Apar, pönnukökur og heimsókn til skósmiðs

Jæja, þá fer dvölinni hérna í Shimla að ljúka. Ég hef haft það mjög gott hérna (fyrir utan næturkuldann), en nú er tími til kominn að halda áfram ferðalaginu. Ég er búin að fá far með næturlest til Delhi á morgun. Af því að foreldrar vinkonu minnar fara með sömu lest, þá fæ ég far með þeim til Kalka, sem þýðir að ég spara mér á bilinu 250 til 1200 rúpíur, eftir því hvaða ferðavalkost ég hefði tekið niður eftir: rútu (ekki spennandi eftir fréttir dagsins: 33 látnir eftir rútuslys í nágrenninu í gær), smálestina (búin að gera það, og þó það hafi verið gaman, þá eru sætin óþægileg og 95 km. á 5:30 klst. er svolítið hægfara), eða leigubíl (sem ég hefði þurft að deila með ókunnugum til að geta borgað temmilegt verð fyrir).

Í gær tók mín sig til og steikti pönnukökur. Vinnumaður vinkonu minnar hitaði mjólkina og ég nennti ekki að bíða eftir að hún kólnaði, svo ég blandaði henni heitri saman við hveitið, sem er mjög fínmalað, og útkoman var kekkir. Þeim var eytt með töfrasprota, en hitinn hafði gert það að verkum að pönnsudeigið varð búðingslegt og skreið til á pönnunni eins og lifandi væri í stað þess að loða við hana. Pannan var chappati-panna, en þær eru í grunninn plötur með pínulitlu skálarlagi til að hægt sé að nota þær yfir gaseldi. Fyrir bragðið urðu þetta hálfgerðar lummur, en bragðið var alveg eins og maður er vanur að heiman. Notaði kardimommur til að gefa bragð, og fékk hrós fyrir.

Í dag hélt vinkona mín hádegisverðarboð fyrir 3 vini sína sem búa hérna, og við fengum skemmtun: hópur af langur-öpum kom og raðaði sér í tréð fyrir utan stofugluggann, á svalahandriðið og gluggakistuna. Því miður eru þeir feimnir við myndavélar svo ég náði ekki mynd, en ég held ég hafi aldrei komið svona nálægt villtum dýrum á ævinni. Bara gluggarúða á milli. Langúrarnir eru fallegri en rhesus-aparnir sem ógna vegfarendum hérna, og eru ekki eins ágengir. En þeir hefðu aveg mátt sleppa því að vekja mig með hamagangi uppi á þaki klukkan fimm í morgun.

Eftir að gestirnir voru farnir fórum við tvær niður í bæ, hún til að kaupa afmælisgjöf handa dóttur nágranna síns, og ég til að láta gera við gönguskóna mína. Ég var þegar búin að láta festa sólann aftur við annan þeirra, en í þetta skipti var það gat á ytra byrði hins skósins sem hafði heldur stækkað við göngur undanfarinna daga. Við fórum með skóna til sama skósmiðsins og áður. Sá er með vinnustofu úti á götu niðri á basar. Við horfðum sem dáleiddar á hann í næstum klukkutíma á meðan hann gerði snilldarlega vel við skóinn, límdi hann, bætti og saumaði, litaði bótina í nákvæmlega sama lit og skóinn, og hressti svo upp á útlit skónna að hver sá sem ekki þekkti til mundi halda að þeir væru nýir en ekki 15 ára gamlir.

Ég verð í Delhi eins stutt og ég get – á mánudaginn ætla ég að reyna að hitta kunningja minn sem ég kynntist í Króatíu í fyrrasumar, og líka að athuga með viðgerð á myndavélinni. Ef viðgerðin reynist of tímafrek eða dýr, þá ætla ég að kaupa nýja vél – get fengið ágætisvél fyrir um 30 þúsund. Á þriðjudaginn ætla ég svo að kíkja inn á þjóðminjasafnið, í ríkisrekna verslun með indverskt handverk, og í verslum til að kaupa mér eitt eða tvo sett af salwar kameez. Það er hefðbundinn búningur kvenna í Punjab-héraði sem konur út um allt land hafa tekið upp sem hversdagsfatnað, og er mjög þægilegur: víðar buxur, dregnar saman í mittið, síð skyrta við og slæða sem er kölluð dupatta. Ég ætlaði fyrst að láta sauma á mig hérna uppfrá, en öll efnin sem stóðu til boða eru of þykk og hlý fyrir veðurfarið niðri á sléttunum og fyrir sunnan. Vinkona mín benti mér á verslun í Delhi þar sem maður getur keypt tilbúin svona föt í stórum stærðum, og ég held að það sé sniðugt að kaupa tvö sett sem ég get blandað saman eftir þörf.

Frá Delhi verður haldið til Rajastan, byrja líklega í Jaipur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mikið er gaman að lesa ferðasöguna þína, haltu áfram að njóta ferðarinnar og ég bíð spennt eftir næsta kafla í ferðasögunni.  kv Ingibjörg

Ingibjörg 10.11.2009 kl. 08:27

2 identicon

Hæ hæ Jóhanna mín

Næst verður þú bara að baka pönnukökur fyrir apana - þeir eru greinlega mjög áhugasamir um mat :) Endilega skelltu inn mynd af þér í salwar kameez um leið og þú nærð í nothæfa myndavél og haltu áfram að skemmta þér í Indlandsreisunni! 

Bestu kveðjur úr reykvískri rigningu,

Svava

Svava 10.11.2009 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband