Föstudagur, 16. október 2009
Undirbúningur heldur áfram
Það eina sem var eftir til að ég kæmist örugglega af stað var að bóka farmiðana. Ég var búin að fara á netið daglega og skoða fargjöld og vissi því nokk hvað ég mundi koma til með að borga. Valið stóð í rauninni aðallega um hluti eins og tengiflug, biðtíma, brottfarar- og komutíma frekar en hvort ég borgaði 5 þúsund kallinum meira eða minna fyrir farið með hinu eða þessu flugfélaginu.
Það eru ótrúlegustu flugfélög sem fljúga þarna austur - fyrir utan flugfélög frá landinu er hægt að komast með British Airways (helv. dýrir), Emirates (besta þjónusta sem ég hef upplifað, en líka í dýrari kantinum), Gulf Air (dýrari en BA), Kuwait Air (nokkuð freistandi), tyrknesku flugfélagi sem ég man ekki nafnið á (viðunandi verð en stoppið í Istanbúl of langt til að maður nennti að hanga á flugvellinum og of stutt til að maður gæti með góðu móti farið inn í borgina). Endaði með að velja Air France, því þeir voru með bestu samsetninguna á verði, tengiflugi, biðtíma og brottfarartíma, þó að komutíminn til áfangalandsins sé reyndar áhyggjuefni: klukkan rúmlega ellefu að kvöldi, og svo má gera ráð fyrir amk. 2 tímum í bið eftir að komast í gegnum útlendingaeftirlitið, amk. miðað við sögur sem ég hef heyrt. Þá er klukkan hálf-sex að morgni heima á Fróni og má gera ráð fyrir að ég hafi verið á fótum hátt í sólarhring, og sé bæði úrill og ringluð. Flugið fer frá London til Parísar og þar skipti ég um vél og fæ beint flug á áfangastað.
Ætlaði fyrst að bóka á netinu, en netið hafði aðrar hugmyndir. Heimasíða flugfélagsins bauð ekki upp á að bóka í einu lagi flug á einn áfangastað og til baka frá öðrum. Fyrsta allsherjarbókunarsíðan bauð Íslendingum ekki upp á að bóka, en það kom ekki í ljós fyrr en kom að því að velja heimilisfang til að setja á pöntunina. Sú næsta var bara fyrir Breta. Sú þriðja hleypti manni í gegnum allt valferlið og gat síðan ekki sótt staðfestar bókunarupplýsingar á netið. Ég gafst því upp á að reyna að bóka á netinu og hringdi í Úrval-Útsýn, en þau redduðu mér einmitt síðast þegar ég gat ekki bókað netmiða. Þau tóku frá fyrir mig miða sem ég sótti svo og borgaði seinna um daginn þegar ég var búin að bóka flugið til London í gegnum heimasíðu Flugleiða. Það tókst svo vel að eina vandamálið var spurningin um hvar ég ætti að velja mér sæti í vélinni. Það er nefnilega svolítil list að gera það rétt, sérstaklega ef maður er kvenkyns og einn á ferð. Meira um það seinna.
Ég gat borgað fyrir Flugleiðaflugið með vildarpunktum - nema skatta og önnur svoleiðis gjöld, sem námu næstum 20 þúsund. Mikið hrikalega hafa flugvallarskattarnir hækkað!
Ég ákvað að fljúga til og frá London þó að aðalflugið færi frá París, því að það er svo dýrt að gista í París, og samdægurs-tengingin á milli Flugleiðaflugsins og Air France flugsins var óhentug.
Hvað um það, nú er bara eftir að kaupa gjaldeyri og ákveða hvað ég verð nauðsynlega að taka með mér, því ég ætla með eins lítinn farangur og ég mögulega kemst upp með. Meira um þær pælingar seinna...
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 32977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.