Færsluflokkur: húsbílar
Þriðjudagur, 24. mars 2015
Meira tilbúið í húsbílnum
Auk þess sem ég minntist á í síðustu færslu, þá erum við búin að gera ýmislegt annað smálegt.
T.d. er komin hurð fyrir klósetthólfið og klinka fyrir. Litamunurinn á viðnum er vegna þess að viðarolían kláraðist áður en kom að skáphurðinni - hún er á dagskrá fljótlega:
Svo erum við búin að setja upp síðustu panelplötuna og lampann góða:
Ég bólstraði plötuna með gömlu millilaki sem ég sneið niður og fóðraði yfir með þessu bláa efni.
Svo er eftir eitt mjög mikilvægt - getiði nú hvað það er:
Jú, gardína fyrir svenfnrýmið. Eins og sjá má er gardínubrautin komin upp:
húsbílar | Breytt 7.4.2015 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 23. mars 2015
Þetta er allt að koma til...
... eða þannig. Nú er pabbi búinn að ganga frá vaskinum og því kerfi öllu saman: setja upp kranann og tengja báða vatnsbrúsana.
Kraninn:
Neysluvatnsbrúsinn (það er dæla ofan í honum):
Grávatnsbrúsinn (undir vaskinum):
húsbílar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. mars 2015
Rafmagn og panelplötur
Pabbi er búinn að dunda sér við að draga rafmagnsvíra í bílinn og er búinn að kaupa rafgeymi og setja upp öryggjabox og rafmagnsinnstungur. Þær efri eru fyrir 12v bílarafmagn (um kveikjaraklær) og þær neðri fyrir 220v húsarafmagn, sem mun koma sér vel þegar ég kem í næturstað þar sem er hægt að tengjast húsarafmagni. Þær eru í hólfinu þar sem kæliboxið verður staðsett, enda er kæliboxið eina raftækið sem verður stöðugt í sambandi við rafmagn á meðan ég er á ferðalagi.
Nú vantar mig bara langa, vatnsþétta framlengingarsnúru.
Svo er ég búin að klára tvær panelplötur til viðbótar við þá rauðu. Hér er krítartaflan, nýmáluð og fín. Krítartöflumálning fæst í sumum föndurbúðum og flestum málningarvöruverslunum. Þessa fékk ég í Litir og Föndur:
Hér er hún uppsett:
Sú með beykiáferðinni og blúndunum (sjá næstu mynd) er myndaborð. Myndirnar er festar við blúndurnar með litlum klemmum:
Svo skilaði sér leslampinn góði sem við pöntuðum hjá vini okkar Ali í Kína:
Mér líst svei mér bara enn betur á gripinn núna þegar ég hef getað handleikið hann:
Hann fer upp fyrir ofan höfðalagið á rúminu.
húsbílar | Breytt 7.4.2015 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. mars 2015
Bekkurinn er tilbúinn
Jæja, loksins hef ég fréttir að færa af húsbílaframkvæmdum. Það miðar nú allt í áttina að verklokum og það eina stóra sem nú er eftir er að ganga frá rafmagninu.
Pabbi er búinn að vera að dunda sér við framkvæmdir og kláraði bekkinn, þ.e. setti upp skilrúm inni í kassanum, sem styrkja hann og gera auðveldara að skipuleggja geymslu á hlutunum, og svo festi hann hurð fyrir klósetthólfið.
Síðan framkvæmdum við skurðaðgerð á dýnunni góðu:
Það þurfti að mjókka hana aðeins og taka úr henni á tveimur stöðum til að hún félli alveg upp að veggnum í bílnum:
Svona lítur Tempur-dýna út þegar búið er að taka hana úr nærfötunum:
Efra lagið er þessi frægi geimfarasvampur sem gerir dýnurnar dýrar, og neðra lagið er venjulegur dýnusvampur, sem gefur dýnunni aukna þykkt.
Nú er bara eftir að þvo ytri klæðninguna sem fylgdi dýnunni og sauma áklæði á hana. Það verður nokkurs konar teygjulak úr þykku og slitsterku áklæðisefni sem hylur efra byrðið og hliðarnar á dýnunni og ver hana fyrir skít og skemmtum. Svo kemur venjulegt lak þar ofan á þegar bekkurinn skiptir um hlutverk úr setbekk í svefnbekk.
Dýnan (á nærfötunum) áður en við byrjuðum að skera:
húsbílar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. janúar 2015
Framkvæmdum við húsbílinn miðar nú vel áfram
Við tókum niður rúmið og innréttinguna á laugardaginn og svo tók við tímafrek en nauðsynleg vinna við að verja viðinn gegn óhreinindum og raka. Það gerðum við með því að lakka allan krossviðinn og olíubera beykið. Nú liggja innréttingin og platan framan af rúminu (eða öllu heldur standa upp á rönd) í pörtum inni í stofu hjá foreldrum mínum á meðan olían er að sjúgast inn í viðinn og harðna. Pabba fannst vissara að það gerðist við stofuhita. Eins og sjá má er kominn djúpur og hlýr litur á viðinn.
Af rúminu er enn smávegis eftir sem þarf að gera, en það er ekki mikið: setja upp stoð undir höfðalagið og festa lamir á hurðina fyrir klósetthólfið. Innréttingin er fullhönnuð og það sem er eftir að gera fyrir hana er að skrúfa hana aftur inn í bílinn, setja framhliðarnar á skúffurnar, festa kranann, líma niður vaskinn og tengja vatnslagnirnar.
Pabbi tók sig meira að segja til og renndi hnúða til að setja framan á skúffurnar og vængjahurðirnar. Þó svipaðir hnúðar kosti bara um 200-kall í Bauhaus finnst mér miklu skemmtilegra að hnúðarnir í innréttingunni minni skuli vera sérsmíðaðir.
Það er gaman að eiga svona fjölhæfan og laghentan mann í fjölskyldunni.
húsbílar | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. janúar 2015
Að láta drauminn rætast
Bretinn Mike Hudson tók sig til og hætti í vinnunni, breytti stórum sendiferðabíl í húsbíl og lagði síðan af stað í langt ferðalag um Evrópu. Krækjan er á þann hluta bloggsins sem fjallar um framkvæmdirnar við bílinn, en hann er líka með ferðablogg.
Þetta langar mig til að gera, en á stærri bíl en þeim sem ég er að vinna í núna. Ég held að hann sé of lítill til að búa lengi í honum, þó hann sé notalegur.
húsbílar | Breytt s.d. kl. 07:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. janúar 2015
Breskir (eða evrópskir) vs. bandarískir húsbílar
Hér er áhugavert innslag úr Top Gear: James May skoðar og ber saman húsbíla frá tveimur heimsálfum. Hinn alþekkti breski kaldhæðnishúmor ræður ferðinni:
Málið er auðvitað að það er mjög erfitt að vera með stóra húsbíla í ameríska stílnum í Evrópu, því það er frekar takmarkað hvað er hægt að komast á þessum flykkjum, t.d. eftir þröngum götum og skörpum beygjum í gömlum borgum Evrópu, hvað þá undir vegbrýr sem kannski voru byggðar fyrir seinni heimsstyrjöld þegar flutningabílar voru talsvert mikið minni en þeir eru í dag.
húsbílar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 9. desember 2014
Eldunarbúnaður í litla húsbílinn
Við erum búin að pæla mikið í eldunarbúnaði og uppvasksaðstöðu fyrir bílinn. Fyrsta hugmyndin, og sú sem hefði óneitanlega verið flottust (en langt frá því að vera hagvæmust), var að vera með eldavask, þ.e. einingu sem sameinar vask og gashellu og lokast með plötu úr hertu gleri þegar hún er ekki í notkun.
Vandamálið er bara að þær eru allar svo stórar að megnið af borðinu yrði undirlagt. Reyndar fann ég einingu á heimasíðu þýsku húsbíla- og útivistarverslunarinnar Reimo sem er þannig að gashellustykkið er geymt ofan í vaskinum þegar það er ekki í notkun. Þetta tæki kostar 449 evrur (ca. 68 þúsund kr) á vefsíðunni, en hingað komið mundi það kosta í kringum 150 þúsund kallinn með öllu, sem mér finnst satt að segja bara blóðugt.
Niðurstaðan var að það verður keyptur vaskur, sem mun kosta um öðru hvoru megin við 20 þúsundin (fer eftir hvaða módel verður fyrir valinu), og svo er ég búin að ákveða að það nægi mér alveg, a.m.k. til að byrja með, að nota litla útilegugashellu eins og þessa:
Þetta tæki kostar um 10 þúsund kall, og tekur einnota bútangashylki. Hvert hylki inniheldur 220 g af gasi og kostar um þúsund kall, en þau endast ótrúlega. Uppgefin ending er 90 mínútur á háum hita og 4 klst á lágum hita. Þar sem ég mun aðallega nota tækið til að elda tiltölulega fljóteldaðan mat, s.s. að sjóða vatn í te/kaffi, hita súpur og steikja egg/beikon, o.s.frv., þá ætti þetta að nægja. Ég verð bara að gæta þess að eiga alltaf hylki til vara.
Ég held að ég þurfi ekki meira en þetta, en þó að það komi í ljós seinna meir að ég þurfi eitthvað meira/betra, t.d. tvær hellur eða tæki sem tekur gashylki sem endast lengur, þá er þetta það ódýrt að það borgar sig að kaupa það og prufukeyra.
Reyndar á ég von á að fá svona í jólagjöf.
--
P.S.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér vörurnar frá Reimo þurfa að vita að Reimo-menn senda ekki til útlanda, heldur ætlast til að menn noti umboðsaðila í sínu landi til að flytja vörurnar inn. Einn (kannski sá eini?) umboðsaðili hérlendis er Rótor. Hér er hægt að sjá með hvaða tölu þarf að margfalda verðið frá Reimo til að fá út hvað varan kostar hingað komin. Þessi reiknistuðull er reyndar frá því í fyrra, en mér þykir líklegt að það sé hægt að hringja í búðina til að fá uppgefna rétta tölu.
húsbílar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. nóvember 2014
Sendibíl breytt í húsbíl, 7. hluti
Bíllinn er nú búinn að standa óhreyfður á bílastæðinu svo lengi að það eru komnir á hann kóngulóarvefir:
Framkvæmdir héldu aðeins áfram á mánudaginn og þriðjudaginn í síðustu viku. Ég fékk meira að segja að spreyta mig á stingsöginni:
Ég sé ekki betur en þetta smellpassi hjá mér. Svo er líka búið að draga fyrir rafmagni:
Það er kominn sökkull undir innréttinguna:
Svo smíðaði pabbi annan endann á innréttinguna, þar sem kælirinn mun koma. Það vantar bara hliðina. Hann keypti líka vatnsbrúsa og affallsbrúsa:
Svo er ég búin að vera að sanka að mér prufum, af teppi til að veggfóðra með og af dúk á gólfið:
Nú er stopp, því við þurfum að hafa eldunartækin og stærðina á vaskinum á hreinu áður en við förum í að smíða innréttinguna.
Ég hef smá von um að geta fengið notaða sambyggða vask-eldunareiningu, en þarf að fá að skoða hana og mæla stærðina áður en ég fer í að kaupa notað. Lágmarksverð á nýju er um um 70 þúsund.
húsbílar | Breytt 1.12.2014 kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. nóvember 2014
Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 6. hluti
Við tókum til handanna í fyrradag og í gær og erum næstum búin með rúmbekkinn. Skilrúmin á milli hólfanna innan í bekknum - sem eru líka stuðningur við rúmbotninn - eru komin upp, og líka botninn sjálfur, og við erum svo til búin að saga til langhliðina í bekkinn. Hún er úr plötu af beykilímtré, sem er selt sem hillu- og borðefni. Ég ætlaði fyrst að kaupa eik, en þegar á hólminn (þ.e. í Bauhaus) var komið, þá leist mér betur á beykið. Enda er allt í lagi að hafa smá tilbreytingu - það er nefnilega eikarparkett á gólfinu í íbúðinni hjá mér og sumt af húsgögnunum er líka úr eik.
Það sem upp á vantar er að útbúa hurðina fyrir klósetthólfið, setja upp stuðning undir rúmbotninn í þeim endanum sem snýr að afturhurðinni, og festa hliðarplötuna. Sennilega bíðum við með það síðasta þar til gólfklæðningin er komin á, enda þarf að taka rúmið upp áður en það er gert. Svo sátum við heillengi á bekknum og pældum og mældum fyrir eldhúsinnréttingunni. Nú er nefnilega orðið þægilegt að tylla sér aftur í bílinn ef maður passar að setjast á rúmbotninn þar sem skilplata er undir. Loks var farin önnur ferð í Bauhaus og keyptar þrjár beykiplötur til viðbótar. Við ætlum nefnilega aðeins að byrja á innréttingunni eftir hádegi í dag.
Það hefði verið ódýrara að kaupa spóna-, MDF- eða krossviðarplötur, plast- eða melamínhúðaðar eða lakkaðar, en gegnheill viður er fallegri og endingarbetri.
Hér eru nokkrar myndir frá framkvæmdunum:
Pabbi gerir lokamælingar á föstu plötunni í rúmbotninum:
Plöturnar sem þilja af hólfin undir bekknum og styðja við rúmbotninn:
Festingarnar fyrir plöturnar. Hliðin verður fest við þær með fleiri vinklum:
Opnanlegi hluti rúmbotnsins festur við með blaðlöm:
Beykiplatan komin í hliðina. Opna hólfið er fyrir ferðaklósettið. Síðustu áfangarnir í smíðinni á rúmbekknum verða að útbúa hurðina fyrir þetta hólf og setja upp stuðning við höfuðgaflinn, og síðan verður krossviðurinn lakkaður og beykið olíuborið:
húsbílar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 33060
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar