Pælingar um val á flugsæti

Almennt eru pælingarnar varðandi flugsætin eftirfarandi:

  • Tek ég gluggann til að njóta útsýnisins og geta hallað mér upp að veggnum til að sofa, en á það jafnframt á hættu að pirra nágrannana með því að vera sífellt klifrandi yfir þá á tíðum klósettferðum (það er eins og blaðran skreppi saman í hvert skipti sem ég þarf að fljúga) og/eða að vera króuð af af leiðinlegum nágranna? (ég hugsa enn með hryllingi til þess þegar ég og vinkona mín lentum fyrir innan fyrrverandi umsjónarmann vinsæls sjónvarpsþáttar sem samkjaftaði ekki alla leiðina frá Dublin til Keflavíkur)
  • Tek ég ganginn til að eiga greiðan aðgang á klósettið án þess að trufla nágrannana og til að geta staðið upp til að teygja úr mér að vild en á það jafnframt á hættu að vera trufluð af öðrum sem eru á leið á klóið og annað hvort halla sér fram á sætið hjá mér í biðröðinni, taka sér stöðu og lesa yfir öxlina á mér, missa eitthvað í kjöltuna á mér eða prumpa framan í mig á leiðinni framhjá? Kostur er að maður á jafnframt auðvelt með að flýja í smástund ef nágranninn gerist leiðinlegur.
  • Eða tek ég miðjuna og á það á hættu að lenda á milli tveggja leiðinlegra nágranna og pirra bara annan þeirra með því að fara á klósettið, en eiga það á hættu að pirra þá báða með því að sofna niður á öxlina á þeim til skiptis eða það sem verra er: fá þá báða hrjótandi og slefandi á axlirnar á mér?

 

Það er líka talsverð list að velja réttu staðsetninguna í flugvél.

  • Þægilegast finnst mér að sitja í fremstu röð því þá get ég setið við glugga og þarf samt ekki að klifra yfir nágrannana á tíðum klósettferðum mínum og kannski vekja þá upp af værum blundi. Svo er maður alltaf svo fljótur út. Ókostur að maður verður að ganga frá töskunni upp í farangurshólf í flugtaki og lendingu, enda engin sæti fyrir framan mann til að stinga henni undir.
  • Næst best er að sitja við væng, því þó maður böggi nágrannana með klósettferðum ef maður situr innst, þá er ekki svo þröngt að troða sér framhjá þeim að maður situr næstum í fanginu á þeim á meðan.
  • Verst er svo að sitja við ganginn í öftustu eða fremstu röð, því þá getur verið þrælerfitt að sofna fyrir klósetthurðinni, og þar að auki ef maður situr aftast, þá er maður síðastur út og jafnframt síðastur í vegabréfaskoðunina og að farangursfæribandinu og leigubílunum fyrir utan.

 Svo liggur maður auðvitað á bæn um að lenda hvergi nálægt óværum litlum börnum, drukknu, illa lyktandi eða flugveiku fólki, eða við hliðina á perra eða manni (oftast nær karlmanni, en konum fer þó fjölgandi í þessum flokki) sem lyftir arminum á sætinu á milli okkar upp og breiðir sig yfir í sætið hjá manni.

En nú er ég að fara að leggja upp í lengsta flug sem ég hef nokkurn tímann farið í: rúmlega 10 klst. samanlagt. Ég hefði getað valið flug með millilendingu sem brýtur ferðina meira upp, t.d. í Istanbúl, Bahrain, Kuwait eða Dubai sem kallaði allt á ferðalög á milli flugstöðva, fyrir utan það að reynsla mín af flugstöðvum er sú að sætin, sem virka þægileg þegar maður HORFIR á þau, eru hönnuð til þess að maður geti tyllt sér niður í ca. kortér áður en rasskinnarnar á manni byrja að dofna upp. Þar að auki er þar oft hávaði og allar veitingar dýrar og ekkert að gera nema versla í rándýrum fríhafnarverslunum eða rölta um þangað til maður er genginn upp að hnjám og farinn að sjá flugsætið sitt í hillingum. Ég efa að ég fái sæti við væng, því flest flugfélög virðast vera farin að úthluta þeim sætum til fólks sem getur hjálpað öðrum að komast út um neyðarútganginn og talar tungumál sem allir skilja - af því að þetta er Air France geri ég ráð fyrir að maður þurfi ekki bara ensku heldur líka frönsku, en hjá mér takmarkast hún við nokkur orð og setningar sem henta til að spyrja til vegar og panta mat á veitingahúsum. Ég hugsa að ef ég fæ ekki sæti í fremstu röð við glugga, þá vilji ég sitja við ganginn nálægt miðjunni, því þá get ég staðið oft upp og þarf að ganga hálfa vélina til að komast á klósettið - fyrirtak til að koma blóðrásinni í fótunum af stað. En svo er auðvitað spurning hvort ég get nokkuð valið mér sæti. Það kemur í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 32977

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband