Meira um farangur: umbúnaðurinn

Spurningin virðist einföld: ferðataska eða bakpoki? En það er ýmislegt fleira sem maður þarf að athuga við val á tösku.

Það er óneitanlega auðveldara að taka með sér bakpoka ef maður þarf að ganga langar leiðir með farangurinn sinn. Pokinn, ef maður hengir hann rétt á sig, dreifir þunganum jafnt á herðar, bak og mjaðmir og maður fær síður allskonar skrokkverki og þreytist seinna en ef maður er sífellt að færa ferðatösku á milli handa eða axla. Ókosturinn við bakpokann er auðvitað að maður verður eins og einbúakrabbinn sem ber heimilið sitt á bakinu og svo er hann fyrir aftan mann þannig að jafnvel þó maður geti læst honum, þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að einhver laumist aftan að manni og noti hníf til að komast í töskuna. Það hefur líka þekkst að menn hlaði bakpoka svo mikið að það þarf að hjálpa þeim til að standa upp með pokann á bakinu, og ég hef oftar en einu sinni séð fólk með troðna 80 lítra bakpoka sem virðast vera svo þungir að það þyrfti ekki mikla vindhviðu til að það dytti aftur fyrir sig af þunganum.

Ferðatösku er hægt að vernda með því einfaldlega að hengja hana með ólina í kross yfir brjóstið þannig að það er ekki hægt að hrifsa hana af manni á hlaupum. Aftur á móti getur hún sigið í ef maður þarf að labba langt til að komast í leigubíl eða á hótel, og maður minnir helst á togara með slagsíðu.  

Ef ferðataskan verður ofan á, þá tekur við spurning um harða eða mjúka tösku, hjól eða ekki hjól, handfang eða axlaról, o.s.frv. Harðar töskur hlífa óneitanlega farangrinum betur en mjúkar, en ókosturinn er að þær eru harðar, þ.e. þó að þær séu hálftómar taka þær alltaf sama pláss á meðan þeim mjúku er hægt að þjappa saman með ól eða límbandi, og jafnvel nota þær fyrir kodda ef með þarf. Þær hörðu eru líka þyngri en þær mjúku, sem þýðir að það gengur meira á þessi 20 kíló sem maður má taka með sér í innritaðan farangur.

Hjólaspurningin er næst. Hjólin eru óneitanlega þægindaaukandi – á meðan maður er á sléttu flugstöðvargólfi eða gangstétt, en ókostir þeirra koma fljótlega í ljós þegar gangstéttin endar og moldar- eða malarstígur tekur við. Þau þýða líka að taskan er að minnsta kosti með harðan botn, því hjólatöskur eru flestar líka með handfang sem er hægt að draga út = aukaþyngd. Þungar hjólatöskur hafa líka þann ókost að eiga það til að festast á minnstu hindrunum, eins og t.d. þröskuldum og gangstéttarköntum, ef að hjólin neita þá ekki að snúast.

Handfangs/axlarólarspurningunni er auðsvarað: Bæði. Það er frábært að geta hengt þunga tösku á öxlina á sér þegar handleggirnir eru að slitna af manni, eða halda á henni þegar axlinar eru teknar að sía undan þunganum. (Best er samt að vera alltaf með létta tösku).

Síðan þarf að passa upp á að það sé hægt að læsa töskunni á einhvern hátt, því þar sem ég er að fara ferðast maður mikið með lestum og þá er gott að geta sett hengilás á rennilásana og fest töskuna með keðju við sætið sitt ef maður þarf að skreppa á klóið.

Ef bakpokinn verður aftur á móti ofan á, þá er um ýmislegt annað að ræða, til að byrja með hvort maður velur harða grind eða mjúkan poka. Sá harði er þyngri í sjálfum sér, og því mundi heilsumeðvituð manneskja velja mjúkan poka upp á það að gera að minnka burðinn. Helsti gallinn sem ég sé við bakpoka er sá að sumum þeirra er ekki hægt að læsa – þeim er mörgum hverjum bara lokað með reim að ofan og þau módel sem ég skoðaði voru almennt bara með einn flipa á rennilásnum = ekki hægt að læsa þeim með hengilás. Svo er það líka þekkt vandamál að bakpokar koma stundum skemmdir úr flugi, með rifnar ólar og brotnar sylgjur, því ef ekki er rétt frá þeim gengið fyrir flugið þá geta þeir húkkast á eitthvað og hlaðmenn heimsins eru ekki beinlínis þekktir fyrir að fara mjúkum höndum um farangur, hvað þá farangur sem tefur fyrir verki þeirra.

Í mínu tilfelli er enn verið að velta fyrir sér hvað skuli gera varðandi farangur. Ég á sæmilegan 28 lítra bakpoka sem er væri hægt að læsa ef ég set hring í flipann við endann á rennilásnum, og svo rúmar hann tæplega það sem ég er að hugsa um að taka með mér, og svo á ég minni bakpoka í handfarangursstærð sem er hægt að troða afganginum í. Gallinn er sá að ég ætla mér að versla þarna úti. Landið er frægt fyrir allskonar fallegt handverk, og ég hef ekki ætlað mér að fara þaðan án þess að taka með mér einhver góð sýnishorn heim. Því kemur líka til greina eðalgóð 40 lítra ferðataska með axlaról sem ég fékk fyrir slikk í Góða hirðinum. Heilsu minnar vegna hef ég jafnvel íhugað að nota litla hjólatösku, svokallaða flugfreyjutösku, því ég geri ekki ráð fyrir að vera mikið á röltinu eftir óhentugum vegum með hana, en það verður allt að koma í ljós þegar ég er búin að tína saman allt sem er á pakklistanum mínum og vigta það og rúmmálsmæla. Meira um það seinna.

 (Ég veit, ég veit: ég er alger nörd)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband