Þriðjudagur, 7. apríl 2015
Meira um gluggatjöldin
Ég fann þetta snúru-gluggatjaldaupphengi hjá mér þegar ég var að gramsa í saumadóti um daginn, og fannst tilvalið að nota það til að halda utan um gluggatjöldin í bílnum:
Ég er virkilega ánægð með útlitið á þessu:
Aftur á móti held ég að festingin fyrir bílbeltið sé ekki besta veggfestingin fyrir snúruna:
Ég hugsa að ég setji upp sérstaka festingu fyrir þetta (eða fái pabba til þess). Kannski er hægt að ganga þannig frá skrúfunni sem á að halda gluggatjöldunum að veggnum að hún geti þess á milli haldið snúrunni?
húsbílar | Breytt 8.4.2015 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. apríl 2015
...og svo eru það gluggatjöldin: 2. hluti
Það þarf ekki bara gluggatjöld að framan, heldur líka fyrir afturgluggana, en uppsetningin á þeim er annars eðlis en á fremri tjöldunum.
Það þarf að vera auðvelt að taka afturtjöldin alveg frá gluggunum og þau mega ekki vera síð og flaksandi, því gluggarnir eru auðvitað í opnanlegum hurðum og maður vill ekki að tjöldin lendi í falsinu þegar maður lokar. Svo þarf líka að vera hægt að festa þau að neðan, því ég kem til með að sofa með hausinn upp við aðra hurðina og vil ekki lenda í glímu við gluggatjaldið í svefni.
Við vorum fyrst að hugsa um að setja upp gardínugorma að ofan og neðan, sem væri hægt að losa með einu handtaki þegar á að keyra af stað og opna þannig útsýnið aftur úr. Síðan rakst ég á lausn (á netinu auðvitað) sem gerir það að verkum að það þarf ekkert að bora fyrir neinu: sterkir neódým seglar saumaðir inn í faldana á tjöldunum. Af því að bíllinn er úr málmi, þá mundu lítil og létt gluggatjöld haldast uppi með góðum seglum, sérstaklega af því að þau yrðu aldrei uppi á ferð.
Hins vegar, þegar ég fór að hugsa málið betur, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að besta lausnin væri kannski bara að líma upp franska rennilása til að halda tjöldunum. Ókosturinn við segla er nefnilega sá að af því ég sef með hausinn upp að öðrum glugganum, þá ætti ég allt of auðvelt með að rífa niður gluggatjaldið þeim megin ef það væri fest með segli.
Gallinn við að líma upp franska rennilása er auðvitað að það er hætta á að rífa þá niður ef "rennnt" er frá með sviptingum. Ég ætla nú samt að prófa þá fyrst. Ef hvorki franskir rennilásar né seglar duga er alltaf hægt að setja upp gorma seinna.
Ég fann bút af frönskum rennilás og skellti upp prufu með gólfteppalímbandi til að sjá hvort sú lausnin gæti gengið. Ég gaf þessu sólarhring til að jafna sig (límingin virðist styrkjast með tímanum) og prófaði síðan að losa helmingana af þeim franska frá hvorum öðrum. Límingin hélst fullkomnlega, og reyndar átti ég erfitt með að ná límbandsbútnum af.
Svo var bara að velja sér efni.Til greina koma að nota sama efnið og í fremri tjöldin, en það hafði þá vankanta að þá þurftu að vera miðjusaumar á tjöldunum, því það sem eftir varð af gluggatjöldunum sem ég saumaði þau úr var ekki nógu breitt. Hinir kostirnir voru að nota afganginn af efninu sem for á panelinn yfir rúmbekknum, eða efnið sem ég ætla að nota í áklæðið á bekkinn. Endanleg lausn var að nota sama efnið og fór á rúmpanelinn, ásamt dökkrauðu efni sem ég átti á lager:
Ég tók snið af gluggunum og saumaði tvöföld gluggatjöld sem smellpassa yfir gluggana. Svo fann ég fallega blúndu sem passaði við bæði efnin og lokar að mestu fyrir smávægilegan ljósleka meðfram gluggatjöldunum.
Það þurfti að vanda til verks við þetta allt, og ég held að það hafi bara tekist nokkuð vel til.
húsbílar | Breytt 7.4.2015 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 1. apríl 2015
...og svo eru það gluggatjöldin, 1. hluti
Það er bráðnauðsynlegt að setja upp tjöld í húsbílnum, annars vegar til að hafa fyrir afturgluggunum og hins vegar fyrir aftan framsætin. Maður vill jú ekki flassa nágrannana þegar maður er að hátta, svo ég tali ekki um þegar maður þarf að nota ferðaklósettið. Svo er alltaf til fólk sem finnur hjá sér þörf fyrir að gægjast á glugga og það finnst mér óþægileg tilhugsun.
Besta lausnin fyrir þennan bíl var að setja upp gardínubraut fyrir aftan sætin. Uppsetningin á henni var ekkert mál, enda er sveigjan á loftinu ekki meiri en svo að það þurfti ekki einu sinni að hafa fyrir því að beygja brautina fyrirfram, heldur sjá skrúfurnar alveg um að halda henni eins og hún á að vera.
Það var vitað að gluggatjöldin þyrftu helst að vera úr myrkvunardúk eða þykku, dökku efni. Helst vildi ég einhvern annan lit en svartan eða dökkbrúnan, og lausnin, a.m.k. til að byrja með, var að endurnýta þykk, rauð damask-gluggatjöld sem ég átti inni í skáp en var hætt að nota. Þau tóna líka vel við rauðu panelplötuna. Ég saumaði mér þessi líka fínu tjöld úr þeim:
Það þarf að vera hægt að festa tjöldin út í hliðarnar á bílnum, framan við rennihurðirnar, þegar það er dregið fyrir, bæði til að komast hjá ljósleka og eins til að það sjáist ekki inn. Bíllinn er nefnilega um 30 cm breiðari niðri við gólf en hann er upp við þakið þar sem tjöldin eru fest, og því þarf að halda þeim út í hliðarnar með einhverju móti.
Lausnin á því er einföld: það eru skrúfugöt á réttum stöðum (eftir þilið sem var á milli flutningsrýmisins og bílstjórarýmisins). Þar er ætlunin að koma fyrir skrúfum eða róm með breiðum haus og sauma annað hvort hnappagöt í gluggatjöldin eða setja á þau litlar lykkjur sem er hægt að nota til að hneppa tjöldunum upp á skrúfuhausana. Svo á ég þetta líka fína gluggatjaldahengi með dúsk, sem ég get notað til að halda tjaldinu frá þegar ég er á ferðinni.
Fyrir afturgluggana þurfa líka að koma tjöld, en ég er ekki byrjuð á þeim. Ég hugsa að ég geri átak í að klára allan nauðsynlegan saumaskap yfir páskana.
Ferðalög | Breytt 3.4.2015 kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 24. mars 2015
Meira tilbúið í húsbílnum
Auk þess sem ég minntist á í síðustu færslu, þá erum við búin að gera ýmislegt annað smálegt.
T.d. er komin hurð fyrir klósetthólfið og klinka fyrir. Litamunurinn á viðnum er vegna þess að viðarolían kláraðist áður en kom að skáphurðinni - hún er á dagskrá fljótlega:
Svo erum við búin að setja upp síðustu panelplötuna og lampann góða:
Ég bólstraði plötuna með gömlu millilaki sem ég sneið niður og fóðraði yfir með þessu bláa efni.
Svo er eftir eitt mjög mikilvægt - getiði nú hvað það er:
Jú, gardína fyrir svenfnrýmið. Eins og sjá má er gardínubrautin komin upp:
húsbílar | Breytt 7.4.2015 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 23. mars 2015
Þetta er allt að koma til...
... eða þannig. Nú er pabbi búinn að ganga frá vaskinum og því kerfi öllu saman: setja upp kranann og tengja báða vatnsbrúsana.
Kraninn:
Neysluvatnsbrúsinn (það er dæla ofan í honum):
Grávatnsbrúsinn (undir vaskinum):
húsbílar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. mars 2015
DR1 bjargar málunum
Ég veit ekki hvað það er með mig og sjónvarpið, en ég finn mjög sjaldan eitthvað sem mig langar að horfa á á RÚV. Það er helst stöku náttúrulífsþáttur og ein og ein bíómynd sem ég nenni að horfa á, en þar fyrir utan er ekki margt sem freistar mín, nema þá etv. Landinn, þegar ég þá man eftir þeim þáttum. Ég nenni yfirleitt ekki að vera að binda mig við framhaldsþætti sem segja eina samfellda sögu, s.s. eins og Brúin og Glæpurinn og svoleiðis, af því ég get orðið verulega pirruð ef ég missi af þætti. Mér finnst best að horfa á þannig þætti á DVD þegar öll syrpan er búin og tilbúin til áhorfunar. Ég var spennt fyrir Downton Abbey þegar þeir byrjuðu, en hætti að fylgjast með þeim þegar froðan var orðin einum of mikil fyrir minn smekk.
Gallinn við þennan skort á sjónvarpsefni sem ég hef áhuga á er að mér finnst gaman að sitja með handavinnu, en bara ef ég get hlustað og helst horft á eitthvað á meðan. Klukkutími, til einn og hálfur, á dag hentar ágætlega - sem sagt ca. 1 eða tveir sjónvarpsþættir - en það hefur verið erfitt að finna eitthvað á hverjum degi á RÚV, sama þó ég fari á Vódið eða tímaflakkarann. En þá koma aukarásirnar að góðum notum.
Danska ríkissjónvarpið er duglegt að endursýna gamla og góða sjónvarpsþætti, t.d. Columbo, Murder, She Wrote og Miss Marple, allt efni sem ég hafði gaman af í denn þegar það var sýnt á RÚV og Stöð 2. Nú eru þeir t.d. nýbyrjaðir að sýna The Darling Buds of May, breska þætti sem mig hefur langað að sjá síðan ég las fyrstu bókina í bókaflokknum fyrir nokkrum árum. Þetta eru 20 þættir, þannig að nú hef ég eitthvað að horfa á á meðan ég er að gera handavinnuna mína, og þó að þeir byggist á röð skáldsagna, þá eru þeir þannig upp byggðir að það er ekki hundrað í hættunni þó maður missi af einum og einum þætti. Svo eru þeir fyndnir: þessi klassíski, góðlátlega kaldhæðni og svolítið tvíræði enski húmor sem maður ólst upp við að sjá á skjánum í þáttum eins og The Vicar of Dibley og To the Manor Born. Ég held ég þori alveg að mæla með þessum þáttum eftir að hafa horft á þann fyrsta. (Svo ef einhvern langar til að sjá hvernig Catherine Zeta-Jones leit út áður en hún flutti til Hollywood, þá eru þessi þættir gott tækifæri til þess).
Aðrir þættir sem ég hef verið að fylgjast með á DR1 eru Ud i Naturen, norskir þættir um náttúru, dýralíf og útivist sem eru skemmtilegir og fræðandi. Svo er ég búin að rifja upp talsverða dönsku af því að lesa textana og líka læra svolítið í norsku af því að hlusta. Ég er, á undanförnum vikum, búin að fræðast um norskar uglur og erni, refi, læmingja og bjóra, marglyttur, urriða og stórlúður, og svo eru skemmtileg innslög um hellaköfun og stangveiðar í þáttunum þessa dagana, auk þess að í þeim eru sýnd skemmtileg dýralífsmyndbönd sem áhorfendur hafa sent inn. Stórskemmtilegir þættir sem RÚV mætti vel athuga með að taka til sýningar.
Með þessar tvær syrpur til að horfa á held ég svei mér þá að ég verði búin með dúllurnar sem ég er að hekla í rúmteppi handa mömmu áður en ég veit af.
Af húsbílamálum er helst það að frétta að pabbi er búinn að ganga frá rafmagninu og segist vera að verða atvinnulaus.
sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. mars 2015
Rafmagn og panelplötur
Pabbi er búinn að dunda sér við að draga rafmagnsvíra í bílinn og er búinn að kaupa rafgeymi og setja upp öryggjabox og rafmagnsinnstungur. Þær efri eru fyrir 12v bílarafmagn (um kveikjaraklær) og þær neðri fyrir 220v húsarafmagn, sem mun koma sér vel þegar ég kem í næturstað þar sem er hægt að tengjast húsarafmagni. Þær eru í hólfinu þar sem kæliboxið verður staðsett, enda er kæliboxið eina raftækið sem verður stöðugt í sambandi við rafmagn á meðan ég er á ferðalagi.
Nú vantar mig bara langa, vatnsþétta framlengingarsnúru.
Svo er ég búin að klára tvær panelplötur til viðbótar við þá rauðu. Hér er krítartaflan, nýmáluð og fín. Krítartöflumálning fæst í sumum föndurbúðum og flestum málningarvöruverslunum. Þessa fékk ég í Litir og Föndur:
Hér er hún uppsett:
Sú með beykiáferðinni og blúndunum (sjá næstu mynd) er myndaborð. Myndirnar er festar við blúndurnar með litlum klemmum:
Svo skilaði sér leslampinn góði sem við pöntuðum hjá vini okkar Ali í Kína:
Mér líst svei mér bara enn betur á gripinn núna þegar ég hef getað handleikið hann:
Hann fer upp fyrir ofan höfðalagið á rúminu.
húsbílar | Breytt 7.4.2015 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 13. mars 2015
Þessu tannveseni ætlar ekki að linna
Ég fékk að vita hjá tannlækninum um daginn að á meðan ígerðin og bólgan meðfram fj.... tönninni versnaði ekki, þá væri í lagi að draga upphaf þessara dýru tannviðgerða sem ég minntist á í síðasta tannlæknapósti. Ég leyfi mér því að vona að ég geti frestað þessu fram á haustið og fengið það gert að mestu eða öllu leyti hjá tannlæknadeild HÍ.
En þetta er ekki búið, ónei. Nú er ég búin að brjóta út úr tönn. Það er svona þegar manni þykja góðar Bingókúlur.
atvik úr daglega lífinu | Breytt 17.3.2015 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. mars 2015
Bekkurinn er tilbúinn
Jæja, loksins hef ég fréttir að færa af húsbílaframkvæmdum. Það miðar nú allt í áttina að verklokum og það eina stóra sem nú er eftir er að ganga frá rafmagninu.
Pabbi er búinn að vera að dunda sér við framkvæmdir og kláraði bekkinn, þ.e. setti upp skilrúm inni í kassanum, sem styrkja hann og gera auðveldara að skipuleggja geymslu á hlutunum, og svo festi hann hurð fyrir klósetthólfið.
Síðan framkvæmdum við skurðaðgerð á dýnunni góðu:
Það þurfti að mjókka hana aðeins og taka úr henni á tveimur stöðum til að hún félli alveg upp að veggnum í bílnum:
Svona lítur Tempur-dýna út þegar búið er að taka hana úr nærfötunum:
Efra lagið er þessi frægi geimfarasvampur sem gerir dýnurnar dýrar, og neðra lagið er venjulegur dýnusvampur, sem gefur dýnunni aukna þykkt.
Nú er bara eftir að þvo ytri klæðninguna sem fylgdi dýnunni og sauma áklæði á hana. Það verður nokkurs konar teygjulak úr þykku og slitsterku áklæðisefni sem hylur efra byrðið og hliðarnar á dýnunni og ver hana fyrir skít og skemmtum. Svo kemur venjulegt lak þar ofan á þegar bekkurinn skiptir um hlutverk úr setbekk í svefnbekk.
Dýnan (á nærfötunum) áður en við byrjuðum að skera:
húsbílar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 25. febrúar 2015
Tannraunir
Ég minntist um daginn í framhjáhlaupi á að ég væri með tannsýkingu. Ég fór til tannlæknis, sem setti mig á fúkkalyf og sendi mig til sérfræðings. Sá úrskurðaði að ég væri með sprungu í tönn þar sem gróssa bakteríur sem valda sýkingunni, og að tönnin væri mér í rauninni ónýt, því það væri næsta ómögulegt að komast alveg fyrir sýkinguna. Þetta er tönnin á milli vinstri framtannarinnar og augntannarinnar, sem báðar eru heilar og því ekki ráðlegt að setja upp brú. Sem betur fer er sársaukinn minniháttar, sennilega af því að tönnin er rótfyllt og því er engin sýking í rótinni sjálfri, heldur "bara" í holdinu umhverfis hana.
Mér er sagt að það eina sem dugi sé að draga tannskrattann úr og setja upp gervitönn. Sú yrði skrúfuð upp í góminn með títaníumskrúfu. Til þess þarf að taka beinbút (sennilega úr neðri kjálkanum á mér) og græða hann upp í efri góminn og láta hann gróa fastan til að hægt sé að koma skrúfunni fyrir. (Þarna hefði komið sér vel að geta notað stofnfrumur).
Sérfræðingurinn sagði mér að þetta þyrfti af því að ég væri með "ídeal" góm, þ.e. beinið væri þunnt og nett. Það er lítil huggun að vera með "ídeal" góm þegar það gerir það að verkum að ég gæti þurft að ganga um annað hvort með áberandi skarð í brosinu eða bráðabirgðatönn á meðan ígrædda beinið er að gróa fast, og svo þarf að gera skurðaðgerð á mér til að ná í umrætt bein.
Gaman gaman (ekki).
Þetta verður
a) dýrt
b) tímafrekt
c) dýrt
d) sársaukafullt
e) dýrt.
Einn vinnufélagi minn er að fá svona og er búinn að borga um hálfa milljón fyrir. Þetta er sko ekki fyrir blanka. Hvar er Tryggingastofnun þegar maður þarf á henni að halda?
Sem betur fer er hægt að fá einhverja styrki frá stéttarfélögunum. Þarf að athuga hverju mikið áður en ég fer út í þetta.
Ég hringdi vongóð upp á tannlæknadeild HÍ (þar sem tönnin var rótfyllt á sínum tíma) til að athuga hvort ég kæmist í svona aðgerð þar, því þar er nefnilega bara rukkað fyrir efniskostnað, ekki vinnu. Mér var sagt að hringja aftur í ágúst. Það væri nefnilega allt fullt út önnina, enda er þetta vinsæl þjónusta.
Ég á tíma hjá tannlækninum á morgun. Vona bara að hann geti drepið sýkinguna niður nógu lengi til að kaupa bévítans tönninni aðeins lengri líftíma þannig að ég komist kannski inn hjá tannlæknadeildinni í haust.
atvik úr daglega lífinu | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar