Fótsár fákur (sprungið dekk nr. 2)

2015-06-23_16_40_50.jpgMynd: Inni í firði á Ströndum.

Dekk nr. 2 sprakk í Stranda- og Vestfjarðaferðinni sem ég hef minnst á áður.

Ég var búin að vera í þessari ferð í nokkra daga, var búin að skoða mig um á Ströndum og þræða firðina, og var á heimleið eftir Barðaströndinni þegar það hvellsprakk annað framdekkið inni á Gilsfjarðarbrúnni. Í þetta skipti fann ég það strax og gat stoppað undir eins. Ég nam staðar úti í kanti við brúarsporðinn, gekk út, sparkaði í dekkið og bölvaði. Síðan fór ég og gróf upp viðvörunarþríhyrninginn og stillti honum upp um 50 metrum aftan við bílinn, klæddi mig í gult endurskinsvesti til að gera mig sýnilegri og setti neyðarljósin á og síðan tók við gamla glíman við varadekkið.

Þarna ofbauð mér gjörsamlega tillitsleysi vegfarenda. Látum vera að stoppa ekki til að bjóða hjálp – menn geta haft ýmsar ástæður til þess að keyra framhjá. Þetta var mun verra en skortur á hjálpsemi: Það keyrðu nefnilega framhjá mér að minnsta kosti FIMM bílar ÁN ÞESS AÐ HÆGJA Á SÉR, þar á meðal einn stór flutningabíll sem fór það nálægt að vindhviðan frá honum skellti mér næstum um koll og viðvörunarþríhyrningurinn datt niður. Þetta er hættulegt.

Ég lá á hnjánum aftan við bílinn og var að glíma við helv. varadekkið þegar ég heyrði enn einn bílinn nálgast. Þessi hægði á sér, ók hægt framhjá mér og stoppaði. Ég hélt áfram að baksa við dekkið þar til skuggi féll á mig og karlmannsrödd sagði eitthvað á þessa leið: „Þarftu aðstoð, væni minn?“

Þetta var eftir að ég rakaði af mér hárið, þannig að ég var með drengjakoll og hef frá þessu sjónarhorni verið frekar karlmannleg útlits. Ég setti upp mitt blíðasta bros og rétti mig upp, og skemmtilegri undrunarsvip hef ég ekki séð lengi á nokkrum manni. Hann var fljótur að jafna sig og tók við að baksa við dekkið, og var mér sammála um að þetta væri ljóta fyrirkomulagið. Hann vildi síðan endilega skipta um dekkið fyrir mig, og við spjölluðum saman á meðan. Þarna var þá kominn fulltrúi FÍB, sem fer í útköll fyrir þá þegar einhver félagi þeirra hringir eftir hjálp á Vestfjörðunum. Fyrir mér var hann nú bara riddari á hvítum hesti, eða öllu heldur flutningabíl.

Ég þakkaði fyrir mig með virktum og ók síðan áfram og kom við á verkstæði í Búðardal, þar sem ég neyddist til að kaupa annað dekk, enda hnefastórt gat á því gamla. Því á ég núna 3 gerðir af sumardekkjum til að nota undir bílinn.

Ég ætla ekki að láta þetta varadekksvandamál henda mig ef það springur hjá mér í Evrópuferðinni í vor og stefni á að fara að stunda lyftingar til að fá vöðvaafl til að geta náð fjandans varadekkinu undan bílum af eigin rammleik. Til vara ætla ég að ganga í FÍB til að hafa aðgang að systursamtökunum í Evrópu.

Pælið svo í þessu: Það sprungu hjá mér tvö nýleg og lítið notuð dekk með mánaðar millibili, bæði á sléttum vegi og bæði voru ónýt á eftir. Eftir krambúleringuna sem varð á bílnum fyrir jólin síðustu (bíll vs. súla í bílageymslu), kaup á nýrri olíupönnu í vor (bíll vs. hraunnibba), og vandræðagangi með lokið á eldsneytisgeyminum er þessi bíll búinn að kosta mig meira í óhöppum og viðgerðum og frústreringu en Toyotan gerði næstu fimm árin þar á undan. Á móti kemur að hann hefur aldrei bilað.

Save

Save

Save


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband