Miðvikudagur, 4. nóvember 2009
Musteri, musteri, og aftur musteri
Í gær og í dag hef ég verið að heimsækja musteri borgarinnar með foreldum vinkonu minnar. Hún hefur bíl og bílstjóra til afnota á vegum vinnunnar sinnar og getur notað hann í persónulegum tilgangi, svo á meðan hún er í vinnunni höfum við notað bílinn til að komast í musterin. Þau eru Hindúar og fara til að biðjast fyrir en ég til að skoða. Það eru engin verulega gömul musteri hérna, það elsta er frá því um miðja 19 öld, en þau eru talin standa á grunni eldri mustera.
Í gær fórum við að musteri Tara Devi, sem er talsvert langt í burtu héðan, uppi á hárri hæð. Vegurinn hlykkjast þarna upp og þaðan er frábært útsyni til allra átta. Þegar á staðinn kemur fer maður úr skónum og fer berfættur upp í musterið. Gyðjan er tilbeðin inni í lágreistu húsi sem stendur inni í blómstrandi garði, og er logagyllt og lítil það sést bara s sem gægist upp úr glingurlegri fatahrúgu - og standa líkön af Kalí og Sarasvati (nú er það alfræðiorðabókin...) vörð um hana. Trén í garðinum eru öll þakin í rauðum klútum með gylltu kögri sem fólk kaupir fyrir utan musterið og bindur utan um trén og óskar sér einhvers um leið. Það var meira en lítið skrítið að sjá kirsuberjatré í blóma þarna uppi, en auðvitað er skynsamlegra af þeim að blómstra núna en á sumrin, því það verður auðvitað allt of heitt fyrir blómin þá. Uppi á sömu hæð er líka Shiva-musteri, um 50 ára gamalt. Það er byggt í svo víkingalegum stíl að það er ekki fyndið. Það eina sem vantar er drekaútskurður, og þá gæti það staðið við Fjörukrána í Hafnarfirði.
Í morgun fórum við síðan að musteri Kali Bari sem er nánast í miðbænum. Fengum skutl þangað og gengum svo upp hæðina að musterinu. Þaðan er líka gott útsyni, yfir miðbæinn. Aðalmótsstaður bæjarbúa heitir Scandal Point ekki erfitt að ímynda sér hvað hefur gengið á þar á tímum Bretanna. Eftir heimsóknina til Kali skildi leiðir og ég fór í langa og erfiða fjallgöngu upp að Hanuman-musteri sem stendur á svokallaðri Jakko-hæð. Þangað er 1.5 kílómetra ganga upp mjög bratta hlíð, og þó það séu hér og þar þrep til hliðar við veginn til að hjálpa manni, þá er þetta þrælerfitt. Náði samt upp á 40 mínútum bara frekar gott fyrir manneskju með mitt holdafar. Af því að Hanuman er apaguð, þá eru aparnir þarna uppi heilagir og fyrir bragðið eru þeir enn hættulegri en aparnir niðri í bæ. Maður er varaður við að halda fast í allt lauslegt og fela gleraugu ef maður er með svoleiðis, því þeir eiga það til að hrifsa þau af manni og skila þeim ekki fyrr en þeir fá mat í staðinn.
Gangan niður var enn erfiðari en upp, því að ég er slæm í hnjánum og brattinn óskaplegur á köflum.
Verðlaunaði mig með cappucino þegar niður kom, á Lavazza-kaffihúsi, en valdi að láta gera það úr indverskum kaffibaunum, sem brögðuðust bara ágætlega. Samlokan var aftur á móti bragðlaus með öllu serves me right að fá mér ekki indverskan hádegismat.
Myndavélin er ennþá biluð.
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gott að frétta af þér vinkona og gaman að heyra hvað þú skemmtir þér vel. Þú ert bara eins og fjallageit, upp og niður snarbrattar hlíðar, ekkert smá ánægð með þig! Hlakka til að heyra frá þér næst, kíktu líka endilega inn á Fésið af og til :)
Bestu kveðjur
Svava
Svava 4.11.2009 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.