Færsluflokkur: húsbílar

Flutt!

Kæri vinir, ættingjar og aðrir sem hafa heimsótt mig á undanförnum árum og fylgst með ævintýrum mínum hérna: Ég er flutt. Ekkert langt, bara yfir á nýja bloggsíðu.

Bloggumhverfið á blog.is er ágætt til síns brúks, en þó að ég hafi bloggað hérna frá útlöndum áður þá fannst mér mig vanta eitthvað sem ég gæti notið í gegnum snjallsíma eða spjaldtölvu á fljótlegan og auðveldan hátt. Það verður nefnilega að viðurkennast að blog.is  er ekki sérstaklega fljótlegt í notkun, þó ekki sé það flókið, og svo er ekki til blog.is app, eða ég hef að minnsta kosti ekki fundið neitt slíkt. Bara að setja inn myndir í bloggpóst kostar 7-10 smelli fyrir hverja mynd, og það eru mörg skref sem þarf að taka áður en bloggfærsla er komin út á vefinn.

Ég hef ekki hugsað mér að eyða meira en hálftíma á dag í netsamskipti og blogg og, eins og áður sagði, er blog.is seinlegt í notkun. Því ákvað því finna mér bloggþjónustu sem er hægt að nota í gegnum app á snjalltæki. Í fyrstu var ég að pæla í að nota Blogger, Tumblr eða Wordpress, en datt svo niður á sérhannaða ferðabloggþjónustu, FindPenguins.com. Hún er einfaldari í sniðum en framgreindar bloggþjónustur, er fljótleg í notkun og af því að formið er staðlað, þá þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af að vera að velja þema, liti, letur eða annað sem flækir málin.

Því bið ég ykkur hjartanlega velkomin í heimsókn á nýja ferðabloggið mitt.


Nú verður ekki aftur snúið

Ég er búin að borga fargjaldið með Norrænu að fullu og komin með farmiða í hendurnar. Jibbí!

Svo er ég búin að sækja um aðild að FÍB og á von á að fá rukkun um félagsgjaldið inn í einkabankann minn eftir helgi.

Þá er bara eftir að sækja um alþjóðlegt tjaldbúðakort (í gegnum FÍB), og ná sér í tryggingaskírteini, rauða kortið, græna kortið og staðfestingu á ferðatryggingu. Svo þarf ég að athuga hvort það sé ekki rétt munað að Evrópska sjúkratryggingaskírteinið mitt renni ekki örugglega út eftir að ég kem úr ferðinni.


Rakst á þessar leiðbeiningar um að innrétta Volkswagen Caddy

Datt í hug að einhverjum gæti þótt þær áhugaverðar. Þessi unga kona vildi geta farið í sumarútilegur á Caddyinum sínum og dreif sig í að smíða í hann innréttingu.

Þetta er svokölluð Instructable, leiðbeiningar um hvernig er hægt að gera hlutina, og á Instructables vefsíðunni eru þúsundir leiðbeininga um hvernig á að gera hitt og þetta, misjafnlega gagnlegar. Ég mæli með að skrá sig (kostar ekki neitt) til að geta tekið þátt í DIY-samfélaginu þarna. Svo er líka hægt að kaupa áskrift og fá aðgang að ýmsu fleiru).

Hún gerði þetta á allt annan hátt en ég og fékk sennilega betra geymslupláss en ég gerði, en ekki eins aðgengilegt. Hins vegar virðist hún ekki hafa haft fyrir því að einangra bílinn, enda hefði það verið erfitt með alla þessa glugga á hliðunum.

 


Þegar ég læstist út úr bílnum

dsc_9206.jpgMynd: Á leið norður.

Ég lofaði í opnunarfærslu þessarar umferðar bloggsins að segja nokkrar sögur úr ferðalögum sumarsins 2015. Þau einkenndust af vandræðagangi og óheppni, en voru samt líka skemmtileg og ég var einstaklega heppin með veður.

Þannig er að stórfjölskyldan á sumarbústað norður í landi. Þetta er gamall bóndabær sem við höfum verið að dunda við að gera upp undanfarinn áratug eða svo. Þó að svefnplássið nægi fyrir um 15 manns, þá hefur það verið svo að húsbílafólkið í fjölskyldunni hefur frekar kosið að sofa í bílunum úti á hlaði, aðallega af því að við nennum ekki að vera að bera rúmfötin inn úr bílunum og búa um okkur inni í húsi, og svo er gisting í húsbíl eins og að sofa í stórri og notalegri lokrekkju. Við einfaldlega leiðum rafmagnssnúru inn um einhvern gluggann á húsinu og stingum okkur í samband og höfum þá ljós, hita og kælingu á ískápunum án þess að ganga á rafgeyma og/eða gasbirgðir bílanna.

Ég var mætti þarna ásamt fleirum úr fjölskyldunni til að njóta samveru yfir helgi í góðu veðri, og svaf í bílnum, sem ég var enn að læra á. Ég vaknaði snemma um morguninn, fór úr náttfötunum og smeygði mér í buxur, inniskó og flísjakka. Ég skrapp því næst inn í hús til að athuga hvort fólk væri komið á fætur. Til þess aflæsti ég bílnum og notaði til þess fjarstýringuna. Ég hafði nefnilega ákveðið að það væri gott að venja mig á að læsa honum alltaf þó ég væri með hann á öruggum stað. Síðan fór ég út um aðra hliðarhurðina og lokaði henni á eftir mér. Lyklarnir urðu hins vegar eftir ofan á kæliskápnum, enda engin ástæða til að taka þá með mér, eða svo hélt ég.

Þeir sem eiga svona bíla vita hvað gerðist næst: þegar ég kom út aftur til að ná í hrein föt og handklæði til að fara í sturtu kom ég að bílnum læstum. Það er nefnilega svo með þessa bíla að ef þeim er aflæst með fjarstýringunni og framdyr ekki opnaðar, þá læsast þeir sjálfkrafa stuttu eftir að bílnum er lokað aftur (30 sekúndur eða 1 mínúta, man ekki hvort).

Þarna stóð ég, berfætt í inniskónum og ekki í neinu undir flísinni. Þetta var næstum því eins slæmt og þegar ég læsti mig út úr íbúðinni minni, berfætt og í pilsi og þunnum nærbol einum fata.

Ég var í hálfgerðu losti þegar ég sneri mér við og lullaði mér aftur inn í hús, og mér skilst að svipurinn á andlitinu á mér hafi verið eins og ég hefði séð draug, og hann bæði ljótan og leiðinlegan. Þetta hefði getað endað með ósköpum hefði ég verið ein þarna, enda var síminn minn líka inni í læstum bílnum. En eins og málin stóðu þá voru foreldrar mínir á staðnum og fleiri ættingjar, og von á fleirum seinna um daginn.

Það var þetta síðasta sem bjargaði málunum. Varalykillinn var nefnilega heima hjá foreldrum mínum í Kópavogi og föðurbróðir minn var með lykil að húsinu. Það besta var að hann ætlaði að koma norður þennan dag, en hafði seinkað, þannig að hann var ennþá í bænum þegar pabbi hringdi í hann. Honum var síðan fjarstýrt símleiðis að felustað lykilsins og mætti með hann norður rétt fyrir kvöldmat. Á meðan hélt ég mig inni við – með flísina rennda upp í háls – og hafði ofan af fyrir mér með spjalli og lestri.

Helgin leið síðan eins og best varð á kosið með góðum mat og samveru með fólkinu mínu, en hremmingunum var ekki lokið, ónei...

Save

Save

Save

Save


Nýjasta nýtt um húsbílinn...

...eða öllu heldur um fengna reynslu af honum og hverning ég er smám saman að undirbúa mig fyrir lengra ferðalag en eina helgi.

Ég veit að bloggið er ekki komið það langt, en ég er búin að fara í ferðalög á bílnum um hverja helgi síðan ég fékk hann tilbúinn í hendurnar. Þessar ferðir hafa verið bæði til gagns og gamans, og ég hef verið að finna út hverning búnaðurinn og plássið nýtast.

Ein niðurstaðan var sú að ég held að dúnsængin mín verði í bílnum í sumar. Mér nægir alveg létt sumarsæng inni í íbúð þar til nætur fara að kólna aftur. Þetta sparar burð á sænginni upp og niður stigana heima hjá mér, þó ég sé reyndar ennþá að drösla koddunum með mér. Annað er að ég get vel haft föt til skiptanna úti í bíl, sem sparar burð á þeim fyrir og eftir hverja ferð.

Svo þarf ég líka minna af mataráhöldum en ég hélt - ég held að það sé alveg vitað mál að ég t.d. verð ekkert að steikja pönnukökur, þeyta rjóma eða elda eitthvað flókið: ég sýð í mesta lagi pasta eða hrísgrjón og tek þá frekar með mér afganga af elduðum mat og borða kalt eða hita upp.

Ég uppgötvaði í vetur hinar frábæru Sistema-vörur og keypti mér stórt nestisbox, tvær litlar dollur með skrúfuðum lokum (hvor um sig rúmar t.d. eitt stórt egg) og súpukönnu með vökvaþéttu loki sem er tilvalin undir súpu eða kássu sem maður getur svo hellt í pott og hitað upp á gashellunni, nú eða notað undir annað fljótandi, s.s. súrmjólk sem maður getur borðað beint upp úr ílátinu.

21107_soup_togo.jpg

 

Eitt sem var mér til ama var skröltið í mataráhöldunum ofan í skúffu. Ég var með þau í plastíláti og tusku með til að halda þeim í skefjum, en þau skröltu samt, sérstaklega á malarvegum. Ég tók þau því inn og bjó til áhaldavefju:

dsc01669.jpg

Þetta er ekkert sérstaklega „lekkert“, en gerir sitt gagn. Svo er hægt að nota hana sem viskastykki ef þau klárast hjá mér.

Hér er önnur mynd sem sýnir inn í hana:

dsc01668.jpg

Og já, þetta er gamalt viskastykki.Ég fer kannski út í að sauma eitthvað endingarbetra þegar það er komin reynsla á þetta.

 


Vangaveltur um húsbílinn

VindtjaldÞað er eitt sem ég held að ég hafi ekki minnst á áður í sambandi við þennan húsbíl, en það er að þó að ég vilji hafa hann eins vel búinn og frágenginn og hægt er þegar ég get farið að ferðast á honum, þá þarf ekki allt að vera fullkomið og ég þarf ekki heldur að vera búin að sanka að mér öllu sem mér finnst þurfa að vera í bílnum. Það er nefnilega hluti af skemmtuninni við að eiga svona grip að læra af reynslunni, finna lausnir á vandamálum eða bæta fyrirkomulagið, og eignast smám saman meira af því sem mann langar í.

Fortjald.Þó ég vilji ekki lengur sofa í tjaldi er ekki þar með sagt að ég geri kröfu um 5 stjörnu gistiaðstöðu í bílnum. Ég hef sagt það áður: aðalatriðið er að komast á klósett án þess að þurfa að klæða sig og fara út í hressandi nætursvalann til þess. Hitt er bara bónus: ódýr gisting undir þaki, eldunaraðstaða, aukið pláss fyrir farangur og aðstaða til að leggja sig ef það rennur á mann svefnhöfgi undir stýri.

Það er nú samt á óskalistanum hjá mér að kaupa vindtjald, og seinna meir fortjald, ef vera skyldi að ég legði í leiðangur um meginlandið á næstu árum. Svo væri gott að eiga lítið felliborð og fellistól sem ég kem fyrir undir bekknum, en ég get alveg látið mér nægja til að byrja með að nota það sem ég á.

Á svona stólÁ svona borðÉg á t.d. útilegustól - hann kemst bara ekki með góðu móti niður í neina hirslu í bílnum af því að hann leggst saman flatur og er þar af leiðandi tiltölulega fyrirferðarmikill (sjá myndina af bláa stólnum). Sama með útileguborðið mitt - sem er nógu stórt til þess að fjórir samheldnir einstaklingar geta borðað við það - en platan á því er heil og það eru bara fæturnir sem er hægt að fella niður (sjá mynd). Eðlilega gerir þetta borðið frekar fyrirferðarmikið.

Langar í svona borð og stólÞað sem mig langar í er borð og stóll eins og sést á myndinni til hægri. Þetta er mun nettara og leggst saman í vöndul sem er hægt að stinga undir rúm.

Þangað til ég eignast svona mætti festa stóra borðið og stólinn aftan við bílstjórasætið með krókateygjum (ég held reyndar að ég komist alveg af án borðsins). Síðan er hægt, þangað til vindtjaldið er komið, að sitja hlémeginn við bílinn þegar maður ætlar að setjast út.

FellitoppurAnnar draumur er að fá sér fellitopp á bílinn, þannig að maður geti staðið uppréttur inni í honum, en samkvæmt mínum rannsóknum kostar á bilinu fjögur hundrað þúsund til hálfa milljón að kaupa svoleiðis tilbúið (sérhannað fyrir Caddy Maxi), og það er án uppsetningarkostnaðar (mig grunar reyndar að pabbi gæti sett þetta upp...) og sendingarkostnaðar frá Bretlandi.

Mér þætti gaman að fá að vita hvað svona kostar hérna heima.

 


Tíðindi af húsbílnum

Jæja, þá má segja að bíllinn sé orðinn ferðafær. Þó að það sé sitthvað lítillegt sem er eftir, t.d. að olíubera innréttinguna, þá eru það mest útlitsleg atriði.

Ég tók mig sem sagt til nú um helgina og saumaði áklæðið utan um dýnuna. Ferðirnar upp á loft til að nota saumavélina og niður aftur til að máta saumaskapinn við dýnuna urðu margar, en loksins var áklæðið tilbúið:

dsc01474.jpg

Ég sneið efnið ekki nákvæmlega utan um dýnuna - eins og sést er þarna eitt horn sem var tekið úr dýnunni, og einnig er úrtaka í hliðinni á henni, en áklæðið er beint og því eru krumpur á þeim stöðum. Ég ákvað að hafa þetta svona af því að það hefði hreinlega verið of mikil fyrirhöfn að móta áklæðið algerlega utan um dýnuna. Ef þetta verður til vandræða, þá tek ég sennilega bara saumspor í áklæðið þar sem þarf, sem er hægt að spretta úr seinna meir ef áklæðið verður notað á aðra dýnu.

Það virðist passa ágætlega, en auðvitað á eftir að koma í ljós hvort það krumpast og fær í sig fellingar þegar maður fer að sitja á því.

Dýnan fer ekki út í bíl fyrr en ég fer af stað í fyrsta ferðalagið, og þá kemur mynd af henni á bekknum. Þangað til verður að nægja mynd af henni inni á stofugólfi hjá foreldrum mínum:

dsc01475.jpg


Hirslur aftan á bílsæti

Þeir sem þekkja mig vita að það fylgir mér yfirleitt talsvert af farangri. Ég hef óstjórnlega þörf fyrir að hafa alltaf við höndina allt það helsta sem mig gæti vantað. Veskið mitt er t.d. þannig að ef ég ætlaði til útlanda með mjög stuttum fyrirvara, þá er vegabréfið það eina sem ég þyrfti nauðsynlega að sækja heim til mín til að vera tilbúin til brottfarar. (Reyndar eru vegabréf og kreditkort það eina sem maður raunverulega þarf til slíks, en innihaldið í stóra, stóra veskinu mínu mundi tryggja mér ánægjulegra ferðalag).

Þessi er tekin á National Railway Museum í York á Englandi. Fólk kunni að ferðast með stæl í gamla daga.

Ég hef áður minnst á að húsbíllinn verður í rauninni ferðataska á hjólum. Í honum eru alls konar hólf og skúffur og hillur sem eiga að duga undir flest það sem manni er nauðsynlegt á ferðalögum, þó reyndar vanti sturtu - henni varð ekki komið fyrir, og ég sé mig ekki fara að kaupa mér ferðasturtu þegar það er hægt að komast í sund á flestum þéttbýlisstöðum á landinu (svo ekki sé minnst á sveitasundlaugar og villiböð). Svo er yfirleitt helst til of hvasst á Íslandi til að hægt sé að nota ferðasturtur. Að minnsta kosti held ég að maður mundi fljótlega gefast upp á þessari:

campshower.jpg

 

Reyndar var þó eitt sem vantaði: hirsla undir ýmislegt smálegt sem maður vill geta gripið til en vill ekki hafa skröltandi laust inni í bílstjórarýminu. Maður vill geta teygt sig í ýmislegt smálegt úr bílstjórasætinu, s.s. eitthvað létt til að narta í, landakort, kíki, myndavél, poka undir rusl, vasaljós og annað sem vanalega fer í hanskahólfið. Af því að engin af hólfunum fram í eru lokanleg, þá yrði frekar ósnyrtilegt að vera með þetta liggjandi eins og hráviði út um allt, og því vildi ég fá mér aftansætishirslu til að fela þetta dót allt saman, en samt þannig að ég næði í það úr bílstjórasætinu.

Þá kom til sögunnar þessi vasahirsla sem ég keypti í Rúmfó í vetur:

Vasahengið uppsett í bílnum.

Hún er hönnuð til að hengja á hurð, en ég hafði annað í huga fyrir hana: Ég gróf upp hjá mér bómullarborða í nánast sama lit, fann smellu sem passaði, mátaði og mældi og settist síðan við saumavélina.

Festingarnar.

Eins og sjá má passar útkoman nokkuð vel aftan á farþegasætið í bílnum. Þarna er hægt að pota hinu og þessu, og að minnsta kosti þeir vasarnir sem eru næstir bílstjórasætinu eru aðgengilegir þaðan. Ég hafði verið að hugsa um að sauma mér svona, en þetta var það ódýrt að það var ekki fyrirhafnarinnar virði að leggjast í að sauma vasana frá grunni, jafnvel þó ég hefði þá getað valið mér fallegra efni. En þetta er alls ekki slæmt og hefur þann kost að ef mér dettur einhvern tímann í hug að skipta um litaskema aftur í, þá passar grátt við svo til alla liti, ekki síst inni í þessum bíl þar sem allt innan í honum sem kom frá verksmiðjunni er annað hvort hvítt, svart eða grátt.

Smellan.

Auðvitað er hægt að fá svona vasahengi sem eru sérhönnuð í bíla - þau fást meira að segja af og til í Rúmfó, samanber þetta:

Tilbúin bílsætisvasahirsla.

...en það er ekki nærri því eins mikið af vösum á þeim.

Ég held ég betrumbæti svo gripinn með því að gera eitthvað af vösunum lokanlega, annað hvort með hinum ómissandi franska rennilási, eða þá með smellunum sem ég fann þegar ég var að taka til í saumadótinu mínu um daginn.

Næst á dagskrá er síðan að sauma áklæðið utan um dýnuna, og þá er bíllinn í raun tilbúinn til að fara að ferðast á honum, þó það sé reyndar alls konar smotterí eftir, s.s. að setja upp hliðarfestingar fyrir fremri gluggatjöldin og bera olíu á innréttinguna.

 

 


Meira um gluggatjöldin

Ég fann þetta snúru-gluggatjaldaupphengi hjá mér þegar ég var að gramsa í saumadóti um daginn, og fannst tilvalið að nota það til að halda utan um gluggatjöldin í bílnum:

Nærmynd af snúrunni.

 

Ég er virkilega ánægð með útlitið á þessu:

Gluggatjöldin úr fjarska.

Aftur á móti held ég að festingin fyrir bílbeltið sé ekki besta veggfestingin fyrir snúruna:

Snúran hangandi á bílbeltisfestingunni.

Ég hugsa að ég setji upp sérstaka festingu fyrir þetta (eða fái pabba til þess). Kannski er hægt að ganga þannig frá skrúfunni sem á að halda gluggatjöldunum að veggnum að hún geti þess á milli haldið snúrunni?


...og svo eru það gluggatjöldin: 2. hluti

Uppsett aftari gluggatjöld.

Það þarf ekki bara gluggatjöld að framan, heldur líka fyrir afturgluggana, en uppsetningin á þeim er annars eðlis en á fremri tjöldunum.

Það þarf að vera auðvelt að taka afturtjöldin alveg frá gluggunum og þau mega ekki vera síð og flaksandi, því gluggarnir eru auðvitað í opnanlegum hurðum og maður vill ekki að tjöldin lendi í falsinu þegar maður lokar. Svo þarf líka að vera hægt að festa þau að neðan, því ég kem til með að sofa með hausinn upp við aðra hurðina og vil ekki lenda í glímu við gluggatjaldið í svefni.

Aftari gluggatjöldin, séð innan frá.

Við vorum fyrst að hugsa um að setja upp gardínugorma að ofan og neðan, sem væri hægt að losa með einu handtaki þegar á að keyra af stað og opna þannig útsýnið aftur úr. Síðan rakst ég á lausn (á netinu auðvitað) sem gerir það að verkum að það þarf ekkert að bora fyrir neinu: sterkir neódým seglar saumaðir inn í faldana á tjöldunum. Af því að bíllinn er úr málmi, þá mundu lítil og létt gluggatjöld haldast uppi með góðum seglum, sérstaklega af því að þau yrðu aldrei uppi á ferð.

Hins vegar, þegar ég fór að hugsa málið betur, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að besta lausnin væri kannski bara að líma upp franska rennilása til að halda tjöldunum. Ókosturinn við segla er nefnilega sá að af því ég sef með hausinn upp að öðrum glugganum, þá ætti ég allt of auðvelt með að rífa niður gluggatjaldið þeim megin ef það væri fest með segli.

Gallinn við að líma upp franska rennilása er auðvitað að það er hætta á að rífa þá niður ef "rennnt" er frá með sviptingum. Ég ætla nú samt að prófa þá fyrst. Ef hvorki franskir rennilásar né seglar duga er alltaf hægt að setja upp gorma seinna.

Ég fann bút af frönskum rennilás og skellti upp prufu með gólfteppalímbandi til að sjá hvort sú lausnin gæti gengið. Ég gaf þessu sólarhring til að jafna sig (límingin virðist styrkjast með tímanum) og prófaði síðan að losa helmingana af þeim franska frá hvorum öðrum. Límingin hélst fullkomnlega, og reyndar átti ég erfitt með að ná límbandsbútnum af.

Svo var bara að velja sér efni.Til greina koma að nota sama efnið og í fremri tjöldin, en það hafði þá vankanta að þá þurftu að vera miðjusaumar á tjöldunum, því það sem eftir varð af gluggatjöldunum sem ég saumaði þau úr var ekki nógu breitt.  Hinir kostirnir voru að nota afganginn af efninu sem for á panelinn yfir rúmbekknum, eða efnið sem ég ætla að nota í áklæðið á bekkinn. Endanleg lausn var að nota sama efnið og fór á rúmpanelinn, ásamt dökkrauðu efni sem ég átti á lager:

Efnin tvö.

Ég tók snið af gluggunum og saumaði tvöföld gluggatjöld sem smellpassa yfir gluggana. Svo fann ég fallega blúndu sem passaði við bæði efnin og lokar að mestu fyrir smávægilegan ljósleka meðfram gluggatjöldunum.

Tjöldin og rúmpanelinn.

Það þurfti að vanda til verks við þetta allt, og ég held að það hafi bara tekist nokkuð vel til.

Tekið úr fyrir gluggahitaratengjum.

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband