Mánudagur, 26. október 2009
Nokkur orð um ferðahandbækur
Einn af hinum óhjákvæmilegu fylgifiskum ferðalaga er ferðahandbókin. Þótt ótrúlegt megi virðast eru til ferðahandbækur frá því fyrir tíma Krists, en þær urðu ekki að iðngrein fyrr en ferðaskrifstofur komu til sögunnar um miðja 19. öld. Ferðahandbókum er ætlað að upplýsa ferðamenn um áhugaverða staði, opnunartíma, gistingu og matsölustaði og annað sem þeir þurfa að vita til að geta notið dvalarinnar. Þær geta verið frábært verkfæri sem sparar manni bæði tíma og peninga, en þær geta líka komið í veg fyrir að maður uppgötvi áhugaverða staði og annað sem ekki kemur fram í þeim. Maður heyrir sögur (vonandi ósannar) af ferðafólki sem fer svo nákvæmlega eftir ferðahandbókinni sinni að það útilokar allt sem er ekki í bókinni og missir þar með af því sem einmitt gerir ferðalög svo skemmtileg: að uppgötva hlutina upp á eigin spýtur. Gott dæmi um þrælslega hlýðni við ferðahandbækur má lesa um í bók E.M. Forster, A Room With a View, þar sem breskir ferðalangar á Ítalíu fylgja Baedecker-leiðsögubókinni eftir stafnum og þykir ekkert merkilegt nema það sé í henni.
Ég er þeirrar skoðunar að ferðahandbækur séu gagnlegar, en þær eigi alls ekki að ráða því hvað maður gerir. Þegar maður lætur bókina eina segja manni hvað maður á að sjá og gera þá hættir hún að vera handbók og verður að einhverju allt öðru og skuggalegu. Ég hef yfirleitt nokkuð góða yfirsýn yfir það sem mig langar til að gera og skoða þegar ég ferðast og ég nota handbækur aðallega til upprifjunar og til að spara mér tíma við að finna út opnunartíma banka og verslana, siði og venjur, gagnlegan orðaforða, og til að vísa mér á svæði þar sem er gott að versla eða gista. Þær allra bestu geta vísað manni á áhugaverða staði sem maður hefur ekki grafið upp sjálfur með lestri bóka eða á netinu. Mér finnst þær sem gefa manni sögulegan bakgrunn fyrir staðina sérstaklega áhugaverðar og það er frábært þegar þær vísa manni á lesefni með frekari upplýsingum. Kort í leiðsögubókum geta líka verið mjög gagnleg, því þó að þau séu oft ekki jafn nákvæm og opinber götukort, þá sýna þau yfirleitt smærri svæði og gefa manni yfirsýn sem ekki fæst á stærri kortum. Ég varast samt kortin í Lonely Planet bókunum því það er mjög auðvelt að villast eftir þeim. Þau eru vonlaus, gefa ekki upp nóg af götunöfnum, skekkja skalann og sleppa jafnvel alveg sumum götunum.
Í Bandaríkjunum og mörgum Evrópulöndum er auðvelt að ferðast án handbóka. Maður kaupir einfaldlega gott vegakort og fer svo á Tourist Information þegar maður mætir á staðinn og hirðir þar slatta af bæklingum. Í USA eru oftast nær svona upplýsingaskrifstofur við fylkjamörkin við alla stærstu þjóðvegi, og þar getur maður nálgast upplýsingar sem ekki finnast í neinum ferðahandbókum og líka ókeypis vegakort.
En nú liggur leiðin til Indlands, og þangað fer ég ekki án ferðahandbókar. Sú sem ég á úr fyrri ferðinni er löngu úrelt hvað varðar allar upplýsingar um gististaði og veitingahús og ýmislegt annað, t.d. er ekki að finna nein netkaffihús í henni. Því tek ég hana ekki með mér. Ætlunin er að fara í bókabúð í London, þar sem ég millilendi í hálfan sólarhring, og kaupa þar annað hvort Rough Guide eða Footprint handbók. Ég er auðvitað búin að plana leiðina svona nokkurn veginn, en allt hitt verður gagnlegt. T.d. er gott að skoða gistiupplýsingar og sjá á hvaða svæðum gistihúsin eru staðsett, láta síðan leiguvagn fara með sig á einn gististaðinn í bókinni og skoða síðan hvað er í boði í kring sem er ekki í bókinni. Mín kenning (byggð á reynslu minni og annarra) er nefnilega sú að mörg gistihús hækka verðin og minnka þjónustuna þegar þau komast inn í leiðsögubækurnar. Sama með matsölustaði.
--
Nú er farið að styttast verulega í brottför, og ég geri ekki ráð fyrir að ég muni geta bloggað jafn stíft í ferðinni og ég hef gert hér, en ég mun reyna að láta sjá mig eins oft og ég get.
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 32977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það verður spennandi að fylgjast með blogginu þínu næstu vikur kæra vinkona - ég kem til með að kíkja hér inn á hverjum degi :)
Bestu ferða- og ævintýrakveðjur,
Svava
Svava 26.10.2009 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.