Föstudagur, 22. maí 2015
Prófunarreisa nr. 1 , frh.: Þjórsárdalsrúnturinn 2. maí
Það var besta veður þegar ég lagði af stað í Þjórsárdalsleiðangurinn. Eins og áður sagði hlóð ég bílinn eins og ég ætlaði í gistiferð, enda ætlunin að prófa hvernig innréttingin stæði sig.
Ég hef skoðað svæðið meðfram þjóðvegi 1 á milli Reykjavíkur og Selfoss nokkuð vel. Mæli t.d. með göngu á Lyklafell (gengið frá Litlu kaffistofunni), en bara ef menn eru vel skóaðir. Ég var því ekkert að stoppa mikið á þeirri leið nema til að taka nokkrar myndir uppi í Þrengslum.
Hélt áfram eftir þeim vegi, inn á veginn til Stokkseyrar og Eyrarbakka, og áfram til Selfoss. Þar skaust ég inn í sjoppu til að kaupa smá nesti og hélt síðan áfram þar til ég kom að afleggjaranum upp á Flúðir.
Vegurinn upp í Þjórsárdal er afleggjari út af Flúðaveginum og liggur á stórum köflum meðfram ánni, í fallegu landslagi:
Ég hitti þennan vingjarnlega hest:
Svo fór ég upp að Hjálparfossi:
Það virðist ekki vera kviknað á ferðaþjónustunni þarna upp frá. Að minnsta kosti var lokað í móttökunni við Búrfellsvirkjun og enn næstum mánuður í að Þjóðveldisbærinn opnaði, en þó að bærinn líktist mest stórri heysátu var samt gaman að koma þarna:
Ég ók líka upp á hálendið fyrir ofan virkjunina og kíkti á vindmyllurnar sem þar eru:
Þá var að nálgast hádegi, sem sýnir bara hversu snemma ég fór af stað. Ég var nú orðin svöng, og renndi upp á Flúðir. Þar er Minilik, annar af tveimur eþíópískum veitingastöðum á landinu:
Ég hitti tvo af eigendunum og spjallaði við manninn, sem sagði mér að staðurinn gengi ágætlega, þó að þau gætu reyndar ekki lifað af rekstrinum einum saman og væru bæði í vinnu annars staðar líka. Þarna snæddi ég ágætis hádegisverð með framandi bragði, og stefndi að því loknu heim á leið. Ég vona að þeim gangi vel með þetta framtak sitt, sem er góð tilbreyting frá þessum eilífu hamborgurum, pizzum, pylsum og steikta fiski sem mæta manni í öllum bæjar- og þjóðvegasjoppum landsins og halda mætti að væru þjóðarréttir Íslendinga.
Í bakaleiðinni stoppaði ég við Gaukshöfða - höfða eða stapa sem skagar út úr fjallshlíð ofan við þjóðveginn. Þar segir sagan að Gaukur á Stöng hafi verið veginn út af ástamálum. Það er víst fínasta útsýni ofan af höfðanum, en ég kleif hann ekki, var of illa skóuð til þess (gönguskórnir gleymdust heima). Ég naut bara útsýnisins ofan úr fjallshlíðinni fyrir neðan og tók myndir af fólki sem hafði klifið höfðann og var að fíflast uppi á klettabrúninni:
Síðan má varla segja að ég hafi stoppað á leiðinni til baka, nema til að kíkja í nokkrar búðir á Selfossi. Ég hlífi ykkur við frásögn af því.
Allt í allt má segja að þessi ferð hafi gengið vel.
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 32977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta hefur greinilega verið hin skemmtilegasta ferð, flottar myndir :)
Svava 28.5.2015 kl. 09:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.