Mánudagur, 8. september 2008
Dagur 1
Kl. ca. 14:00.
Jæja, þá er maður mættur á staðinn: HNLFÍ í Hveragerði. Hér er þráðlaust net, en sambandið er svo slæmt inni á herberginu mínu að ég þarf að fara fram til að komast á netið, enda er það staðsett á bókasafninu. Samkvæmt kortinu af byggingunni er bara lengra þangað úr kapellunni, enda er ég staðsett á Sprengisandi, sem er einn af elstu íbúðargöngunum í byggingunni. Bókasafnið er aftur á móti á miðsvæðinu á milli Gullstrandar og Perlustrandar, en þar er nýjustu herbergin, sem bjóða upp á svona óþarfa lúxus eins og sjónvörp og einkabaðherbergi.
Á myndinni til vinstri (þeirri efri) má sjá herbergið mitt. Það virkar stærra en það í rauninni er. Þessi álma var byggð um miðjan sjötta áratuginn, og mér sýnist fataskápurinn vera upprunalegur, en skrifborðið og hægindastóllinn bera með sér að vera frá þeim sjöunda. Rúmið er sem betur fer nýlegt, enda vönduð sjúkrarúm á öllum herbergjum. Byggingin hérna er öll á einni hæð og ægir saman gömlu og nýju. Þetta er svo mikið völundarhús að hvaða flugstöðvarhönnuður sem er mundi fyllast öfund ef hann sæi húsið, en auðvitað er skalinn talsvert minni þó vegalengdirnar virðist vera svipaðar.
Í dag var á dagskránni viðtal við hjúkrunarfræðing, og klukkan 5 er leiðsögn um stofnunina. Hjúkkan heitir Steinunn, en ég kalla hana í huganum Kóngulóarkonuna, af því að ég taldi einar 4 kóngulær inni á skrifstofunni hennar, sem er ekki mikið stærri en herbergið mitt. Ein var meira að segja í gardínunni við skrifborðið hennar. Mamma hefði fengið slæman hroll þarna inni. Mig langaði bara að ná mér í kúst.
Kl. 17:50.
Jæja, þá er skoðunarferðinni lokið og maður búinn að hitta flesta hina úr hópnum. Aldursdreifingin er allmikil: yngst er stúlka sem er rétt rúmlega tvítug, það er ein sem virðist geta verið á svipuðu róli og ég, og svo er restin á fimmtugs- og sextugsaldri. Þyngdardreifingin er líka breið.
Ég sá á kort áðan: það var greinilega snilldarbragð hjá mér að velja Sprengisand, því það eru um 250 metrar úr herberginu mínu á bókasafnið, og aðeins lengra í matsalinn. Sem sagt: hálfur kílómetri fram og til baka. Svona til viðmiðunar þá labba ég 650 metra í vinnuna heiman að frá mér.
Innréttingar í setustofum og á göngunum hérna eru frekar elliheimilislegar: borðin virðast ýmist vera bambus, eldgömlu tekki eða ljósum stofnanavið og svo eru stórrósóttir hægindastólar og sófar, og það eru málverk út um allt, helmingurinn af þeim af góðvinum NLFÍ, sum í fullri líkamsstærð, öll með góðlátlegan svip á andlitinu til að hræða ekki gestina, þó einn sé hálf skelfilegur til andlitsins, en ég held að það sé málaranum að kenna en ekki skaparanum.
Á morgun byrjar svo ballið með læknisskoðun, kynningarfundi og fundi með næringarráðgjafa. Kannski vatnsleikfimi, en annars hefjast ekki æfingar fyrr en á miðvikudaginn. Annar matsalurinn hérna ber það virðulega nafn Sultartangi. Þar var víst aðstaða fyrir þá sem voru í megrun í gamla daga, en mér skilst á Steinunni að þeir hafi lifað á gulrótarsafa og kjötsoði og verið í stólpípumeðferð. Mikið er ég fegin að það er búið með svoleiðis miðaldameðferðir. Nú koma þangað þeir sem eru of hrumir eða veikburða til að ganga hálfan kílómetra til að komast í og úr mat.
Meginflokkur: heilsa | Aukaflokkur: megrun | Breytt s.d. kl. 19:12 | Facebook
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ja hérna, þetta er engin smá svíta sem þú ert með. Vona að þú fáir ekki víðáttufælni ha ha ha. Minnir svolítið á gömlu vistina hérna í denn...bara minna og ellilegra. Hmm borgar þú aukalega fyrir að gista á svona safni, eintóm antíkhúsgögn hljóta að kosta meira ha ha ha :)
En að öllu gamni slepptu þá finnst mér þetta hljóma mjög vel og hlakka til að halda áfram að fylgjast með þér svona úr fjarlægð :)
Bestu kveðjur,
Svava
Svava 8.9.2008 kl. 20:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.