DR1 bjargar málunum

Ég veit ekki hvað það er með mig og sjónvarpið, en ég finn mjög sjaldan eitthvað sem mig langar að horfa á á RÚV. Það er helst stöku náttúrulífsþáttur og ein og ein bíómynd sem ég nenni að horfa á, en þar fyrir utan er ekki margt sem freistar mín, nema þá etv. Landinn, þegar ég þá man eftir þeim þáttum. Ég nenni yfirleitt ekki að vera að binda mig við framhaldsþætti sem segja eina samfellda sögu, s.s. eins og Brúin og Glæpurinn og svoleiðis, af því ég get orðið verulega pirruð ef ég missi af þætti. Mér finnst best að horfa á þannig þætti á DVD þegar öll syrpan er búin og tilbúin til áhorfunar. Ég var spennt fyrir Downton Abbey þegar þeir byrjuðu, en hætti að fylgjast með þeim þegar froðan var orðin einum of mikil fyrir minn smekk.

Gallinn við þennan skort á sjónvarpsefni sem ég hef áhuga á er að mér finnst gaman að sitja með handavinnu, en bara ef ég get hlustað og helst horft á eitthvað á meðan. Klukkutími, til einn og hálfur, á dag hentar ágætlega - sem sagt ca. 1 eða tveir sjónvarpsþættir - en það hefur verið erfitt að finna eitthvað á hverjum degi á RÚV, sama þó ég fari á Vódið eða tímaflakkarann. En þá koma aukarásirnar að góðum notum.

Danska ríkissjónvarpið er duglegt að endursýna gamla og góða sjónvarpsþætti, t.d. Columbo, Murder, She Wrote og Miss Marple, allt efni sem ég hafði gaman af í denn þegar það var sýnt á RÚV og Stöð 2. Nú eru þeir t.d. nýbyrjaðir að sýna The Darling Buds of May, breska þætti sem mig hefur langað að sjá síðan ég las fyrstu bókina í bókaflokknum fyrir nokkrum árum. Þetta eru 20 þættir, þannig að nú hef ég eitthvað að horfa á á meðan ég er að gera handavinnuna mína, og þó að þeir byggist á röð skáldsagna, þá eru þeir þannig upp byggðir að það er ekki hundrað í hættunni þó maður missi af einum og einum þætti. Svo eru þeir fyndnir: þessi klassíski, góðlátlega kaldhæðni og svolítið tvíræði enski húmor sem maður ólst upp við að sjá á skjánum í þáttum eins og The Vicar of Dibley og To the Manor Born. Ég held ég þori alveg að mæla með þessum þáttum eftir að hafa horft á þann fyrsta. (Svo ef einhvern langar til að sjá hvernig Catherine Zeta-Jones leit út áður en hún flutti til Hollywood, þá eru þessi þættir gott tækifæri til þess).

Aðrir þættir sem ég hef verið að fylgjast með á DR1 eru Ud i Naturen, norskir þættir um náttúru, dýralíf og útivist sem eru skemmtilegir og fræðandi. Svo er ég búin að rifja upp talsverða dönsku af því að lesa textana og líka læra svolítið í norsku af því að hlusta. Ég er, á undanförnum vikum, búin að fræðast um norskar uglur og erni, refi, læmingja og bjóra, marglyttur, urriða og stórlúður, og svo eru skemmtileg innslög um hellaköfun og stangveiðar í þáttunum þessa dagana, auk þess að í þeim eru sýnd skemmtileg dýralífsmyndbönd sem áhorfendur hafa sent inn. Stórskemmtilegir þættir sem RÚV mætti vel athuga með að taka til sýningar.

Með þessar tvær syrpur til að horfa á held ég svei  mér þá að ég verði búin með dúllurnar sem ég er að hekla í rúmteppi handa mömmu áður en ég veit af.

Af húsbílamálum er helst það að frétta að pabbi er búinn að ganga frá rafmagninu og segist vera að verða atvinnulaus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband