Færsluflokkur: Ferðalög

Færslur á FindPenguins

Ef einhver hefur viljað gera athugasemdir við færslurnar mínar á nýja blogginu og ekki getað það, þá er búið að bæta úr því. Það er sjálfgefið að bara skráðir FindPenguins meðlimir geti gert athugasemdir, en ég breytti því þannig að hver sem er getur gert það núna.

Ég vil taka fram að ef einhver misnotar þennan möguleika, þá get ég eytt út athugasemdum sem mér mislíka eða eiga ekki heima þar. Það eru t.d. rusl, auglýsingar og dónaskapur.

Hins vegar finnst mér gaman að fá hvatningu, kveðjur, jákvæða gagnrýni, tillögur um nýjar færslur, spurningar út í efni færslunnar/bloggsins, og hlekki á áhugaverðar vefsíður sem tengjast efninu.

Slóðin.

Slóð á enska útgáfu af blogginu (með öðru efni - veit ekki hversu mikið ég mun koma til með að pósta þar, en það er aldrei að vita).


Flutt!

Kæri vinir, ættingjar og aðrir sem hafa heimsótt mig á undanförnum árum og fylgst með ævintýrum mínum hérna: Ég er flutt. Ekkert langt, bara yfir á nýja bloggsíðu.

Bloggumhverfið á blog.is er ágætt til síns brúks, en þó að ég hafi bloggað hérna frá útlöndum áður þá fannst mér mig vanta eitthvað sem ég gæti notið í gegnum snjallsíma eða spjaldtölvu á fljótlegan og auðveldan hátt. Það verður nefnilega að viðurkennast að blog.is  er ekki sérstaklega fljótlegt í notkun, þó ekki sé það flókið, og svo er ekki til blog.is app, eða ég hef að minnsta kosti ekki fundið neitt slíkt. Bara að setja inn myndir í bloggpóst kostar 7-10 smelli fyrir hverja mynd, og það eru mörg skref sem þarf að taka áður en bloggfærsla er komin út á vefinn.

Ég hef ekki hugsað mér að eyða meira en hálftíma á dag í netsamskipti og blogg og, eins og áður sagði, er blog.is seinlegt í notkun. Því ákvað því finna mér bloggþjónustu sem er hægt að nota í gegnum app á snjalltæki. Í fyrstu var ég að pæla í að nota Blogger, Tumblr eða Wordpress, en datt svo niður á sérhannaða ferðabloggþjónustu, FindPenguins.com. Hún er einfaldari í sniðum en framgreindar bloggþjónustur, er fljótleg í notkun og af því að formið er staðlað, þá þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af að vera að velja þema, liti, letur eða annað sem flækir málin.

Því bið ég ykkur hjartanlega velkomin í heimsókn á nýja ferðabloggið mitt.


Nú verður ekki aftur snúið

Ég er búin að borga fargjaldið með Norrænu að fullu og komin með farmiða í hendurnar. Jibbí!

Svo er ég búin að sækja um aðild að FÍB og á von á að fá rukkun um félagsgjaldið inn í einkabankann minn eftir helgi.

Þá er bara eftir að sækja um alþjóðlegt tjaldbúðakort (í gegnum FÍB), og ná sér í tryggingaskírteini, rauða kortið, græna kortið og staðfestingu á ferðatryggingu. Svo þarf ég að athuga hvort það sé ekki rétt munað að Evrópska sjúkratryggingaskírteinið mitt renni ekki örugglega út eftir að ég kem úr ferðinni.


Jóla, jóla, jóla!

Ég er búin að láta mig langa í jólaferð til útlanda síðan ég kom heim úr ráðstefnuferð til Danmerkur í september, en fannst það kannski í mesta lagi að fara í fjórðu utanlandsferðina á árinu (England, Bandaríkin, Danmörk) þegar ég er svo að fara í mjög dýra ferð á næsta ári og ætti að vera að spara.

Þá barst inn á bankareikninginn minn styrkur frá stéttafélaginu mínu vegna Danmerkurferðarinnar, sem á endanum kostaði mig því innan við 20 þúsund. Auðvitað lagðist ég strax á vefinn og fór að skoða ferðasíður. Útkoman úr því var sú að ég er að fara í fjögurra daga helgarferð til Þýskalands í desember og tek mömmu með mér.

Þetta var ódýrara en ég ímyndaði mér:

Þegar búið er að skipta kostnaðinum niður á tvo kostar flugið til og frá Frankfurt um 33 þúsund á manninn; gistingin verður ca. 18 þúsund; og bílaleigubíllinn um 6 þúsund. Svo má bæta við þetta ca. 15 þúsund í mat og tilfallandi kostnað, bensín á bílinn og svo framvegis. Samtals um 72 þúsund.

Þetta á ekki að verða verslunarferð, heldur afslöppunar- og jólaferð. Mamma er búin að kaupa flestar jólagjafirnar, og þó að ég eigi eftir að kaupa einhverjar gjafir, þá ætla ég ekki að eltast við þær, heldur kaupa bara ef ég rekst á eitthvað.

(Ég veit þó af Primark-verslun í Frankfurt, en veit ekki alveg hvort mér tekst að fá mömmu til að samþykkja að fara þangað. Það er bara svo gaman að versla í Primark... það er að segja alls staðar annars staðar en í verslunni við Oxford-stræti í London. Hún er svarthol sem virðist draga fram það versta í fólki).

Við ætlum að keyra til Heidelberg og gista þar. Það eru jólamarkaðir á hverju strái út um allt Þýskaland í desember, og Hessen og Baden-Württemberg eru engar undantekningar. Ef okkur fer að leiðast í Heidelberg er stutt til Ladenburg, Mannheim, Worms, Darmstadt, Speyer, Heilbronn og Karlsruhe, og þar eru jólamarkaðir líka, og svo er innan við tveggja tíma akstur til jólaborgarinnar Rothenburg ob der Tauber. Svo er einn af elstu jólamörkuðum landsins í Frankfurt sjálfri.

Ég vonast til að geta hent hér inn einhverju myndum þegar við komum til baka.


Er eitthvað að sjá í Saarbrücken?

233px-deutschland_lage_des_saarlandes_svg.pngMynd: litla dökka klessan hægra megin niðri er Saarland. Það er 2,570 km² að stærð og íbúafjöldinn er rúmlega ein milljón.

Ég spyr af því ég var nefnilega að uppgötva að fyrirhuguð leið mín liggur í gegnum öll ríki Þýskalands NEMA Saarland hið smáa. Þá fór mín auðvitað að pæla í því hvort það væri þess virði að sleppa því að heimsækja Baden-Baden og taka í staðinn á mig um 200 km lykkju í norð-vestur frá Strasbourg til að geta bætt Saarlandi á listann yfir ríki sem ég hef komið til.

En nei, ég held ekki. Ég skoðaði að gamni mínu upplýsingar um áhugaverða staði til að heimsækja í Saarland, og fann ekkert sem er ekki hægt að skoða sem er ekki stærra, betra, eða fallegra annar staðar á leið minni.

Ef þú telur þig vita betur, láttu þá vaða í svo sem eina athugasemd og láttu mig vita af hverju ég má alls ekki missa af Saarlandi.

Save

Save


Alltaf er maður að uppgötva eitthvað nýtt...

Nú blóðlangar mig að bæta Wolfsburg á listann þó hún sé talsvert utan við skipulagða leið.

Af hverju? Jú, þar er fæðingarstaður Volkswagensins, plús Volkswagen-safn, plús Volkswagen-skemmtigarðurinn Autostadt. Maður hefur heimsótt ýmsa staði fyrir minna.


Ferðaáætlunin eins og hún er núna, fyrri hluti

Mér datt í hug að sýna ykkur ferðaáætlunina eins og hún er í dag. Hún á samt örugglega eftir að breytast eitthvað. T.d. langar mig að reyna að finna leið til að sneiða framhjá Hamborg án þess að lengja leiðina um of. Kannski gegnum Celle og Lüneburg?

Ath. að þetta er gróf áætlun, og ég kem til með að aðlaga hana þegar á staðinn kemur, og etv. sleppi ég einhverju stöðum eða bæti öðrum við, allt eftir tíma og veðri, en svona er áætlunin í dag. Stoppin eru ekki öll staðir sem ég ætla að eyða einhverjum tíma á - sumt eru "kannski" staðir, annað eru bara viðmiðanir sem eru á leiðinni og gagnast til að sýna hvaða leið skal farin, á meðan annað er nánast því skyldustopp. Ef einhver er með ábendingu um áhugaverða staði í einhverjum þessara bæja eða borga, þá væri vel þegið að fá ábendingu smile

Eins og áður sagði er þema ferðarinnar staðir sem eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Ég hef hugsað mér að sneiða eftir bestu getu framhjá stærstu borgum í nágrenni við leiðina, s.s. München, Frankfürt og Hamborg, og inn í Berlín (þá stærstu) vil ég helst ekki fara á bílnum, a.m.k. ekki á háannatímanum og ætla því að skilja hann eftir í Potsdam og nota almenningssamgöngur. Það er ekki að ég treysti mér ekki í stórborgarakstur - mér leiðist hann bara og vil miklu frekar skoða mig um í gegnum rúðurnar á strætó, sporvagni eða innanbæjarlest. Svo er líka yfirleitt dýrt að leggja inni í miðborg (þegar maður á annað borð getur fundið stæði) og oft ekki nema skammtímastæði í boði. Svo man ég enn hvað við vorum lengi að silast í gegnum borgina í morgunösinni þegar ég var á ferð með foreldrum mínum á þessum slóðum 2003. Við vorum hátt í 2 klukkutíma að komast í gegnum borgina, en það var reyndar að hluta til af því að pabbi þarf alltaf að reyna að finna "betri" leið.

Við vorum reyndar ekki með GPS-tæki í þeirri ferð, en ég verð með svoleiðis núna. Þarf bara að læra að nota það á sem bestan hátt (svei mér ef þetta er ekki efni í færslu).

Eins og menn sjálfsagt vita, a.m.k. þeir sem á annað borð hafa áhuga á að lesa þetta, leggur Norræna að bryggju í Hirtshals í Danmörku. Þaðan er ætlunin að aka niður eftir austurströnd Jótlands, með viðkomu í Árósum til að heimsækja ættingja sem ég á þar. Ég geri ráð fyrir að eyða fyrstu nóttinni minni á meginlandinu þar. Heimsæki svo kannski Aros-safnið áður en ég held af stað til Þýskalands.

Mynd: Dómkirkjan í Berlín.

2012_10_14-3027.jpgFyrsta stopp í Þýskalandi er Flensborg. Þaðan til Lübeck, sennilega í gegnum Kiel og Plön. Þaðan áfram í austur til Wismar, Rostock og Stralsund og út á Rügen-eyju (ég er nýbúin að klára skemmtilega bók sem segir frá dvöl skáldkonunnar Elizabeth von Arnim á Rügen fyrir rúmum 100 árum síðan).

Þaðan í suður til Greifswald og til Berlínar í gegnum Neubrandenburg, annaðhvort eftir hraðbrautum 23 og 11, eða eftir þjóðveginum gegnum Neustrelitz og Oranienburg (og skoða kannski Sachsenhausen- eða Ravensbrück-útrýmingarbúaðirnar).

Á Berlínarsvæðinu var upphaflega ætlunin að gista í Potsdam í tvær til þrjár nætur og skoða þá borg, þá einkum Sanssouci-höll og garðana í kringum hana. Það er tjaldstæði nálægt Sanssouci, en ég er búin að sjá að það er fokdýrt að gista þar, svo kannski verð ég frekar á húsbílastæði í Berlín sem kostar ca. 1/3 af tjaldstæðinu í Potsdam. Svo hef ég hugsað mér að geyma bílinn á gististæðinu (hvar sem það verður) og nota almenningsfarartæki til að fara á milli Berlínar og Potsdam. Í Berlín hef ég hugsað mér að eyða degi í að heimsækja söfnin á Safnaeyjunni. Mér tókst nefnilega bara að skoða eitt þeirra síðast þegar ég kom til Berlínar, en ég elska söfn. Svo kannski fer ég í heimsókn í KaDeWe stórverslunina, en matardeildin þar mun jafnvel vera flottari en sú í Harrods, og þá er mikið sagt.

Frá Berlín liggur leiðin til Dessau, til að heimsækja Wörlitz-skrúðgarðinn, sem er einn af stöðunum á heimsminjaskrá UNESCO sem mig langar að skoða. Síðan til Leipzig, en þaðan eru tvær mögulegar leiðir: annað hvort beint til Weimar, eða fyrst til Meissen og Dresden og þaðan til Weimar. Tíminn verður að ráða því hvora leiðina ég vel.

Frá Meissen til Bamberg, enn eins UNESCO-staðar, þar sem ætlunin er að eyða að minnsta kosti einum degi, kannski tveimur. Þaðan til Nurnberg, Regensburg og Augsburg. Þaðan er möguleiki á að heimsækja Dachau-búðirnar, en ég hef ákveðið að heimsækja minnst einar af fyrrum útýmingarbúðum nasista. Það er ekki skemmtilegt að heimsækja þannig staði, en það er kannski nauðsynlegt til að minna mann á söguna.

Meira næst...

 

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save


Rakst á þessar leiðbeiningar um að innrétta Volkswagen Caddy

Datt í hug að einhverjum gæti þótt þær áhugaverðar. Þessi unga kona vildi geta farið í sumarútilegur á Caddyinum sínum og dreif sig í að smíða í hann innréttingu.

Þetta er svokölluð Instructable, leiðbeiningar um hvernig er hægt að gera hlutina, og á Instructables vefsíðunni eru þúsundir leiðbeininga um hvernig á að gera hitt og þetta, misjafnlega gagnlegar. Ég mæli með að skrá sig (kostar ekki neitt) til að geta tekið þátt í DIY-samfélaginu þarna. Svo er líka hægt að kaupa áskrift og fá aðgang að ýmsu fleiru).

Hún gerði þetta á allt annan hátt en ég og fékk sennilega betra geymslupláss en ég gerði, en ekki eins aðgengilegt. Hins vegar virðist hún ekki hafa haft fyrir því að einangra bílinn, enda hefði það verið erfitt með alla þessa glugga á hliðunum.

 


Fótsár fákur (sprungið dekk nr. 2)

2015-06-23_16_40_50.jpgMynd: Inni í firði á Ströndum.

Dekk nr. 2 sprakk í Stranda- og Vestfjarðaferðinni sem ég hef minnst á áður.

Ég var búin að vera í þessari ferð í nokkra daga, var búin að skoða mig um á Ströndum og þræða firðina, og var á heimleið eftir Barðaströndinni þegar það hvellsprakk annað framdekkið inni á Gilsfjarðarbrúnni. Í þetta skipti fann ég það strax og gat stoppað undir eins. Ég nam staðar úti í kanti við brúarsporðinn, gekk út, sparkaði í dekkið og bölvaði. Síðan fór ég og gróf upp viðvörunarþríhyrninginn og stillti honum upp um 50 metrum aftan við bílinn, klæddi mig í gult endurskinsvesti til að gera mig sýnilegri og setti neyðarljósin á og síðan tók við gamla glíman við varadekkið.

Þarna ofbauð mér gjörsamlega tillitsleysi vegfarenda. Látum vera að stoppa ekki til að bjóða hjálp – menn geta haft ýmsar ástæður til þess að keyra framhjá. Þetta var mun verra en skortur á hjálpsemi: Það keyrðu nefnilega framhjá mér að minnsta kosti FIMM bílar ÁN ÞESS AÐ HÆGJA Á SÉR, þar á meðal einn stór flutningabíll sem fór það nálægt að vindhviðan frá honum skellti mér næstum um koll og viðvörunarþríhyrningurinn datt niður. Þetta er hættulegt.

Ég lá á hnjánum aftan við bílinn og var að glíma við helv. varadekkið þegar ég heyrði enn einn bílinn nálgast. Þessi hægði á sér, ók hægt framhjá mér og stoppaði. Ég hélt áfram að baksa við dekkið þar til skuggi féll á mig og karlmannsrödd sagði eitthvað á þessa leið: „Þarftu aðstoð, væni minn?“

Þetta var eftir að ég rakaði af mér hárið, þannig að ég var með drengjakoll og hef frá þessu sjónarhorni verið frekar karlmannleg útlits. Ég setti upp mitt blíðasta bros og rétti mig upp, og skemmtilegri undrunarsvip hef ég ekki séð lengi á nokkrum manni. Hann var fljótur að jafna sig og tók við að baksa við dekkið, og var mér sammála um að þetta væri ljóta fyrirkomulagið. Hann vildi síðan endilega skipta um dekkið fyrir mig, og við spjölluðum saman á meðan. Þarna var þá kominn fulltrúi FÍB, sem fer í útköll fyrir þá þegar einhver félagi þeirra hringir eftir hjálp á Vestfjörðunum. Fyrir mér var hann nú bara riddari á hvítum hesti, eða öllu heldur flutningabíl.

Ég þakkaði fyrir mig með virktum og ók síðan áfram og kom við á verkstæði í Búðardal, þar sem ég neyddist til að kaupa annað dekk, enda hnefastórt gat á því gamla. Því á ég núna 3 gerðir af sumardekkjum til að nota undir bílinn.

Ég ætla ekki að láta þetta varadekksvandamál henda mig ef það springur hjá mér í Evrópuferðinni í vor og stefni á að fara að stunda lyftingar til að fá vöðvaafl til að geta náð fjandans varadekkinu undan bílum af eigin rammleik. Til vara ætla ég að ganga í FÍB til að hafa aðgang að systursamtökunum í Evrópu.

Pælið svo í þessu: Það sprungu hjá mér tvö nýleg og lítið notuð dekk með mánaðar millibili, bæði á sléttum vegi og bæði voru ónýt á eftir. Eftir krambúleringuna sem varð á bílnum fyrir jólin síðustu (bíll vs. súla í bílageymslu), kaup á nýrri olíupönnu í vor (bíll vs. hraunnibba), og vandræðagangi með lokið á eldsneytisgeyminum er þessi bíll búinn að kosta mig meira í óhöppum og viðgerðum og frústreringu en Toyotan gerði næstu fimm árin þar á undan. Á móti kemur að hann hefur aldrei bilað.

Save

Save

Save


Ferðaáætlun mótast

 

Það getur verið flókið mál að secapture.jpgmja ferðaáætlun fyrir akstursreisu, ekki síst ef hún er löng og maður hefur tíma til að fara vítt og breitt um. Hjá mér hefst hún yfirleitt á óskalista sem síðan er bætt við eða tekið af eftir því sem maður les sér til og ræðir við fólk sem hefur komið á staðina.

Það fyrsta hjá mér í þetta skipti var að ákveða aðaláfangastaðinn. Ætlaði ég til Frakklands eða til Þýskalands? Frakkland hafði það með sér að ég hef aldrei komið þangað og er nýlega búin að vera í 2 1/2 árs námi í frönsku hjá Alliance Française. Hins vegar langaði mig meira til Þýskalands, þó ég hafi komið þangað nokkrum sinnum áður og í þrjú skipti ferðast vítt og breitt um landið.Hvað gerir maður þá?

Ég lét á endanum hjartað ráða og valdi Þýskaland.

Næst þurfti ég einhvern viðmiðunarpunkt til að setja mér í sambandi við vegalengdir, þ.e. hversu langt í suður ætlaði ég mér? Fyrir valinu varð fyrst hálfgerð klisja: Neuschwanstein-kastali, sem er staðsettur í Suður-Þýskalandi. Ég hef komið þangað áður, en ekki þannig að ég næði að skoða slotið almennilega, og svo langar mig líka að skoða hina höllina á svæðinu: Hohenschwangau. Þessar hallir eru staðsettar mjög sunnarlega í Þýskalandi, nálægt landamærunum við Austurríki, á svæði þar sem náttúrufegurð er mikil. Frá bænum Hohenschwangau er svo stutt niður til Liechtenstein og þannig næði ég etv. að koma til nýs lands í ferðinni, auk þess að fara um svæði í Austurríki og Sviss sem ég hef ekki heimsótt áður. Ég setti því Vaduz inn sem sennilegan syðsta punkt ferðarinnar.

Í fyrstu var ég að hugsa um að keyra niður eftir Märchenstrasse (Ævintýraleiðinni), einni af vinsælli skipulögðum ferðaleiðum Þýskalands. Hún þræðir bæi og borgir þar sem Grimms-bræður söfnuðu sögum í ævintýrasasfn sitt. Annar endinn á henni er í Bremen og hinn í Hanau í Mið-Þýskalandi, stutt frá Frankfürt am Main.

Þaðan hugsaði ég mér að fara inn á Romantische Strasse, sem liggur á milli Würzburg og Füssen, og síðan til baka upp í gegnum Svartaskóg og Rínardalinn. En þá rann upp fyrir mér þetta mundi verða þriðja skiptið sem ég færi eftir Romantische Strasse, og annað skiptið í Svartaskógi og Rínardalnum, og ég ákvað að breyta til og fara líka á staði sem ég hef ekki komið til áður.

Þá datt mér í hug að skoða staði á heimsminjaskrá UNESCO, og kortlagði þá og sá að það væri hægt að þræða á milli allnokkurra þeirra í tveimur norður-suður línum. Þar með var komið uppkast að hringferð sem fer bæði um slóðir sem ég hef aldrei komið á (gamla Austur-Þýskaland) og líka staði sem mig langar að sjá aftur, s.s. Neuschwanstein og Heidelberg.

Síðan tók við gerð óskalistans. Ég gerði fyrst stóran lista og þrengdi síðan valið þannig að það passaði við þann grófa hring sem UNESCO-staðirnir mynda.

Til varð kort með aðalleið og nokkrum mögulegum lengingum á henni, og til þess notaði ég My Maps á Google. Leiðin hefur verið að breytast eftir því sem ég les meira. T.d. er ég nýbúin að bæta inn einni hugsanlegri hjáleið til Koblenz og annarri til Meissen og Dresden, og er jafnvel að hugsa um að keyra í gegnum Colmar í Frakklandi á leiðinni frá Konstanz til Strasbourg.

Á meðfylgjandi korti má sjá að það er auðveldlega hægt að taka þetta sem hringferð. Ég veit að þetta eru talsvert margir áfangastaðir, en þess verður að gæta að sumir þeirra eru bara merktir inn sem leiðarpunktar, og aðrir eru þannig að þar er nóg að litast um í einn eða tvo klukkutíma áður en farið er á næsta stað, og suma hef ég sett inn sem staði sem auðveldlega má sleppa ef ekki gefst tími til að skoða þá.

Ég hef 27 daga til að koma mér frá Danmörku, ferðast og koma mér aftur til Danmerkur, og hef reiknað með 10-14 dögum til að komast á syðsta punkt ferðarinnar (Vaduz í Liechtenstein) og frá Vaduz hef ég reiknað með 13-17 dögum í bakaleiðina. Þó ég hafi ekki komið til gamla Austur_Þýskalands áður eru stoppin þar færri en í vesturhlutanum og því reikna ég með aðeins lengri tíma vestanmegin.

Save

Save

Save


Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband