Dagar 13-15

Kl. 15:30.


Eins og ég sagði í síðasta pistli þá skrapp ég heim um helgina, enda ákvað ég að það væri mun skárra að hanga heima hjá sér í leiðindaveðri en hérna þar sem minna er hægt að finna sér að gera. Það er nefnilega ekki nein dagskrá hérna um helgar og þó að sundlaug og tækjasalur séu við höndina, þá er takmarkað hvað maður getur eytt löngum tíma þar og eins hvað maður nennir að liggja lengi uppi í rúmi og lesa. Heima getur maður þó lagað til, horft á uppáhalds DVD-myndirnar sínar, farið í heimsóknir, kíkt í Kolaportið eða á bókasafnið (nú eða í bíó – haldiði að ég hafi ekki misst af Mamma Mia! singalong-sýningu eina ferðina enn!) eða þá tekið labbitúrinn inni í Kringlunni til að blotna ekki. Ef það hefði verið almennileg veðurspá hefði ég kannski verið hér kyrr og reynt að komast á hestbak, eða etv. skroppið í bíltúr upp að Geysi eða niður á Stokkseyri og Eyrarbakka, eða farið í langa gönguferð og tekið svolítið af myndum. Kannski um næstu helgi.


Mér tókst að halda æfingum áfram þrátt fyrir heimaveru og fór í langan kraftgöngutúr í hvassviðrinu á laugardaginn – labbaði heiman að frá mér niður á Sæbraut og niður hana og endaði í Kolaportinu. Líklega 3-4 kílómetrar sem er svipað og ganga nr. 3. Tók svo strætó heim, enda leist mér ekki á rokið sem aldrei þessu vant stóð beint niður Laugaveginn í staðinn fyrir að leynast á bak við húsin og blása fólki um koll með óvæntum hliðarvindum eins og vanalegra er.


Á sunnudaginn þegar ég var komin austur aftur tók ég svo hring í tækjunum og held að mér hafi tekist að meiða mig á teygjunum, því ég var slæm í hægri fótleggnum í leikfiminni í morgun, og gafst svo upp á þolgöngunni vegna sársauka í leggnum. Ætla að fara varlega og hlífa fætinum í dag (sem sagt, engin tæki) og reyna svo við göngu 3 á morgun til að sjá hvernig það gengur.


En nú er ég að fara í nudd. Það var mjög stressandi upplifun síðast, enda náði hún að nudda á mér allan skrokkinn á korteri.


Kl. 16:30
Jæja, þá er ég búin í nuddinu, og þrælslöpp á eftir. Það er eins og stungið hafi verið á blöðru. Er að hugsa um að leggja mig í smástund og slappa vel af. Maður fær alveg ofsalega góða slökun út úr þessu nuddi, en það er nokkuð sem gerist eftir á.

 

Kl. 19:00.

Ég þarf að fara með fartölvuna fram í miðrýmið við bókasafnið til að ná netsambandi, sem er nánast eins langt í burt frá herberginu mína eins og hægt er að komast í húsinu. Hér er boðið upp á ýmsa dægradvol, ss. billard, skák, dagblöð, og púsluspil. Nú er eitt vinsælt og þrælerfitt í umferð - teiknað og fullt af smáatriðum og maður getur varla slitið sig frá því ef maður einu sinni sest niður við það. En nú eru að byrja fréttir í sjónvarpinu - bless í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ

Dugnaðurinn í þér kona. Haltu þessu áfram, þú stendur þig mjög vel.

Mamma mia sing - a - long er aftur næsta laugardagskvöld 27. sept. kl. 20. Hvernig væri að tryggja sér miða í þetta sinn .

Kv. Berglind

Berglind 23.9.2008 kl. 15:32

2 identicon

Sæl og blessuð vinkona

 Ég vona að það viðri betur til útiveru hjá þér en í Reykjavík - en eins og einhver sagði þá er ekkert til sem heitir vont veður, bara vitlaus klæðnaður ha ha ha :) Þú ert náttúrlega að standa þig eins og hetja og ert okkur hinum fyrirmynd, ætla einmitt að reyna að harka af mér á fimmtudaginn og drífa mig í labbið þrátt fyrir votviðrisspá.

Vonandi nærðu þér sem fyrst í fætinum, passaðu þig að ofgera þér ekki!  Kanski að nuddið hjálpi? Nuddið hljómar nefnilega ekkert svo illa - ekki einu sinni túrbónuddið sem þú ert að fá á korteri :)

Bestu kveðjur,

Svava

Svava 23.9.2008 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband