Pakklistar – ef þú notar ekki svoleiðis, þá mæli ég með að þú byrjir strax

Það hefur alltaf hjálpað mér til að takmarka farangursmagnið að útbúa pakklista og fylgja honum út í hið ýtrasta. Þegar ég byrjaði á þessu var hann yfirleitt frekar langur en styttist síðan þegar nær dró og ég var búin að prófa að pakka eftir honum og hafði uppgötvað hvað farangurinn var þungur með öllu „ég-gæti-þurft-á-þessu-að-halda“ draslinu. Ég er fyrir löngu búin að koma mér upp allsherjar pakklista yfir allt það sem teljast má nauðsynlegt að taka með í ferðalög og líka það litla og létta sem getur aukið þægindi, og síðan laga ég listann að áfangastaðnum og lengd ferðarinnar. Ef einhvern langar að prófa að útbúa svona pakklista, þá er gott að byrja með lista frá reyndum ferðalangi og laga hann síðan að sjálfum sér. Ég mæli með að prófa The Universal Packing List, sem er byggður á margra ára reynslu margra ferðalanga og býr ekki bara til pakklista sem hentar ferðinni, heldur líka lista yfir það sem maður þarf að gera áður en haldið er að heiman.

Það blasir ekki alltaf við hvað er gott að taka með sér. Sumt segir sig sjálft að maður verður að taka það með, eins og nærföt, vegabréf og peninga, á meðan annað er ekki eins augljóst, ss. eins og hengilás, svifdiskur og bútur af þunnu gúmmíi, og enn annað gæti einhverjum öðrum ferðalangi þótt vera alger óþarfi, t.d. dagbók, mp3-spilari eða myndavél.

Ég hef enn ekki náð taki á þeirri list að ferðast bara með handfarangur, enda er alveg hreint svakalega misjafnt hvað maður má taka með sér inn í farþegarými flugvéla. Sum flugfélög leyfa bara 4 kíló á almennt farrými á meðan önnur leyfa allt upp í 8 kíló. Það léttasta sem ég hef náð niður í  voru 12 kíló, sem reyndist blessun því að í því ferðalagi gat ég bjargað einum ferðafélaganum sem var með yfirvigt.

Hér er listinn yfir það sem fer í stærri töskuna:

Föt: 1 brjóstahaldari, 3 stuttermabolir, 3 pör af sokkum, 1 par af göngusokkum, 5 nærbuxur, gammosíur og langerma nærbolur, hettupeysa. Fer út í gallabuxum, langermabol, vindjakka og gönguskóm. Kaupi mér létt bómullarföt þegar út kemur.

Hreinlæti og heilsa: Andlitskrem, andlitsvatn og hreinsimjólk, bómullarklattar, eyrnapinnar, handáburður, handhreinsigel, handklæði, joð (sótthreinsandi), koddaver, naglaklippur, plástrar og blöðruplástrar, sápubox, sjampó og hárnæring, sótthreinsandi blautklútar. Allir vökvar og krem í ferðastærðum.

Ýmislegt smálegt, bæði gagnlegt og gott, sumt nauðsyn, annað kannski ekki lífsnauðsynlegt: 1 ljósrit af vegabréfinu og árituninni í hvora tösku, bókalímband, bómullartrefill, drykkjarkanna, einangrunarlímband í 2 breiddum, eyrnatappar, flísatöng, gleraugnaresept, grisjupokar, gúmmímotta til að nota sem tappa, hengilásar, kennaratyggjó, klemmur, lítill borð-þrífótur fyrir myndavélina, míkrófíbertuska, neyðar-saumasett, nælonsnúra, svifdiskur (nýtist sem leikfang, skurðbretti og diskur), teskeið, Tide-penni (blettaeyðir), vasaljós (handtrekkt snilldarverkfæri sem fæst í Tiger á 600 kr.), þvottahanski.

 

Ef ykkur finnst eitthvað vanta, svo sem eins og sápu, þá er það af því að ég ætla að kaupa það úti.

Ég gerði prufupakk í litla, létta (= hjólalausa og mjúka) tösku og hún vegur ekki nema tæp 6 kíló með öllu af þessum lista. Þetta er persónulegt met í mínimalískri farangurspakkningu og þýðir að af því að allur vökvinn kemst í líterspoka þá get ég farið með þetta sem handfarangur alla leið ef ég sleppi vasahnífnum, skærunum og heklunálinni. Jibbí!

Nú er bara að prófa að pakka í litlu töskuna – hún er tölvutaska þannig að ég get farið með hana inn líka – segi bara að þetta sé veski. Til vonar og vara þá kemst tölvutaskan tóm ofan í hina og ég tek stórt alvöru veski með mér sem er hægt að nota ef hitt gengur ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ohh ég vildi að ég hefði þó það væri ekki nema brot af skipulagshæfni þinni þegar kemur að því að pakka.  Saklausar norðurferðir okkar til tengdo eru eins og við eigum aldrei eftir að koma heim aftur og við látum eins og að við munum alls ekki komast í þvottavél (erum sem sagt nýbúin að "fatta það" að tengdó á þvottavél OG þurrkara...)

held áfram spennt að lesa bloggið þitt

Ingibjörg 23.10.2009 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 32978

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband