Miðvikudagur, 11. febrúar 2015
Á fætur!
Suma daga langar mann hreinlega ekki á fætur. Það var ekki vandamálið í þetta skiptið, ónei.
Vekjarinn í símanum mínum hringdi og ég spratt á fætur, eldhress, vel hvíld og tilbúin fyrir nýjan dag.
Útvarpsvekjarinn minn gaf upp öndina skömmu fyrir jól, og ég hef notað símann minn síðan og finnst það mjög þægilegt. Það er engin klukka lengur á náttborðinu sem segir mér með rauðum tölum hvað tímanum líður, og fyrir bragðið tekst mér að sofna aftur þó ég vakni innan við tveimur klukkustundum fyrir fótferðatíma. Áður var það stærðarinnar vandmál, því þó að líkaminn vildi sofa, þá átti heilinn til að ákveða að það tæki því ekki að sofna aftur með svona stuttan tíma til stefnu. Ég hef símann frammi á gangi, þannig að ég verð að fara á fætur til að slökkva á honum, sem hefur algerlega eytt hjá mér öllu snúsi og tilheyrandi syfju og skapvonsku.
Nú, ég dunda mér við að gera mig tilbúna: næ í páfagaukana (þeir verða móðgaðir ef ég hef þá ekki hjá mér við morgunverkin), fer í sturtu (og baða fuglana), bursta tennur, klæði mig, borða morgunmat, skipti um vatn hjá fuglunum og bæti á korni hjá þeim, loka þá inni í búri og tygja mig til farar. Þetta tekur um 50 mínútur.
Það var ekki fyrr en ég var komin út í bíl að mér varð litið á klukku. Hún sýndi 0:53.
Jamm, ég fór á fætur um miðnætti í nótt og var lögð af stað í vinnuna þegar ég fattaði það. Ég fór nefnilega óvenju snemma í rúmið í gærkvöldi, upp úr klukkan átta, kom mér fyrir með bók, og sofnaði út frá henni. Ég var með símann stilltan til að minna mig á að taka pensilín-pillu á miðnætti, þá síðustu í kúr sem ég er búin að vera á vegna tannsýkingar, en þegar síminn vakti mig upp af værum blundi mundi ég ekkert eftir pillunni, heldur hélt að það væri kominn tími til að fara í vinnuna.
Þetta var ergilegt, en hvað hefur maður ekki oft óskað þess að morgni að maður gæti skriðið aftur upp í rúm og haldið áfram að sofa í staðinn fyrir að fara í vinnuna? Ég fékk það sem sagt í nótt.
Flokkur: atvik úr daglega lífinu | Breytt s.d. kl. 10:54 | Facebook
Um bloggið
Hér og þar og alls staðar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
ha ha ha ha, nú hló ég upphátt!!! 0:53 snillingur!
Ingibjörg 17.2.2015 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.