Mánudagur, 16. nóvember 2009
Brrrrrrrr!
Ég for í ferð með leiðsögn um Jaipur á föstudaginn. Leiðsögumaðurinn var Rajastani með tilkomumikið yfirvararskegg, en menn leggja mikið upp úr slíku hér um slóðir. Því miður var varla hægt að skilja hann, hreimurinn var svo þykkur, en maður náði svona helmingnum og gat notað leiðsögubókina til að geta í eyðurnar. Við skoðuðum meðal annars höll fyrrum maharajans af Jaipur, stjörnuskoðunarstöðina Jantar Mantar, 2 tilkomumikil en frekar hrörleg virki, og Amber-virkið, sem er frægt fyrir stærð og fegurð. Útsýnið þaðan ku vera hið fegursta, en það var bara allt of mikil þoka til að maður sæi mikið.
Svo var farið með okkur í tvær verslanir, undir því yfirskini að sýna okkur hefðbundið rajastanskt handverk. Reyndar voru báðar verslanirnar með tiltölulega vandað handverk, en bara í dýrari kantinum, svona rétt til að þeir geti haft eitthvað upp úr þessu ásamt því að borga leiðsögumanninum umboðslaun. Þetta var reyndar ferð á vegum ferðamálaráðs ríkisins hvernig ætli ferðir á vegum ferðaskrifstofanna séu þá?
Ég pantaði mér far til Udaipurá laugardagskvöldið og lenti á biðlista. Fékk svo staðfest að ég fengi far og var komin út á lestarstöð góðum tveimur klukkutímum fyrir brottför að ég hélt. Lestinni seinkaði síðan átti að fara af stað kl. 22:30, en gerði það ekki fyrr en 6:30. Á endanum var hún 9 tímum á eftir áætlun, og ég átti vonda nótt á lestarpallinum því það var alltaf verið að smá-mjatla í mann seinkuninni í stað þess að láta vita strax hversu mikil hún yrði endanlega. Því var ómögulegt að leita sér gistingar. Ég svaf á endanum samanhnipruð undir kasmírsjalinu sem mér var gefið í Delhi, á gólfi lestarstöðvarinnar í napurlegri þoku sem gerði allt rakt og þvalt. Enda er ég núna komin með heiftarlegt kvef ofan í mig og hósta í sífelldu.
En ég var fljót að finna ágætis hótel, nógu langt frá vatnsbakkanum til að það er ekki mikið um moskítóflugur (bara 4 bit komin), en nógu stutt til að vera í göngufæri. Meira á morgun.
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.8.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 26
- Frá upphafi: 33275
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ hæ Jóhanna mín, gaman að fá fréttir af þér og ævintýrum þínum í Indlandi.
Loðni leiðsögumaðurinn þinn hljómar hreint kostulega, kannast við svona leiðsöguferðir í verslanir frá ferðum mínum um Asíu hérna í denn :)
Indverskar lestarstöðvar hljóma nú hreint ekki vel og stundvísi virðist ekki vera hátt skrifuð þarna...en gott að þú komst á endanum á áfangastað. Nú dríf ég mig á netið og googla Udaipur :)
Bestu kveðjur,
Svava
Svava 16.11.2009 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.