég hlóð bílinn eins og ég ætlaði í nokkurra daga ferðalag, raðaði t.d. öllum eldunar- og matarílátum ofan í skúffur, fyllti á vatnsbrúsann og ferðaklósettið, og setti stóra vatnsflösku og gosdósir í kælinn til að prófa kæligetuna. Ég setti líka púða og teppi á dýnuna til að sjá hvort það mundi skríða til, og setti sitt lítið af hverju ofan í rúmið. Tilgangurinn var að prófa hvort hlutirnir mundu skríða mikið til, hvað mundi skrölta og hvar, hvernig væri að ganga um þetta og svo framvegis.

Fyrri daginn, þann 2. maí, fór ég upp í Þjórsárdal.

Skúffan.Fyrsta vandamálið kom í ljós þegar ég fór yfir fyrstu hraðahindrunina á leiðinni út úr hverfinu mínu: ein skúffan vildi ekki tolla lokuð þegar komin var hleðsla í hana. Skúffurnar eru, allar nema ein, sem er með öryggisloku, þannig hannaðar að það þarf að beita kröftum og lagni til að opna þær og þær eiga að tolla lokaðar á því, en til vara eru þær með öryggisbúnaði þannig að þær geta ekki runnið alla leið út. Af því þær eru djúpar er heldur engin hætta á að það detti eitthvað upp úr þeim þó þær opnist (nema hristingurinn sé því mun meiri eða bíllinn hreinlega velti).

Þessi eina skúffa opnaðist sem sagt á leið yfir hraðahindrun á ca. 20 km. hraða, og síðan opnaðist hún og lokaðist til skiptis í nokkrum beygjum. Á endanum stoppaði ég á bensínstöð og tók dótið úr henni og setti léttara dót í hana. Hún var að mestu til friðs eftir það, en vildi þó opnast í vinstri beygjum, sérstaklega ef í þeim var einhver hliðarhalli. Þetta var eina vandamálið sem opinberaðist í þeirri ferð.

Meira, um ferðina sjálfa, á morgun.


Í framhaldi af síðasta pistli

Við ÞyrilÍ síðustu færslu minntist ég á að aðalatriðið við húsbílinn væri að geta pissað á nóttunni án þess að þurfa að klæða sig og fara út til þess. En auðvitað er það ekki í alvöru mikilvægasta atriðið, heldur bara hugmyndin sem mætti fá af lestri á fyrstu færslunum um húsbílaævintýrið á þessu bloggi.

Það sem mestu máli skiptir í sambandi við þennan húsbíl er auðvitað frelsið sem hann veitir mér. Ég fer í bíltúra flestar helgar á sumrin (og nokkrum sinnum á hverjum vetri) og nýt þess að snuðra uppi áhugaverða staði og skoða bæði menningu og landslag.

Ég hef ferðast talsvert um suður- og suðvesturland á undanförnum árum (og norðvesturland og Eyjafjarðarsvæðið áður en ég flutti til Reykjavíkur). Þetta hafa nánast allt saman verið dagsferðir, sem takmarkaði óneitanlega hversu langt ég komst. Ég held að það lengsta sem ég hef farið út frá Reykjavík í einni dagsferð hafi verið að Skógum. Ég ætlaði reyndar að fara alla leið að Jókulsárlóni á Breiðamerkursandi í þeim leiðangri, en þá hefði ég þurft að geta stoppað einhvers staðar á leiðinni til að leggja mig, því það er þreytandi að sitja undir stýri þegar veðrið er eins og það var þennan dag: glampandi sól og steikjandi hiti sem gerðu það að verkum að í hvert skipti sem ég stoppaði lengur en korter varð bíllinn eins og bakarofn að innan og það tók talsverðan tíma að kæla hann niður aftur. Á meðan sat ég sveitt og sólbrennd í bílstjórasætinu og leið eins og ég væri um það bil að fá hitaslag. Það er nefnilega þreytandi að keyra í góðu veðri, sérstaklega þegar maður hefur sólina í andlitið megnið af ferðinni.

Kosturinn við bílinn er að ég þarf ekki lengur að vera á harðaspani milli áhugaverðra staða í dagsferðum (dæmi: Snæfellsnesið á 10 tímum með 10 stoppum - var illa þreytt þegar ég kom heim), heldur get ég tekið mér góðan tíma til að skoða mig um, taka myndir og fara í gönguferðir, vitandi að mín bíður möguleiki á að fá mér þægilegan síðdegislúr - ekki ónotalega kríu í framsætinu - og eitthvað kalt að drekka, ekki í næstu sjoppu heldur strax og ég kem í bílinn.

Nú mundi einhver eflaust spyrja hvort ég hefði ekki bara getað keypt mér gistingu í þessum ferðum mínum, en svarið við því er að það er engan veginn öruggt að maður geti fengið gistingu á sumrin með litlum fyrirvara og svo veit ég oft ekki hvar ég enda uppi. Ég hef t.d. lagt af stað upp á Þingvelli með það fyrir augum að aka hringinn umhverfis vatnið, en endað með því að keyra Kaldadalinn í staðinn.

Nú get ég bara tekið því með rónni, hvílt mig þegar ég er hvíldar þurfi og tekið alla helgina frá föstudagseftirmiðdegi fram á sunnudagskvöld til að ferðast, í stað þess að þeytast af stað snemma á laugardagsmorgni og koma þreytt heim um kvöldið.

En nú er bíllinn orðinn ferðafær, og ég er reyndar búin að prufukeyra hann og vígja. Meira um það síðar.

Þetta er búinn að vera skemmtilegur tími og bloggið hefur hjálpað mér að halda utan um framkvæmdirnar. Ég hef hugsað mér að halda áfram að blogga um bílinn hérna og ætla að reyna að blanda saman því sem er skemmtilegt, s.s. frásögnum af atvikum sem koma fyrir á ferðalögum og stöðum sem ég heimsæki, og því sem er hagnýtt, þ.e. það sem ég læri um húsbílalífið á ferðum mínum og upplýsingar um húsbíla- og tjaldstæði, sundlaugar og fleira sem getur hjálpað húsbílafólki og öðrum ferðalöngum að skipuleggja ferðir. Það gætu jafnvel slæðst með stöku uppskriftir, og auðvitað verða líka myndir.

Ferðalagið er bara rétt að byrja.

 


Vangaveltur um húsbílinn

VindtjaldÞað er eitt sem ég held að ég hafi ekki minnst á áður í sambandi við þennan húsbíl, en það er að þó að ég vilji hafa hann eins vel búinn og frágenginn og hægt er þegar ég get farið að ferðast á honum, þá þarf ekki allt að vera fullkomið og ég þarf ekki heldur að vera búin að sanka að mér öllu sem mér finnst þurfa að vera í bílnum. Það er nefnilega hluti af skemmtuninni við að eiga svona grip að læra af reynslunni, finna lausnir á vandamálum eða bæta fyrirkomulagið, og eignast smám saman meira af því sem mann langar í.

Fortjald.Þó ég vilji ekki lengur sofa í tjaldi er ekki þar með sagt að ég geri kröfu um 5 stjörnu gistiaðstöðu í bílnum. Ég hef sagt það áður: aðalatriðið er að komast á klósett án þess að þurfa að klæða sig og fara út í hressandi nætursvalann til þess. Hitt er bara bónus: ódýr gisting undir þaki, eldunaraðstaða, aukið pláss fyrir farangur og aðstaða til að leggja sig ef það rennur á mann svefnhöfgi undir stýri.

Það er nú samt á óskalistanum hjá mér að kaupa vindtjald, og seinna meir fortjald, ef vera skyldi að ég legði í leiðangur um meginlandið á næstu árum. Svo væri gott að eiga lítið felliborð og fellistól sem ég kem fyrir undir bekknum, en ég get alveg látið mér nægja til að byrja með að nota það sem ég á.

Á svona stólÁ svona borðÉg á t.d. útilegustól - hann kemst bara ekki með góðu móti niður í neina hirslu í bílnum af því að hann leggst saman flatur og er þar af leiðandi tiltölulega fyrirferðarmikill (sjá myndina af bláa stólnum). Sama með útileguborðið mitt - sem er nógu stórt til þess að fjórir samheldnir einstaklingar geta borðað við það - en platan á því er heil og það eru bara fæturnir sem er hægt að fella niður (sjá mynd). Eðlilega gerir þetta borðið frekar fyrirferðarmikið.

Langar í svona borð og stólÞað sem mig langar í er borð og stóll eins og sést á myndinni til hægri. Þetta er mun nettara og leggst saman í vöndul sem er hægt að stinga undir rúm.

Þangað til ég eignast svona mætti festa stóra borðið og stólinn aftan við bílstjórasætið með krókateygjum (ég held reyndar að ég komist alveg af án borðsins). Síðan er hægt, þangað til vindtjaldið er komið, að sitja hlémeginn við bílinn þegar maður ætlar að setjast út.

FellitoppurAnnar draumur er að fá sér fellitopp á bílinn, þannig að maður geti staðið uppréttur inni í honum, en samkvæmt mínum rannsóknum kostar á bilinu fjögur hundrað þúsund til hálfa milljón að kaupa svoleiðis tilbúið (sérhannað fyrir Caddy Maxi), og það er án uppsetningarkostnaðar (mig grunar reyndar að pabbi gæti sett þetta upp...) og sendingarkostnaðar frá Bretlandi.

Mér þætti gaman að fá að vita hvað svona kostar hérna heima.

 


Tíðindi af húsbílnum

Jæja, þá má segja að bíllinn sé orðinn ferðafær. Þó að það sé sitthvað lítillegt sem er eftir, t.d. að olíubera innréttinguna, þá eru það mest útlitsleg atriði.

Ég tók mig sem sagt til nú um helgina og saumaði áklæðið utan um dýnuna. Ferðirnar upp á loft til að nota saumavélina og niður aftur til að máta saumaskapinn við dýnuna urðu margar, en loksins var áklæðið tilbúið:

dsc01474.jpg

Ég sneið efnið ekki nákvæmlega utan um dýnuna - eins og sést er þarna eitt horn sem var tekið úr dýnunni, og einnig er úrtaka í hliðinni á henni, en áklæðið er beint og því eru krumpur á þeim stöðum. Ég ákvað að hafa þetta svona af því að það hefði hreinlega verið of mikil fyrirhöfn að móta áklæðið algerlega utan um dýnuna. Ef þetta verður til vandræða, þá tek ég sennilega bara saumspor í áklæðið þar sem þarf, sem er hægt að spretta úr seinna meir ef áklæðið verður notað á aðra dýnu.

Það virðist passa ágætlega, en auðvitað á eftir að koma í ljós hvort það krumpast og fær í sig fellingar þegar maður fer að sitja á því.

Dýnan fer ekki út í bíl fyrr en ég fer af stað í fyrsta ferðalagið, og þá kemur mynd af henni á bekknum. Þangað til verður að nægja mynd af henni inni á stofugólfi hjá foreldrum mínum:

dsc01475.jpg


Hirslur aftan á bílsæti

Þeir sem þekkja mig vita að það fylgir mér yfirleitt talsvert af farangri. Ég hef óstjórnlega þörf fyrir að hafa alltaf við höndina allt það helsta sem mig gæti vantað. Veskið mitt er t.d. þannig að ef ég ætlaði til útlanda með mjög stuttum fyrirvara, þá er vegabréfið það eina sem ég þyrfti nauðsynlega að sækja heim til mín til að vera tilbúin til brottfarar. (Reyndar eru vegabréf og kreditkort það eina sem maður raunverulega þarf til slíks, en innihaldið í stóra, stóra veskinu mínu mundi tryggja mér ánægjulegra ferðalag).

Þessi er tekin á National Railway Museum í York á Englandi. Fólk kunni að ferðast með stæl í gamla daga.

Ég hef áður minnst á að húsbíllinn verður í rauninni ferðataska á hjólum. Í honum eru alls konar hólf og skúffur og hillur sem eiga að duga undir flest það sem manni er nauðsynlegt á ferðalögum, þó reyndar vanti sturtu - henni varð ekki komið fyrir, og ég sé mig ekki fara að kaupa mér ferðasturtu þegar það er hægt að komast í sund á flestum þéttbýlisstöðum á landinu (svo ekki sé minnst á sveitasundlaugar og villiböð). Svo er yfirleitt helst til of hvasst á Íslandi til að hægt sé að nota ferðasturtur. Að minnsta kosti held ég að maður mundi fljótlega gefast upp á þessari:

campshower.jpg

 

Reyndar var þó eitt sem vantaði: hirsla undir ýmislegt smálegt sem maður vill geta gripið til en vill ekki hafa skröltandi laust inni í bílstjórarýminu. Maður vill geta teygt sig í ýmislegt smálegt úr bílstjórasætinu, s.s. eitthvað létt til að narta í, landakort, kíki, myndavél, poka undir rusl, vasaljós og annað sem vanalega fer í hanskahólfið. Af því að engin af hólfunum fram í eru lokanleg, þá yrði frekar ósnyrtilegt að vera með þetta liggjandi eins og hráviði út um allt, og því vildi ég fá mér aftansætishirslu til að fela þetta dót allt saman, en samt þannig að ég næði í það úr bílstjórasætinu.

Þá kom til sögunnar þessi vasahirsla sem ég keypti í Rúmfó í vetur:

Vasahengið uppsett í bílnum.

Hún er hönnuð til að hengja á hurð, en ég hafði annað í huga fyrir hana: Ég gróf upp hjá mér bómullarborða í nánast sama lit, fann smellu sem passaði, mátaði og mældi og settist síðan við saumavélina.

Festingarnar.

Eins og sjá má passar útkoman nokkuð vel aftan á farþegasætið í bílnum. Þarna er hægt að pota hinu og þessu, og að minnsta kosti þeir vasarnir sem eru næstir bílstjórasætinu eru aðgengilegir þaðan. Ég hafði verið að hugsa um að sauma mér svona, en þetta var það ódýrt að það var ekki fyrirhafnarinnar virði að leggjast í að sauma vasana frá grunni, jafnvel þó ég hefði þá getað valið mér fallegra efni. En þetta er alls ekki slæmt og hefur þann kost að ef mér dettur einhvern tímann í hug að skipta um litaskema aftur í, þá passar grátt við svo til alla liti, ekki síst inni í þessum bíl þar sem allt innan í honum sem kom frá verksmiðjunni er annað hvort hvítt, svart eða grátt.

Smellan.

Auðvitað er hægt að fá svona vasahengi sem eru sérhönnuð í bíla - þau fást meira að segja af og til í Rúmfó, samanber þetta:

Tilbúin bílsætisvasahirsla.

...en það er ekki nærri því eins mikið af vösum á þeim.

Ég held ég betrumbæti svo gripinn með því að gera eitthvað af vösunum lokanlega, annað hvort með hinum ómissandi franska rennilási, eða þá með smellunum sem ég fann þegar ég var að taka til í saumadótinu mínu um daginn.

Næst á dagskrá er síðan að sauma áklæðið utan um dýnuna, og þá er bíllinn í raun tilbúinn til að fara að ferðast á honum, þó það sé reyndar alls konar smotterí eftir, s.s. að setja upp hliðarfestingar fyrir fremri gluggatjöldin og bera olíu á innréttinguna.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 32500

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband