Ævintýri í húsbílaferð

Hér er eitt sem þarf að passa sig á ef menn ætla með húsbílinn sinn til Bretlands í gegnum Frakkland: laumufaþegar. 

Ég las í sumar grein í bresku dagblaði um feðgin sem voru að skila húsbíl sem þau höfðu leigt til að ferðast um á meginlandi Evrópu. Þau voru komin heim og voru að taka farangurinn sinn úr bílnum þegar dasaður ungur Afríkumaður skreið undan bílnum. Honum hafði einhvern veginn tekist að troða sér undir lágan bílinn og hafði hangið þar alla leiðina frá Calais í Frakklandi, í von um að komast til fyrirheitna landsins. Innflytjendalögreglan kom síðan og handtók hann, þannig að tilraun hans til að finna nýtt og betra líf í Bretlandi mistókst.

Bretar sem eru á leið til Evrópu með húsbíla er sumir hverjir víst varaðir við að stoppa í nágrenni við Calais með bílinn ólæstan, því það eru fleiri dæmi um svona laumufarþega, þó þeir fari víst reyndar frekar í farangurslestina á bílunum en undir þá.

Maður á erfitt með að ímynda sér örvæntinguna sem fær menn til að taka svona áhættu. 

Fréttin öll.

 


Að velja gott nafn á húsbílinn sinn

...er næstum því eins erfitt og að temja drekann sinn. Maður vill ekki að það sé hallærislegt, ófrumlegt eða fráhrindandi. Helst af öllu vill maður að nafnið sé einstakt, frumlegt og skemmtilegt.

Ég hef hingað til skýrt bílana mína með hestanöfnum sem pössuðu við litinn á þeim. Kannski ekki mjög frumlegt, en það virkar fyrir mig. Þannig var fyrsti bíllinn minn, ljós Fiat Panorama, nefndur Bjartur. Tveir smábílar (Toyota Starlet og Peugeot) sem ég átti ekki en hafði afnot af voru Rauðka og Rauður, MMC Coltinn minn var Mósi og Toyotan sem ég ek um á núna er Grána. Toyotan sem ég átti á undan Gránu var undantekningin því hún var grænsanseruð á lit og fékk aldrei nafn, þó mér dytti reyndar í hug að kalla hana Drekafluguna.

Nýi bíllinn er hvítur. Skjanna-, blindandi-, skærhvítur. Annar skítsælasti bílalitur á jarðríki á eftir svörtum. Svoleiðis bíll ætti eiginlega að heita Skjóni, en mig langar ekki að skýra hann einu hestanafninu enn. Sennilega bíð ég bara þangað til að ég er búin að nota hann í einhvern tíma og sé til hvað mér dettur í hug. Kannski er þetta ekki einu sinni strákur, heldur stelpa. Það verður bara að koma í ljós.

Annars vorum við mamma að ræða þetta um daginn. Þau pabbi eru með frumlegt nafn á sínum húsbíl sem oft hefur orðið að umræðuefni þegar húsbílafólk kemur saman, því allir vilja vita hvað liggur að baki nafninu. Mamma nefndi nokkur nöfn og þar á meðal var “Víðförli”. Þá fékk ég hugdettu og spurði “af hverju ekki bara Þorvaldur?” Það tók hana nokkur augnablik að fatta brandarann.


Vetrarútilega

Ég var að átta mig á því að það eina sem aftrar mér frá því að henda sængurfötum og vindsæng aftur í bílinn og prófa að fara í ferð með næturgistingu er að hann er á sumardekkjum. Ég er nefnilega handviss um að ef ég gerði það, þá mundi snjóa um nóttina eða rigna og síðan frjósa og ég mundi sitja spólandi einhvers staðar í hálku vegna dekkjanna.


Það væri einhvern veginn ekki eins mikil upplifun að sofa í bílnum í fyrsta skipti úti á bílastæði hjá foreldrum mínum.

 

 

 


Það er svoldið skrítið...

...þegar maður hugsar til þess að VW skuli brýna fyrir manni, í handbókinni sem fylgir bílnum, að vera ekki með neitt lauslegt inni í stýrishúsinu, en bjóða síðan upp á fullt af hólfum og bökkum undir dót, sem öll eru opin nema öskubakkinn. Það er ekki einu sinni lok á hanskahólfinu. Ef maður á ekki að vera með neitt lauslegt skröltandi þarna inni, undir hvað eru þá hólfin? Loftið tómt?

geymslur.jpg


Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 2. hluti

Þegar gólfið er frágengið verður næsta verk að koma raflögnunum fyrir. Síðan verður flutningsrýmið  klætt að innan, því það er ekki beint vistlegt þessa stundina: berir hvítlakkaðir veggir með alls konar bungum og götum fyrir festingar og aukahluti af ýmsu tagi.

 

Í það verk þarf einangrunarefni, filt eða teppi og viðarpanil. Ég hef séð myndir af bílum sem voru algerlega þiljaðir að innan með panil, og mér leist engan veginn á það - mundi fá innilokunarkennd. Því verða væntanlega settar panilplötur innan í plássin þar sem hægt er að taka úr hliðunum til að setja glugga, og síðan þakið með ljósu teppi á milli. Ekki kemur heldur til greina að vera bara með teppi, af sömu ástæðu og ég kæri mig ekki um alklæðningu með panil.


einangrun.jpgEinangrunarefnið fer undir panilplöturnar, en teppið á að nægja til að einangra önnur svæði. Einangrunin sem varð fyrir valinu heitir Reflectix og er úr tveimur lögum af áli og pólýetýleni - það sama og er notað í neyðarteppi - með bóluplasti á milli. Það endurkastar allt að 97% af öllum varma og er því góð einangrun gegn hitatapi, og veitir líka raka- og hljóðeinangrun. Erfiðir staðir eins og hjólskálarnar verða væntanlega klæddir með teygjanlegu teppaefni. Svo verður klæðningin í loftinu tekin niður og einangrað undir hana. Veit ekki alveg hvort ég vil fá teppi meðfram henni - það má a.m.k. ekki vera dökkt því þá fengi ég innilokunarkennd.


Hvað panilinn varðar, þá þarf ekki þykkar plötur í hann, bara 2-3 mm, því að hann verður uppi í hliðunum þar sem ekki mæðir mikið á honum. Ég mundi allt í einu eftir baki úr gömlum Ikea-bókaskáp sem ég hélt eftir þegar ég henti skápnum og ætlaði að nota í eitthvað. Það er með beykiáferð og lítur vel út, og mundi gefa hlýlegan blæ innandyra. Gallinn er bara sá að ég er eiginlega búin að velja eik í innréttinguna. Sá nefnilega þessar fínu eikar-límtrésplötur á vinsamlegu verið í Bauhaus. En, það er alltaf hægt að kaupa harðplastsklæðningar (e. laminate) í réttum viðarlit og líma á plöturnar. Ég sá t.d. nokkrar flottar þannig þegar ég fór í Þ. Þorgrímsson til að kaupa einangrunardúkinn.

 

Kannski tek ég mig meira að segja til og kaupi veggfóður á plöturnar, mála þær eða klæði með svampi og strekki efni yfir. Það kæmi líka til greina að líma korkþynnu á eina þeirra til að búa til minnistöflu, eða mála hana með segulmálningu til að fá segulminnistöflu, eða með krítartöflumálningu til að fá krítartöflu. Því miður er víst ekki hægt að nota þetta tvennt saman til að búa til segulmagnaða krítartöflu, en.að væri mögulegt að nota stálplötu og mála hana með krítartöflumálningu, eða bara sleppa því að líma teppi á smá hluta af veggnum og mála blettinn með krítartöflumálningu. En þetta er allt hægt að hugsa betur um seinna, því það er einfalt mál að losa panilinn.


Þegar þessu er lokið er fyrst hægt að fara að huga að því að smíða innréttingarnar. Pabbi er illa kvefaður þessa dagana og þar sem það er búið að vera kalt og vinnan inni í bílnum kemur til með að fara fram utanhúss er stopp á framkvæmdum sem stendur. Mamma mundi seint fyrirgefa mér ef hann fengi lungnabólgu.

Að breyta sendiferðabíl í húsbíl, 1. hluti

Það sem allra fyrst þarf að gera til að breyta sendiferðabíl í húsbíl er að gera hann tilbúinn undir tréverk. Notaðan bíl þarf etv. að gera eitthvað við og kannski mála að innan, og auðvitað þrífa.


Þar sem bíllinn minn er glænýr þarf ekki að gera neitt af þessu (sem betur fer, segi ég). Pabbi lét það verða sitt fyrsta verk að taka úr honum skilrúmið á milli flutningsrýmisins og farþegarýmisins. Það er nefnilega mikilvægt að geta komist aftur í án þess að fara út úr bílnum. Það er ekki bara snyrtilegra: maður ber ekki óþarfa sand, jarðveg, vatn eða drullu inn; heldur líka hagkvæmara: maður hleypir ekki hitanum út með því að opna dyrnar; og svo er það þægilegra: maður blotnar ekki í rigningu eða verður kalt í roki eða frosti á leiðinni. Ég á aftur á móti eftir að sjá hvort ég get yfirleitt bramboltast þarna aftur í á milli sætanna...


Er annars einhver að leita að skilrúmi í VW Caddy? Mitt er nefnilega til sölu. Tilboð óskast.


Næst fór gólfmottan. Hún verður annað hvort seld eða notuð til að sníða úr henni litlar mottur til að hafa við inngangana. Ef hún væri aðeins þjálli og auðveldara að brjóta hana saman mundi ég freistast til að geyma hana í bílnum og nota hana sem útimottu þegar ég vil sitja úti í góðu veðri.


Síðan fór hirsla á gólfinu sem er ætluð undir smádót en hefði bara orðið fyrir (það er önnur hinum megin, sem verður gott að hafa undir rúmbekknum), og nokkrar flutningslykkjur sem eru skrúfaðar við gólfið til að hægt sé að binda niður farm í bílnum. Skrúfugötin frá þeim verða notuð til að festa gólfplötuna niður.  


Það fyrsta sem bætist við er nefnilega gólfplata, því gólfið í bílnum er bæði ójafnt og óeinangrað. Það fer einangrun í botninn og síðan kemur þykk krossviðarplata og ofan á hana fer gólfdúkur. Sennilega vel ég ljósan dúk í hlutlausum lit, samt ekki hvítan, því hann er svo skítsæll, og ekki heldur gráan, því mér finnst það niðurdrepandi litur þó hann feli reyndar skít glettilega vel. Teppi kemur ekki til greina á gólfið: það er bara hægt að þrífa það þar sem maður nær í ryksugu, og mig langar ekkert að vera að drösla slíku tæki með mér í ferðalög.

 

Held ég fari eftir vinnu á mánudaginn og nái mér í nokkur sýnishorn af gólfdúk.

Við fórum á fimmtudaginn í Byko og keyptum krossviðinn og gengum í að sníða plötuna til þannig að hún liggur nú slétt á gólfinu og fellur þétt að öllum útlínum innan í rýminu. Nú þarf að huga að því hvort það þurfa að koma einhver göt í gólfið, t.d. þarf að koma gat niður úr hólfi fyrir gaskút (svo að gasið geti lekið út ef það bilar ventill á kútnum), þannig að það þarf að staðsetja það pláss snemma í ferlinu. Ef ætlunin er að vera með stóran affallskút er líka gott á þessu stigi að gera ráð fyrir stút til að tæma hann utan frá. Minn verður það lítill að ég mun geta kippt honum út og hellt út honum, enda er ég að reyna að spara pláss, en í stærri bíl sem er notaður af fleira fólki er gott að vera með 50 lítra affallskút eða stærri og þá hreyfir maður ekki svo glatt.

Líka er gott að hugsa um hvort það eiga að koma einhverjar raflagnir undir gólfplötuna, en ég held reyndar að það sé sniðugra að festa þær undir klæðningarnar á veggjunum, helst hafa þær liggjandi í kverkum eða etv. þræða þær á milli hinna ýmsu gata í hliðunum, því þá er einfaldara að komast að þeim þegar eitthvað bilar.

Næsta verk er að einangra gólfið. Svo verður sennilega farið í að fúa- og vatnsverja plötuna áður en hún er fest niður, því maður veit aldrei hvað getur gerst - t.d. gæti komið leki að vatnsbrúsanum eða rignt meðfram illa lokaðri hurð, nú eða bara þessi óumflýjanlegi raki sem fylgir íslensku veðri. Ég er líka að hugsa um að bóna gólfið áður en einangrunin kemur í, til að fá smá auka ryðvörn.

Loks er platan fest niður (og gerð á hana viðeigandi göt ef einhver eru). Síðan er að festa hana niður, og loks að leggja gólfefnið á hana.

 Síðan er hægt að snúa sér að veggjunum og loftinu. 

Myndir af ferlinu:

Platan sett inn til að merkja hvar skuli saga úr henni:

golf01.jpg

 

Platan komin á gólfið, úrsöguð og fín, bara eftir að stytta endann:

 golf02.jpg

 

Búið til mát til að sníða endann eftir:

golf03.jpg

 

Platan mátuð við og smellpassar:

golf04.jpg


Útileguhremmingar

Ég minntist á það um daginn að ég er hætt að vilja sofa í tjaldi. Ástæðurnar eru ýmsar.

Það er ekki að ég sé ekki tjaldvön: Þegar ég var barn og unglingur ferðaðist fjölskyldan mikið og þá var nánast alltaf sofið í tjaldi og það var alltaf skemmtilegt, ekki síst þegar rigndi. Það var svo gaman að liggja í hlýjum svefnpokanum og hlusta á regndropana smella á tjaldhimininn, þó það værri reyndar minna gaman þegar það flæddi inn í tjaldið og maður vaknaði ofan í polli, blautur inn að skinni og kaldur inn að beini. Það gerðist sem betur fer ekki oft, enda kunnum við að velja tjaldinu stað.


Þetta hefur eflaust gert það að verkum að síðar meir kallaði ég ekki allt ömmu mína þegar kom að því að velja gistingu á ferðalögum mínum um fjarlæg lönd. En maður breytist og smám saman, eftir því sem ég eltist og varð vanafastari samhliða því að fjárhagurinn styrktist, fór ég að sækja í betri gistingu og vandist því að hafa það þægilegra.


Sumarið 2009 fékk ég lánað tjald og ók hringveginn. Þá hafði ég ekki sofið í tjaldi í ca. 19 ár. Eftir fyrstu nóttina var komið á hreint að þetta var ekki fyrir mig, þó að ég léti mig reyndar hafa það tvær nætur til viðbótar í ferðinni. Að einhverju leiti var þetta búnaðinum að kenna, en aðallega samt öðru.


Tjaldið var hefðbundið, gamaldags tjald, sem sagt ekki kúla heldur þak, en það var ekkert mál fyrir einn að tjalda því, það var svo lítið. Ég var með þægilega vindsæng, þannig að það var ekki hart undir mér, en þriggja árstíða svefnpokinn sem ég fékk lánaðan með tjaldinu var þannig gerður að hann hélt bara á manni hita ef maður fór alveg ofan í hann og dró fyrir hann þannig að nefið eitt stóð út úr. Sem betur fer er ég ekki með innilokunarkennd, en þegar maður er vanur að sofa í krossfisksstellingunni er þetta ansi þröngt. Mig hafði aldrei langað neitt sérstaklega að vita hvernig það er að vera rúllupylsa, en þarna fékk ég sem sagt góða hugmynd um það.

 

bill_tjald.jpg


Í ofanálag var pokinn úr efni sem var slétt og glansandi og hafði fyrir bragðið ekkert grip. Þetta gerði það að verkum að þegar upp á vindsængina var komið var ég eins og belja á svelli, eða öllu heldur ormur, því ekki hafði ég hendurnar til að bera fyrir mig. Pokinn rann til við minnstu hreyfingu og af því að ég þurfti að hafa handleggina ofan í honum til að það héldist á mér hiti var ómögulegt að halda mér á vindsænginni. Um leið og ég hélt að ég væri búin að koma mér almennilega fyrir rann ég af stað og lenti á maganum við hliðina á vindsænginni. Eftir mikið ið og blótsyrði tókst mér að komast á réttan kjöl og renna niður rennilásnum til að koma fyrir mig höndunum og toga mig upp á vindsængina.

 

Þetta endurtók sig a.m.k. tvisvar.

Þarna hefði venjuleg þunn tjalddýna bjargað miklu.

 

Verst var samt að ég á við það vandamál að stríða að geta ekki sofið heila nótt án þess að fara að minnsta kosti tvisvar á fætur til að míga. Þetta kann að hljóma sem lítilfjörlegt vandamál, en það verður frekar stórt þegar litið er til eftirfarandi:


Nætur eru almennt svalar eða jafnvel kaldar á Íslandi – líka á sumrin – og það að renna upp svefnpokanum, klæða sig liggjandi, brölta á fætur og tölta á óupphitað tjaldstæðisklósett til að pissa, tölta til baka, hátta sig og renna sér aftur ofan í svefnpokann - sem er þá orðinn skítkaldur - er til þess gert að maður sefur ekki meira þá nóttina. Tilraunir til að forðast þetta pisseríisástand með því að drekka ekkert eftir kvöldmatinn verða bara til þess að ég vakna í staðinn um þrjúleitið með ægilegan munnþurrk. Þessa tilteknu nótt var pisseríið sérlega slæmt og ég þurfti að fara á fætur á miðnætti, aftur um klukkan tvö og enn aftur um klukkan fimm, og með öllu þessu brölti og kulda varð lítið um svefn. Þarna fylltist ég öfund út í karlmenn, sem geta bara migið í flösku ofan í svefnpokanum, hent henni út í horn og farið aftur að sofa.


Það var heldur guggin og pirruð kona sem skreið út úr tjaldinu um morguninn og horfði illum augum á glaðhlakkalegan þröst uppi í nálægu tré sem hafði með háværum og eflaust dillandi söng sínum vakið hana upp af fyrsta almennilega lúrnum sem hún fékk um nóttina. Það bætti ekki úr skák að gashylkið í prímusnum reyndist næstum tómt og þegar einn bolli af vatni var varla farinn að volgna eftir korter yfir vesældarlegum bláum loganum þá gafst ég upp, tók búnaðinn saman og fann sjoppu til að fá mér morgunmat.


img_2715.jpgÉg svaf síðan sitjandi í bílnum daginn eftir þegar svefnleysið fór að taka í. Þennan dag rigndi svo mikið að ég keypti mér gistingu og náði þannig að hvílast nógu mikið til að geta haldið ferðinni áfram, en þriðja nóttin (önnur tjaldnóttin) var jafn slæm og sú fyrsta, þó það væri heldur hlýrra úti og styttra á klósettið. Fjórða kvöldið flúði ég tjaldstæðið á Eskifirði og fékk inni á gistiheimili í ausandi rigningu, þannig að aftur fékk ég hvíld frá tjaldinu, en eftir fimmtu nóttina, sem var þriðja tjaldnóttin, tóku þau sig saman blaðran í mér, miðnætursólin og þrastakór Norðurlands eystra um að halda fyrir mér vöku. Þá ákvað ég að nóg væri komið. Ég ók á einum degi frá Ásbyrgi til Skagastrandar, þar sem ég átti vísa gistingu, og þaðan í bæinn daginn eftir. Þegar heim kom skilaði ég tjaldinu og svefnpokanum og sagði „ekki meir!“

 

Þessi tjaldfælni hamlar manni auðvitað töluvert á ferðalögum innanlands. Ef mann langar að fara eitthvað lengra en dagsferð þarf að finna sér gistingu og þar sem ég er gjörn á að fara eftir veðri og leggja af stað með korters fyrirvara get ég ekki pantað gistingu með þeim fyrirvara sem þarf til að fá eitthvað ódýrt (ég þarf ekki mikið: bara rúm í hlýju herbergi og aðgang að inniklósetti).

Sem betur fer alls staðar á Íslandi hægt að finna skemmtilega og fallega staði til að skoða og það er hægt að ferðast töluvert langt og komast samt heim aftur á einum degi. Sem dæmi um dagsferðir frá Reykjavík má nefna hringinn á Snæfellsnesinu, Gullna hringinn, Suðurstrandarhringinn, Þórsmörk (fyrir þá sem eiga jeppa), að Skógum og til baka, eða þá hringinn eftir Kaldadal uppfrá Þingvöllum og niður í Borgarfjörð hjá Húsafelli, nú eða úr Lundarreykjardal upp á Uxahryggi og Kaldadal niður á Þingvelli og þaðan í bæinn. Þetta er ég allt búin að gera síðustu tvö sumur og nú er mig farið að langa til að fara í lengri ferðir. Húsbíllinn bjargar því.


Ég er þegar farin að skipuleggja ferðalög næsta sumar, bæði lengri og styttri. Til dæmis hefði ég ekkert á móti því að taka Snæfellsnesið í rólegheitunum á tveimur eða jafnvel þremur dögum, eða þá að skreppa austur á Jökulsárlón án þess að hafa áhyggjur af því að lenda einhvers staðar utan vegar í bakaleiðinni vegna syfju.


Svo er það auðvitað hringurinn plús Vestfirðirnir. Held ég láti Norðurlöndin og Þýskaland bíða til þarnæsta sumars, þegar reynsla verður komin á bílinn og fjárhagurinn eftir framkvæmdirnar er kominn í lag.


Húsbílaupplifun fyrir byrjendur

Volkswagen Caddy er til í ýmsum útfærslum. Grunngerðirnar eru skutlur í tveimur stærðum: Caddy og Caddy Maxi. Báða er hægt að fá í fólksbílaútfærslu, fimm sæta og sjö sæta. Svo er það Tramper-útfærslan. Hann byggist á fimm sæta Caddy-fólksbílaútfærslu með stórt farangursrými. Þessi bíll er ýmist kallaður Caddy (Maxi) Tramper eða Life Tramper, sennilega eftir markaðssvæðum. 

 

vw_tramper.jpgTramperinn er útilegubíll. Ég mundi ekki kalla hann húsbíl, því mér finnst að til að kallast húsbíll þurfi bíll ekki bara að búa yfir svefnaðstöðu, heldur líka einhvers konar fastri innréttingu og helstu þægindum, s.s. eldunaraðstöðu og kæliboxi/ískáp, og helst vaski og klósetti.


Þó að allt þetta (nema innréttinguna) megi setja í Tramperinn (kæliboxið fylgir honum reyndar frá framleiðanda), þá er erfitt að nota það inni í bílnum og það þarf að ganga frá því eftir notkun, rétt eins og maður væri í tjaldi eða tjaldvagni.


Sætin leggjast fram og ofan á þau leggst dýna og þá er komið rúm. Undir því er geymsla. Þar má finna kælibox, útileguborð og tvo stóla, og annan búnað sem fylgir bílnum, s.s. gardínur og mjúk geymsluhólf sem er hneppt innan á veggina. Líka fylgir bílnum fortjald og svo er hægt að fá sóllúgu og mér sýnist líka vera hægt að fá hækkanlegan topp.


Þessir bílar eru ekki til hjá Heklu og mér vitandi er enginn slíkur í notkun hér á landi, en þeir geta sérpantað þá fyrir þá sem vilja.

Þetta er flottur fyrsti kostur fyrir fólk sem vill fá að prófa húsbílalífið án þess að eyða allt of mörgum milljónum í að kaupa innréttaðan húsbíl, því það er lítið mál að taka úr honum útilegubúnaðinn og nota hann sem fjölskyldubíl á milli ferðalaga.

Hér er umsögn. Og myndir.

 


Tryggingar

 

dsc00842_1248500.jpg

 

Áður en ég fór til að sækja kerruna fór ég inn á vefsíðu tryggingafélagsins til að athuga hvort búið væri að tryggja bílinn. Bílasölur sjá yfirleitt um slíkt, en ég vildi vera viss um að kaskótryggingin hefði ekki gleymst.

 

Mitt einkasvæði á vefsíðunni opnaðist og það var sjokk: ábyrgðartryggingin hljóðaði upp á tæpar 200 þúsund krónur, og kaskóið rétt tæp 100 þúsund. Ég var í hálfgerðri andnauð þegar ég hringdi í tryggingafélagið, því ég hafði fengið allt aðrar og viðkunnanlegri upphæðir uppgefnar nokkrum dögum áður.

 

 

Í ljós kom að þeir hjá Heklu höfðu sent upplýsingar um að þetta ætti að vera atvinnubíll - enda eru VW Caddyarnir seldir sem slíkir - þó að þeir vissu reyndar að þetta átti að verða einkabíll. Þegar sá misskilningur hafði verið leiðréttur lækkuðu upphæðirnar niður í viðunandi tölur og andardrátturinn léttist: ábyrgðartryggingin er “bara” rúmlega 95 þúsund og kaskóið rúmlega 40 þúsund.

 Ég var búin að taka gamla bílinn úr kaskó, þannig að róðurinn verður ekkert allt of þungur að tryggja tvo bíla, og í vor verður ástandið vonandi orðið þannig að ég get látið hinn bílinn fara. Það verður eiginlega að gerast, því sumardekkin á Toyotunni eru orðin frekar slitin og það þarf sennilega að kaupa ný í vor. Það er reikningur upp á lágmark 80 þúsund og dreifist ekki yfir árið eins og tryggingarnar. Ég vil helst sleppa við að kaupa ný dekk undir bíl sem ég eru um það bil að fara að selja.

 


Búin að fá bílinn

dsc00841.jpgÉg fékk bílinn afhentan í gær. Þetta er í fyrsta skipti sem ég eignast alveg nýjan bíl og tilfinningin er sérstök. Ég fékk að fara úr vinnunni til að sækja hann og pabbi hitti mig við Heklu þar sem við tók hátíðleg athöfn: opinber afhending á tækinu með miklum handaböndum og öskju af konfekti (sem reyndist útrunnið þegar til kom, en bragðaðist samt vel) og kennsla á ýmsan tækjabúnað í bílnum.


Það er t.d. hægt að tengja saman bílinn og snjallsíma með bluetooth-tækni þannig að þegar síminn hringir lækkar sjálfkrafa í útvarpinu, það er hægt (að vissum tæknilegum skilyrðum uppfylltum) að sjá á mælaborðstölvunni hver er að hringja í mann, og svo er innbyggður handfrjáls búnaður í bílnum. Ætli þetta sé ekki orðinn staðalbúnaður í bílum í dag?


dsc00838.jpgÍ bílnum er líka símkort sem er notað til að stýra olíukyndingunni í honum. Ef ég sæki mér ákveðið app get ég sem sagt ræst kyndinguna með því að hringja í bílinn úr snjallsíma og hitað hann upp áður en ég kem út í hann. Reyndar kemur það ekki til með að gagnast mér mikið dagsdaglega, því það gengur á rafgeyminn og ég er yfirleitt ekki á nógu löngum akstri innanbæjar til að hlaða rafgeyminn almennilega eftir slíkt. Það er hins vegar líka hægt að ræsa olíukyndinguna innan úr bílnum. Á ferðalögum þýðir þessi kynding að ég get hitað upp bílinn á nóttunni án þess að ræsa vélina og vekja upp hálft tjaldstæðið í kringum mig. Ég ákvað að vera ekkert að sækja appið fyrr en ég fer að nota bílinn fyrir alvöru, og kem varla til með að nota það mikið, en það er gott að hafa það ef með þarf.


Svo er aksturstölva í honum. Sumt kannast ég við úr Toyotunni minni, s.s. meðaleldsneytisnotkun, en annað var nýtt fyrir mér, s.s. eldsneytiseyðsla í ferð, o.fl.


Að athöfn lokinni ók ég honum inn í Kópavog til mömmu og pabba, þar sem hann verður næstu mánuðina á meðan við pabbi dundum okkur við að innrétta hann. Ég fer að heimsækja bílinn eftir vinnu í dag og ætla þá að setjast inn í hann með handbókina og læra á tækin.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband