Prófunarreisa nr. 2: Kleifarvatn og Seltún

dsc01541.jpgSunnudaginn 3. maí tók ég stuttan rúnt upp að Seltúni (háhitasvæðið við Kleifarvatn). Þó það væri freistandi að halda áfram og keyra Krísuvíkurhringinn og veðrið væri fallegt, ákvað ég að snúa frekar við og fara sömu leið til baka.  Þarna prófaði ég bílinn á tiltölulega vondu þvottabretti (bylgjóttum malarvegi), í beygjum og í hæðum. Þar er líka lítil umferð og langir beinir kaflar með malbiki og því gat ég prófað svolítið annað sem ekki hafði hvarflað að mér á laugardeginum, nefnilega skriðstillinn.

Í þessum tveimur leiðöngrum kom eftirfarandi í ljós:

  • Ég get sko vel vanist því að hafa skriðstilli (cruise control). (Annars er skriðstillir ekki beinlínis „opið“ orð og því ekki að furða þó menn tali bara um krúskontról. Kannski væri betra að tala um hraðastilli?).
  • Það er frábært að sitja hærra en í venjulegum fólksbíl. Maður sér svo mikið betur yfir.
  • Bíllinn er pínu latur upp brekkur, en réði samt ágætlega við Kambana – en sá vegur er líka ekkert afskaplega brattur eftir að nýji vegurinn kom til. Einnig líkar honum illa við mikla möl á vegum. (Sama gildir um mig. Þetta fer illa með rúður og lakk og svo er alltaf hætta á að bíllinn skríði til í lausamöl og maður missi stjórn á honum. Það þarf ekki mikinn hraða til þess að slíkt gerist.) Malarbrekkur eru því í litlu uppáhaldi hjá okkur. Stutta bratta brekkan á leiðinni upp að Kleifarvatni er reyndar alveg sérstaklega slæm. Núna er hún t.d. ekki bara eitt þvottabretti, heldur er líka mikil lausamöl á henni. Röfl: Ég hef aldrei skilið af hverju þessi stutti kafli á Kleifarvatnsveginum er hafður nakinn þegar búið er að slitleggja veginn næstum að brekkunni, og síðan aftur meðfram vatninu. Ætil það séu mismunandi sveitarfélög sem eiga þessa mismunandi kafla vegarins? (Sennilega – ég held að Hafnarfjörður og Vogar eigi þessa vegarkafla).
  • Dýnan skríður svolítið til, meira samt í titringi en í beygjum. Þetta er í sjálfu sér ekki vandamál því til að hún steypist niður á gólf mundi þurfa bæði mikinn hliðarhalla og mikinn hristing, sem er ólíklegt að eigi nokkurn tímann eftir að fara saman, því ég hef ekki hugsað mér að aka eftir veglausum fjallshlíðum. Það er bara ljótt að sjá hana liggja skakkt á rúmbotninum.
  • Klósettið er stöðugt á ferð inni í skápnum sínum, líka þegar tankurinn er fullur af vatni. Ég lagaði það tímabundið með því að troða púðum framan og aftan við það (það er skorðað til hliðanna), en hugsa að ég útbúi eitthvað varanlegra. Kannski ég setji lista, bönd eða net út við hliðarhurðina og hefti stólsessu innan á skáphurðina. Svo hugsa ég að ég fái mér mottu undir koppinn til að auðvelda að draga hann út og til að rispa hann ekki að neðan.
  • Skúffan umrædda tollir ekki lokuð í malarvegahristingi. Pabbi ætlar að setja öryggisloku á hana.
  • Kæliboxið kælir á við besta ísskáp. Ég setti volgar gosdósir í það í upphafi ferðar og þegar ég opnaði þá fyrstu eftir tveggja tíma kælingu voru veigarnar orðnar svalandi kaldar og fínar. Verst að maður þarf að skjóta á stillinguna, því skápurinn er þannig hannaður að hann kælir ekki í fyrirframákveðið hitastig, heldur visst mikið niður fyrir umhverfishita.
  • Ég hugsa að ég eldi ekki að staðaldri inni í bílnum, því það er svo stutt alls staðar í eitthvað sem getur kviknað í. Á þó eftir að gera vísindalegri úttekt á þeim möguleikum. Veit að minnsta kosti að ég fer ekki að elda sterklyktandi mat þar inni, því það mundi setjast í teppið, gardínurnar og dýnuna og þó mér þyki t.d. svínaflesk besti matur þá langar mig ekkert til að koma inn í bílinn angandi af vikugömlu eau de beikon.
  • Það er andsk. kalt að vera úti á vorin á Íslandi með beran skalla. Jebb, ég tók mig til, þennan sama sunnudagsmorgunn, og rakaði af mér allt hárið. Það hafði staðið til lengi og ég var loksins tilbúin til að gera það. Þegar þetta er skrifað eru komnir þessir fínu broddar og ég er það ánægð með þetta að ég ætla að halda þessari klippingu í ófyrirsjáanlega framtíð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband