Mánudagur, 15. september 2008
Dagar 7 og 8
7:45
Af sunnudeginum er svo sem lítið að segja annað en það að veðrið var skelfilegt en þið sem búið á Reykjavíkursvæðinu þurfið svo sem engar lýsingar á því. Það var ekki gaman að keyra austur í þessu.
Þó að ég hafi haft fyrirmæli um að hvíla mig í dag, þá fór ég nú samt á hlaupabrettið og gekk rösklega í 25 mínútur með tónlistina úr Mamma Mia! í eyrunum. Þetta er alveg verulega góð æfingatónlist sem veitir manni bæði örvun og aukinn styrk. Mæli með henni við alla.
Í gærkvöldi uppgötvaði ég síðan að það var komið nýtt púsluspil í almenninginn, en þar eru sett upp púsl sem allir geta tekið þátt í að raða saman. Þetta var eitt af þessum þar sem maður hefur ekki fyrirmyndina fyrir framan sig, heldu á maður að púsla saman myndinni af því sem fólkið í myndinni framan á kassanum sér. Á endanum vorum við sjö saman við að leysa púslið, og kláruðum það á einu kvöldi. Magni, sá sem var með spilabúðina og flutti þessi púsluspil inn á sínum tíma, er hérna og segir að gamla metið hafið verið fjórar manneskjur sem tóku jafn marga daga í að leysa púslið, en það hafa bara verið amatörar...
Í dag er svo fullt prógramm, fyrst leikfimi, síðan þolganga, svo fræðslufundur með sálfræðingi og loks sjúkranudd.
--
16:15
Er búin að vera hálf-þreklaus í allan dag, líklega vegna þess að ég átti erfitt með að sofna í gærkvöldi og fékk ekki fullan svefn. Tókst samt að komast í gegnum leikfimina og gönguna skammlaust, en geispaði svolítið mikið á fundinum með sála. Hann var að fjalla um árangursríkar leiðir til að talast á við ofát, og lagði m.a. annars fyrir okkur rúsínupróf. Það felst í því að skoða rúsínu eins og maður sé að sjá slíkt fyrirbæri í fyrsta skipti: snerta hana, virða hana fyrir sér, þefa af henni, smakka á henni og loks kyngja henni. Lét okkur síðan ræða hvaða lærdóm maður gæti dregið af þessari æfingu, sem er auðvitað sá að maður þurfi að hugsa meira um það sem maður lætur ofan í sig.
Er nú nýkomin úr sjúkranuddi. Fékk það hjá snaggaralegri konu sem heitir Beata og gæti verið þýsk eða pólsk, ég á ekki gott með að greina hreiminn hennar, en hún hefur verið hér í mörg ár og talar góða íslensku að öðru leiti. Fékk nudd út um allan skrokk á korteri, sem má teljast gott, en ekki mjög afslappandi. Er nú öllum lurkum lamin sem er auðvitað ekkert nýtt, því á undanförnum dögum er ég búin að uppgötva á mér vöðva sem ég vissi hreinlega ekki að væru til, og mig verkjar í þá alla.
--
Ég vil að lokum þakka öllum sem hafa skrifað í gestabókina fyrir góðar kveðjur og óskir um velgengni.
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 32977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ Jóhanna mín, þú stendur þig eins og hetja! Það er nú ekkert skrítið að þú finnir vel fyrir þessum ´"týndu vöðvum" en það á eftir að skána. Haltu bara áfram að vera dugleg og mundu að það eru fjölmargir að senda þér góða strauma. Þú getur gert smá test því til sönnunar (sbr. rúsínuprófið): lokaðu augunum, dragðu djúft andann og einbeittu þér að því að finna góðu straumana berast til þín - ef þú gerir þetta rétt á þér að hlýna vel um hjartarætur :)
Bestu kveðju vinkona,
Svava
Svava 16.9.2008 kl. 09:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.