Þriðjudagur, 9. september 2008
Dagur 2
Kl. 9:30.
Hér rignir. Ég vaknaði klukkan 3 við að einhver skellti hurð á klósettinu það er hrikalega hljóðbært hérna og sofnaði ekki aftur. Það hefur rignt frá a.m.k. klukkan 4, svona ekta ausandi íslensk haustrigning. Mjög fegin að gönguferðirnar byrja ekki fyrr en á morgun, og vona að þá verði stytt upp.
Byrjaði daginn með morgunverði. Hér er boðið upp á afskaplega hollan morgunmat: tómatar, gúrkur, 17% ostur og sojaostur í boði ofan á rúgbrauð, flatbrauð og 2 aðrar tegundir af rúgbrauði. Það er smjör á boðstólum og reyndar las ég í gær að öll fita, hvort sem hún er úr jurta- eða dýraríkinu, inniheldur nákvæmlega jafn margar hitaeiningar, þannig að Létt & Laggott er bara sniðugt fyrir hjartað en ekki mittismálið. Auglýsingarnar eru sem sagt villandi og ætti að kæra þær. Svo er L&L bara vont. En áfram með morgunmatinn: það er hægt að fá sér hafragraut eða AB-mjólk, og alls konar múslí og fræ og klíði saman við, og líka ávexti. Síðan eru ca. 20 tegundir af tei og jurtaseiði, og hunang út í. Ekki hvítur sykur í sjónmáli. Ef einhvern langar í kaffi getur hann bara keypt sér það út í búð og hunskast með það inn í þvottahús til að hella upp á. Í gamla daga var víst bara hægt að hella upp á í reykhúsinu (sem er nú niðurlagt), þannig að reyklausir þurftu að skreppa út í Eden ef þá langaði í sopa.
Síðan tók við sundleikfimi, hörkugóð hreyfing í ca. hálftíma, mikið sprikl, og hopp, en allt í hægagangi út af vatninu. Ég fór svo og hitti lækninn, sem sagði mér að ég væri með góða tegund af offitu, þ.e. ég er svokallað epli (með fitu á maga og rassi) og þar með ekki í áhættuhópi vegna hjarta- og æðasjúkdóma eins og perurnar (fitusöfnun á rass og læri). Hann sagði líka að það væri ólíklegt að ég yrði nokkurn tímann tágrönn aftur, og að ég mundi líklega ekki léttast mjög mikið. Ég sagði honum að það væri ekki tilgangurinn með minni veru á staðnum, ég vil bara léttast nógu mikið til að losna við bakflæðið, hvort sem það verður vegna megrunar eða að magalæknirinn samþykki loksins að taka mig í aðgerð (hann vill fá mig niður í 80 kíló).Hann minntist líka á að hér væri unnið eftir því að ná fólki niður í þyngd sem ekki hefði slæm áhrif á heilsuna, en hún getur verið vel yfir svokallaðri kjörþyngd.
Ég fór líka á vigtina í morgun, og vó þá 101,6 kg. í fötum, þannig að ég er ca. 101 kg.
Næst er svo kynningarfundur, þar sem væntanlega verður farið ofan í saumana á meðferðaráætluninni.
Kl. 10:30.
Kynningarfundurinn búin. Þar fjallaði leikfimikennarinn um meðferðina og æfingar og annað sem við þurftum að vita.
Var ég annars búin að minnast á rigninguna? Hún er blaut, það er mikið af henni, það er rok, og leikfimikennarinn var að enda við að leggja til að við færum út að labba.
Meginflokkur: heilsa | Aukaflokkar: HNLFÍ, megrun | Facebook
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ hæ vinkona - mikið var ég glöð að sjá nýja færslu á blogginu, þú stendur þig alveg stórvel sem sérlegur fréttamaður saumaklúbbsins :)
Morgunmaturinn hljómar nú bara ágætlega í mín eyru og það verður nú ekki mikið mál fyrir þig að sleppa kaffinu ha ha ha ég ætti pínu erfitt með það. Mikið verður hann Dóri glaður að heyra þetta um hitaeiningarnar í smjörinu - hann hatar allt þetta magra gervismjör sem ég hef verið að reyna að koma í hann :)
Sundleikfimi er algjört æði! Fór í svoleiðis þegar ég var ófrísk og fannst þetta þvílíkt skemmtilegt :) OG það leynir sko á sér, maður tók þvílíkt á!
Það er líka rigning hérna, álíka blaut og hjá þér, en ég skil alveg að þú sért ekkert spennt fyrir gönguferðum í svoleiðis veðri. Þér til huggunar þá er voða hressandi að labba í rigningu og svo er voða góður gróðurilmur eftir rigningu...sko ef það skyldi stytta upp :)
Bestu kveðjur,
Svava
Svava 9.9.2008 kl. 15:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.