Hirslur aftan á bílsæti

Þeir sem þekkja mig vita að það fylgir mér yfirleitt talsvert af farangri. Ég hef óstjórnlega þörf fyrir að hafa alltaf við höndina allt það helsta sem mig gæti vantað. Veskið mitt er t.d. þannig að ef ég ætlaði til útlanda með mjög stuttum fyrirvara, þá er vegabréfið það eina sem ég þyrfti nauðsynlega að sækja heim til mín til að vera tilbúin til brottfarar. (Reyndar eru vegabréf og kreditkort það eina sem maður raunverulega þarf til slíks, en innihaldið í stóra, stóra veskinu mínu mundi tryggja mér ánægjulegra ferðalag).

Þessi er tekin á National Railway Museum í York á Englandi. Fólk kunni að ferðast með stæl í gamla daga.

Ég hef áður minnst á að húsbíllinn verður í rauninni ferðataska á hjólum. Í honum eru alls konar hólf og skúffur og hillur sem eiga að duga undir flest það sem manni er nauðsynlegt á ferðalögum, þó reyndar vanti sturtu - henni varð ekki komið fyrir, og ég sé mig ekki fara að kaupa mér ferðasturtu þegar það er hægt að komast í sund á flestum þéttbýlisstöðum á landinu (svo ekki sé minnst á sveitasundlaugar og villiböð). Svo er yfirleitt helst til of hvasst á Íslandi til að hægt sé að nota ferðasturtur. Að minnsta kosti held ég að maður mundi fljótlega gefast upp á þessari:

campshower.jpg

 

Reyndar var þó eitt sem vantaði: hirsla undir ýmislegt smálegt sem maður vill geta gripið til en vill ekki hafa skröltandi laust inni í bílstjórarýminu. Maður vill geta teygt sig í ýmislegt smálegt úr bílstjórasætinu, s.s. eitthvað létt til að narta í, landakort, kíki, myndavél, poka undir rusl, vasaljós og annað sem vanalega fer í hanskahólfið. Af því að engin af hólfunum fram í eru lokanleg, þá yrði frekar ósnyrtilegt að vera með þetta liggjandi eins og hráviði út um allt, og því vildi ég fá mér aftansætishirslu til að fela þetta dót allt saman, en samt þannig að ég næði í það úr bílstjórasætinu.

Þá kom til sögunnar þessi vasahirsla sem ég keypti í Rúmfó í vetur:

Vasahengið uppsett í bílnum.

Hún er hönnuð til að hengja á hurð, en ég hafði annað í huga fyrir hana: Ég gróf upp hjá mér bómullarborða í nánast sama lit, fann smellu sem passaði, mátaði og mældi og settist síðan við saumavélina.

Festingarnar.

Eins og sjá má passar útkoman nokkuð vel aftan á farþegasætið í bílnum. Þarna er hægt að pota hinu og þessu, og að minnsta kosti þeir vasarnir sem eru næstir bílstjórasætinu eru aðgengilegir þaðan. Ég hafði verið að hugsa um að sauma mér svona, en þetta var það ódýrt að það var ekki fyrirhafnarinnar virði að leggjast í að sauma vasana frá grunni, jafnvel þó ég hefði þá getað valið mér fallegra efni. En þetta er alls ekki slæmt og hefur þann kost að ef mér dettur einhvern tímann í hug að skipta um litaskema aftur í, þá passar grátt við svo til alla liti, ekki síst inni í þessum bíl þar sem allt innan í honum sem kom frá verksmiðjunni er annað hvort hvítt, svart eða grátt.

Smellan.

Auðvitað er hægt að fá svona vasahengi sem eru sérhönnuð í bíla - þau fást meira að segja af og til í Rúmfó, samanber þetta:

Tilbúin bílsætisvasahirsla.

...en það er ekki nærri því eins mikið af vösum á þeim.

Ég held ég betrumbæti svo gripinn með því að gera eitthvað af vösunum lokanlega, annað hvort með hinum ómissandi franska rennilási, eða þá með smellunum sem ég fann þegar ég var að taka til í saumadótinu mínu um daginn.

Næst á dagskrá er síðan að sauma áklæðið utan um dýnuna, og þá er bíllinn í raun tilbúinn til að fara að ferðast á honum, þó það sé reyndar alls konar smotterí eftir, s.s. að setja upp hliðarfestingar fyrir fremri gluggatjöldin og bera olíu á innréttinguna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þessi vasahirsla mjög flott! Miklu fallegri en hefðbundin bílavasahengi og sennilega líka endingarbetra. Sniðugt að ganga þannig frá einhverjum vösum að hægt sé að loka þeim, líst vel á þessa hugmynd með franska rennilása enda eru það mestu þarfaþing :)

Svava 9.4.2015 kl. 14:16

2 identicon

Það var stórskemmtilegt að fá að skoða bílinn í gær, hann er orðinn ansi hreint heimilislegur :)

Svava 10.4.2015 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband