Nýjustu fréttir af húsbílamálum

Mér var bent á í saumaklúbb um daginn að fólk væri farið að lengja eftir fréttum af bílaframkvæmdum, þannig að ég þorði ekki annað en að skila af mér skýrslu.

Málin standa sem sagt þannig að við kláruðum að klæða bílinn að innan með bílateppi úr ull (ég á bara eftir að snurfusa sýnilegu samskeytin og láta þau hverfa), lögðum gólfdúkinn og svo setti pabbi innréttinguna upp.

Hér má sjá glitta í gólfdúkinn:

dsc01215.jpg

 

Ein panelplatan er líka frágengin, sú sem fór hálf á bak við innréttinguna. Það liggur minna á hinum, en ég er nokkurn veginn búin að ákveða hvað ég geri. (Nei, ég ætla ekki að gefa neitt upp fyrr en ég er búin að framkvæma það...).

Innréttingin og platan.

Þegar kom að því að ganga frá plötunni fékk ég þá snilldarhugmynd að mála hana og teikna síðan á hana. Pabbi á helling af alls konar lakki á úðabrúsum og af hverju ekki að nýta eitthvað af því? Hann dró fram grunn, matta hvíta málningu, matt svart kamínulakk, rautt bílalakk (Peugeot, seldur fyrir ca. 10 árum síðan), brúnsanserað bílalakk (MMC Colt, fór í endurvinnslu fyrir ca. 12 árum síðan), silfurlitað felgulakk og svart vélalakk. Þetta síðasta tvennt var strax útilokað, enda fyrirsjáanlegt að hann gæti þyrfti að nota það.

Eftir grunnun og Peugeot-lakkið. Áhugavert dropamunstur, eiginlega eins og blóðslettur, en ekki beint það sem ég ætlaði mér.Fyrst grunnaði ég plötuna með hvítum grunni. Síðan greip ég Peugeot-lakkið, sem var mjög fallega rautt og gat sómt sér eitt og sér án teikninga. Ég náði einni rák eftir endanum á plötunni og þá kom svona blautt prumpuhljóð og síðan ffft, ffft, fffffttttt-hljóð og ég stóð með næstum fullan brúsann í höndunum en allt drifefnið búið af honum. Þetta gerist víst ef maður geymir úðabrúsa of lengi.

Ég yppti öxlum og greip næsta brúsa: hvítu málninguna, sem mér fannst vera fínn bakgrunnur til að teikna á. Ég hristi brúsann eftir kúnstarinnar reglum og mundaði hann í áttina að plötunni. Úðunin byrjaði vel, en svo hætti bara allt í einu að koma málning úr brúsanum. Drifefnið var búið. Brúsinn fór í ruslið (þ.e. kassa fyrir spilliefni).

Næst tók ég fram brúnsanseraða bílalakkið. Stúturinn datt af þegar ég hreyfði við honum, og þegar mér tókst loks að basla honum á aftur gerðist ekki neitt þegar ég ýtti á takkann, ekki heldur eftir að ég skipti um stút á honum. Samt hafði puðrast úr honum lakk á meðan ég var að reyna að fá stútinn til að tolla, og puttarnir á mér voru orðnir merlandi brúnir og klístraðir. Hann fylgdi hinum brúsunum í ruslið og ég fór og þvoði mér um hendurnar upp úr hreinsaðri terpentínu.

Þá var farið að fækka úrræðunum. Ég slaufaði framkvæmdum þann daginn og fór heim.

Daginn eftir kom ég aftur og hafði með mér eina litaða lakkið sem ég átti sem ég gat hugsað mér að nota: blóðrautt (hitt var logagyllt, og þó ég hafi augljóslega notað það á eitthvað, þá langaði mig ekkert að hafa það fyrir augunum inni í bílnum). Það besta var samt að það var nýlegt, þannig að það var ennþá góður þrýstingur á brúsanum. Ég úðaði einu lagi yfir plötuna og fór svo og fékk mér kaffi á meðan það þornaði.

Síðan fór ég aftur út í skúr og greip brúsann og byrjaði að úða næstu umferð. Allt í einu koma þetta kunnuglega, dónalega prump, prump-hljóð og síðan bara lágvært suð: það var enn þrýstingur á brúsanum, en lakkið var uppurið. Auðvitað var það neðri hlutinn á plötunni sem ég var búin með, sá sem á endanum fór á bak við innréttinguna. Í gegnum einfalda lakklagið á efri hlutanum glitti enn í merkinguna sem sagði til um hvert platan átti að fara og hvað sneri upp.

Eins og gengur og gerist.

Ég ætlaði ekki að gefast upp og skrapp í Byko. Úti var flughálka, bleyta og bálhvasst, og ég þakkaði mínum sæla fyrir að komast í búðina og heim aftur án þess að

a) renna á rassinn,

b) fjúka hjálparlaust út í buskann og

c) horfa á það sama koma fyrir mömmu, sem fór með mér.

Í Byko fékk ég lakkið sem mig vantaði og ég gat klárað umferðina, og aðra til. Nú á ég næstum fullan brúsa að rauðu lakki sem ég þarf að finna einhver not fyrir. (Hmmmmm, það er enn ein plata til sem ég á eftir að ákveða hvað ég geri við...).

Auðvitað var í fínu lagi með felgulakkið og vélalakkið, eins og kom í ljós þegar ég stalst til að lakka þessar öskjur utan af Stóra-Dímon osti:

Öskjurnar.

Nú bíða bara hinar plöturnar eftir að ég hefjist handa. Ég er búin að prófa krítartöflumálninguna, og hún virkar fínt. Þetta gerði ég við enn eina öskju utan af Stóra-Dímon:

Krítartöfluaskjan.

Þetta eru hinar fínustu öskjur utan um ýmislegt, t.d. skartgripi eða annað smálegt.

Svo þarf ég að kaupa meira af húsgagnaolíu. Ég kláraði úr heilli 1/2 lítra fötu af henni á innréttinguna, en nú er komið í ljós að stykkin sem límtrésplöturnar eru samsettar úr tóku mjög misjafnlega við olíunni, þannig að það þarf að fara aftur yfir þetta. Sjáiði bara hvað þetta er ljótt (og jafnframt hvað höldurnar sem pabbi renndi taka sig vel út):

dsc01214.jpg

 

Þar að auki gleymdist einhvern veginn að bera á skáphurðina fyrir klósetthólfinu. En þetta getur beðið aðeins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bíllinn lítur virkilega vel út og það virðist ótrúlega mikið vera tilbúið!

Svava 12.2.2015 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér og þar og alls staðar

Höfundur

JG
JG

Ég er þýðandi að atvinnu og aðaláhugamálin eru lestur og ferðalög. Bloggið fjallar aðallega um ferðalög, en veturinn 2014-2015 var mikið fjallað um húsbíla, því þá var ég, með góðri aðstoð og verkstjórn föður míns, að breyta Volkswagen Caddy sendiferðabíl í einn slíkan og hélt dagbók yfir ferlið, sem vonandi getur gagnast öðrum sem hafa hug á að gera hið sama. Nú er ég farin að ferðast á bílnum og því aftur byrjuð að blogga um ferðalög.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...23_16_41_09
  • 233px-deutschland lage des saarlandes svg.png
  • ..._10_14-3027
  • ...capture
  • ...ack-tattoo4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 32977

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband